Hinn 5. nóvember 2020 voru samþykkt lög um tekjufallsstyrki á Alþingi. Úrræðið er ætlað fyrir einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Markmið laganna er að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og viðhalda atvinnustigi.
Orðskýringar og skilyrði laganna
Í 3. gr. laganna er atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, launamaður, rekstraraðili, rekstrarkostnaður, stöðugildi og tekjur skilgreind.
Skilyrðin fyrir tekjufallsstyrk eru í fjórðu grein laganna. Þar kemur fram að rekstraraðili þarf að uppfylla þrjú skilyrði. Hann þarf að hafa orðið fyrir tekjufalli, sé ekki í vanskilum með opinberum gjöld fyrir árið 2019 og bú hans hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Tekjufallið
Tekjufallið verður að vera a.m.k. 40% á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 borið saman við sama sjö mánaða tímabil 2019 og að tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans, eins og t.d. að miða við meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili á árinu 2019.
Tekjufall fyrir þá sem hófu rekstur eftir apríl 2019
Í fyrsta tölulið 4. gr. laganna kemur fram að ef starfsemin hófst eftir 1. aprí 2019, skal rekstaraðili bera tekjur saman milli ára, fyrstu sjö heilu almanaksmánuði eftir að rekstur hófst. Ef rekstaraðili hefur starfað skemur en sjö mánuði í lok mars 2020 skal taka mið af meðaltekjum á dag og umreikna upp í 214 daga (7 mánuði). Sérstakar reglur er um útreikning þeirra aðila sem hófu starfsemi á tímabilinu apríl til ágúst. Sjá bráðabirgðaákvæðin.
Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1.–3. málsl.
Umsókn
Umsóknir um tekjufallsstyrk skal beint til Skattsins fyrir 1. maí 2021. Sótt er um rafrænt. Samkvæmt tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu verður hægt að sækja um tekjufallsstyrkina um næstu mánaðarmót.
Fyrir hverja og fjárhæð styrksins
Í 5. gr. laganna þá kemur fram hver fjárhæð tekjufallsstyrksins skuli vera. Styrkurinn getur mest verið jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Lögin mæla þó fyrir að hann geti aldrei orði hærri en ákveðið hámark.
A. Hámark miðað við 40% til 70% tekjufall á tímabilinu.
- Hámarkið er 400 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi. Stöðugildi er starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð. Það miðast við meðalfjölda stöðugilda á mánuði á tímabilinu sem um ræðir (1. apríl til 31. október).
- Gert ráð fyrir að styrkur verði ákvarðaður fyrir tímabilið 1. apríl til 31. október í heild. Fjárhæð styrksins er því miðuð við meðalfjölda stöðugilda á tímabilinu en ekki fjölda stöðugilda í hverjum mánuði. Dæmi: Ef fyrirtæki er með tíu starfsmenn í 50% starfi á tímabilinu þá er fyrirtækið með 5 stöðugildi yfir tímabilið.
- Hámarksfjárhæð fyrir þessi fyrirtæki eru 2 milljónir kr. á mánuði eða 14 milljónir fyrir tímabilið í heild.
B. 70% eða meira tekjufall á tímabilinu.
- Hámark 500 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi. Fundið með sama hætti og í dæmi A.
- Hámarks fjárhæð getur aldrei orðið hærri en 2,5 milljónir kr. á mánuði eða 17,5 milljónir kr fyrir tímabilið í heild.
Frádráttur
Rekstraraðili þarf að draga stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 frá rekstrarkostnaði. Lokunarstyrkir dragast frá tekjum og mögulegum tekjufallsstyrk. Tekjufallsstyrkurinn telst til skattskyldra tekna samkvæmt tekjuskattslögum.
Allir geta sótt um
Ef forsendur um tekjufall og rekstrarkostnað halda þá geta sennilega öll fyrirtæki með hærri tekjur en rúmlega 58 milljónir kr. fengið 14 milljónir kr. styrk að hámarki, að öðrum forsendum uppfylltum. Ef forsendur um tekjufall og rekstrarkostnað halda þá geta öll fyrir með hærri tekjur en rúmlega 85 milljónir kr. fengið 17 milljónir kr. styrk að hámarki, að öðrum forsendum uppfylltum.
Reiknivél SAF
Hér fyrir neðan er reiknivél SAF. Þar geta félagsmenn sett inn sínar forsendur. Stöðugildi, rekstrarkostnaður, tekjur, lokunarstyrk og uppsagnarstyrk til að þess að sjá hvað þeir geta mögulega fengið í tekjufallsstyrk.