Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Íslandshótel er Menntafyrirtæki ársins og Domino’s Menntasproti ársins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Sjónvarpi atvinnulífsins í morgun.
Menntaverðlaun atvinnulífsins 2021
Íslandshótel eru menntafyrirtæki atvinnulífsins árið 2021 en fyrirtækið rekur hótelkeðju sem í eru 17 hótel um land allt með tæplega 1.800 herbergjum. Endurspeglar uppbygging félagsins mikinn vöxt ferðaþjónustunnar síðastliðinn áratug, en um leið þær fjölmörgu áskoranir sem slíkum vexti fylgja í mannauðsmálum, sem leggur grunnin að gæðum þjónustunnar og ánægðum viðskiptavinum. Félagið hefur á markvissan hátt tengt saman uppbyggingu á fræðslu og þjálfun starfsfólksins við heildarstefnumótun sína, sem tryggir að allt starfsfólk þess fær staðlaða, markvissa og stefnumiðaða fræðslu.
Faghópar einstakra þjónustueininga greina þá þekkingu sem býr í starfsfólki félagsins og byggja ofan á hana frekari fræðslu til að ná markmiðum um faglega gæðaþjónustu og ánægða viðskiptavini. Sett er fram og unnið eftir stefnumiðaðri starfs- og fræðsluáætlun og starfsfólk virkjað til ábyrgðar á einstökum þáttum hennar. Fræðsla starfsfólks og starfsþróun eru tengd við gæðaviðmið Vakans og byggt á persónubundinni þjálfun sem einnig hvetur til þróunar hvers og eins starfsmanns í starfi, sem aftur er stutt við með reglulegum starfsmannasamtölum um markmið hvers og eins starfsmanns. Þá hefur verið lögð áhersla á stuðning sérfræðinga og samstarf við Landsmennt, Starfsafl, Iðuna og Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks (SVS).
Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum starfsmanna hefur lagt grunn að mjög góðum árangri á þeim þremur lykilmælikvörðum sem mannauðssvið Íslandshótela notar, þ.e. gestaánægja, starfsánægja og starfsmannavelta. Er óskandi að þessi góði árangur og reynsla leggi grunn að farsælli endurreisn í íslenskir ferðaþjónustu á komandi árum.
Menntasproti atvinnulífsins 2021
Dominos hlýtur menntasprota atvinnulífsins árið 2021. Félagið rekur stærstu veitingakeðju landsins með tuttugu og þrjá staði um land allt þar sem starfa um 650 starfsmenn, þar sem meðalaldurinn er 22 ár. Það felur í sér margar áskoranir þegar kemur að uppbyggingu fræðslu, utanumhalds árangurs og að skapa hvata hjá starfsfólki til að sækja sér þekkingu sem nýtist í starfi og skapa framtíðar veganesti.
Dominos hefur lagt áherslu á að þróa rafræna fræðslu sem styður við þjálfun á vinnustaðnum sjálfum en er einnig með innbyggða hvata til starfsþróunar innan fyrirtækisins. Til að virkja nýju fræðsluaðferðirnar voru nýttar leiðir sem unga fólkið þekkir úr heimi veraldarvefsins og leikjafræðinnar sem leiddu til þess að mjög góður árangur náðist í þátttöku og virkni starfsfólksins. Með þessu var tekið stökk fram á við í fræðslumálum fyrirtækisins sem leitt hefur til mjög góðrar stöðu í starfsmanamálum og staðfestist í mjög góðri niðurstöðu í svo nefndum púlsmælingum meðal starfsfólksins.
Þá er ánægjulegt að Dominos hefur tekið upp samstarf við Verslunarskóla Íslands sem skapað hefur starfsfólki tækifæri til „Fagnáms verslunar og þjónustu“ samhliða starfi, sem síðan lýkur með stúdentsprófi. Starfsfólki af erlendum uppruna býðst tækifæri til íslenskunáms á vegum Retor sem hefur verið mikilvægur þáttur í starfsþróun. Loks ber að nefna að Dominos hefur verið í samstarfi við Reykjavíkurborg og styður við verkefnið „Atvinnutengt nám grunnskólanema á unglingastigi“ í Reykjavík sem skapar tækifæri til að auka þroska nemenda og búa þau betur undir áframhaldandi nám og atvinnuþátttöku.
Ljóst er að Dominos er til fyrirmyndar sem menntasproti ársins og að stjórnendur hafa tekið stefnumarkandi ákvörðun um að nýta tæknina til markvissra endurbóta í fræðslumálum félagsins sem hefur skilað sér í aukinni starfsánægju og minni starfsmannaveltu.
Færni framtíðar – horfðu á þáttinn!
Menntadagurinn er árlegur viðburður en að þessu sinni var fjallað um færni framtíðar og byggt á topp tíu færniþáttum Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar fyrir árið 2025.
Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
Hér má horfa á þáttinn frá í morgun: