Samtök ferðaþjónustunnar, Íslenski ferðaklasinn og KPMG héldu í morgun sína árlegu Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar. Málstofan var haldin í höfuðstöðvum KPMG í Borgartúni 27 og var afar vel sótt, en hún markaði jafnframt upphaf ferðaþjónustuvikunnar 2024.
Á fundinum voru kynntar niðurstöður viðhorfskönnunar sem KPMG framkvæmdi meðal ferðaþjónustufyrirtækja um áramótin, auk þess sem rætt var um mannauðsmál innan ferðaþjónustunnar og framtíð atvinnugreinarinnar. Ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir ávarpaði málstofugesti í upphafi hennar.
Tækifærin liggja í dreifingu, gæðum og öryggi
Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá KPMG kynnti niðurstöður viðhorfskönnunarinnar sem benda til þess að staða ferðaþjónustunnar sé að styrkjast eftir erfiða skuldastöðu liðinna ára. Vel virðist ganga að greiða niður þau stuðningslán sem fyrirtækin fengu í faraldrinum og flestir segja að þau sjái fram á óbreytta eða lækkandi skuldastöðu á þessu ári sem er nýhafið. Þá kemur fram að stjórnendur fyrirtækja innan ferðaþjónustunnar leggja áherslu á að ná stöðugleika í greininni en þar skipta ‚þættir eins og skattheimta, gengismál, vaxtakostnaður og komandi kjaraviðræður miklu máli. Mikil áhersla var lögð á að gerðir yrðu langtíma kjarasamningar sem myndu byggja undir stöðugleika í rekstri greinarinnar til lengri tíma.
Stjórnendur innan ferðaþjónustunnar telja helstu tækifæri greinarinnar liggja í því að stuðla að aukinni dreifingu innan landsins og milli árstíða, efla innviði og tryggja gæði og öryggi gesta. Helstu ógnir ferðaþjónustunnar til framtíðar eru hátt verðlag og aukinn rekstrarkostnaður, hætta á offjölgun ferðamanna og náttúruhamfarir á borð við jarðhræringar og eldgos.
Fræðsla í ferðaþjónustu og framtíð greinarinnar
Eyþór Ívar Jónsson forseti Akademias talaði um mikilvægi menntunar og fræðslu í ferðaþjónustu. Hann lagði áherslu á að til að koma okkur í fremstu röð og verða „heimsmeistarar í ferðaþjónustu“ yrðum við að trygga gæði menntunar og breyta viðhorfi til hennar innan greinarinnar. Akademias í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og Íslenska ferðaklasann setti nýverið á laggirnar leiðtoganám í ferðaþjónustu undir heitinu Segull.
Að lokum steig Bergur Ebbi á stokk og talaði um sjálfsmynd ferðaþjónustunnar, hver við erum og hvert við viljum fara. Hann ræddi um ferðaþjónustuna í fortíð, nútíð og framtíð, en inntak fyrirlestursins snerist um það hvernig hægt væri að sjá fyrir sér þróun ferðaþjónustunnar til framtíðar.
Samtök ferðaþjónustunnar, Íslenski ferðaklasinn og KPMG þakka þátttakendum í viðhorfskönnuninni kærlega fyrir þátttökuna og eins þeim sem mættu á fundinn eða fylgdust með honum í beinu streymi.
Allar upplýsingar um Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar 2024 má finna hér: