Skammtímakjarasamningur var í dag, 12. desember, undirritaður milli SA og VR, LÍV og samflots iðnaðarmanna. Samningurinn gildir frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024.
Með undirritun samningsins í dag hefur SA samið við stærstu félögin á almennum vinnumarkaði sem samanstanda af meira en 80 þúsund manns, en líkt og kunnugt er náðust samningar milli SA og SGS í síðustu viku. Efling stendur ein utan sáttar og sem fyrr standa vonir til að ná samningum við þau fyrr en síðar.
Markmið fyrrnefndra samninga er að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins. Þar var áhersla lögð á að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.
Tveir stefnumarkandi samningar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, er að vonum ánægður með árangurinn eftir þrotlausa vinnu allra samningsaðila undanfarið:
„Samningar Samtaka atvinnulífsins við SGS annars vegar og VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna hins vegar munu byggja undir áframhaldandi lífskjarabata og endurnýja stöðugleika. Það er tilgangurinn og það verkefni sem við höfum verið að fást við, beggja vegna samningaborðsins, síðustu vikur og mánuði,“ segir Halldór.
Þá telur hann samningana draga úr óvissu og minnka líkur á vaxtahækkunum. Í samningunum eru tvær ólíkar leiðir farnar sem geta orðið stefnumarkandi fyrir framhaldið. Annars vegar var samið um sérstakar hækkanir lægstu taxta og hins vegar út frá almennum prósentuhækkunum.
„Ég lít svo á að við séum hér búin að gera tvo stefnumarkandi samninga. Bæði upp á framhaldið hjá okkur og fyrir aðra á vinnumarkaði. BHM hefur talað fyrir því að fara hraðar í sína samninga en áður og ég tel að það væri jákvætt skref sem gæti þýtt að við séum að fara inn í nýtt ár með góðan frið á vinnumarkaði,“ segir Halldór að lokum.
Grundvöllur fyrirsjáanleika á óvissutímum
Meginviðfangsefni skammtímasamninganna er að verja þann árangur sem náðst hefur á liðnum árum og tryggja grundvöll áframhaldandi lífskjarabata á komandi misserum. Í ljósi krefjandi efnahagslegra aðstæðna, sem einkum hafa einkennst af mikilli verðbólgu og vaxtahækkunum, er mikilvægt að samningar aðila vinnumarkaðarins hafi þau skýru markmið að styðja við kaupmátt og að jafnvægi náist sem fyrst í hagkerfinu. Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta. Þá hafa stjórnvöld gefið fyrirheit um tilteknar aðgerðir í tengslum við skammtímasamninga, ekki síst til að styrkja stöðu þeirra sem minnst hafa.
Hluti af samkomulagi aðila er tímasett viðræðuáætlun sem er ætlað að láta samning taka við af samningi og tryggja með því samfellu milli Lífskjarasamningsins frá 2019 og nýs langtímasamnings. Í því felst mikilvægt framlag til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Aðilar hafa komið sér saman um þau meginatriði sem horfa þarf til við þá vinnu og sammælst um að þegar verði hafist handa við undirbúning þeirra viðræðna. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu launafólks þegar óvissutímabili lýkur og að samningur taki við af samningi.

