Þann 30. september s.l. sendu SAF umsögn til starfshóps sem hefur það hlutverk að skoða og gera tillögur til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um nýtingu vindorku, en starfshópurinn óskaði eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila með bréfi 23. ágúst s.l. Þar segir m.a.:
“Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Jafnframt kemur fram að áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Tekið er fram að mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru og taka verði afstöðu til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu.
Starfshópnum er sérstaklega ætlað að huga að eftirfarandi grundvallarspurningum:
- Hvort rétt sé að virkjunarkostir í vindorku heyri áfram undir lög nr. 48/2011, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, en gerðar verði tilteknar breytingar á lögunum sem miði að því að aðlaga gildandi lagaramma betur að sérstöðu þessara virkjunarkosta þannig að unnt sé að einfalda og flýta opinberri málsmeðferð með hliðsjón af séreðli þeirra.
- Hvort rétt sé að virkjunarkostir í vindorku verði alfarið undanskildir lögum nr. 48/2011 en að settar verði sérreglur um meðferð slíkra virkjunarkosta með öðrum hætti en innan gildandi laga.”
Þá er starfshópnum falið að taka til skoðunar og gera tillögur um hvernig ná megi ýmsum markmiðum eða leysa úr álitaefnum í löggjöf um vindorku miðað við þá leið sem starfshópurinn leggur til. Álitaefnin sem nefnd eru má skoða nánar í bréfi starfshópsins til hagsmunaaðila.
Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar er ítrekuð sú afstaða samtakanna, sem komið hefur fram í fyrri umsögnum um tengd mál, að vindorkuver eigi að heyra undir lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingu landsvæða með sama hætti og aðrir virkjunarkostir. SAF hafna því báðum tillögum sem nefndin leggur upp í fyrrgreindu bréfi. Samtökin leggja áherslu á að sömu reglur gildi um vindorkuvirkjanir og aðra orkukosti, enda eru undirliggjandi álitamál varðandi nýtingu lands, t.d. röskun á náttúru og áhrif á verðmætasköpun ferðaþjónustu, sambærileg hvort sem um er að ræða vatns-, jarðvarma- eða vindorkuver. Vindorkuver geta jafnvel haft víðtækari neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna og ferðaþjónustustarfsemi á ákveðnum svæðum þar sem sýnileikasvið þeirra getur verið mun viðfeðmara en t.d. vatnsorkuvera. Engin haldbær rök kalli því á að aðskilja vindorkukosti sérstaklega frá öðrum virkjunum með einfaldara ákvarðanaferli.
Flestum má vera ljóst að til þess að núverandi markmiðum stjórnvalda í orkumálum verði náð þarf að bæta orkunýtingu, auka orkusparnað, efla afkastagetu núverandi virkjana og auka orkuöflun. Stóru spurningarnar eru þó alltaf þær sömu, hversu mikið þarf að virkja, hvernig og hvar? SAF benda á að nauðsynlegt sé að við slíkar ákvarðanir séu ferlar skýrir og sambærilegir hvort sem um vatns- jarðvarma- eða vindorkuver er að ræða og að fullt tillit sé ekið til sjónarmiða og framtíðarhagsmuna stærstu útflutningsgreina þjóðarinnar, ferðaþjónustunnar.
Í umsögninni er m.a. bent á nauðsyn þess að bæta ferli rammaáætlunar og ekki síður málsmeðferð á Alþingi, sem hefur verið ein helsta ástæða tafa í ferlinu síðastliðinn áratug. Þá er fjallað um svokallað séreðli vindorku og áhrif vindorkuvera á upplifun ferðamanna af mikilvægustu söluvöru ferðaþjónustunnar, náttúrunni. M.a. er bent á rannsóknir sem sýna með skýrum hætti hversu víðtæk neikvæð áhrif staðsetning vindorkuvera í landslagi nærri ferðamannastöðum getur haft. Búrfellslundur er þar nefndur sem dæmi, en rannsóknin sýnir að það vindorkuver eitt og sér mun hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna á öllu svæðinu frá Selfossi til Þórsmerkur og norður Sprengisand að Aldeyjarfossi. Innan þessa neikvæða áhrifasvæðis eru margar af helstu náttúruperlum og ferðamannaseglum Suðurlands, þar á meðal Seljalandsfoss, Skógafoss, Þórsmörk, Landmannalaugar, friðland að fjallabaki, Gullfoss, Geysir og Þingvellir.
Samtök ferðaþjónustunnar ítreka því, að vegna þess hve víðtæk neikvæð áhrif vindorkuver geta haft sé nauðsynlegt að landslag, náttúruverðmæti og gildi upplifunar úti í náttúrunni, auk áhrifa á íbúðarbyggð, liggi til grundvallar skipulagi fyrir vindorkuver. Alla þessa þætti ætti að hafa í forgangi við mat á því staðsetningu vindorkuvera. Þess vegna telja samtökin að stjórnvöld eigi að marka sér skýra stefnu um að vindorkuver eigi eingöngu að vera á afmörkuðum og fáum landsvæðnum langt frá náttúruverndarsvæðum og að slíka stefnu verði að marka með skýrum hætti áður en frekari ákvarðanir um vindorkuver eru
teknar.
Þá benda samtökin á að engin skynsemi sé í hugmyndum orkufyrirtækja um að sveitarfélög taki ákvarðanir um staðsetningu og byggingu vindorkuvera. Að mati samtakanna mæla engin rök með því að ákvarðanir um svo raskandi áhrif á umhverfi, náttúru og ferðaþjónustu verði á valdi einstakra sveitarfélaga, enda hafi slíkar ákvarðanir neikvæð áhrif langt út fyrir viðkomandi sveitarfélög. Því verður ákvarðanataka um vindorkuver að grundvallast á almennri, faglegri nálgun byggðri á skýrri stefnu stjórnvalda, en ekki á skammtímahagsmunum einstakra sveitarfélaga.