Icelandic Lava Show hlýtur Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021. Samtök ferðaþjónustunnar afhenda verðlaunin á afmælisdegi samtakanna, 11. nóvember ár hvert. Eliza Reid, forsetafrú, afhenti Icelandic Lava Show verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær.
SAF afhenda Nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í átjánda skipti sem SAF veita nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar en þetta árið bárust 14 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.
Dómnefnd Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar skipuðu Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF sem jafnframt var formaður dómnefndar, Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, og Eyþór Ívar Jónsson, stofnandi og forseti Akademias.
Tilnefningarnar til Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar endurspegla mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og var dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma um að handhafi verðlaunanna í ár sé Icelandic Lava Show.
Sýningin sú eina sinnar tegundar í heiminum
Icelandic Lava Show er einstök sýning á heimsvísu þar sem hraun frá Kötlugosinu 1918 er brætt upp í 1100 gráðu hita og því hellt inn í sýningarsal fullum af fólki. Áhorfendur fá þannig tækifæri til að komast í návígi við bráðið hraun með öruggum hætti. Upplifunin er sannkölluð veisla fyrir skynfærin. Að sjá rauðglóandi hraunið renna inn í salinn, heyra það snarka, finna lyktina en umfram allt skynja ótrúlegan hitann sem stafar frá hrauninu er hreint magnað.
Sýningin er sú eina sinnar tegundar í heiminum og hefur fengið gífurlegt lof frá vel yfir 1000 sýningargestum eins og sjá má á jákvæðim ummælum á einkunnasíðum á borð við TripAdvisor og Google. Einróma lof og hverrar krónu virði. Sjón er sögu ríkari.
Hugmyndin kviknaði á Fimmvörðuhálsi
Hugmyndin kviknaði þegar stofnendurnir, hjónin Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson, fóru upp að gosinu á Fimmvörðuhálsi vorið 2010 og sáu þar hraunfossinn í fullkominni andstöðu við kolsvart storknandi hraunið og hrímhvítan snjóinn. Þau urðu uppnumin og strax þá kviknaði hugmyndin að því hvernig væri hægt að endurskapa þessar magnþrungnu aðstæður þar sem áherslan yrði á sérstöðu Íslands, samspil elds og íss, fræðslu og að gera fólki kleyft að upplifa rauðglóandi hraun í návígi með öruggum hætti.
Eftir mikla undirbúningsvinnu opnaði Icelandic Lava Show loksins haustið 2018, í Vík í Mýrdal. Sýningin er til húsa í gamla hluta bæjarins, að Víkurbraut 5, í uppgerðu húsi gamla kaupfélagsins. Icelandic Lava Show er fjölskyldurekið frumkvöðlafyrirtæki í ferðaþjónustu og hefur frá upphafi verið byggt upp á hugkvæmni og útsjónarsemi stofnendanna sem hefur reynst vel á tímum Covid-19.
Framtíðin er björt hjá Icelandic Lava Show, en á dögunum voru kynnt áform fyrirtækisins um nýja sýningu á Granda í Reykjavík samhliða nýjum hluthöfum í félaginu. Með tíð og tíma er stefnan síðan tekin út fyrir landssteinana með íslenskt hugvit og framkvæmdagleði að leiðarljósi þar sem opnuð verða Lava Show á heitum reitum víðsvegar um heiminn, t.d. á Havaí, Kanaríeyjum, Ítalíu og í Japan.
Verðlaunin hvatning til áframhaldandi vaxtar
„Við erum alveg í skýjunum með þessa viðurkenningu og lítum á verðlaunin sem hvatningu til að halda áfram að vaxa og dafna,“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi og einn eigenda Icelandic Lava Show. „Eins og allir þekkja sem hafa farið í gegnum stofnun fyrirtækis, þá er það hlykkjóttur vegur varðaður ótal hindrunum. Það á ekki síst við þegar um nýsköpun er að ræða. Mörgum þótti hugmyndin brjálæðisleg en okkur tókst að hrinda henni í framkvæmd í Vík í Mýrdal með mikilli vinnu og elju. Þetta hefur alls ekki verið auðveld vegferð en lærdómsrík og við erum afskaplega stolt af því að geta lagt okkar af mörkum til að auðga íslenska ferðaþjónustu. Viðtökurnar hafa verið stórkostlegar og næsta skref er að opna lava show á fleiri stöðum,“ segir Ragnhildur.
Markaðsstofa Norðurlands og VÖK Baths hlutu nýsköpunarviðurkenningu
Venju samkvæmt tilnefndi dómnefnd nýsköpunarverðlaunanna þrjú fyrirtæki sem áttu kost á að hljóta verðlaunin, en auk Icelandic Lava Show hlutu Markaðsstofa Norðurlands, vegna Arctic Coast Way, og VÖK Baths á Egilsstöðum nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2021.
Arctic Coast Way hefur kynnt Norðurland sem einstakan áfangastað
Í umsögn dómnefndar um Norðurstrandaleið, eða Arctic Coast Way, sem Markaðsstofa Norðurlands stendur að segir:
Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way, var opnuð sumarið 2019, en um er að ræða áhugavert markaðsverkefni í ferðaþjónustu sem leitt hefur verið af Markaðsstofu Norðurlands. Óhætt er að segja að Arctic Coast Way hafi skapað nýtt aðdráttarafl á Norðurlandi og kynnt landshlutann sem einstakan áfangastað. Ferðavefurinn Lonley Planet valdi t.d. Arctic Coast Way einn af 10 áhugaverðustu áfangastöðunum í Evrópu árið 2019.
Um er að ræða um 900 km leið meðfram Norðurströndinni, frá Hvammstanga við Húnaflóa í vestri til Bakkafjarðar í austri, en vegurinn liggur út frá hringveginum í gegnum 18 sveitarfélög og 21 þorp eða bæi.
Verkefnið er byggt á fyrirmyndum um ferðamannavegi sem þekktir eru víða erlendis og er ætlað að vekja athygli ferðamanna á áhugaverðum stöðum á leiðinni sem oft falla utan helstu ferðamannastaða. Auk þess eru tengingar með bát á þrjár eyjar – Drangey, Hrísey og Grímsey.
Um nokkuð stórt svæði er að ræða, en því er skipt upp í þrjú þemu. Á Norðvesturlandi er áherslan lögð á söguna og sögusagnirnar. Í Eyjafirði og hluta Tröllaskaga er áhersla á sjávarþorpin og hefðirnar sem eru tengdar þeim. Þá verður áhersla á náttúruöflin á Norðausturlandi.
Búið að GPS-merkja alla staði á leiðinni ásamt því að koma upp vegmerkingum. Til þess að taka þátt í verkefninu þurfa ferðaþjónustuaðilar, sveitarfélög og þorpin á leiðinni að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að geta átt viðskipti undir skrásetta vörumerkinu Arctic Coast Way.
Með því að fara um Norðurstrandaleiðina gefast ótal tækifæri til að komast út fyrir rammann og finna frelsið. Leiðin snýst ekki einvörðungu um akstur; hún býður ferðamanninn velkominn með sögum og upplifunum í hverri beygju og á hverri hæð. Norðurstrandarleið, með sína 900 kílómetra sem bíða skoðunar og könnunar, er síkvik og breytileg. En svona ferðalag lýtur ekki mælistiku fjarlægðar, heldur birtist í óvæntum augnablikum sem verða til þess að gestirnir vilja helst koma aftur og aftur.
Vök Baths er mikilvæg og ánægjuleg nýjung fyrir Austurland
Í umsögn dómnefndar um VÖK Baths segir:
Vök Baths eru heitar laugar sem staðsettar eru á bakka Urriðavatns við Egilsstaði á Austurlandi. Böðin samanstanda af tveimur fljótandi sjóndeildarlaugum, einu sinnar tegundar á Íslandi, tveimur heitum laugum á landi, vaðlaug, eimbaði, köldum úða göngum og veitingastaðnum Vök Bistro.
Vök Baths dregur nafn sitt af heitum vökum sem birtust reglulega á ísi lögðu Urriðavatninu vegna jarðhita sem streymdi upp á yfirborðið. Fljótandi laugarnar sem nú liggja í vatninu hafa þannig sama form og þær sem mynduðust á ísi lögðu vatninu. Sérstaða Vök Baths eru því fljótandi „Vakirnar”, sem eru þær einu sinnar tegundar á Íslandi ásamt því að heita vatnið sem flæðir um laugarnar er eitt hreinasta heita vatn landsins sem er einnig er drykkjarhæft. Gestum Vök Baths býðst ekki bara að baða sig í hreinu vatninu en í móttöku staðarins er tebar þar sem hægt er að gæða sér á ljúffengu te sem gert er úr jurtum úr nágrenninu og blandað við heitt vatnið sem kemur beint úr jörðinni.
Sjálfbærni og umhverfisvernd er í hávegum höfð við rekstur fyrirtækisins og er því einungis notast við sírennsli í laugum til þess að halda hreinleika vatnsins og öllum aukaefnum sleppt. Einnig er allt vatn sem fer í gegnum kerfið endurnýtt í upphitun á húsnæði.
Hönnun staðarins endurspeglar þema náttúrunnar í kring og leikur lerki þar lykilhlutverk sem allt var sótt í Hallormsstaðaskóg, elsta þjóðskóg Íslands. Mikil áhersla er lögð á að sækja í staðbundin hráefni þar sem unnt er. Þar má til að mynda nefna jurtir frá Vallanesi á tebarnum og Vökvi og Vaka, bjórar sem bruggaðir eru í samstarfi við brugghúsið Austra, sem bruggaðir eru úr heita vatninu úr Urriðavatni.
Vök Baths er mikilvæg og ánægjuleg nýjung fyrir Austurland. Staðurinn hefur bæði mikið aðdráttarafl fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn en er um leið nýjung í þjónustu á svæðinu sem færir aukin lífsgæði til heimamanna og nærsveitunga.
Vök Baths er mjög gott dæmi um mikilvægi þess að við hugsum ekki aðeins um það að dreifa ferðamönnum um landið heldur að dreifa fjárfestingum og uppbyggingu um landið. Fjárfesting og uppbygging sem þessi laðar ferðamenn hvaðanæva að til þess að heimsækja Austurland. Þeir eru líklegri til að staldra við og nýta þá þjónustu sem þar er í boði og kynna sér hvað samfélagið á Austurlandi hefur upp á að bjóða.
Verðlaunin afhent í átjánda sinn
Er þetta í 18. skipti sem Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar voru afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:
- 2021 – Icelandic Lava Show
- 2020 – Íslensk ferðaþjónusta í heild
- 2019 – Sjóböðin Húsavík
- 2018 – Bjórböðin á Árskógssandi
- 2017 – Friðheimar í Bláskógabyggð
- 2016 – Óbyggðasetur Íslands
- 2015 – Into The Glacier
- 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
- 2013 – Saga Travel
- 2012 – Pink Iceland
- 2011 – KEX hostel
- 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
- 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
- 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
- 2007 – Norðursigling – Húsavík
- 2006 – Landnámssetur Íslands
- 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
- 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan