Ályktun aðalfundar SAF 2018

Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem fram fór á Radisson Blu Hótel Sögu miðvikudaginn 21. mars var samþykkt eftirfarandi ályktun:

 

Jákvætt fótspor ferðaþjónustunnar tryggt til framtíðar

Ferðaþjónusta er burðaratvinnugrein á Íslandi. Ör vöxtur hefur einkennt greinina á undanförnum árum og fyrirtæki í greininni hafa fjárfest í innviðum fyrir hundruð milljarða frá árinu 2015 til að mæta vaxandi eftirspurn. Á undanförnum misserum hefur hægt á vexti erlendra ferðamanna til landsins sem skapar svigrúm til að tryggja farsæla þróun til langs tíma. Þar skiptir sjálfbært og stöðugt rekstrarumhverfi mestu og þar gegnir samstarf við stjórnvöld lykilhlutverki. Aðalfundur SAF hvetur stjórnvöld til að:

  • Móta skýra stefnu í ferðamálum í samvinnu við atvinnugreinina með efnahags- umhverfis- og samfélagslega sjálfbærni að leiðarljósi.
  • Tryggja sjálfbært og stöðugt rekstarumhverfi greinarinnar með samkeppnishæfni hennar til langs tíma að leiðarljósi. Náttúra Íslands, menning og saga eru sérstaðan á alþjóðlegum markaði og undirstaða verðmætasköpunarinnar.
  • Nýta þau tækifæri sem eru sannarlega til staðar og tryggja að fótspor ferðaþjónustunnar þróist á jákvæðan hátt með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

Ráðast þarf nú þegar í uppbyggingu á samgönguinnviðum

Viðhald og uppbygging á samgöngukerfi Íslands, mælt í hlutfalli af VLF hefur verið í sögulegu lágmarki um árabil hvort sem um er að ræða flug- eða vegsamgöngur. Ríkissjóður stendur í mikilli skuld við samgöngukerfið sem löngu er komið á gjalddaga. Nýjar hagspár sýna að nú hægir á hagvexti hér á landi sem skapar tækifæri til að ráðast nú þegar í viðgerðir og framkvæmdir á samgönguinnviðum til að mæta nútímakröfum um öryggi og aðgengi. Samgöngur eru lífæð ferðaþjónustunnar en á sama tíma og ferðaþjónustan styður svo um munar jákvæða byggðaþróun um landið stendur þróun hennar og fellur með innviðauppbyggingu næstu misserin.  Þá er einnig nauðsynlegt er að fá niðurstöðu í framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar á suðvesturhorninu. Aðalfundur SAF krefst þess að fjármagn til samgöngumála verði stóraukið auk þess að mótuð verði skýr stefna um uppbyggingu, almenningi og atvinnulífi til hagsbóta.

Aðalfundur SAF kallar eftir samtali við stjórnvöld um heildrænt skipulag gjaldtökumála ferðamannastaða

Aðalfundur SAF leggur áherslu á við stjórnvöld, sem eigendur helstu ferðamannastaða, að horft sé til samræmingar, heildaráhrifa og samkeppnishæfni við ákvörðun á gjaldtöku mismunandi svæða. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að samtal og samstarf sé leiðarstefið í nálgun nýrrar ríkisstjórnar þegar kemur að langtímastefnumörkun og gjaldtökumálum í ferðaþjónustunni. Aðalfundur SAF fagnar þessum áherslum og telja félagsmenn að leið sem byggir á samvinnu og gagnkvæmu trausti sé vænlegust til árangurs. Aðlögun, fyrirvari, samræming, sanngirni og aðlögun eiga að vera grunnstefið í slíkri vinnu.

Tryggja þarf samkeppnishæfni áfangastaðarins Íslands

Engum dylst að ferðaþjónustan hefur verið helsti drifkraftur í íslensku efnahagslífi á umliðnum árum. Greinin hefur skapað gríðarlegar nettó tekjur fyrir ríki og sveitarfélög og á stóran þátt í þeirri velsæld sem ríkir á Íslandi í dag. Það hefur verið áætlað að um 50% hagvaxtar frá árinu 2010 sé tilkominn vegna ferðaþjónustunnar, með beinum eða óbeinum hætti. Áframhaldandi vöxtur í ferðaþjónustu er ekki sjálfgefinn, ekki síst vegna þess að Ísland er í vaxandi samkeppni við aðra áfangastaði.

Áform fyrri ríkisstjórnar um VSK hækkanir í ferðaþjónustu hafa nú verið lagðar til hliðar. Það er krafa greinarinnar að stjórnvöld vinni í samráði við greinina að því skattaumhverfi sem tryggir og eflir samkeppnishæfni áfangastaðarins Íslands.  Stjórnvöld líti á farþegaflutning ferðamanna með heildstæðum hætti og samræmi skattlagningu.

Aðalfundur SAF hvetur stjórnvöld og sveitarfélög til að bregðast við ólöglegri starfsemi skuggahagkerfis í skjóli deilihagkerfis

Umfang skuggahagkerfisins í gistingu hefur aukist mikið síðustu ár. Þróun í sömu átt er einnig að eiga sér stað í öðrum greinum ferðaþjónustu. Það er því ljóst að ríki og sveitarfélög eru að verða af miklum fjármunum á hverju ári í töpuðum skatttekjum á sama tíma og samkeppnishæfni þessarar tegundar gistingar vex af sömu ástæðu.   Stjórnvöld hafa ekki náð tökum á gjaldtöku af óskráðri og ólöglegri heimagistingu og tryggt sanngjarnt samkeppnisumhverfi og því ítreka samtökin andstöðu sína gegn innheimtu gistináttagjalds Aðalfundur SAF skorar á stjórnvöld að takast á við skuggahagkerfið með eftirfarandi hætti:

  • Að ríki og sveitarfélög taki höndum saman og taki markviss skref til að koma í veg fyrir skattaundanskot.
  • Að sveitafélög skilgreini umfang íbúðagistingar m.t.t. félagslegra þolmarka.
  • Að bókunarfyrirtækjum verði gert skylt að skila frekari gögnum og upplýsingum um umfang starfsemi sinnar. Þannig eykst skilvirkni kerfisins til muna.
  • Að ríki og sveitarfélög geri gangskör í því að fá aðila sem reka gististarfsemi í íbúðum til að skila inn gögnum í samræmi við lög.


Aðalfundur SAF gerir þá kröfu á stjórnvöld og sveitarfélög að þau tryggi að erlendir ferðaþjónustuaðilar sem starfa hér á landi uppfylli sömu skilyrði og þeir innlendu hvað varðar leyfisskyldu og skil á sköttum og skyldum

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart þeim erlendu er mjög skökk, hvað varðar laun, réttindi starfsmanna og skattaumhverfi. Samtökin hafa bent á að síðastliðin ár voru hér á landi tugir erlendra ferðaþjónustuaðila sem seldu hér þjónustu án þess að vera á skrá eða greiddu skatta eða laun samkvæmt kjarasamningum, fóru eftir vinnulöggjöf, skráningarskyldu, virðisaukaskattsreglum og öðrum slíkum atriðum.  Þekkt er að á landinu voru allt að 30 hópbifreiðar þar sem óvíst er með aukin ökuréttindi, hvíldartíma bílstjóra og aðrar lögbundnar skyldur.

Ef ekki verður brugðist við má búast við að starfsemi erlendra aðila muni vaxa enn ásmegin með tilheyrandi áhrifum á íslenskan vinnumarkað.

Það er sjálfsögð krafa að erlendum aðilum sem starfa hér á landi sé gert skylt að hlíta sömu skilyrðum t.a.m. um leyfisskyldu og  innlendum aðilum hvort sem um fyrirtæki eða einstaklinga er að ræða. Þá þarf að gera eftirlitsaðilum kleift að samræma sín störf og auka þannig skilvirkni kerfisins og veita þeim refsiheimildir.

Landsáætlun til uppbyggingar innviða þarf að fylgja fjármagn

Um leið og aðalfundur SAF fagnar gerð landsáætlunar til uppbyggingar innviða ferðaþjónustunnar er gerð krafa um að áætluninni fylgi fjármagn úr fjárlögum. Að mati fundarins er landsáætlunin leiðin til að horfa heildrænt á stöðuna á sama tíma og tryggð er samræmd uppbygging með sjálfbærni og heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Þjóðgarðastofnun og miðhálendisþjógarður

Samtökin fagna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að unnið verði að stofnun miðhálendisþjóðgarðs svo lengi sem skipulag þjóðgarðsins taki mið af þörfum ferðaþjónustunnar. Þjóðgarður getur styrkt ímynd Íslands sem land náttúruverndar og gæti verið til hags fyrir náttúru svæðisins ásamt því að stuðla að heildrænni og skynsamlegri nýtingu m.a. til útivistar og ferðamennsku sem byggir á sjálfbærri atvinnuþróun. Á sama tíma hvetur aðalfundur SAF stjórnvöld til að vinna að skilvirkara stjórnkerfi er snýr að umsjón þjóðgarða, verndaðra svæða, þjóðlendna og almennrar náttúruverndar, með aðkomu ferðaþjónustunnar hvert svo sem form stjórnskipulagsins verður.

Menntun skiptir máli

Mikilvægt er að auka enn hæfni starfsfólks, bæði til að stuðla að aukinni starfsánægju, gæðum og arðsemi í greininni. Stjórnvöld verða að tryggja til framtíðar menntaumhverfi ferðaþjónustunnar með sérstakri áherslu á þrepaskipt starfsnám. Nauðsynlegt er að laga nám að þörfum atvinnulífs og huga sérstaklega að tengingu milli skólakerfa. Þá er mikilvægt að skýr hæfnistefna til framtíðar verði mótuð af stjórnvöldum, atvinnulífi og skólakerfi saman til að mæta breyttu starfsumhverfi, m.a. örum tæknibreytingum.

Bílaleigubílar verði skattlagðir til samræmis við önnur atvinnutæki

Nauðsynlegt er að bílaleigubíllinn fái réttmætan sess sem atvinnutæki og verði skattlagður í samræmi við það. Slíkt opnar á útflutning notaðra bílaleigubíla til samræmis við önnur atvinnutæki. Skilvirkni á bílamarkaði mun aukast og flýta fyrir orkuskiptum og þar með styðja við skuldbindingar ríkisins samkvæmt Parísarsáttmálanum.

 

Ákvarðanir verða að byggja á staðreyndum

Framlag til rannsókna í ferðaþjónustu er engan veginn í samræmi við umfang hennar eða í takt við það sem lagt er til annarra undirstöðuatvinnugreina og upplýsingar um greinina hér á landi eru óviðunandi. Vegna skorts á rannsóknum og mælingum hefur umræða um flest málefni tengd henni iðulega grundvallast á tilfinningalegum rökum frekar en staðreyndum. Slíkt er ekki ásættanlegt. Aðalfundur SAF kallar eftir að frekari reglubundnar rannsóknir og hagskýrslur á sviði ferðamála verði gerðar lögbundnar. Það er krafa aðalfundarins að rannsóknir og hagskýrslur um atvinnugreinina í heild sinni liggi fyrir með reglubundnum hætti rétt eins og á við um aðrar undirstöðuatvinnugreinar.

Nálgast þarf viðfangsefnin heildstætt

Aðalfundur SAF væntir mikils af samstarfi stjórnvalda og sveitafélaga við þau viðfangsefni sem framundan eru varðandi málefni ferðaþjónustunnar. Ríkisfjármálin þurfa í auknum mæli að taka mið af þeim viðfangsefnum sem treysta innviði greinarinnar og þannig sjálfbærni hennar til langrar framtíðar. Slíkar fjárfestingar skila sér í aukinni hagsæld þjóðar. Nálgast þarf viðfangsefnin heildstætt með góðri samvinnu og samstilltu átaki. Það er grundvöllur úrlausna flókinna viðfangsefna og farsældar í íslenskri ferðaþjónustu.


Samþykkt á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar þann 21. mars 2018.