
Samtök ferðaþjónustunnar vilja óska Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins til hamingju með vel heppnað ferðamálaþing 31. október sl., þar sem meðal annars var rætt um málefni tengd sjálfbærni, umhverfisvitund og nýsköpun í ferðaþjónustu.


Formaður stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins
„Nú hefur höfuðborgarsvæðið loksins eignast sína eigin markaðs- og áfangastofu, líkt og allir aðrir landshlutar. Þetta mun efla höfuðborgina sem áfangastað og styrkja enn fleiri fyrirtæki sem þjónusta ferðamenn og heimamenn, til að vaxa og dafna.“
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, opnaði fyrsta ferðamálaþing stofunnar.
Ferðaþjónusta hefur tekið stakkaskiptum á höfuðborgarsvæðinu, sem og annars staðar, á síðastliðnum tíu árum. Tekist hefur að jafna árstíðarsveiflu gestakoma erlendra ferðamanna (e. Seasonality Index) á höfuðborgarsvæðinu svo um munar, hún var 46% árið 2012, 33% árið 2019 og 38% árið 2022. Árstíðarsveifla er mæld sem hlutfall þriggja fjölmennustu mánaða á öllum tegundum skráðra gististaða af árinu öllu.
Framboð hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu er nú að meðaltali 5.324 og hefur aukist um 76% frá árinu 2012. Þá hefur gistinóttum fjölgað um 89% á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2012.
Hlutur ferðaþjónustu af atvinnutekjum á höfuðborgarsvæðinu 9,6% árið 2022
Mikil gróska er og hefur verið í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðin og heimsóttu 90% af erlendum ferðamönnum höfuðborgarsvæðið sumarið 2023, samkvæmt viðhorfskönnun Ferðamálastofu. Ferðaþjónusta hefur aukið fjölbreytni atvinnutækifæra á landinu öllu og stuðlað að auknum lífsgæðum. Vægi ferðaþjónustu er misjafnt eftir landshlutum og sveitarfélögum en ljóst er að atvinnugreinin er orðin traust stoð um land allt. Hlutur ferðaþjónustu af atvinnutekjum á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið úr 7,8% í 9,6% á sama tíma.
Allar helstu upplýsingar um ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í þínu nærsamfélagi má finna á Mælaborði Samtaka ferðaþjónustunnar, ferdagogn.is.