Íslensk ferðaþjónusta hlýtur Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2020. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, forsetafrú og velgjörðarsendiherra ferðamennsku og sjálfbærrar þróunar hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) tilkynntu um verðlaunin í myndbandi sem Samtök ferðaþjónustunnar gáfu út í dag.
Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar eru veitt fyrir athyglisverðar nýjungar í ferðaþjónustu og er ætlað að hvetja frumkvöðla og fyrirtæki í ferðaþjónustu innan samtakanna til nýsköpunar. SAF afhenda verðlaunin á afmælisdegi samtakanna, 11. nóvember ár hvert, en þetta er í sautjánda skipti sem verðlaunin eru afhent.
Öllum er ljós sú erfiða staða sem ferðaþjónusta er í vegna heimsfaraldurs Covid-19. Staðan er vissulega erfið en framtíðarhorfur í ferðaþjónustu hér á landi eru mjög bjartar til lengri tíma. Á liðnu sumri upplifðu Íslendingar á ferðum sínum um landið þá gríðarlegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu um land allt. Í stað þess að veita einu fyrirtæki verðlaunin í ár hlýtur atvinnugreinin í heild sinni – ferðaþjónusta á Íslandi – Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2020.
Með því að veita íslenskri ferðaþjónustu verðlaunin vilja SAF leggja áherslu á þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í greininni á umliðnum árum og hrósa þeim hundruðum ferðaþjónustufyrirtækja og þúsundum starfsmanna þeirra um land allt fyrir vel unnin störf í ferðaþjónustu. Gleymum því ekki að ferðaþjónustan geymir óþrjótandi tækifæri, þar sem nýsköpun og hugvit varða leiðina að farsælli framtíð.
Ferðamenn munu koma til Íslands á nýjan leik

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag segir í ágætu kvæði Tómasar Guðmundssonar. Það er á brattann að sækja í því ferðalagi sem við höfum nú tekst á hendur,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í myndbandinu. „Farsóttin hefur valdið miklum búsifjum, miklum usla. Áður en hún brast á var ferðaþjónustan orðin ein styrkasta stoð íslensks efnahags. Ferðamenn flykktust hingað til lands, himinlifandi yfir þeim viðtökum sem þeir nutu hér, himinlifandi yfir landi og þjóð, yfir þeirri yndislegu og ægifögru náttúru sem við njótum hér á Íslandi. Veiran fer, við munum ráða niðurlögum hennar. Ísland verður á sínum stað og það eru þið, fólkið í ferðaþjónustunni, sem gerir að verkum að fólk vildi flykkjast hingað til lands utan úr heimi og það eru þið, fólkið í ferðaþjónustunni, sem ræður því að fólk vill koma hingað aftur á nýjan leik,“ segir forseti Íslands.
Tækifæri fyrir nýjar hugmyndir
Eliza Reid, forsetafrú og velgjörðarsendiherra ferðamennsku og sjálfbærrar þróunar hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO), segir í myndbandinu að það leynist tækifæri í þeim erfiðleikum sem ferðaþjónustan glímir nú við. „Tækifæri fyrir nýjar hugmyndir, nýsköpun, nýja tækni og lausnir á málum. Mér þykir svo vænt um ferðaþjónustuna hér á landi og ég veit að þið sem eruð að vinna í greininni munuð koma með alskonar frábærar hugmyndir. Ég veit að Ísland verður fremst á listanum hjá mörgum ferðamönnum vegna náttúrunnar okkar, öryggisins, plássins og ekki síst vegna þeirrar gestrisni sem ferðamenn hafa upplifað þegar þeir koma til landsins,“ segir Eliza Reid.