
Áttugasta og sjöunda allsherjarþing HOTREC, samtaka hótel- og veitingasambanda í Evrópu var haldið í Brussel dagana 25.-27. október s.l.
SAF hafa átt aðild að HOTREC um margra ára skeið og hefur samstarfið reynst afar mikilvægt, en samtökin halda úti sameiginlegri skrifstofu í Brussel sem vinnur að bættu regluverki um gisti og veitingarekstur í álfunni, fylgist með og veitir stofnunum ESB aðhald og umsagnir varðandi breytingar á löggjöf Evrópusambandsins þar að lútandi.
Á dagskrá þingsins að þessu sinni kenndi ýmissa grasa, m.a. voru kynntar áherslur forsætistíma Belga í Evrópusambandinu og forsætisráðherra Belgíu Alexander De Croo flutti ávarp, Didier Reynders framkvæmdastjóri dómsmála hjá Evrópusambandinu fjallaði m.a. um væntanlegar breytingar á pakkaferðalöggjöf ESB og Troy Flanagan frá American Hotel and Lodging Association (AHLA) gaf innsýn í þróunina á gistimarkaði í Bandaríkjunum m.a. hvað varðar mannauðsþörf og skammtímaleigu. Þá tóku Glenda Quintini yfirhagfræðingur hjá OECD og Dirk Beljaarts formaður vinnumarkaðsnefndar HOTREC þátt í sérstakri umræðu um mannauðsþörf og hvaða aðgerða sé þörf til að laða enn frekar að og halda í starfsfólk í geiranum, ásamt fleirum.
Einnig var farið yfir starf samtakanna í helsu málaflokkum er unnið er að á vettvangi Evrópusambandsins, svo sem varðandi skammtímaleigu, löggjöf um stafræna markaði, sjálfbærni o.fl. og lagðar fram helstu áherslur HOTREC gagnvart komandi kosningum til Evrópuþingsins, en niðurstaða þeirra getur haft veruleg áhrif á framvindu löggjafar um ferðaþjónustu á næsta kjörtímabili.
Af þinginu öllu mátti finna skýrt hve áskoranir hótel og veitingageirans, og í raun ferðaþjónustu í heild, eru áþekkar um alla Evrópu. Mikill samhljómur var meðal þingfulltrúa frá löndum um alla álfuna að skilningur stjórnvalda á mikilvægi greinarinnar, jákvæðum áhrifum á samfélögin og þörf fyrirtækjanna fyrir lengri tíma til að ná kröftum sínum á ný eftir heimsfaraldur sé af skornum skammti. Það birtist meðal annars í tilhneigingu stjórnvalda víða í álfunni til að vilja hækka skatta og gjöld á fyrirtæki í greininni með tekjuöflun ríkissjóðs að markmiði, án þess að þar sé hugsað fyrir áhrifum slíkra breytinga á samkeppnisumhverfi ferðaþjónustu í viðkomandi ríkjum eða tilhlýðilegum fyrirvara miðað við eðli starfseminnar. Mikilvægt sé því að hagsmunasamtök greinarinnar vinni að aukinni þekkingu á mikilvægi hennar í samfélaginu og standi gegn vanhugsuðum aðgerðum sem eru helst til þess fallnar að skaða samkeppnishæfni.