Hæft og vel menntað starfsfólk er lykilþáttur í velgengni ferðaþjónustufyrirtækja. Nú á fyrri hluta ársins 2025 hefst nýtt nám og raunfærnimat fyrir ferðaþjónustu, sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur unnið að síðustu ár í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar.
Allar upplýsingar um námið, raunfærnimat, einingafjölda, brautir í boði og námskrá þeirra er að finna á vef Hæfnisetursins.
- Námið er 90 einingar og skiptist í 40 eininga kjarna og 50 eininga sérsvið. Sviðin eru Móttaka gesta, Böð, lindir og lón og Veitingar. Áfangar sem fást metnir með raunfærnimati stytta námið.
- Raunfærnimat er þátttakendum að kostnaðarlausu og er í boði bæði á íslensku og ensku.
- Námið verður í boði fyrir fólk sem hefur lokið raunfærnimati. Raunfærnimat og nám er í boði stafrænt og þátttaka óháð búsetu,
- Inntökuskilyrði eru að hafa náð 23 ára aldri og hafa unnið í 3 ár í ferðaþjónustu.
Við bendum aðildarfyrirtækjum SAF sérstaklega á að hvetja starfsfólk sem uppfyllir skilyrðin til að nýta sér námið og raunfærnimatið. Áhugasamir geta skráð sig í raunfærnimat HÉR.
Mikilvægt er að skrá sig sem fyrst þar sem undirbúningur námsins er á lokastigi.
Fyrirtækjum sem hafa áhuga á að hvetja starfsfólk sitt til að nýta námið er bent á að hafa samband við Hauk Harðarson (haukur@frae.is) hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar fyrir 11. janúar 2025.