Á miðvikudagsmorgnum fram til páska munu SAF bjóða til sín leiðtogum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna til að ræða um stöðu og horfur í ferðaþjónustu. Segja má að með þáttunum sé kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningarnar í september formlega ræst, en þeim verður streymt samtímis á facebook síðu SAF og á Vísi.is.
Fólk í ferðaþjónustu hefur brennandi áhuga á að heyra afstöðu einstakra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna til atvinnugreinarinnar. Í þáttunum verður reynt að leiða fram þá sýn sem flokkarnir hafa gagnvart viðspyrnu og framtíð atvinnugreinarinnar og efnahagslífsins inn í næstu mánuði og næsta kjörtímabil. Hvernig sjá þau framtíð greinarinnar fyrir sér? Hvernig ætla þau að styðja við endurreisn hennar og hvaða breytingar þarf að gera á rekstrarumhverfinu? Hvert verður hlutverk ferðaþjónustu í verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun á næstu árum og áratugum?
Það er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sem er gestur SAF í fyrsta þættinum að morgni 17. febrúar, kl. 9:15.
Við hvetjum félagsmenn SAF til að senda okkur spurningar fyrir flokkana á saf@saf.is.
Fylgist með Samtali ferðaþjónustunnar við stjórnmálin á miðvikudagsmorgnum fram til páska kl. 9:15 á facebook síðu SAF og á Vísi.is.