Loðnan virðist ekki ætla að láta sjá sig við Íslandsstrendur í ár. Gerðir út stórir leitarflokkar með tilheyrandi kostnaði sem freistuðu þess að finna loðnutorfur, helst af öllu hrygningarloðnu – sem skapar mestu verðmætin. Ávallt er mikið fjallað um loðnubresti í fjölmiðlum, um afleiðingar þeirra á sveitarfélög, ríkissjóð, fyrirtæki og almenning. Allt er þetta eðlilegt og skiljanlegt. Við erum í grunninn sjávarútvegsþjóð og hvert mannsbarn skilur hvað gerist, þegar aflabrestur verður.
Ferðaþjónustubrestur í kortunum
Auk þess að vera sjávarútvegsþjóð, þá erum við einnig ferðaþjónustuþjóð. Ferðaþjónusta er áætluð 8,5% af landsframleiðslu árið 2023, hefur aldrei mælst hærri. Útflutningstekjur af ferðaþjónustu voru tæpir 600 milljarðar í fyrra, nærri samanlagðar útflutningstekjur af fiski og áli, auk þess sem meiri virðisauki verður eftir í landinu. Hagsmunir þjóðarbúsins af ferðaþjónustu þarfnast ekki frekari útskýringa.
Nú ber hins vegar svo við, eftir mikinn uppgang í kjölfar faraldursins, að verulegar blikur eru á lofti á árinu 2024. Verulegur samdráttur hefur mælst á fyrstu mánuðum ársins, t.d. voru gistinætur í janúar tæpum 10% færri en í fyrra.
Ástæður þessarar stöðu eru samkvæmt mati þeirra sem best til þekkja nokkrar:
Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa verið mikið til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum og fólki kann að finnast öryggi sínu ógnað með ferðalögum til Íslands eins og sakir standa.
Efnahagsumhverfið á Íslandi (þrálát verðbólga, háir stýrivextir, hár launakostnaður, háir og nýir skattar) hafa stórlaskað samkeppnishæfni Íslands, sem heldur stöðu sinni í hópi langdýrustu áfangastaða heims.
Fjarmarkaðir ná sér á strik eftir faraldur. Fjarmarkaðir, frá Evrópu séð, voru mikið lokaðir síðastliðin ár en eru nú óðum að taka við sér. Eftirspurn ferðalanga beinist nú sterklega þangað enda svipaður kostnaður að fara í ævintýraferð til Afríku og til Íslands.
Neytendamarkaðssetning fyrir ferðaþjónustu er í skötulíki. Hér stöndum við þeim áfangastöðum sem við erum að keppa við um hylli neytenda (ferðamanna) langt að baki. Stjórnvöld ákváðu í fyrra að hætta að leggja fé til neytendamarkaðssetningar á sama tíma og samkeppnisríkin juku við.
Ef svo fer fram sem horfir er ljóst að spár um fjölda ferðamanna á árinu 2024 eru í uppnámi og þar með einnig áætlanir ríkissjóðs um verðmætasköpun og skattheimtu af greininni.
Samdrátturinn gæti orðið á við nokkra loðnubresti
Ef við gefum okkur að samdráttur í fjölda ferðamanna verði 5% á þessu ári munu tekjur (raunvirði útflutnings í ferðaþjónustu) dragast saman um 25 milljarða (loðnubrestur í eitt ár) og að verg landsframleiðsla mun dragast saman um 0,6%. Auðvelt er að margfalda þessar tölur í réttu hlutfalli, verði samdrátturinn meiri.
Þessi alvarlega staða virðist liggja stjórnvöldum í léttu rúmi, þrátt fyrir t.d. 20 milljarða útgjaldaauka á ári vegna kjarasamninga, útgjöld vegna jarðhræringa á Reykjanesi og aukinn kostnað við hælilsleitendakerfið. Stjórnvöld íþyngja ferðaþjónustu frekar en hitt með aukinni skattheimtu og þrengra regluverki. Auk þess passar það illa inn í exeltöflu fjármálaráðuneytisins að styðja við ímynd áfangastaðarins Íslands og vinna gegn neikvæðum áhrifum erlendrar fjölmiðlaumfjöllunar, þótt vitað sé að fjármagn sem varið er til markaðssetningar skilar sér margfalt til baka.
Verulegur samdráttur í ferðaþjónustu mun, alveg eins og þegar loðnubrestur verður, hafa áhrif á afkomu fjölmargra Íslendinga, einstök byggðarlög og ríkissjóð. Nú er full ástæða til að snúa vörn í sókn og mæta þessari stöðu með stóraukinni markaðssetningu. Fyrirtækin láta aldrei sitt eftir liggja og nú þarf ríkið að koma hraustlega að málum.
Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
—
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins, miðvikudaginn 13. mars 2024.