Á dögunum lögðu framkvæmdastjóri og starfsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar land undir fót og fóru á ITB Berlín í Þýskalandi. ITB Berlín er ein stærsta ferða- og kaupsýning í heimi, en í ár voru yfir 5500 sýnendur frá 170 löndum viðstaddir til að kynna sig og koma á viðskiptasamböndum.
Auk þess að vera ein stærsta ferðasýning í heimi er ITB jafnframt einn mikilvægasti vettvangur funda og fræðslu um þróun og nýjungar í ferðaþjónustu.
Umskipti í ferðaþjónustu rædd á ITB
Yfirskrift sýningarinnar í ár var „Brautryðjandi í umskiptum í ferðaþjónustu. Saman.” (e. „Pioneer the Transition in Travel & Tourism. Together“) og var boðið upp á fjölmarga fræðsluviðburði meðal annars í formi fyrirlestra og pallborðsumræða. Þá var boðið upp á 17 ólíkar brautir, eftir þemum, sem fólki bauðst að fylgja, þar á meðal „framtíðin“, „áfangastaðir“, „ábyrgð ferðaþjónusta“, „MICE markaðurinn“ og margt fleira. Mikla áherslu mátti sjá á notkun gervigreindar í greininni, skort á mannauði og loftlags- og sjálfbærnimál. Á Youtube rás ITB Berlín má finna gífurlegan fjölda upptaka af þeim erindum sem fram fóru og á vefsíðu ITB Berlín má finna dagskránna í heild sinni.
Ísland áberandi í Berlín
Ísland hefur um margra ára skeið tekið þátt í sýningunni með bás á sameiginlegu sýningarsvæði Norðurlandanna en Íslandsstofa hefur séð um skipulag Íslandsbássins. Í ár tóku 27 fyrirtæki og þrjár markaðsstofur þátt í Íslandsbásnum, auk sex tæknifyrirtækja sem staðsett voru í sérstakri tæknihöll á sýningarsvæðinu. Þá mátti einnig finna fulltrúa frá fjölda annarra fyrirtækja á svæðinu. Góð stemning myndaðist meðal Íslendinganna á sýningunni og heyra mátti að fundarhöld, með aðilum hvaðanæva að úr heiminum, hafi gengið með ágætum.
Nýjir og spennandi ferðamöguleikar
Gaman er að segja frá því að Icelandair og Emirates skrifuðu undir viljayfirlýsingu um samstarf á ITB Berlín. Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu flugfélögin vinna að samningi um sammerkt flug, þar sem viðskiptavinir geta ferðast á einum farmiða á milli leiðarkerfa félaganna og innritað farangur sinn alla leið á lokaáfangastað. Samstarf flugfélagana mun þannig stórauka framboð beggja félaga og verður spennandi að fylgjast með áhrifum þess á komandi árum.
„Það er mjög ánægjulegt að segja frá samstarfi við Emirates sem við vinnum nú að en það mun opna nýja og spennandi ferðamöguleika fyrir viðskiptavini okkar um Miðausturlönd og Asíu. Emirates verður sjöunda alþjóðlega samstarfsflugfélag okkar en við vinnum markvisst að því að fjölga samstarfsflugfélögum sem bæði styrkir tekjumyndun félagsins og víkkar út leiðakerfi okkar. Við leggjum áherslu á samstarf við félög sem bjóða frábæra þjónustu og spennandi tengingar sem á svo sannarlega við um Emirates,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair í frétt á FF7.is
ITB er mikilvægur vettvangur
Sýningar sem þessar eru frábært tækifæri fyrir hagsmunasamtök líkt og SAF til að sækja sér þekkingu um ýmis málefni sem varða ferðaþjónustu sem og að heyra reynslusögur frá aðilum um heim allan.
Þá er ITB Berlín einnig einstakt tækifæri til þess að styrkja tengslanet samtakanna, bæði við aðila erlendis en einnig við þá fjölmörgu íslensku ferðaþjónustuaðila sem sóttu sýninguna í ár.