Seðlabankinn birti í dag ritið Fjármálastöðugleika 2024/1. Umfjöllun um ferðaþjónustu er þar í takt við það sem SAF hafa bent á undanfarin misseri. Í ritinu segir meðal annars:
- ,,Óvissa um alþjóðlegar hagvaxtarhorfur er nokkur og mun líklega smitast yfir á innlendar útflutningsatvinnugreinar, einkum ferðaþjónustuna.”
- ,,Sterkar vísbendingar eru um að horfur í ferðaþjónustunni fyrir þetta ár hafi versnað, meðal annars vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Heldur hefur dregið úr spennu á vinnumarkaði og atvinnuleysi aukist lítillega.”
- ,,Framboð á flugi til og frá landinu á fyrstu sex mánuðum þessa árs stefnir í að verða rúmlega 14% meira en það var á sama tíma á síðasta ári. Framboðið hefur sjaldan eða aldrei verið meira. Framboð á flugi, meðal annars til stórra áfangastaða, hefur aukist töluvert, sem gæti birst í lakari sætanýtingu á næstu misserum og lægri flugfargjöldum. Það myndi hafa neikvæð áhrif á afkomu flugfélaganna. Fjórði fjórðungur síðasta árs reyndist innlendu flugfélögunum erfiður. Í nóvember felldu bæði Play og Icelandair afkomuspár sínar fyrir árið úr gildi. Samhliða birtingu á ársuppgjöri í byrjun febrúar tilkynnti Play að félagið stefndi á hlutafjárútboð.”
- ,,Mikilvægi innlendu flugfélaganna fyrir ferðaþjónustuna er verulegt en áætlað er að um helmingur ferðamanna sem koma til landsins í gegnum Keflavík fljúgi með þeim.”
- ,,Töluvert meiri óvissa en áður er um framgang ferðaþjónustunnar en hægja mun á vexti hennar í ár. Þrátt fyrir að ferðamönnum í janúar hafi fjölgað um 8% milli ára þá fækkaði gistinóttum erlendra aðila um 10% milli ára í janúar. Eldsumbrotin á Reykjanesi virðast hafa haft meiri áhrif á greinina en í fyrstu var við búist. Fréttaflutningur erlendis, einna helst í Bretlandi, ýkti stöðuna hér á landi töluvert og hræðsla myndaðist m.a. um að ekki yrði flogið til landsins.”
- ,,Aðdráttarafl Bláa lónsins er mikið og hefur óvissan í kringum lónið því áhrif á komur til landsins. Þróun á verðlagi hefur einnig áhrif og er Ísland nú orðið enn dýrari áfangastaður en áður vegna hækkunar verðlags hér á landi. Spár benda til þess að fjöldi ferðamanna verði svipaður eða örlítið meiri en í fyrra en hækkun verðlags hér á landi gæti orðið til þess að dvalartími ferðamanna styttist og þeir dragi úr neyslu hér á landi. Það myndi hafa neikvæð áhrif á greinina og birtast í lakari afkomu ferðaþjónustufyrirtækja.”
- ,,Útlán bankanna til ferðaþjónustu nema nú um 8% af heildarútlánum til viðskiptamanna og tæplega 18% af útlánum þeirra til fyrirtækja. Áfram hefur dregið úr gjaldfærðri virðisrýrnun á útlánum til ferðaþjónustu og er hlutfall virðisrýrnunar af kröfuvirði útlána nú lægra en það var fyrir heimsfaraldur eða tæp 3%. Það gefur til kynna sterkari fjárhagsstöðu ferðaþjónustufyrirtækja en áður.”
- ,,Vanskil fyrirtækja hafa lítið aukist en vanskilahlutfall fyrirtækjaútlána KMB var tæp 2,4% í lok síðasta árs og hækkaði aðeins um tíunda hluta úr prósentu á árinu. Hlutfallið mældist sem fyrr hæst hjá fyrirtækjum í gisti- og veitingarekstri, eða 4,8%, en það lækkaði um 0,8 prósentur á árinu, enda gengi ferðaþjónustufyrirtækja gott.”
Samtök ferðaþjónustunnar hafa undanfarna mánuði bent á þessa óvissu og neikvæða þróun ýmissa þátta sem lagst geti saman og orðið til þess að spár um fjölda ferðamanna og verðmætasköpun greinarinnar á árinu 2024 gangi ekki eftir. Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF fjallar m.a. um þessa óvissu í grein í Morgunblaðinu í dag og bendir á að markvissra viðbragða er þörf ef efnahagsspár og áætlanir um tekjuöflun ríkissjóðs af ferðaþjónustu eiga að standast.