Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar, sem haldinn var þann 21. mars s.l., var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma:
Ályktun aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar 2024
Samkeppnishæfar útflutningsgreinar eru grundvöllurinn að lífskjörum þjóðarinnar. Þar gegnir ferðaþjónusta lykilhlutverki, en greinin hefur umbylt efnahag þjóðarinnar á undanförnum 15 árum. Útflutningsverðmæti ferðaþjónustu voru 598 milljarðar króna á síðasta ári og greinin stóð undir 32% af heildarútflutningi vöru og þjónustu.
Mikilvægt er að stjórnvöld viðurkenni í verki mikilvægi þess að varðveita og styrkja samkeppnishæfni ferðaþjónustu og rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja.
Skattspor ferðaþjónustu var 152 milljarðar króna árið 2022, og lætur því nærri að skatttekjur af ferðaþjónustu hafi fjármagnað að fullu öll rekstrarframlög ríkisins til sjúkrahúsþjónustu og löggæslu í landinu það ár. Þegar er ljóst er að skattsporið verður hærra fyrir árið 2023.
Ef hið opinbera vill auknar tekjur af greininni í ríkiskassann ættu stjórnvöld að búa ferðaþjónustunni gott umhverfi til rekstrar, með því að auka samkeppnishæfni og einfalda regluverk, skatta og gjöld. Því miður hafa ákvarðanir stjórnvalda síðasta árið fremur einkennst af hinu gagnstæða.
Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem starfar langt fram í tímann. Fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi og skattlagningu er því grundvallaratriði varðandi bætta samkeppnishæfni greinarinnar og aukna verðmætasköpun hennar fyrir samfélagið allt. Skatta- og gjaldahækkanir með örstuttum fyrirvara, eins og þær sem stjórnvöld gerðu síðastliðið haust í tengslum við fjárlög, eru óásættanleg með öllu, valda beinum skaða á starfsumhverfi og samkeppnishæfni greinarinnar og vinna með beinum hætti gegn stefnu og markmiðum stjórnvalda sjálfra. Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna slík vinnubrögð harðlega.
Hækkun VSK á ferðaþjónustu er þjóðhagslegt óráð
Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka skatttekjur mun minna en sem nemur hækkun virðisaukaskattshlutfallsins, og meira að segja ef til vill lækka þær miðað við sem orðið hefði við óbreytt skatthlutfall.
Athugun á reynslu annarra þjóða af hliðstæðum skattahækkunum staðfesta ofangreindar niðurstöður í öllum aðalatriðum. Þær draga úr umsvifum og lækka á endanum skatttekjur hins opinbera. Greiningin sýnir að slíkar hugmyndir eru fullkomið óráð fyrir alla þjóðina, nema ef vera skyldi að ætlun stjórnvalda sé beinlínis að eyðileggja samkeppnishæfni ferðajónustu og draga úr landsframleiðslu til framtíðar.
Ef okkur Íslendingum er alvara með að efla ferðaþjónustu sem okkar helstu útflutnings-atvinnugrein og burðarstólpa í verðmætasköpun þjóðarinnar og lífskjarasókn, þá þarf samkeppnishæfni áfangastaðarins, samkeppnishæfni ferðaþjónusta, alltaf að vera leiðarstef í ákvarðanatöku stjórnvalda.