Ásgeir Baldurs Forstjóri Arctic Adventures
Ég er 51 árs og bý í Kópavogi, á konu og tvö börn. Ég lærði markaðsfræði í Bandaríkjunum og MBA frá Háskóla Íslands. Ég spilaði fótbolta með Breiðablik og Völsungi og bjó á Húsavík í 5 ár þegar hvalaskoðunarævintýrið var að byrja á Íslandi. Ég er einnig formaður Breiðabliks sem er eitt stærsta íþróttafélag landsins.
Hvaða reynslu af störfum í ferðaþjónustu eða SAF kemur þú með inn í stjórnina?
Ég er nýkominn til starfa hjá Arctic Adventures, hef áður starfað í fjármála- og tryggingageiranum auk þess að sinna ráðgjafastörfum. Ég hef setið stjórnum fyrirtækja bæði hérlendis og erlendis, meðal annars í ferðaþjónustu og var ég um tíma í stjórn Icelandair og sat í stjórn Hótels Klausturs. Ég tel að fjölþætt reynsla mín af úr atvinnulífinu nýtist vel og ég geti komið með dálítið annað sjónarhorn inn í stjórnina, sem gæti verið gagnlegt.
Hvað eru Samtök ferðaþjónustunnar fyrir þér? Hvernig metur þú stöðu þeirra í dag?
Síðan ég hóf störf í ferðaþjónustunni þá hef ég fylgst með starfi Samtaka ferðaþjónustunnar og verið mjög hrifinn af því góða starfi sem þar er unnið. Að mínu mati er mikilvægasta verkefni samtakanna er að beita sér fyrir bættu starfsumhverfi í ferðaþjónustunni og að stuðla að aukinni fagmennsku í greininni. Einnig er nauðsynlegt að leggja áherslu á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt samfélag með því að greina reglulega frá skattspori og einnig að horfa til þess hvaða áhrif ferðaþjónustan hefur almennt á lífskjör í landinu.
Hvað leggur þú höfuðáherslu á í starfi samtakanna? Er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að bæta eða breyta?
Ferðaþjónustan er tiltölulega ung atvinnugrein og hefur ekki alltaf verið tekin nógu alvarlega og verið rætt um að ferðaþjónustan skapi ekki mikil verðmæti. Þessu þarf að breyta og leggja þarf áherslu á að stjórnvöld hlúi að ferðaþjónustunni og skapi góðar aðstæður þannig að hægt sé að byggja upp faglega og arðbæra atvinnugrein.