Metnaðarfull markmið íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) miða meðal annars að 55% samdrætti í losun fyrir árið 2030 miðað við árið 2005 og að Ísland verði kolefnishlutlaust 2040. Til að hægt verði að ná þessum markmiðum er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulífið taki höndum saman og vinni að verkefninu í sameiningu. Á vormánuðum 2023 tóku Samtök ferðaþjónustunnar þátt í vinnu við gerð Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). Þar sem rammaðar voru inn tillögur að aðgerðum og úrbótum sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum. Þeim er ætlað að stuðla að því að fyrrgreind loftslagsmarkmið náist.
Tækniþroski og afstaða stjórnvalda
Losun frá ferðaþjónustu á sér að mestu leyti stað í gegnum samgöngur, það er í gegnum flug, farþegasiglingar og akstur ökutækja. Skortur á upplýsingum og gögnum varðandi losun atvinnugreinarinnar veldur því að losunartala undirgreina ferðaþjónustunnar liggur ekki fyrir. Þó má gróflega áætla að bein losun ferðaþjónustu árið 2022 hafi verið í kringum 900 þúsund tonn CO2ígilda. Sú tala nær hins vegar ekki yfir losun vegna siglinga skemmtiferðaskipta við Íslandsstrendur, sem er töluverð.
Öflugasta leiðin til að bregðast við vaxandi losun í ferðaþjónustu eru orkuskipti í samgöngum. Síðustu ár hafa bílaleigur átt frumkvæði að orkuskiptum í samvinnu við stjórnvöld og verið öflugar í innkaupum á rafmagnsbílum. Þá horfa hópbifreiðafyrirtæki og ferðaskipuleggjendur jafnframt í auknum mæli til hreinorkufarartækja. Fjölmörg orkuskiptaverkefni í farþegasiglingum eru á teikniborðinu og er þróun sparneytnari hreyfla og flugvéla sem og nýting nýrra orkugjafa í flugi orðin samofin flugrekstri.
Stærstu hindranir hraðari orkuskipta í ferðaþjónustu eru tækniþroski, það er þegar tæknin er ekki orðin nægilega góð eða ekki til staðar, og raunveruleg afstaða stjórnvalda þegar kemur að orkuskiptum. Því miður hafa stjórnvöld verið svifasein að bregðast við úrlausnarefnum og tillögum atvinnulífsins. Langtímasýn hins opinbera hefur að takmörkuðu leyti verið til staðar og stjórnvöld sjaldan unnið samkvæmt eigin stefnu. Þá hefur takmarkað umfang orkuskiptainnviða jafnframt dregið úr eftirspurn fyrirtækja og neytenda eftir hreinorkufarartækjum.
Framtíðin siglir ekki á dísel vélum
Árið 2020 birtu stjórnvöld aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og er áætluninni ætlað að vinna að settum markmiðum stjórnvalda, en var hún unnin nær einhliða af stjórnvöldum með takmörkuðu samráði við atvinnulífið. Þar má meðal annars finna aðgerð sem miðar að orkuskiptum í farþegasiglingum. Aðgerðinni er ætlað ná fram orkuskiptum ferja í reglubundnum rekstri á leiðum sem eru hluti af þjóðvegakerfinu, þá er sérstaklega tekið fram að „í næstu kröfulýsingu fyrir útboð vegna ferjusiglinga verður hvatt til orkuskipta“.
Upphaflega stóð til að leggja af ferjusiglingar á Breiðafirði vorið 2023 en meðal annars vegna aukinnar ferðaþjónustu á svæðinu var ákveðið að halda siglingum áfram. Það var því mikið gleðiefni þegar Vegagerðin festi kaup á nýrri ferju 15. september síðastliðinn. Skugga var hins vegar varpað á þau kaup þar sem ferjan sem keypt var, Röst, var smíðuð árið 1991 og siglir á tveimur dísel vélum. Ólíklegt verður að teljast að þessi kaup stuðli að einhverjum samdrætti að losun né samræmist áðurnefndri aðgerðaráætlun og stefnu stjórnvalda.
Talsverður áhugi er á orkuskiptum innan hafsækinnar ferðaþjónustu og hafa íslenskar farþegaskipaútgerðir nú þegar hafið þá vegferð af krafti. Þau orkuskiptaverkefni sem eru hafin, eða eru á teikniborðinu, hafa hins vegar rekið sig á að regluverk stjórnvalda hefur verið hindrun sem erfiðlega hefur gengið að leysa úr. Talað hefur verið um að ferðaþjónustuaðilar í haftengdri ferðaþjónustu geti sótt um styrki til breytinga á skipakosti og innviðauppbyggingar á landi í aðgerðaráætlun stjórnvalda. Aftur á móti, er þessi hluti ekki enn kominn til gagns en augljóst er að slíkur stuðningur myndi hraða orkuskiptum í hafsækinni ferðaþjónustu svo um munar.
Hraðari orkuskipti kosta fjármuni
Stjórnvöld hafa hingað til kosið að styðja við innkaup á hreinorkutækjum með ágætis árangri, en nú er breyting þar á. Hreinorkuökutæki telja um 6,5% af heildarökutækjaflota landsins og innan ferðaþjónustu er hlutfall þeirra hæst hjá bílaleigum. Tækniþroski og kostnaður við innkaup á stærri ökutækjum hefur verið meginhindrunin hingað til í öðrum greinum innan ferðaþjónustunnar. Á síðastliðnum árum höfum við samt sem áður séð fjölgun stærri hreinorkuökutækja hér á landi, til dæmis á rafmagnshópbifreiðum. Stefnuleysi, og mögulega áhugaleysi, stjórnvalda þegar kemur að áframhaldandi hvatningu við innkaup á hreinorkutækjum kemur bersýnilega í ljós í breytingum sem taka eiga gildi 1. janúar 2024. Þar virðast áhyggjur stjórnvalda af skatttekjum beinlínis ætla að vinna gegn áður settum orkuskiptamarkmiðum og munu að öllum líkindum hægja á orkuskiptum. Með óbreyttu fyrirkomulagi munu bílaleigur því miður neyðast til að hætta að kaupa inn hreinorkuökutæki og halda eldri ökutækjum lengur. Ekki verða lengur rekstrarforsendur til kaupa á hreinorkuökutækjum.
Stjórnvöld þurfa að vera heiðarleg þegar kemur að hröðun orkuskipta hreinorkutækja hér á landi. Þau munu kosta fjármuni og ferðaþjónustan sjálf mun ekki bera þann kostnað ein. Koma verður til móts við atvinnugreinina með áframhaldandi stuðningi við hröð orkuskipti ökutækja.
Þegar kemur að flugi virðast stjórnvöld enn vera að reima gönguskóna. Á Íslandi má reikna með að orkuskipti í alþjóðaflugi felist fyrst og fremst í aukinni notkun á sjálfbæru þotueldsneyti (e. Sustainable aviation fuel) og áframhaldandi þróun hagkvæmari hreyfla. Helsta áskorun flugs á Íslandi verður því aðgengi að fyrrgreindu eldsneyti og tilheyrandi kostnaður við slík innkaup, en markmið Evrópusambandsins miða að 2% íblöndun þess árið 2025 og 6% árið 2030. Þegar á líður er líklegt að þau markmið muni hafa töluverð áhrif hér á landi verði aðgengi að sjálfbæru þotueldsneyti ekki tryggt.
Stjórnvöld þurfa að stíga á rafmagnsinngjöfina
Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld sýni í verki að þau ætli sér raunverulega að ýta undir hröð orkuskipti. Ferðaþjónusta er lifandi atvinnugrein sem byggir að miklu leyti á áræðni rekstraraðila, vöruþróun og nýsköpun. Á næstu árum munum við sjá hraða þróun í orkuskiptum á alþjóðamörkuðum hvort sem um ræðir í nýjum farartækjum, breytingum á eldri farartækjum eða þróun á nýjum orkugjöfum.
Ef stjórnvöld verða ekki tilbúin með bakpokann og búin að merkja gönguleiðina, leysa heimatilbúið stefnuleysi og einfalda hamlandi gullhúðað regluverk mun Ísland sitja eftir með tilheyrandi áhrifum á ímynd lands og þjóðar. Áfangastaðurinn Ísland og íslensk ferðaþjónusta hafa alla burði til að verða leiðandi í sjálfbærni á heimsvísu, en til þess þurfa stjórnvöld og atvinnulífið að vera með samstilltan áttavita. Atvinnulífið er þegar búið að sýna á spilin með þeirri vinnu sem lögð var fram með Loftslagsvegvísum atvinnulífsins. Nú er komið að stjórnvöldum að leggja spilin á borðið.
Ágúst Elvar Bjarnason
Verkefnastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
—
Greinin birtist í afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár, sem kom út með Viðskiptablaðinu 15. nóvember 2023.