Fyrstu drög að aðgerðum í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu 2030 hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til ársins 2030. Starfshóparnir sjö ná utan um alla þætti ferðaþjónustu, það eru:
- Sjálfbærni og orkuskipti – (Umhverfi)
- Samkeppnishæfni og verðmætasköpun – (Efnahagur)
- Rannsóknir og nýsköpun – (Þekking)
- Uppbygging áfangastaða – (Samfélag)
- Hæfni og gæði – (Gestir)
- Heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónusta – (Gestir)
- Menningartengd ferðaþjónusta – (Gestir)
Verkefnið í heild er leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins (MVF) og formenn starfshópanna sjö eiga sæti í þeim stýrihópi, ásamt Ferðamálastjóra, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, MVF og formanni Ferðamálaráðs.
SAF skipa 14 aðila af þeim 54 sem sitja í starfshópunum, þar sem hver starfshópur er skipaður af 6 til 8 sérfróðum aðilum, auk formanns. Jafnframt eru tveir starfsmenn verkefnisins starfsmenn SAF, það eru Ágúst Elvar Bjarnason, verkefnastjóri SAF og Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur SAF.
Starfshóparnir hafa þegar haft viðamikið samráð við haghafa og unnið þétt að verkefninu frá maí, meðal annars með fjölda vinnustofa. Í framhaldinu er á næstu vikum áformað að halda opna umræðu- og kynningarfundir um vinnuna í öllum landshlutum.
Viltu hafa áhrif?
SAF hvetja öll að kynna sér fyrstu drög að aðgerðum í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu 2030. Umsagnarfrestur er til og með 23. nóvember nk. og vilja SAF benda öllum á að hægt er að senda inn umsögn um málið í samráðsgáttina. Þá er félagsmönnum í SAF bent á að þeir geta komið sínum athugasemdum um málið í gegnum samtökin með því að senda athugasemd um málið á saf@saf.is og hún getur endað í umsögn samtakanna um aðgerðaráætlunina.