Þegar horft er til baka á árið sem nú er að kveðja, má sjá að væntingarnar til þess voru miklar. Árið 2023 hafði verið ár viðsnúnings eftir heimsfaraldurinn og að mörgu leyti verið okkur hagfellt, m.a. með stöðugu gengi íslensku krónunnar. Árið 2024 átti að verða ár vaxtar og hagsældar í greininni. Sú hefur ekki alveg orðið raunin og árið varð eins og við höfum oft áður horft upp á – fullt af áskorunum sem ekki var endilega hægt að sjá fyrir.
Blikur á lofti
Við sem rekum fyrirtækin í greininni höfum að einhverju leyti verið með vindinn í fangið allt þetta ár. Það hófst með fyrirvaralausri tvöföldun á gistináttaskattinum umfram það sem búast mátti við. Þann 14. janúar fóru myndir um heiminn þar sem hraun rann yfir byggð í Grindavík og tveimur mánuðum síðar birtist uggvænleg forsíðumynd í New York Times af Reykjavík með eldglæringarnar á Reykjanesi í bakgrunni. Í kringum ferðakaupstefnuna ITB í Berlín í marsmánuði byrjaði að skýrast sú mynd að salan gengi alls ekki eins vel og búist hafði verið við þrátt fyrir mikinn ferðavilja og mikla eftirspurn frá okkar lykilmörkuðum til okkar helstu samkeppnislanda.
Greiningar á neytendahegðun, upplýsingar frá íslensku flugfélögunum og frá leitarvélum staðfestu þessa þróun. Var það mat sérfræðinga að sú ákvörðun að hætta allri almennri markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað árið 2022 væri nú farin að bíta okkur með alvarlegum hætti. Þeir ferðaþjónustuaðilar sem það gátu, brugðust við þessari þróun. Eins og svo oft áður sýndi greinin mikla seiglu og sveigjanleika. Þegar leið á árið fór hagurinn að vænkast, þó að telji megi mjög líklegt að samdráttur í tekjum sé staðreynd þetta árið.
Kraftmikið starf hjá SAF
Starf Samtaka ferðaþjónustunnar hefur verið mjög virkt og kraftmikið á árinu. Þau eru óteljandi málin sem samtökin sinna með hagsmunagæslu ferðaþjónustunnar að leiðarljósi. Ég tók við keflinu sem formaður samtakanna í lok mars og þessir fyrstu mánuðir í nýju hlutverki hafa verið lærdómsríkir og spennandi. Stærsta verkefnið sem lá fyrir á vormánuðum var að þrýsta á stjórnvöld að fara aftur af stað með almenna markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað. Þar lögðust allir á eitt og Ferðamálastofa og Íslandsstofa lögðu mikilvæg lóð á vogarskálarnar. Skilningur á málefninu var til staðar hjá ráðherra málaflokksins, en það dugði ekki til þess að pólitísk samstaða næðist um málið. Dropinn holar steininn, þetta mál er áfram á dagskrá.
Baráttan heldur áfram
Við höfum haldið góða fundi með stjórnmálafólki og fyrirtækjum á landsbyggðinni í samvinnu við markaðsstofur landshlutanna á þessu ári. Við munum halda þessum heimsóknum áfram á næsta ári. Við stigum líka mikilvægt skref á þessu ári með því að fá landslið hagfræðinga til þess að keyra hugmyndir um hækkun VSK úr 11% í 24% á ferðaþjónustugreinarnar sem lengi hafa legið í loftinu í gegnum nýtt þjóðhagsmódel. Niðurstöðu skýrslu um VSK málið kynntum við á fundi 22. maí og fengum stjórnmálafólk til þess að tjá sig um málefnið.
Ferðaþjónustudagurinn 2024 var eftirminnilegur og lærdómsríkur þar sem um 300 gestir tóku þátt í umræðum um aðgangsstýringu í ferðaþjónustu. Erlendir fyrirlesarar gáfu okkur innsýn í þessi mál í þeirra löndum og starfsfólk úr stjórnsýslu og greininni sjálfri hittust til að ræða þessi mál.
Byggjum á staðreyndum
Við óvænt stjórnarslit og kosningar í lok ársins fór skrifstofa SAF í kosningaham og við útbjuggum aðgengileg tölugögn fyrir frambjóðendur á hlaupum. Við stigum þar inn í og leiðréttum helstu rangfærslur um ferðaþjónustuna sem lendir á stundum sem blóraböggull í orðræðu stjórnmálanna. Tölfræði og opinber gögn á einum stað um ferðaþjónustu. Við sendum þessi gögn persónulega til stjórnmálaforingja og frambjóðenda ásamt því að dreifa þeim á samfélagsmiðlum með mjög góðum árangri. Þó að ferðaþjónustan sé ekki komin úr skotlínu stjórnmálanna þá skilaði þessi upplýsingaherferð mjög góðum árangri.
Jákvæðir áfangar á liðnu ári
Ekki er hægt að kveðja árið 2024 án þess að fagna því að fyrrverandi ráðherrann okkar Lilja Alfreðsdóttir kom ferðamálastefnunni og aðgerðaráætluninni í gegnum þingið síðasta vor. Það er mikilvægt að ný ríkisstjórn geri það plagg að sínu og haldi áfram á þeirri leið sem þar hefur verið vörðuð m.a. með ómældri vinnu okkar starfsfólks og félagsmanna síðustu árin.
Þrátt fyrir að vegur ferðaþjónustunnar sé sjaldan beinn og breiður þegar til framtíðar er litið og ýmsar ógnir sem steðja að greininni, getum við horft bjartsýn fram á veginn. Grunnurinn er traustur. Við höfum síðustu ár byggt upp trausta og góða innviði á áfangastöðum um allt land og sú vinna heldur áfram. Það tókst að ljúka kjarasamningum til næstu fjögurra ára, verðbólgan er á niðurleið og friður og vonandi samstaða í nýrri ríkisstjórn eru allt saman þættir sem ættu að geta stuðlað að farsælli framtíð og verðmætasköpun í ferðaþjónustu á Íslandi.
Gæfuríkt nýtt ár
Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar og starfsfólk ásamt fjölmörgum trúnaðarmönnum úr hópi félagsmanna hafa unnið mjög gott starf á árinu. Ég þakka öllu þessu fólki fyrir einlægan áhuga á að vinna ferðaþjónustunni gagn og hlakka til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.
Fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar þakka ég kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári og óska þér og þínum gæfuríks nýs árs.
Pétur Óskarsson
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar