
Stjórnvöld hafa nú loks birt fyrirhugaða breytingu á skattheimtu á ferðaþjónustu í frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í gær og er aðgengilegt hér: https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/0509.pdf
Í frumvarpinu er m.a. lagt til að gistináttaskatts verði frá 1. janúar 2024 lagður á hvern einstakling í stað gistirýmis áður. Þá er einnig lagt til að skatturinn leggist á skemmtiferðaskip í siglingum til og frá og við Ísland.
Breytingin hefur t.d. þau áhrif að skattur á hvert tveggja manna herbergi hækkar um 100%. Þar sem fleiri eru í herbergi eða öðru gistirými er hækkunin enn meiri, en almennt eru slík gistirými algengari á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Þótt um sé að ræða breytingu á eðli og innheimtu skattsins felst í henni raunskattahækkun gagnvart fjölda fyrirtækja í ferðaþjónustu. Breytingin kemur því ekki síst illa við ýmis lítil fyrirtæki á landsbyggðinni.
Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla þessum breytingum, enda er ljóst að markmiðum stjórnvalda um að ferðamenn greiði skattinn verður ekki náð, heldur munu íslensk ferðaþjónustufyrirtæki greiða skattahækkunina úr eigin vasa vegna þess hve fyrirvarinn er skammur. Sú staðreynd er stjórnvöldum vel kunn að vegna eðlis atvinnugreinarinnar er 12 mánaða fyrirvari nauðsynlegur á slíkum breytingum, enda hafa Samtök ferðaþjónustunnar margsinnis komið því á framfæri, bæði í formlegum samskiptum við Alþingi, ráðuneyti og stofnanir sem og á opinberum vettvangi.
SAF hafa m.a. ítrekað á síðustu mánuðum bent stjórnvöldum á þessi neikvæðu áhrif hækkunar gistináttaskatts með allt of skömmum fyrirvara, en aðeins örfáar vikur mun líða frá lokaafgreiðslu fjárlaga á Alþingi þar til breytingin tekur gildi verði hún samþykkt. Það eru samtökunum mikil vonbrigði að fjármálaráðuneytið hafi ekki tekið tillit til vel þekktra sjónarmiða um nauðsynlegan fyrirvara á skattabreytingum í ferðaþjónustu við framlagningu frumvarpsins.
Samtökin benda ennfremur á að skatturinn er lagður á til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, en ekki er áætlað skv. frumvarpi til fjárlaga að tekjurnar skili sér til aukinna framlaga til verkefna á málefnasviði ferðaþjónustu. Í því samhengi má einnig benda á að skv. útreikningum sem Reykjavík Economics vinnur nú að fyrir SAF var skattspor ferðaþjónustu um og yfir 140 milljarðar á síðasta ári. SAF telja því vandséð að sérstök þörf sé á hækka sérskatta á ferðaþjónustufyrirtæki með þeim hætti sem nú er gert.
Samtökin hvetja aðildarfélög til að kynna sér breytingarnar sem felast í frumvarpinu og skila umsögn til Alþingis á næstu vikum varðandi áhrifin sem breytingin hefur á þeirra rekstur og að hafa samband við skrifstofu SAF um upplýsingar og aðstoð eftir þörfum.