Formaður og framkvæmdastjóri SAF sóttu 88. þing HOTREC, hótel og veitingasambands Evrópu, í Búdapest í lok apríl. Á þinginu var að venju fjallað um ýmsar áskoranir sem steðja að gisti- og veitingarekstri í Evrópu, laga- og reglusetningu Evrópusambandsins á ýmsum sviðum er snerta fyrirtækjareksturinn með beinum hætti og þróun markaðarins í heild. Þá var sjónum beint að komandi kosningum til Evrópuþingsins, líklegum áherslubreytingum í kjölfar þeirra, þar sem Amaryllis Verhoeven framkvæmdastjóri ferðaþjónustu hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Miguel Sanz forseti Ferðamálastofnunar Evrópu (ETC) leiddu umræðuna.
Þróun gervigreindar og möguleikar til nýtingar tækni í gisti- og veitingageiranum
Tryggvi Freyr Elínarson frá Datera hélt erindi um það hversu hratt gervigreind er að þróast og mikilvægi þess að fyrirtæki í ferðaþjónustu taki strax að nýta gervigreind í rekstri og þjónustu. Efnistök fyrirlestursins voru á svipuðum nótum og á erindi hans á Afmælisráðstefnu SAF í nóvember, en athygli vekur hve ör þróun hefur átt sér stað á fáum mánuðum síðan þá. Fyrirlesturinn vakti mikla athygli og töluverð umræða skapaðist í kjölfarið um hvernig greinin þarf að bregðast við þróuninni og nýta hana.
Neikvæð efnahagsáhrif hækkunar virðisaukaskatts á ferðaþjónustu
Hér heima hefur orðið verulega vart við umræðu um mögulega hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Sama málefni hefur skotið upp kollinum víða í Evrópu frá lokum faraldursins og sums staðar verið hrint í framkvæmd á afmörkuðum sviðum ferðaþjónustu, t.d. í hótel og/eða veitingarekstri. Aðildarsamtök frá nokkrum Evrópuríkjum lýstu reynslunni af slíkri umræðu og breytingum, og ljóst var að þar sem VSK hafði verið hækkaður hafði það þegar leitt til neikvæðra áhrifa, bæði á atvinnugreinina og ýmsa ætti efnahagslífs viðkomandi landa. Meðal annars kom fram að eftir að VSK var hækkaður á veitingarekstur á Írlandi hefur skollið á mikil hrina gjaldþrota og lokana veitingahúsa og kráa um allt landið.
Framkvæmdastjóri SAF kynnti við þessa umræðu niðurstöður skýrslu sem Hagrannsóknir sf hafa unnið fyrir SAF, þar sem þjóðhagsmódeli með ferðaþjónustugeira sem unnið var fyrir Ferðamálastofu var beitt til að reikna út þjóðhagsleg áhrif þess að hækka VSK á ferðaþjónustu á Íslandi úr 11% í 24%. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög á einn veg: Hækkun VSK á ferðaþjónustu skilar ekki þeim skatttekjum í ríkissjóð sem búist er við og hefur aukinheldur neikvæð áhrif á landsframleiðslu og verðbólgu. Vert er að vekja athygli á því að skýrslan og niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á opnum fundi á vegum SAF á Hótel Reykjavík Natura þann 22. maí n.k.
Áhrif Evrópureglna um stafræna markaði (e. Digital Markets Act)
Sérstaklega var fjallað um regluverk Evrópusambandsins um stafræna markaði (e. Digital Markets Act) sem ætlað var að gera samkeppni á stafrænum mörkuðum eins og Google og Booking sanngjarnari og jafnari. Á þinginu kom hins vegar fram að ýmislegt bendir til þess að í framkvæmd verði löggjöfin til þess að beinum bókunum hjá gistihúsum fækki vegna breytinga á leitarniðurstöðum Google til samræmis við löggjöfina. Áhrifin séu því jafnvel öfug við það sem lagt var upp með. Nokkrir stórir stafrænir aðilar auk Google hafa verið skilgreindir sem svonefndir hliðverðir (e gatekeepers) og þurfa að hlíta sérstaklega sterkum reglum vegna yfirburðastöðu sinnar á markaðnum. Nú síðast bættist Booking.com í þann hóp, en fyrirtækið hefur nú 6 mánuði til að aðlaga starfsemi sína að regluverkinu. Þetta er mál sem getur haft veruleg áhrif á félagsmenn SAF og samtökin munu fylgjast vel með þrónuninni næstu mánuði.
Hægt er að fylgjast með helstu áherslum í starfi HOTREC á vef þeirra og við hvetjum félagsmenn SAF til að hafa samband við skrifstofuna ef spurningar vakna um málefnin eða annað er varðar alþjóðasamstarf samtakanna.