Á árunum 1995 -1996 fór fram umfangsmikil og metnaðarfull stefnumótun í ferðaþjónustu á Íslandi undir forystu Halldórs Blöndal, þáverandi samgönguráðherra. Það var tímamótaverkefni, sem setti á dagskrá hin ýmsu málefni sem lutu að framþróun þessarar atvinnugreinar, sem var jú á þessum tíma í örum vexti um heim allan. Þetta var skynsamleg ráðstöfun, sem einnig hafði það að tilgangi að renna fleiri styrkum stoðum undir frekar einhæfan útflutning íslensku þjóðarinnar. Undirrituð var svo heppin að fá að vera starfsmaður stýrihóps þessa verkefnis og ég fullyrði að þessi stefnumótun markaði grunninn að ýmsu sem síðar varð. Hún varð einnig til þess að flýta fyrir stofnun heildarsamtaka ferðaþjónustufyrirtækja.
Sagan hófst á Sögu
Það var svo haustið 1998, nánar tiltekið þann 11. nóvember – eða fyrir réttum aldarfjórðungi í dag, að sögulegur viðburður varð í íslenskri ferðaþjónustu. Þá voru Samtök ferðaþjónustunnar stofnuð með pompi og prakt á Hótel Sögu í Reykjavík. Ferðaþjónustan á þessum tíma var í mýflugumynd, miðað við það sem síðar varð. Þetta merkilega ár komu einungis 232.000 erlendir ferðamenn til landsins og voru starfsmenn í greininni tæplega 5.000 talsins. Lætur nærri að flestir sem leiddu greinina og ráku fyrirtæki á þessum árum, hafi þekkt hver annan með nafni. Þrátt fyrir þessi tiltölulega litlu umsvif, áttuðu nokkrir framsýnir einstaklingar úr greininni sig á þeirri brýnu þörf að ferðaþjónustan ætti sér málsvara og hagsmunavörð. Þetta fólk hafði séð fyrir hina miklu vaxtarmöguleika greinarinnar og þá óendanlegu möguleika sem blöstu við um landið allt. Þau sáu í hendi sér að nauðsynlegt væri að greinin sjálf yrði sýnilegri, ætti sæti við borðið og hefði þar með möguleika á að hafa áhrif á uppbyggingu innviða og almennt rekstrarumhverfi hennar.
Að tala einni röddu
Fram til þessa höfðu vissulega verið starfandi sérsamtök hinna ýmsu greina ferðaþjónustunnar, til dæmis Samband veitinga- og gistihúsa, Samband bílaleiga, Félag íslenskra ferðaskrifstofa og fleiri. Það var mál manna að þessi samtök sendu frá sér misvísandi skilaboð og það væri á allan hátt betra að greinin talaði einni röddu, jafnt við stjórnvöld sem og almenning í landinu. Enda fara hagsmunir hinna mismunandi greina innan ferðaþjónustunnar saman að verulegu leyti. Því fór það svo að samtök allra ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi voru stofnuð á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa, sem breytti nafni sínu í Samtök ferðaþjónustunnar og opnaði félagið fyrir öllum fyrirtækjum, sem störfuðu á sviði ferðaþjónustu.
Stofnun Samtaka ferðaþjónustunnar var mikið heillaskref – fyrir atvinnugreinina, vöxt hennar og viðgang – sem og fyrir samfélagið, sem hefur notið góðs af þeirri gríðarlegu uppbyggingu og umsvifum sem hafa orðið um land allt, svo ekki sé talað um þau stigvaxandi útflutningsverðmæti sem greinin hefur skapað.
Gæðastimpill að vera meðlimur
Starfsemi Samtaka ferðaþjónustunnar hefur að sjálfsögðu þroskast og þróast í takt við breytingar í greininni. Rauði þráðurinn í starfsemi þeirra hefur þó ávallt verið hagsmunagæsla, greiningarvinna, fræðsla og öflugt innra starf, sem á sér að mestu stað í fagnefndum samtakanna. Fulltrúar samtakanna taka þar að auki þátt í alls kyns nefndum og ráðum á vegum bæði atvinnulífs og stjórnvalda og halda þar sjónarmiðum ferðaþjónustunnar á lofti.
Samtökin leggja sig fram um að eiga gott samstarf við aðrar atvinnugreinar innan Samtaka atvinnulífsins sem og allar stofnanir samfélagsins, sem eru með málefni ferðaþjónustunnar á sínum borðum. Samtökin hafa eflt samkennd og samstarf innan greinarinnar – sem er mjög mikilvægt, þar sem ekkert ferðaþjónustufyrirtæki er eyland. Öll þurfa þau að starfa með öðrum fyrirtækjum, í þjónustukeðju sem hefur það að markmiði að veita ferðamönnum, jafnt innlendum sem erlendum, ógleymanlega upplifun. Samtökin leggja áherslu á fagmennsku á öllum sviðum, sem og samfélagslega ábyrgð. Fyrirtæki í Samtökum ferðaþjónustunnar fara eftir leikreglum samfélagsins. Að vera meðlimur er gæðastimpill á ferðaþjónustufyrirtæki.
Sterk samtök
Samtökin hafa á þessum aldarfjórðungi dafnað og eflst og lagað sig að breytingum í samfélaginu og þróun atvinnugreinarinnar. Í samtökunum eru nú um 400 fyrirtæki, lítil, meðalstór og stór – flugfélög, gististaðir, ferðaskrifstofur, bílaleigur, hópferðafyrirtæki, veitingahús, baðlón, siglingafélög og hin ýmsu afþreyingarfyrirtæki. Bakvið þau eru um 80% þeirrar veltu sem verður til í greininni. Á skrifstofu Samtaka ferðaþjónustunnar starfa nú 6 starfsmenn, sem hafa í nógu að snúast alla daga. Samtökin hafa fylgt ferðaþjónustunni og stutt hana í gegnum stökkbreytingar á flestum sviðum, fylgt henni í gegnum sviptivinda, hæðir, lægðir, mikla velgengni og stór áföll sömuleiðis.
Hvort fólkið sem stóð að stofnun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 1998 hafi rennt í grun að einungis 20 árum síðar yrði ferðaþjónustan orðin langstærsta útflutningsgrein Íslands, drifkraftur hagvaxtar, leiðandi í atvinnusköpun, grundvöllur þéttriðins nets flugsamgangna við útlönd og öflugasta byggðaaðgerð Íslandssögunnar, skal ósagt látið – en þó alls ekki ósennilegt.
Bjartsýn til framtíðar
Ferðaþjónusta á Íslandi hefur nú slitið barnsskónum og er um þessar mundir í miklu breytinga- og þróunarferli. Hún stendur vissulega frammi fyrir ótal áskorunum og þarf enn að vissu leyti að berjast fyrir tilverurétti sínum og ásættanlegum starfsskilyrðum. Ferðaþjónustan tekur vissulega sitt pláss og hefur afleiðingar á samfélagið, líkt og allar aðrar atvinnugreinar.
Samtök ferðaþjónustunnar og atvinnugreinin sjálf gera sér fulla grein fyrir þessu og er markmið okkar allra að ferðaþjónusta á Íslandi starfi í sátt við umhverfi og samfélag. Efnahagslegur ávinningur hennar er óumdeildur og ekkert sem bendir til annars, en að ferðaþjónusta verði áfram einn af sterkustu burðarásum í sköpun útflutningsverðmæta.
Þar munu Samtök ferðaþjónustunnar leika lykilhlutverk áfram og við horfum á þessum tímamótum spennt og bjartsýn til framtíðar.
Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
—
Greinin birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 11. nóvember 2023.