Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Kveðið er á um að heimilt sé að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að 300.000 krónum fyrir verkefni sem stjórn sjóðsins telur að skari fram úr hverju sinni.
Félagsmenn í SAF og aðrir áhugasamir um nýsköpun í ferðaþjónustu eru hvattir til að senda inn tilnefningar ásamt rökstuðningi í gegnum vefslóðina hér að neðan fyrir miðvikudaginn 8. nóvember 2023.
Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar verða afhent á 25 ára afmælisráðstefnu SAF sem fram fer 15. nóvember en dagskrá verður auglýst fljótlega.
Verður þetta í 20. skipti sem Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar verða afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:
- 2023 – ????
- 2022 – Vök Baths
- 2021 – Icelandic Lava Show
- 2020 – Íslensk ferðaþjónusta í heild
- 2019 – Sjóböðin Húsavík
- 2018 – Bjórböðin á Árskógssandi
- 2017 – Friðheimar í Bláskógabyggð
- 2016 – Óbyggðasetur Íslands
- 2015 – Into The Glacier
- 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
- 2013 – Saga Travel
- 2012 – Pink Iceland
- 2011 – KEX hostel
- 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
- 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
- 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
- 2007 – Norðursigling – Húsavík
- 2006 – Landnámssetur Íslands
- 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
- 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan
Í stefnumótun SAF kemur m.a. fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á sterkri ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum. Auk þess segir í stefnu SAF að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki. Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar. Stjórn sjóðsins mun m.a. taka tillit til þessara þátta þegar farið verður yfir tilnefningarnar.
Það er von sjóðsstjórnar og stjórnar SAF að félagsmenn taki virkan þátt í leit að verðugum verkefnum þar sem nýsköpun og öflug vöruþróun er grundvöllur allra framfara í íslenskri ferðaþjónustu.
Tökum virkan þátt en jafnframt hikið ekki við að benda á ykkar eigið fyrirtæki!
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri