
Framkvæmdastjóri SAF
Stundum virðist sem það komist ekki alveg til skila í umræðu um ástandið í dag að við erum stödd í stærstu efnahagskreppu síðustu 100-150 ára. Við lifum nú heimssögulega atburði af svipaðri stærðargráðu og þá sem við lásum um í sögubókum grunnskólans. Þrátt fyrir þetta virðist það furðu lífsseig skoðun sumra að lítilla breytinga sé þörf frá því sem eðlilegt er. Sveitarfélög sitja t.d. sem fastast á því að fasteignaskatta sé ekki hægt að gefa eftir, á meðan ríkisvaldið hefur lagt tugmilljarða í að aðstoða fyrirtæki til að minnka kostnað sinn og lifa af. Verkalýðshreyfingin hefur ekki ljáð máls á neins konar endurskoðun á launahækkunum kjarasamninga þó augljóst sé að forsendur þeirra séu krossbrostnar. Fleiri dæmi mætti því miður nefna. En raunverulega staðan er einfaldlega þessi: Í stærstu efnahagskreppu heimsins í heila öld getur enginn verið stikkfrí. Áhrifin munu alltaf koma fram með einum eða öðrum hætti. Spurningin er því hversu vel okkur tekst að vinna saman til að minnka þau og dreifa byrðunum til að styðja við sterkari viðspyrnu alls samfélagsins. Þar verða allir að leggja sitt af mörkum.
Í stærstu efnahagskreppu heimsins í heila öld getur enginn verið stikkfrír.
Hvað segja kristalskúlurnar um lífið framundan?
Opinberir greiningaraðilar hafa á ýmsan hátt verið of varfærnir í spádómum sínum um afleiðingar kreppunnar. Þannig hefur Seðlabankinn verið seinn til að aðlaga spár að því sem ferðaþjónustuaðilar sáu strax í mars – að þessi vetur yrði gríðarþungur í afleiðingum kreppunnar. Hér má einnig nefna að atvinnuleysistölur sem eru enn furðu misvísandi.
Raunar hefur þessi efnahagskreppa leitt það æpandi í ljós að öflun og úrvinnsla hagtalna um ferðaþjónustu og þekking stjórnkerfisins á greininni og hvernig hún virkar er verulega ábótavant. Það er hreint ótrúlegt í ljósi þess að um er að ræða stærstu atvinnugrein landsins sem á síðasta áratug skilaði um 3700 milljörðum króna í gjaldeyristekjum til samfélagsins – rúmlega heilli landsframleiðslu.
Á þessu þarf að gera stórkostlega bragarbót á næstu 2 árum og hægt að byrja strax með því að bæta stórlega í stuðning við ferðaþjónustureikninga Hagstofunnar, úrvinnslu þeirra og tengingu við aðra tölfræði og hagstjórn, t.d. hjá fjármálaráðuneyti og Seðlabanka.
Hverju skiptir ferðaþjónusta fyrir samfélagið?
Ferðaþjónustan skilaði um 500 milljarða verðmætum til þjóðarbúsins á árinu 2019. Þar af var bein neysla ferðamanna hér á áfangastaðnum um 383 milljarðar króna – nýtt fé inn í hagkerfið sem verslanir, ferðaþjónustufyrirtæki, bakarí, söfn og sundlaugar tóku við, svo eitthvað sé nefnt. Neysla ferðamanna á landbúnaðarvörum og sjávarafurðum var um 22 tonn á dag – beinn útflutningur á íslenskum matvælum í túnfætinum heima.
Þetta ár voru nettó skatttekjur ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustu um 65 milljarðar króna – sama upphæð og öll framlög ríkisins til reksturs Landspítalans. Þá er við þetta að bæta að ferðaþjónustan bjó til um þriðjung allra nýrra starfa á landinu á síðustu tíu árum og helming allra nýrra starfa sem urðu til utan höfuðborgarsvæðisins.
Skatttekjur af ferðaþjónustu styðja því við myndarlega við sameiginleg kerfi samfélagsins, gjaldeyristekjur af greininni auka stöðugleika í efnahagslífi og byggja undir aukinn kaupmátt, atvinnusköpun samfélagsins undanfarinn áratug hefur að stórum hluta byggst á ferðaþjónustu sem hefur verið helsti drifkraftur nýrra og fjölbreyttra tækifæra á landsbyggðinni. Allt þetta er í húfi núna. Allt þetta er í hættu ef ekki er haldið vel á spilum.
Afleiðingar atvinnuleysis eru vel þekktar
Ég hef frá því í mars talað fyrir mikilvægi þess að allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka í dag – á meðan á faraldrinum stendur – þurfi að miða að því að takmarka eins og mögulegt er neikvæðar samfélagslegar afleiðingar efnahagskreppunnar.
Það er einföld efnahagsleg staðreynd að sú útflutningsgrein sem getur verið kvikust á fætur næstu 3-4 ár er ferðaþjónustan. Álverð er í lægð, sjávarútvegur er trygg stoð en hefur orðið af verðmætustu ferskmörkuðum með hruni ferðaþjónustu, alþjóðageirinn hefur mikla möguleika til vaxtar en það tekur lengri tíma – og rétt er að minna á að til að uppskera þann vöxt til framtíðar er mikilvægt að styðja vel við nýsköpun og vöruþróun núna.
Af þessu er því ljóst að til að koma atvinnulausum fljótt aftur í vinnu og klemma af efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar kreppunnar er hröð endurreisn ferðaþjónustu skýrasta leiðin til skjótrar viðspyrnu.
Forstjóri VMST spáði í byrjun september að um 3000 manns myndu missa vinnuna að jafnaði hver mánaðarmót fram að jólum. Ég hlaut þá nokkra gagnrýni fyrir að spá töluvert hærra atvinnuleysi en opinberar spár sögðu til um. En hver er staðan í dag? Skv. tölum VMST eru rúmlega 25 þúsund manns án atvinnu að hluta eða öllu leyti. Það er þegar orðinn meiri fjöldi en spáð var í byrjun september að yrði um jól. Enn eru eftir ein mánaðarmót fyrir jól, þar sem um 3000 manns munu líklega bætast á listann, og því miður virðist ljóst að þverneitun ASÍ á því að ræða endurskoðun galinna launahækkana í janúar muni leiða beint til þess að enn fleiri bætast á atvinnuleysisskrár um áramót.
Því er ljóst að verkefnið næstu árin hlýtur að vera að styrkja innviði greinarinnar og bæta samkeppnishæfni hennar innanlands og í alþjóðasamhenginu.
Samfélagið stendur því frammi fyrir mesta atvinnuleysi lýðveldissögunnar, sem getur haft í för með sér gríðarlega neikvæð samfélagsleg áhrif – félagsleg, heilsufarsleg og efnahagsleg. Það verður því að vera algert forgangsmál að skapa störf á ný með öflugri viðspyrnu og vexti atvinnulífsins. Það er ekki hægt að leysa þetta vandamál með því að auka alls kyns bætur úr sameiginlegum sjóðum, þó að það geti reynst takmörkuð hjálp til skamms tíma. Lausnin felst aðeins í því að koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn – skapa atvinnu og tekjur fyrir heimilin í landinu. Og þar er ferðaþjónustan áhrifaríkasta fjárfestingin.
Bætt samkeppnishæfni verður lykilþáttur í viðspyrnunni
Viðspyrnan er ekki afmörkuð við næsta ár. Bráðaaðgerðum dagsins í dag verða að fylgja skynsamlegar uppbyggingaraðgerðir til næstu ára. Þar er bætt samkeppnishæfni atvinnugreina lykilatriði – bæði til að styrkja atvinnusköpun og verðmætasköpun. Aukin skattheimta, gjaldtaka, álögur og samkeppnishindranir á ferðaþjónustu af hálfu stjórnvalda myndu þar leiða til slakari viðspyrnu til lengri tíma og ílengja neikvæð áhrif kreppunnar. Því er ljóst að verkefnið næstu árin hlýtur að vera að styrkja innviði greinarinnar og bæta samkeppnishæfni hennar innanlands og í alþjóðasamhenginu. Ferðaþjónustan hefur fyrir löngu sýnt að hún launar alla jákvæða fjárfestingu hins opinbera ríkulega með aukinni verðmætasköpun. Og í því liggur stóra efnahagslega tækifærið fyrir íslenskt samfélag á næstu árum.
Jóhannes Þór Skúlason
framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
—
Greinin birtist í desemberútgáfu Frjálsrar verslunar árið 2020.