Það var enginn lúðrablástur og engar flugeldasýningar í tengslum við tilkynningu ríkisstjórnarinnar föstudaginn 15. janúar um breytt fyrirkomulag á landamærum, sem tekur gildi þann 1. maí næstkomandi.
Þó var fréttin stór, þar sem þá verður eftir rúmlega átta mánaða þurrkatímabil, hægt að taka á móti ferðamönnum, án þess að þeir þurfi að sæta fimm daga sóttkví við komu til landsins. Það er löngu fullreynt og vitað mál, að meðan reglur um sóttkví eru í gildi, þá getur endurreisn alþjóðlegrar ferðaþjónustu á Íslandi ekki hafist.
Enn mikil óvissa
Skrefin sem tekin verða í byrjun maí verða varfærin. Þau taka mið af litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu, þar sem ríki verða flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins hverju sinni. Þannig munu gestir frá grænum og appelsínugulum ríkjum geta framvísað neikvæðu PCR-prófi frá heimalandinu og þurfa því aðeins að fara í eina skimun á landamærunum. Þeir sem geta framvísað vottorði um að hafa fengið Covid-19 eða gildu vottorði um bólusetningu munu verða undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum.
Allt er þetta samt enn þá mikilli óvissu háð. Á þessari stundu vitum við lítið um það hver þróun faraldursins verður á okkar helstu markaðssvæðum, hversu hratt bólusetningar ganga, hvenær Schengen landamærin verða opnuð, hvert almennt aðgengi verður að PCR-skimunum og síðast en ekki síst hvernig eftirspurn mun þróast, hversu fljótt fólk verður tilbúið til að ferðast og hvert og hvernig það vill ferðast. Í þessu stóra reikningsdæmi eru óteljandi óþekktar stærðir, sem leyfa uppsetningu á alls kyns sviðsmyndum sem allar eru í raun fullgildar.
Veltur allt á bólusetningu
Nýleg greining Goldman Sachs (10. janúar 2021) á tímalínu bólusetninga í heiminum gefur tilefni til nokkurrar bjartsýni, þar sem það er nokkuð víst að bólusetningar eru sú breyta sem mun hafa mest að segja um hvenær endurreisn ferðaþjónustunnar á heimsvísu hefst. Goldman Sachs reiknar með að vegna þungrar áherslu stjórnvalda um heim allan, muni með öllum tiltækum ráðum verða settur aukinn kraftur í bólusetningar á Vesturlöndum á fyrsta ársfjórðungi. Þannig muni um 50% Breta verða búin að fá bólusetningu í apríl, Bandaríkjamenn í maí og Evrópubúa í júní. Við þetta hlutfall bætast síðan þeir sem verða búnir að fá veiruna – líklega um 5-10% hverrar þjóðar. Þetta verður, ef eftir gengur, álitlegur hópur sem getur þá ferðast óhindrað á milli landa.
Deutsche Bank er aðeins varfærnari í sinni spá (19. janúar 2021) og nálgast viðfangsefnið þannig að ríkisstjórnir muni geta aflétt takmörkunum, þegar búið verður að bólusetja viðkvæmustu hópana og koma þannig í veg fyrir að heilbrigðiskerfið ráði ekki við hlutverk sitt. Bankinn telur þar af leiðandi að ekki sé þörf á að bíða með afléttingu takmarkana þar til hjarðónæmi er náð. Reikna má með að viðkvæmustu hóparnir séu um það bil 20-25% hverrar þjóðar og reiknar bankinn með að Bretar verði búnir að bólusetja þá hópa í mars, Bandaríkjamenn í apríl og að í Evrópu verði því lokið í maí.
Sveigjanleiki verður lykilatriði
Ný skýrsla ETC (European Travel Commission) tekur fyrir áætlanir íbúa álfunnar til ferðalaga, bæði innan lands og utan, á þessu ári. Hún svarar að nokkru leyti brennandi spurningum um ferðavilja og áætlanir og hvers konar ferðir verða vinsælastar. Það hafa margir haldið því fram að Covid-faraldurinn muni breyta ferðahegðun og viðhorfum fólks varanlega og ekkert verði eins og það var áður. Þannig höfum við Íslendingar talið okkur í betri stöðu en margar aðrar þjóðir, vegna fámennis, víðáttu, óbyggða, hreinleika og fleiri þátta, sem ætla mætti að skiptu máli í kjölfar heimsfaraldurs. Skýrslan staðfestir það að bólusetningar eru þungamiðjan í ferðaáætlunum Evrópubúa og flestir virðast aðlaga sínar áætlanir takt við framvindu bólusetninga í heimalandinu. Um það bil helmingur þeirra hyggst ferðast á árinu, eftir að hafa fengið bólusetningu. Hins vegar virðast verða litlar breytingar á áfangastöðum og innihaldi ferða. Þannig eru borgarferðir ennþá vinsælastar (17,2%) og þar á eftir sólarlandaferðir (16,2%). Náttúruupplifun og útivist eru nefnd mikilvægust af 12,2% svarenda. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að 1-2% svarenda nefna Ísland sem áhugaverðan áfangastað.
Þessar tölur segja okkur hins vegar að það er ekkert gefið og alls óvíst að Ísland njóti einhvers konar sérstöðu þegar kemur að vali fólks á áfangastað að faraldri loknum. Þær segja okkur líka, að við megum hvergi slaka á og að sveigjanleiki, aðlögun að þörfum viðskiptavina í kjölfar heimsfaraldurs og stóraukin markaðssókn eru lykilatriði á næstu mánuðum.
Markar vörðu inn í framtíðina
Þrátt fyrir þessa miklu og viðvarandi óvissu, þá var þessi ákvörðun stjórnvalda mjög mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna og þá sem við hana starfa. Hún markar í það minnsta einhvers konar vörðu inn í framtíðina, sem auðveldar okkur að gera áætlanir varðandi rekstur fyrirtækjanna, starfsmannamál og ekki síst markaðsmál, bæði hjá einkafyrirtækjum og Íslandsstofu. Það eitt skiptir miklu máli varðandi hugarfar, kraft og framkvæmdagleði og gefur allavega þá björtu von að hægt verði að afhenda þjónustuna, sem við erum að selja, frá og með 1. maí.
Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunar
—
Greinin birtist í Fréttablaðinu, þriðjudaginn 26. janúar 2021.