Menntadagur atvinnulífsins fór fram með pomp og prakt í Hörpu í vikunni undir yfirskriftinni „Stafræn hæfni í íslensku menntakerfi og atvinnulífi“. Að deginum standa aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins, m.a. Samtök ferðaþjónustunnar. Á deginum eru Menntaverðlaun atvinnulífsins afhent og var virkilega ánægjulegt að Gentle Giants – Hvalaferðir á Húsavík, félagsmaður í SAF, hlaut Menntasprota ársins 2022. Samkaup er Menntafyrirtæki ársins 2022.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Menntasproti atvinnulífsins 2022
Gentle Giants – Hvalaferðir á Húsavík er menntasproti ársins 2022. Einn lykilþáttur sprotans er samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu innan sem utan fyrirtækja auk nýsköpunar í fræðslu innan fyrirtækis eða í samstarfi aðra aðila.
Gentle Giants býður uppá hvalaskoðunarferðir og aðrar sjó-tengdar upplifanir á Skjálfandaflóa. Í flotanum eru níu bátar, tveir eikarbátar og fimm hraðbátar og hefur fyrirtækið verið brautryðjandi á sínu sviði. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 50 starfsmenn (í hefðbundnu árferði). Gegnum árin hefur starfsmannavelta verið lítil hjá Gentle Giants og að því marki sem störf fylgja árstíðarbundnum sveiflum hefur sama starfsfólkið komið til starfa aftur og aftur. Þetta staðfestir að sú áhersla sem félagið hefur lagt á starfsmannamál og þar með fræðslu og þjálfunarmál hefur skipt miklu um vellíðan starfsfólksins.
Í ferðaþjónustu þar sem byggt er á notkun skipa og báta felst mikil áskorun þegar kemur að öryggismálum sem endurspeglast í fjölmörgum opinberum kröfum sem fyrirtækið og starfsfólk þess þarf að mæta. Gentle Giants hafa lagt gríðarlega mikla áherslu á að þessum kröfum sé mætt til hins ýtrasta og hvergi slakað á í þeim efnum. Unnar hafa verið vandaðar og yfirgripsmiklar handbækur, leiðbeiningar og þjálfunaráætlanir hér að lútandi sem tryggja öryggi jafnt starfsfólks og viðskiptavina.
Mikla athygli vekur sú áhersla sem Gentle Giants hafa lagt á fjölþætt samstarf við nærsamfélag sitt á sviði menntunar, fræðslu og rannsókna. Þannig hefur fyrirtækið verið í samstarfi um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði með Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Húsavík og verið með doktorsnema í hlutastarfi því tengdu. Gentle Giants kom að stofnun nýrrar námsbrautar við Framhaldsskólann á Húsavík um leiðsögunám sem fékk góðar viðtökur og viðbrögð í nærsamfélaginu. Þá hefur fyrirtækið tekið þátt í að skapa sumarstörf fyrir grunnskólanemendur á svæðinu og skapa þannig áhuga þeirra á fjölbreyttum störfum í atvinnulífinu.
Ljóst er að Gentle Giants – Hvalaskoðun hafa lagt í mikla og áhugaverða vinnu á sviði mennta-, fræðslu- og þjálfunarmála innan fyrirtækisins en jafnframt tekið þátt í uppbyggingu á þessu sviði í samstarfi við aðila á svæðinu og sýnt mikilvæga samfélagslega ábyrgð sem hefur mikla þýðingu og sýnir hvernig slíkt samstarf felur í sér gagnkvæma hagsmuni fyrir alla aðila.
Gentle Giants – Hvalaskoðun hefur þannig sýnt að sprotar og þróunar starf er gríðarlega mikilvægt til þess að treysta starfsgrundvöll fyrirtækja og skapa þeim mikilvægt samkeppnisforskot.
Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt á árlegum menntadegi atvinnulífsins. Þetta er í níunda sinn sem dagurinn er haldinn. Yfirskrift menntadagsins að þessu sinni var stafræn hæfni í íslensku menntakerfi og atvinnulífi . Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.