Til áréttingar minna Samtök ferðaþjónustunnar á að úrskurður landsréttar mánudaginn 13. febrúar 2023 tekur af öll tvímæli um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara er lögmæt að öllu leyti og að sáttasemjari hefur lögbundinn rétt til að láta fara fram atkvæðagreiðslu um hana og ákveða með hvaða hætti sú atkvæðagreiðsla fer fram. Ennfremur segja lög Eflingar beinlínis til um að allsherjaratkvæðagreiðslu skuli halda um miðlunartillögu sáttasemjara.
Öll rök forystu Eflingar um að miðlunartillagan sé ólögmæt og að sáttasemjari hafi ekki haft lagaheimild til að leggja hana fram hafa því nú verið hrakin af dómstólum og eftir stendur að Eflingu ber að láta fara fram atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna.
Í úrskurði Landsréttar frá því í gær segir beinum orðum:
“Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/1938 skal miðlunartillaga borin undir atkvæði atkvæðisbærra aðila eins og sáttasemjari gekk frá henni og henni svarað játandi eða neitandi. … Af framangreindum ákvæðum laga nr. 80/1938 og lögskýringargögnum verður ótvírætt ráðið að [sáttasemjari] hafi lögbundinn rétt til að taka ákvörðun um að atkvæðagreiðsla skuli fara fram um miðlunartillögu sem hann hefur sett fram á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laganna sem og ákveða tilhögun og framkvæmd hennar. “
Í 19. gr. laga Eflingar stéttarfélags segir:
“Allsherrjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa… c) um miðlunartillögu sáttasemjara eftir því sem við á”.
Ein mikilvægasta krafan sem gerð er til aðila vinnumarkaðarins er að þeir fari að landslögum í einu og öllu.
Sú krafa á við Eflingu eins og önnur stéttarfélög og félög atvinnurekenda.
„Miðlunartillagan liggur enn fyrir og það er lögbundin skylda samningsaðila að atkvæði séu greidd um hana. Niðurstaða Landsréttar, að sáttasemjari geti ekki krafist afhendingar kjörskrár til að annast sjálfur atkvæðagreiðslu, breytir ekki þeirri lagalegu skyldu samningsaðila. Efling boðar frekari verkföll í stað þess að virða ákvæði vinnulöggjafarinnar.“ – segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Sjá nánari upplýsingar á vef Samtaka atvinnulífsins og á Vinnumarkaðsvef SA