Í vikunni veittu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð um ferðamál á Íslandi. Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í markaðs- og alþjóðaviðskiptum, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Ritgerð Guðnýjar Ljósbrár nefnist „Þetta var hápunktur ferðarinnar okkar! Hvað geta umsagnir TripAdvisor kennt okkur um upplifun ferðaþjónustunnar? (e. “This was the highlight of our trip!” What can TripAdvisor reviews teach us about the tourism experience?). Leiðbeinandi var Auður Hermannsdóttir aðjúnkt við Háskóla Íslands.
Í ritgerðinni voru skoðaðir hvaða þættir mynda farsæla upplifun í matarferðamennsku. Sú matarferð, sem hefur fengið flesta fimm stjörnu dóma á heimsvísu meðal notenda umsagna- og ferðavefsins TripAdvisor er að finna á Íslandi og nefnist The Reykjavik Food Walk. Höfundur kannaði viðbrögð ferðamanna sem hafa tekið þátt í slíkri göngu og hafa skrifað um upplifun sína á TripAdvisor. Niðurstöður innihaldsgreiningar á umsögnum á TripAdvisor sýndu að leiðsögumaðurinn var einn verðmætasti eiginleikinn í farsælli matargönguupplifun. Nýtast niðurstöðurnar m.a. til að móta og gefa skilning á upplifun ferðaþjónustunnar og bendir jafnframt á að nýta megi umsagnir neytenda til að bæta markaðs- og þjónustustarf innan matarferðaþjónustu.
Um meistararitgerð Guðnýjar sagði Ásta Dís Óladóttir, stjórnarformaður RMF að vinna hennar við verkefnið einkenndist af miklum metnaði og fagmennsku. „Viðfangsefnið er afar áhugavert en umfram allt sýndi Guðný Ljósbrá mikið hugrekki og sköpunarmátt þegar hún fór ótroðnar slóðir í aðferðafræðilegri nálgun sinni á efnið. Í rannsókninni beitir hún samfélagsmiðlagreiningu sem eftir minni bestu vitund hefur ekki verið nýtt í rannsóknum á Íslandi áður, enda nokkuð ný aðferðafræðileg nálgun á heimsvísu,“ sagði Ásta Dís við afhendingu verðlaunanna.
Guðný Ljósbrá sýndi afburðafærni við hönnun og útfærslu rannsóknarvinnunnar. Ásamt því að veita forsvarsfólki ferðaþjónustufyrirtækisins Wake up Reykjavík verðmætar upplýsingar sem geta nýst í markaðsstarfi, gefur rannsóknin innsýn í hvernig nýta má mikilvæg fyrirliggjandi gögn frá umsagnarsíðum í markaðs- og þjónustustarfi innan ferðaþjónustufyrirtækja.
Vilborg Helga Júlíusdóttir fv. hagfræðingur SAF, Oddný Þóra Óladóttir hjá Rannsókna- og tölfræðisviði Ferðamálastofu og Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur RMF sátu í dómnefnd lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF 2023.
Tilnefningar til lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF 2023
Opnaðir þú pakkann þinn? Opinber inngrip stjórnvalda í formi ferðagjafa
Steinunn Gústavsdóttir, BS-gráða í viðskiptafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Þórhallur Örn Guðlaugsson
Kolefnisjafnaður golfvöllur á Geitanesi
Margrét Björnsdóttir, BS-gráða í landslagsarkitektúr, Landbúnaðarháskóli Íslands
Leiðbeinandi: Edwin Roald
Stefnumótun í breyttu rekstrarumhverfi: Áskoranir fyrirtækja í ferðaþjónustu á Reykjanesi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar
Karen Ingibjörg Sigurðardóttir, BS-gráða í viðskiptafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Ásta Dís Óladóttir
Umgjörð sundlauga – Tækifæri til aukinna gæða
Ellisif Malmo Bjarnadóttir, BS-gráða í landslagsarkitektúr, Landbúnaðarháskóli Íslands
Leiðbeinandi: Helena Guttormsdóttir
Ferðahegðun Íslendinga á tímum Covid-19
Erna Bergþóra Einarsdóttir og Lilja Rut Víðisdóttir, BS-gráða í viðskiptafræði með áherslu á ferðaþjónustu, Háskólinn á Bifröst
Leiðbeinandi: Brynjar Þór Þorsteinsson
Vitinn á Garðskaga. Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu
Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, BS-gráða í landslagsarkitektúr, Landbúnaðarháskóli Íslands
Leiðbeinandi: Sigurlaus Herdís Friðriksdóttir
Sjálfbærni íslenskrar ferðaþjónustu: Hvernig sýna íslensk ferðaþjónustufyrirtæki þá stefnu í verki gagnvart ferðamönnum?
Gylfi Kristjánsson, BA-gráða í ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
Leiðbeinandi: Kjartan Bollason
Hjólreiðar í ríki Vatnajökuls. Vistvænar samgöngur á Höfn í Hornafirði
Styrmir Níelsson, BS-gráða í landslagsarkitektúr, Landbúnaðarháskóli Íslands
Leiðbeinendur: Ólafur Melsted og Hermann Georg Gunnlaugsson
This was the highlight of our trip!” What can TripAdvisor reviews teach us about the tourism experience?
Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir, MS-gráða í markaðs- og alþjóðaviðskiptum, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir