Covid-19 – fréttir frá árinu 2020

Miðvikudagurinn 23. desember:

Skatturinn opnar fyrir umsóknir um tekjufallsstyrki fyrir 10. janúar

Gert er ráð fyrir því að móttaka á umsóknum um tekjufallsstyrki hefjist fyrir 10. janúar n.k. en umsóknarfrestur er til 1. maí 2021. Ef umsókn er fullnægjandi á afgreiðsla hennar einungis að taka örfáa daga jafnvel þótt Skatturinn hafi tvo mánuði til þess. Þetta kemur fram í upplýsingapósti frá Skattinum sem barst í dag.

Einnig kemur fram að afgreiðsla á lokunarstyrkjum er í fullum gangi og búið að greiða út um 718 milljónir kr. til 294 rekstraraðila. Miðað við stöðuna síðdegis í gær voru nánast allar fullbúnar umsóknir afgreiddar en töluverður fjöldi umsækjenda átti eftir að ljúka við sína umsókn með undirritun.

Skatturinn bendir á eftirfarandi atriði sem hefur stöðvar umsóknir um lokunarstyrki þar sem stöðugildi hefur ekki verið fyrir hendi í kerfinu. SAF bendir rekstraraðilum á að sambærilegur grunnur er fyrir umsóknum um tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki – þ.e. að stöðugildi þarf að vera fyrir hendi. Því er rétt að rekstraraðilar sem sambærilegar aðstæður og lýst er hér að neðan gildir um athugi hvort um sambærilegt vandamál getur verið að ræða ef umsókn um tekjufallsstyrk stöðvast þegar þar að kemur.

Eitthvað hefur verið um það að þeim sem ekki reiknuðu sér nein laun fyrir október mánuð hefur verið neitað um lokunarstyrk strax í upphafi á útfyllingu umsóknar. Þetta hafa t.d. verið hárgreiðslufólk sem sótti um og fékk atvinnuleysisbætur á meðan á lokun stóð og skilaði ekki staðgreiðslu fyrir umræddan mánuð vegna sjálfs síns (mest einyrkjar). Búið er að leiðbeina þeim sem hafa haft samband með það að reikna sér endurgjald vegna fyrstu dagana í október og senda inn staðgreiðsluskilagrein vegna þess. Eftir að sú skilagrein er komin getur viðkomandi sótt um lokunarstyrk því þá er kominn starfsmaður í október – en þar lá hundurinn grafinn – það verður að vera eitthvað stöðugildi fyrir hendi til þess að styrkur reiknist yfir höfuð.


Mánudagurinn 14. desember:

Fyrirtæki geta sótt um aukinn staðfreiðslufrest fyrir 15. janúar

Launagreiðendur sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli á árinu 2020 geta óskað eftir auknum fresti til að standa skil á staðgreiðslu skatta af launum og tryggingagjalds fram á næsta sumar.

Síðastliðið vor var fyrirtækjum heimilað að óska eftir fresti á greiðslu afdreginnar staðgreiðslu og tryggingagjalds sem að öðrum kosti féllu í gjalddaga á tímabilinu 1. apríl til 1. desember 2020.

Bent er á að fyrirtæki geta óskað eftir auknum fresti og greiðsludreifingu hjá Skattinum fyrir 15. janúar n.k.

Sé fresturinn samþykktur verður greiðslum dreift á mánuðina júní, júlí og ágúst 2021.


Þriðjudagurinn 8. desember:

Veitingastöðum heimilt að taka á móti 15 viðskiptavinum í rými. Opnunartími til 22:00

Samkvæmt breytingum á sóttvarnarráðstöfunum sem heilbrigðisráðherra kynnti í dag og taka gildi 10. desember verður veitingarstöðum heimilt að taka á móti 15 viðskiptavinum í rými. Eins verður þá heimilt að hafa opið til kl. 22.00 en ekki má taka á móti nýjum viðskiptavinum eftir klukkan. 21.00.  Þegar talað er um rými í þessu samhengi er átt við svokölluð sóttvarnarrými. Hér fyrir neðan er útlistun á þessum sóttvarnarrýmum og leiðbeiningar fyrir veitingarstaði vegna hámarksfjölda og nálægðartakmarkanna:

 • Hver matsalur er eitt sóttvarnarrými en hægt er að skipta matsalnum upp í fleiri rými:
  • Rými þurfa að vera aðskilinn með a.m.k 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem má ekki fara yfir. Einnig má skipta matsal þannig að alltaf séu auð borð í röð sem skipta salnum og þannig til sóttvarnarrými
  • Eitt salerni þarf að vera sérmerkt fyrir hvert og eitt sóttvarnarrými.
  • Enginn samgangur á að vera á milli rýma. Þ.e.a.s. hver þjónn má eingöngu þjónusta eitt rými.
  • Halda skal tveggja metra reglu milli borða/hópa innan hvers rýmis.
 • Einstaklingar eiga virða 2 metra nálægðartakmarkanir milli ótengdra einstaklinga.
 • Starfsfólk bera að vera með grímu sem og gestir nema þegar þeir sitja til borðs.
 • Rekstraraðila ber að þrífa og sótthreinsa sameiginleg rými og snertifleti a.m.k. tvisvar á dag.
 • Auðvelt og áberandi aðgengi að handþvottaraðstöðu og/eða handspritti þarf að vera til staðar.
 • Takmarka þarf samneyti milli aðskildra hópa.
 • Tryggja þarf að ekki myndist örtröð í forstofu eða við inngang.
 • Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin tveggja metra reglu og grímuskyldu.

Nánari leiðbeiningar um rými utanhúss og innandyra vegna Covid-19 má finna hér: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item42262/Leidbeiningar%20fyrir%20holfaskiptingu%20utanhuss%20og%20innanhuss%207.9.2020.pdf

Nánari leiðbeiningar til veitinga- og gististaða vegna hámarksfjölda og nálægðartakmarkanna má hér: https://www.ferdamalastofa.is/static/files/ferdamalastofa/covid-19/31okt/leidbeiningar-fyrir-veitinga-og-gististadi-covid-31.10.2020.pdf

ATH. Það á eftir að uppfæra leiðbeiningarnar miðað við nýjustu breytingar


Föstudagurinn 4. desember:

Opnað fyrir umsóknir um lokunarstyrki hjá Skattinum

Skatturinn hefur opnað fyrir móttöku á umsóknum um lokunarstyrki sem gilda vegna stöðvunar á starfsemi frá og með 18. september, sbr. breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 38/2020 með lögum nr. 119/2020.  

Allir þeir rekstraraðilar sem var gert skylt að stöðva starfsemi sína í sóttvarnarskyni samkvæmt ákvörðunum heilbrigðisráðherra vegna COVID-19 geta sótt um lokunarstyrk, sem nefndur er lokunarstyrkur 3, jafnvel þótt lokunartímabil sé ekki liðið í einhverjum tilvikum. Það tímabil sem styrkur reiknast fyrir er frá 18. september til og með 17. nóvember 2020, en innan þess tímabils eru margar útgáfur af lokunum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Styrkumsóknir vegna tímabila eftir 17. nóvember verða auglýstar síðar.

Ítarlegar leiðbeiningar eru á www.skatturinn.is sem gott er að kynna sér áður en hafist er handa við að fylla út umsóknina. Umsókn má nálgast á þjónustusíðu umsækjenda á www.skattur.is (eigin þjónustusíðu ef um er að ræða sjálfstætt starfandi einstakling en prókúruhafa ef um er að ræða lögaðila og þaðan inn í þjónustusíðu viðkomandi félags).

Áætlað er að opna fyrir umsóknir um tekjufallsstyrki 15.-17. desember

Skv. upplýsingum frá Skattinum er jafnframt unnið að gerð umsóknar um tekjufallsstyrki. Breytingar á þeim lögum sem um þá gilda, nr. 118/2020, eru í farvatninu, sbr. þskj. 431 – 5. mál. Vonast er til að móttaka á umsóknum geti hafist á bilinu 15. – 17. desember n.k. en það verður auglýst vendilega þegar þar að kemur. Afgreiðsla á þeim umsóknum á ekki að taka langan tíma séu þær vel úr garði gerðar, segir í upplýsingapósti frá Skattinum.


Miðvikudagurinn 25. nóvember:

Ríkisstjórnin kynnir viðspyrnustyrki til fyrirtækja o.fl. aðgerðir

Í gær 24. nóvember 2020 var frumvarp til laga um viðspyrnustyrki birt á vef Alþingis. Sjá hér. https://www.althingi.is/altext/pdf/151/s/0390.pdf

Að mörgu leyti er frumvarpið mjög líkt lögunum um tekjufallsstyrkina.

Frumvarpið gildir um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í frumvarpinu er lagt til að rekstraraðili geti fengið viðspyrnustyrk úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá og með nóvember 2020 til og með maí 2021 að uppfylltum fjórum skilyrðum.

Markmið frumvarpsins er að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli, vegna heimsfaraldursins og aðgerða stjórnvalda til að verjast heimsfaraldrinum, geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

Nánar er fjallað um grundvallarþætti frumvarpsins í frétt á vef SAF hér:
https://www.saf.is/2020/11/25/frumvarp-um-vidspyrnustyrki-birt-a-vef-althingis/


Föstudagurinn 20. nóvember:

Ríkisstjórnin kynnir viðspyrnustyrki til fyrirtækja o.fl. aðgerðir

Ríkisstjórnin kynnti í dag viðspyrnustyrki til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.   

Rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir a.m.k. 60% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 31. maí 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði í mánuðinum. Áskilið er að tekjufallið stafi af heimsfaraldri kórónuveiru eða aðgerða stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar.

Tvö viðmið um tekjufall eru notuð til grundvallar útreiknings styrkfjárhæðar:

1. 60-80% tekjufall: 400 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2 milljónir króna á mánuði (samtals 14 milljónir fyrir 7 mánaða tímabil).

2. 80-100% tekjufall: 500 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2,5 milljónir króna á mánuði (samtals 17,5 milljónir fyrir 7 mánaða tímabil).

Fjárhæð viðspyrnustyrks skal vera að hámarki 90% af rekstrarkostnaði, þó aldrei hærri en sem nemur tekjufallinu á viðkomandi tímabili.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að fjármálaráðherra benti á það í kynningunni í Hörpu í dag að viðmiðunartímabil viðspyrnustyrkja verði sami mánuður árið 2019, þ.e. að hægt verður að sækja um styrk fyrir einn mánuð í einu [og miðast útreikningur styrkfjárhæðar þá við fjölda stöðugilda í sama mánuði árið 2019. Þessi útfærsla gerir það að verkum að hlutabótaleið og uppsagnir hafa ekki áhrif á útreikning fjárhæðar viðspyrnustyrks.] Bíða verður niðurstöðu Alþingis um þetta útfærsluatriði.

Til að koma til móts við þá einyrkja og minni rekstraraðila sem höfðu lítinn sem engan rekstrarkostnað á tímabilinu vegna þess að starfsemin var í lágmarki vegna faraldursins er heimilað að miða rekstrarkostnað við reiknað endurgjald í sama almanaksmánuði í skattframtali vegna rekstrarársins 2019.

Til að hljóta styrk þurfa umsækjendur að auki að uppfylla öll önnur skilyrði frumvarpsins, svo sem um skattskyldu á Íslandi, tekjur að lágmarki 500 þúsund krónur frá 1. janúar 2020 til loka október 2020, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til skattsins og um að hafa ekki verið teknir til slita eða gjaldþrotaskipta. Líkt og gildir um lokunarstyrki og tekjufallsstyrki er lagt til að bæði umsóknar og ákvörðunarferli verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin Skattinum. Jafnframt að ákvarðanir hans sæti kæru til yfirskattsnefndar.

Þá voru kynntar ýmsar félagslegar aðgerðir bæði almennar og sértækar.

Óbreytt fyrirkomulag sóttvarna á landamærum til 1. febrúar

Sóttvarnaráðstöfunum á landamærum Íslands verður fram haldið í óbreyttri mynd þar til 1. febrúar á næsta ári. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Þar var ennfremur tekin sú ákvörðun að frá og með 10. desember verði vottorð um að fólk hafi fengið COVID-19 og að sýking sé afstaðin tekin gild og veiti undanþágu frá þeim kröfum sem annars eru gerðar. Næsta ákvörðun um fyrirkomulag á landamærum verður tekin eigi síðar en 15. janúar.  

Ákvörðunin byggir m.a. á minnisblaði vinnuhóps heilbrigðisráðuneytisins um viðurkenningu vottorða og efnahagslegu mati starfshóps fjármála- og efnahagsráðuneytisins á tillögum að breyttum aðgerðum á landamærum.

Farþegar geta samkvæmt þessu áfram valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins.


Þriðjudagurinn 17. nóvember:

Sýnataka á landamærum gjaldfrjáls tímabundið

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að sýnataka á landamærum verði gjaldfrjáls frá 1. desember næstkomandi til 31. janúar 2021. Ákvörðunin er tekin í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Markmiðið er að hvetja fólk til að fara í sýnatöku fremur en að fara í sóttkví og draga þannig úr líkum á að smit berist inn í landið.


Miðvikudagurinn 11. nóvember:

Tekjufallsstyrkir – reiknivél og helstu atriði

Hinn 5. nóvember 2020 voru samþykkt lög um tekjufallsstyrki á Alþingi. Úrræðið er ætlað fyrir einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Markmið laganna er að með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og viðhalda atvinnustigi.

Orðskýringar og skilyrði laganna

Í 3. gr. laganna er atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, launamaður, rekstraraðili, rekstrarkostnaður, stöðugildi og tekjur skilgreind.

Skilyrðin fyrir tekjufallsstyrk eru í fjórðu grein laganna. Þar kemur fram að rekstraraðili þarf að uppfylla þrjú skilyrði. Hann þarf að hafa orðið fyrir tekjufalli, sé ekki í vanskilum með opinberum gjöld fyrir árið 2019 og bú hans hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Tekjufallið

Tekjufallið verður að vera a.m.k. 40% á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 borið saman við sama sjö mánaða tímabil 2019 og að tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans, eins og t.d. að miða við meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili á árinu 2019.

Tekjufall fyrir þá sem hófu rekstur eftir apríl 2019

Í fyrsta tölulið 4. gr. laganna kemur fram að ef starfsemin hófst eftir 1. aprí 2019, skal rekstaraðili bera tekjur saman milli ára, fyrstu sjö heilu almanaksmánuði eftir að rekstur hófst. Ef rekstaraðili hefur starfað skemur en sjö mánuði í lok mars 2020 skal taka mið af meðaltekjum á dag og umreikna upp í 214 daga (7 mánuði). Sérstakar reglur er um útreikning þeirra aðila sem hófu starfsemi á tímabilinu apríl til ágúst. Sjá bráðabirgðaákvæðin.

Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1.–3. málsl.

Umsókn

Umsóknir um tekjufallsstyrk skal beint til Skattsins fyrir 1. maí 2021. Sótt er um rafrænt. Samkvæmt tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu verður hægt að sækja um tekjufallsstyrkina um næstu mánaðarmót.

Fyrir hverja og fjárhæð styrksins

Í 5. gr. laganna þá kemur fram hver fjárhæð tekjufallsstyrksins skuli vera. Styrkurinn getur mest verið jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Lögin mæla þó fyrir að hann geti aldrei orði hærri en ákveðið hámark.

A. Hámark miðað við 40% til 70% tekjufall á tímabilinu.

 • Hámarkið er 400 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi. Stöðugildi er starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð. Það miðast við meðalfjölda stöðugilda á mánuði á tímabilinu sem um ræðir (1. apríl til 31. október).
 • Gert ráð fyrir að styrkur verði ákvarðaður fyrir tímabilið 1. apríl til 31. október í heild. Fjárhæð styrksins er því miðuð við meðalfjölda stöðugilda á tímabilinu en ekki fjölda stöðugilda í hverjum mánuði. Dæmi: Ef fyrirtæki er með tíu starfsmenn í 50% starfi á tímabilinu þá er fyrirtækið með 5 stöðugildi yfir tímabilið.
 • Hámarksfjárhæð fyrir þessi fyrirtæki eru 2 milljónir kr. á mánuði eða 14 milljónir fyrir tímabilið í heild.

B. 70% eða meira tekjufall á tímabilinu.

 • Hámark 500 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi. Fundið með sama hætti og í dæmi A.
 • Hámarks fjárhæð getur aldrei orðið hærri en 2,5 milljónir kr. á mánuði eða 17,5 milljónir kr fyrir tímabilið í heild.

Frádráttur

Rekstraraðili þarf að draga stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 frá rekstrarkostnaði. Lokunarstyrkir dragast frá tekjum og mögulegum tekjufallsstyrk. Tekjufallsstyrkurinn telst til skattskyldra tekna samkvæmt tekjuskattslögum.

Allir geta sótt um

Ef forsendur um tekjufall og rekstrarkostnað halda þá geta sennilega öll fyrirtæki með hærri tekjur en rúmlega 58 milljónir kr. fengið 14 milljónir kr. styrk. Ef forsendur um tekjufall og rekstrarkostnað halda þá geta öll fyrir með hærri tekjur en rúmlega 85 milljónir kr. fengið 17 milljónir kr. styrk.

Reiknivél SAF

Hér fyrir neðan er reiknivél SAF. Þar geta félagsmenn sett inn sínar forsendur. Stöðugildi, rekstrarkostnaður, tekjur, lokunarstyrk og uppsagnarstyrk til að þess að sjá hvað þeir geta mögulega fengið í tekjufallsstyrk.


Mánudagurinn 2. nóvember:

Hlutabótaleið framlengd um allt að 6 mánuði

Félags- og barnamálaráðherra hefur sett af stað vinnu við að framlengja hlutabótaleiðina um allt að sex mánuði til viðbótar. Áður var hlutabótaleið í gildi til 31. desember 2020 en miðað er við að hún verði virk til 1. júní 2021.

Þá hefur verið ákveðið að rýmka skilyrði til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði þannig að úrræðið grípi líka þá sem misstu vinnu í upphafi Covid-19 faraldursins en voru með styttri uppsagnarfrest en þrjá mánuði.


Föstudagurinn 30. október:

Ríkisstjórn kynnir áform um lokunarstyrki, tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki til fyrirtækja

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að grípa til frekari efnahagsaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins. Er þar annars vegar um að ræða tillögur að útvíkkun tekjufallsstyrkja, en frumvarp um þá er þegar til meðferðar á Alþingi, og hins vegar nýtt úrræði, viðspyrnustyrki, sem ætlað er að styðja við rekstur fyrirtækja á komandi mánuðum.

Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja til við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að gerðar verði breytingar til útvíkkunar á frumvarpi um tekjufallsstyrki þannig að úrræðið nái til fleiri rekstraraðila og gildi í lengri tíma. Tekjufallsstyrkir eru hugsaðir til að styðja við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins frá vori til nóvembermánaðar (1. apríl – 31. október). 

Dæmi um styrkveitingar miðað við framangreindar breytingar er að finna í frétt á vef stjórnarráðsins.


Föstudagurinn 16. október:

Tekjufallsstyrkir samþykktir í ríkisstjórn

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fyrir Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Frumvarpinu er ætlað að aðstoða einyrkja og litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi og er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna faraldursins og leggja grunn fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

Ekki hluti af þeim aðgerðum sem þegar hafa verið kynntar!

Rétt er að geta þess að þetta er ekki hluti að þeim aðgerðum sem voru kynntar 29. september sl. sem hluti að aðgerðum stjórnvalda í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamningsins:

Stjórnvöld eiga eftir að kynna og útfæra fjárstuðning við rekstaraaðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins.

Tekjufallsstyrkir ætlaðir minni aðilum í rekstri

Tekjufallsstyrkjum er m.a. ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri.

Styrkirnir munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geta þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á tímabilinu.

Tekjufallsstyrkir eru hluti af viðamiklum ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur gripið til vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Meðal aðgerða sem þegar hafa komið til framkvæmda eru greiðsla atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli, lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta, greiðslur vegna launa einstaklinga á uppsagnarfresti, frestun á skattgreiðslum, veiting lokunarstyrkja auk brúar- og stuðningslána.

Helstu skilyrði þess að rekstraraðili geti sótt um tekjufallsstyrk:

 • Hann hafi orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020.
 • Að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila.
 • Umsækjendur þurfa að auki að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun Skatturinn sjá um afgreiðslu tekjufallsstyrkja.


Fimmtudagurinn 15. október:

Fella þarf niður fasteignaskatta á fyrirtæki í ferðaþjónustu

Í síðustu viku og í byrjun þessarar sendu Samtök ferðaþjónustunnar og fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu bréf á öll landshlutasamtök sveitarfélaganna og borgarráð þar sem beðið var um niðurfellingu á fasteignagjöldum fyrir fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu. Samband íslenskra sveitarfélaga fékk einnig afrit af bréfinu.

SAF benda á að heimsfaraldur Covid-19 og sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna. Stjórnvöld og sveitarfélög þurfa að styðja við bakið á atvinnurekendum og launþegum. Aðgerðirnar þurfa að tryggja að atvinnulífið sé í stakk búið til þess að taka kröftuglega við sér þegar heimsfaraldurinn fer að réna og viðspyrnan hefst.

Samtökin bentu á að fastkostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu þurfi að lækka. Því þarf að fella niður eða fresta greiðslum fasteignagjalda.

Í bréfinu segir m.a.:

Til þess að atvinnurekendur sem reka ferðaþjónustufyrirtæki nái vopnum sínum á ný til þess að leiða viðspyrnuna þegar kemur að verðmætasköpun í atvinnugreininni þá þurfa að vera til staðar ferðaþjónustufyrirtæki.
Í fjárlagafrumvarpinu segir m.a.:

„Efnahagsbatinn í spánni er einkum drifinn áfram af vexti í útfluttri ferðaþjónustu, einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu eftir áfall yfirstandandi árs. Á móti vegur aukinn innflutningur. Gert er ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi úr um 500.000 árið 2020 í rúm 900.000 árið 2021 og að það eigi stærstan þátt í að valda því að þjónustuútflutningur vaxi um þriðjung.“

Forsendur fjárlaga byggja því á að hér verði ferðaþjónusta til að taka á móti gestum.

Tekjulaus ferðaþjónustufyrirtæki til lengri tíma enda í bankakerfinu og fyrirtæki í bankakerfinu skapa engin verðmæti. Til þess að tekjulaus ferðaþjónustufyrirtæki geti staðið af sér núverandi ástand þá þarf núverandi fastkostnaður að minnka. Ein leið til þess að lækka fastkostnað fyrirtækja í ferðaþjónustu er að fella niður fasteignaskatt á þau.

Sveitarfélögin þurfa því að koma til móts við rekstaraðila í ferðaþjónustu og fella niður fasteignagjöld fyrir árið 2020. Sveitarfélögin þurfa að standa með atvinnugreininni í kreppu til að þau njóti góðs af þeirri starfsemi í uppgangi. Öll atvinnuhúsnæði sem bera atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu skulu undanþegin fasteignagjöldum fyrir árið 2020 og/eða 2021.

Sveitarfélögin þurfa því að krefjast lagasetningu til þess að þessi niðurfelling nái fram að ganga.


Þriðjudagurinn 29. september:

Átta nýjar stöðugleikaaðgerðir

Í kjölfar samtala við aðila vinnumarkaðarins á almennum vinnumarkaði síðustu daga kynnir ríkisstjórnin átta aðgerða pakka sem ætlað er að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þar á meðal eru aðgerðir sem kynntar verða í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar í lok vikunnar.

Aðgerðirnar eru framlenging „Allir vinna“ átaksins, lækkun tryggingagjalds út 2021, fjárstuðningur vegna tekjufalls, skattaívilnanir til fjárfestinga með áherslu á græna umbreytingu, veruleg hækkun til nýsköpunar og matvælaframleiðslu, úrbætur á skipulags- og byggingamálum, umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði auk nokkurra frumvarpa sem styðja við Lífskjarasamninginn.

Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í morgun auk aðgerðanna átta.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamningsins

Heimsfaraldurinn sem nú geisar hefur haft víðtæk áhrif á efnahagslífið og afkomu heimila og fyrirtækja og þar með á stöðu á vinnumarkaði. Viðræður hafa farið fram milli aðila á vinnumarkaði á grundvelli Lífskjarasamningsins um forsendur fyrir áframhaldandi gildi samningsins.

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi faraldursins kynnt, og Alþingi lögfest, margháttaðar aðgerðir og ráðstafanir til að verja fyrirtæki og launafólk fyrir neikvæðum afleiðingum hans. Lögð hefur verið áhersla á að stjórnvöld séu sveigjanleg og í færum til að bregðast við breytilegum horfum eftir því sem nýjar aðstæður koma upp og faraldrinum vindur fram. Ríkisstjórnin mun síðar í vikunni leggja fyrir Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 og tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára þar sem gerð verður ítarlega grein fyrir því hvernig hún hyggst mæta þessum krefjandi aðstæðum. Í þeirri stefnumörkun sem þar verður kynnt er að finna fjölmörg atriði sem ætlað er að styðja við atvinnustarfsemi í gegnum faraldurinn, stöðugleika á vinnumarkaði og viðspyrnu að faraldrinum loknum.

Ríkisstjórnin hefur síðustu daga átt samtöl við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands um mat þeirra á forsendum Lífskjarasamningsins og horfur á vinnumarkaði á næstunni. Í framhaldi af þeim samtölum hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita sér fyrir átta aðgerðum til að stuðla að stöðugleika í félagslegu og efnahagslegu tilliti, auk þeirra aðgerða sem kynntar verða í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar.

Ríkisstjórnin metur að heildarútgjöld vegna aðgerðanna geti numið allt að 25 milljörðum króna. Sú fjárhæð er þó umtalsverðri óvissu háð, ekki síst vegna þess að umfang grænna fjárfestinga með skattaívilnun sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins er óvíst. Þá liggur útfærsla á fjárstuðningi við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins ekki fyrir.

Aðgerðirnar eru:

 1. „Allir vinna“ framlengt
  Ríkisstjórnin hefur ákveðið að full endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu undir átakinu „Allir vinna“ verði framlengt út árið 2021. Áætlaður kostnaður við endurgreiðsluna nemur um átta milljörðum króna.
 2. Tímabundin lækkun tryggingagjalds
  Ríkisstjórnin hefur ákveðið, í því skyni að milda áhrif af þeim launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum og koma til framkvæmda um næstu áramót, að lækka tryggingagjald tímabundið í eitt ár, eða til loka ársins 2021. Mun lækkun tryggingagjalds jafngilda því að gjaldið verði ekki tekið af kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda um komandi áramót. Kostnaður við lækkun tryggingagjaldsins nemur um fjórum milljörðum króna.
 3. Fjárstuðningur við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins
  Þegar hafa verið lögfest margháttuð úrræði til stuðnings atvinnustarfsemi. Má þar nefna hlutastarfaleið, greiðslu launa í uppsagnarfresti, lokunarstyrki, viðbótar- og stuðningslán, greiðsluskjól og ríkisábyrgðir. Fjármálafyrirtæki hafa jafnframt fengið stóraukið svigrúm til að standa við bakið á rekstraraðilum. Mikilvægt er að þessi úrræði komist að fullu til framkvæmda.

  Stjórnvöld hafa að undanförnu og í kjölfar hertra sóttvarnaráðstafana hugað sérstaklega að stöðu þeirra rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins með það fyrir augum að tryggja eins og nokkur er kostur að fyrir hendi sé sú geta sem nauðsynleg er til að stuðla að kröftugri viðspyrnu þegar úr rætist. Verður horft til þess að veita beina styrki til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir tekjuhruni vegna COVID-19 faraldursins. Með slíkum styrkjum er horft til þess að hægt sé að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og með því eru viðskiptasambönd varðveitt og viðbúnaður tryggður. Gert er ráð fyrir að styrkir geti numið um 6 milljörðum króna. Miðað er við að áætlanir þar að lútandi verði undirbúnar á næstu vikum og lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en við framlagningu frumvarps til fjáraukalaga.
 4. Skattaívilnanir til fjárfestinga
  Unnið er að útfærslu á skattalegum aðgerðum sem hafa það að markmiði að hvetja og styðja fyrirtæki til fjárfestinga sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Er þar horft til þess að flýta afskriftum á nýfjárfestingu, með áherslu á græna umbreytingu og loftslagsmarkmið, sem gerir fyrirtækjum kleift að ráðast í slíkar fjárfestingar mun fyrr en ella. Jafnframt verða skoðaðar leiðir til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum.
 5. Aukin áhersla á nýsköpun og matvælaframleiðslu
  Í tengslum við gerð fjárlagafrumvarpsins hefur ríkisstjórnin ákveðið að framlög til nýsköpunarmála verði stóraukin milli ára eða sem nemur liðlega fimm milljörðum króna samanborið við yfirstandandi ár og tíu milljörðum króna í samanburði við árin þar á undan. Hér má nefna stofnun Kríu, fjárfestingarsjóðs sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins. Auk þess hafa ívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarstarfs verið ríflega þrefaldaðar frá árinu 2017. Þá hafa framlög til nýsköpunar í matvælaframleiðslu aukist umtalsvert, m.a. með stofnun Matvælasjóðs. Ríkisstjórnin mun í því samhengi kanna sérstaklega hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu.
 6. Úrbætur á skipulags- og byggingamálum
  Ríkisstjórnin mun hrinda í framkvæmd úrbótum í skipulags- og byggingamálum, m.a. með hliðsjón af niðurstöðum átakshóps í húsnæðismálum og ráðgefandi vinnu OECD fyrir stjórnvöld um samkeppnishindranir á mörkuðum.
 7. Umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði
  Í framhaldi af því sem fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við Lífskjarasamninginn og samtölum við heildarsamtök á vinnumarkaði mun áður kynnt frumvarp um lögfestingu iðgjalds, jafnræði sjóðfélaga með tilliti til almannatrygginga og heimildir til ráðstöfunar tilgreindrar séreignar í tengslum við öflun húsnæðis verða lagt fram á haustþingi. Ríkisstjórnin mun í framhaldi af því hafa forystu um að stefnumörkun í lífeyrismálum í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði og Landssamband lífeyrissjóða. Stefnt er að því að afrakstur þess samráðs verði grænbók um lífeyrismál sem kynnt verði vorið 2021. Jafnframt muni ríkisstjórnin hafa forystu um gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði. Stefnt er að því að grænbókin um vinnumarkað verði sömuleiðis kynnt vorið 2021.
 8. Frumvörp sem styðja Lífskjarasamninginn lögð fram
  Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við Lífskjarasamninginn verða frumvarp til starfskjaralaga, frumvarp til húsaleigulaga, frumvarp til laga um breytingar á gjaldþrotaskiptum (kennitöluflakk) og frumvarp um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu lögð fram á haustþingi.

Sunnudagurinn 16. ágúst:

Allir komufarþegar fari í tvöfalda skimun og 5-6 daga sóttkví

Frá og með miðvikudeginum 19. ágúst kl. 00:00 verða allir komufarþegar skimaðir tvisvar við komuna til Íslands. Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku.

Embætti landlæknis hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar á ensku um þetta nýja fyrirkomulag varðandi skimun og sóttkví. Samtök ferðaþjónustunnar hvetja félagsmenn til að kynna sér málið og miðla til starfsmanna og viðskiptavina sinna.

Leiðbeiningar um skimun og sóttkví á ensku

Embætti landlæknis gaf í dag út ítarlegar leiðbeiningar á ensku um skimun og sóttkví á ensku sem hægt er að nálgast með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Þá hefur upplýsingasíðan Covid.is, sem Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki, verið uppfærð með sömu upplýsingum.

– –

Tilkynning stjórnvalda um breytt fyrirkomulag á landamærum

Á dögunum ákvað ríkisstjórn Íslands að eigi síðar en frá og með miðvikudeginum 19. ágúst næstkomandi verði allir komufarþegar skimaðir tvisvar við komuna til Íslands. Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku.

Helsta breytingin frá því fyrirkomulagi sem verið hefur er sú að allir farþegar, fyrir utan börn fædd 2005 og síðar, verða skimaðir við komu til landsins. Undanfarið hafa farþegar frá tilteknum ríkjum verið undanskildir. Í þeim ríkjum er faraldurinn að taka sig upp að nýju og erfitt hefur reynst að hafa eftirlit með því að farþegar hafi í raun dvalið 14 daga í viðkomandi landi. Þá ber öllum að fara í sýnatöku 2 til þess að tryggja betur að smit greinist hjá þeim sem eru nýlega smitaðir. Hingað til hefur sú krafa einungis átt við Íslendinga og þá sem hér eru búsettir eða koma til lengri tíma dvalar. Fyrstu 5-6 dagana þurfa viðkomandi að vera í sóttkví sem er öruggara og skýrara fyrirkomulag en svokölluð heimkomusmitgát sem mun þá heyra sögunni til.

Loks verða reglur um forskráningu farþega hertar til þess að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir áður en komið er til landsins.

Sem fyrr er full ástæða til að leggja áherslu á einstaklingsbundnar smitvarnir; handþvott, sprittun og tveggja – metra regluna hér innanlands.


Fimmtudagurinn 30. júlí:

Hertar aðgerðir í tvær vikur vegna COVID-19

Í dag voru kynntar hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 sem standa munu í tvær vikur, frá hádegi föstudaginn 31. júlí til miðnættis fimmtudaginn 13. ágúst nk. Eru þessar aðgerðir í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt.

Helstu aðgerðir ganga út á að tveggja metra reglan er skylda, samkomutakmarkanir miðast við 100 manns og skylda er að nota grímur þar sem tveggja metra reglunni er ekki viðkomið.

Förum að tilmælum

Ljóst er að á næstu tveimur vikum mun mæða nokkuð á fyrirtækjum í ferðaþjónustu og starfsmönnum þeirra vegna þessara takmarkana. Samtök ferðaþjónustunnar hvetja fyrirtæki í ferðaþjónustu til að gefa engan afslátt þegar kemur að sóttvörnum og fara í hvívetna eftir þeim fyrirmælum sem gefin hafa verið út.

Leitum í reynslubankann

Fyrirtæki í ferðaþjónustu búa hins vegar að mikilli reynslu frá því í vor þegar fjöldatakmarkanir voru harðari en verið hefur og tveggja metra reglan var í gildi. SAF hvetja fyrirtæki og starfsmenn þeirra til að leita í þann reynslubanka þegar kemur að úrlausn vandamála sem upp kunna að koma. Þá hvetja SAF fyrirtæki til að haga sóttvörnum eins vel og hægt er og taka mið af aðstæðum á hverjum stað.

Hafðu samband ef eitthvað er!

Hægt er að hafa samband við skrifstofu SAF ef eitthvað er í gegnum netfangið saf@saf.is.

Hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 frá hádegi 31. júlí nk.

Á hádegi þann 31. júlí næstkomandi taka gildi hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 sem standa í tvær vikur, út 13. ágúst nk. Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt.

Um aðgerðir innanlands frá 31. júlí:

 • Takmörkun á fjölda sem kemur saman miðast við 100 einstaklinga. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.
 • Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.
 • Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að uppfylla kröfur sem settar eru fram í leiðbeiningum sóttvarnalæknis.
 • Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggi starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.
 • Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi tryggi aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa, sinni vel þrifum og sótthreinsun yfirborða eins oft og unnt er og minni almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir með merkingum og skiltum.
 • Sundlaugar og veitingastaðir tryggi að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.
 • Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.
 • Sóttvarnalæknir leggur til að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.
 • Opnunartími skemmti- og vínveitingastaða verður áfram til kl. 23:00.

Aðgerðir efldar á landamærunum frá 31. júlí:

Sóttvarnalæknir mælir með að tvöföld sýnataka, við komu og á degi 4-6 ef fyrra sýnið er neikvætt, verði útvíkkuð til allra sem hingað koma frá áhættusvæðum og dvelja hér 10 daga eða lengur með ráðstöfunum í samræmi við það sem nefnt hefur verið heimkomusmitgát þar til neikvæð niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku. Ef þessi ráðstöfun ber ekki árangur og innlend smit koma upp tengd komufarþegum þrátt fyrir beitingu ofangreindra ráðstafana þarf hugsanlega að efla aðgerðir á landamærum enn frekar.

Góð ráð til starfsfólks í ferðaþjónustu á tímum heimsfaraldurs

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur í samstarfi við Starfsmenntasjóð verslunar og skrifstofufólks, Starfsafl og Landsmennt gefið út góð ráð til starfsfólks í ferðaþjónustu á tímum COVID-19 faraldursins. Efnið er unnið í samstarfi við Embætti landlæknis.

Annars vegar er um að ræða leiðbeiningar um hvernig forðast megi smit og hins vegar leiðbeiningar um hvernig bera skuli sig að ef grunur vaknar um veikindi viðskiptavina.

Efnið er aðgengilegt á heimasíðu Hæfnisetursins á íslensku, ensku og pólsku. Á sama stað má jafnframt finna leiðbeiningar til fyrirtækja í ferðaþjónustu á tímum COVID-19.

Á Facebook síðu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar er einnig að finna mikið af fróðlegum upplýsingum í formi myndbanda fyrir leika og lærða í ferðaþjónustu – kannaðu málið!


Mánudagurinn 13. júlí:

Leiðbeiningar fyrir leiðsögumenn vegna COVID-19

Leiðsögumaðurinn þarf að hafa eftirfarandi í huga:

 • Gera ráð fyrir að hann geti mögulega verið útsettur fyrir smiti við að umgangast ferðamenn og honum ber að gera allt sem hann getur til að verja sig og ferðamannahóp sinn  fyrir mögulegu smiti.
 • Kynna sér reglur um smitgát og hvetja farþega til að huga að valkvæðum 2 metra  nándarmörkum ásamt því að minna farþega á einstaklingsbundnar sýkingavarnir.
 • Leiðsögumaður þarf að geta aðstoðað ferðamenn við að fá niðurstöður úr landamæraskimun ef niðurstöður berast ekki á réttum tíma .
  • Leiðsögumaður getur aðstoðað ferðamenn við að hlaða niður appinu Rakning C19ef ferðamaðurinn er ekki þegar búinn að því.
  • Ferðamanninum á að berast svar í Rakning C-19 appið eða með sms-skilaboðum. Ef sýni reynist jákvætt er haft samband með símtali
  • Ef ferðamaðurinn hefur ekki fengið niðurstöður út sýnatöku eftir 24 klst getur hann sent fyrirspurn á  testc19@landlaeknir.is
 • Kynna ferðamönnum árangur Íslands við að takmarka útbreðslu Covid-19 og fylgja því eftir með kynningu á einstaklingsbundnum sýkingavörnum s.s.
  • Þvo hendur reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti.
  • Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar greiðslukort hefur verið notað eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna. Á vef landlæknis eru góðar upplýsingar um hvernig gæta má varúðar gegn sýkingum. 
  • Við hósta og hnerra ber að byrgja munn og nef með bréfþurrku eða nota olnbogabótina.Ekki hósta eða hnerra á aðra.
  • Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa sem ekki fela í sér snertingu.
  • Reyndu að bera ekki hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
  • Þrífðu oftar fleti sem eru mikið notaðir.
 • Vísa á www.covid.is  til að nálgast frekari upplýsingar.

Ef upp kemur grunur um smit:

 • Tryggja að smitaður einstaklingur setji upp hlífðargrímu.
 • Einangra smitaðan einstakling frá öðrum gestum í hópnum eftir bestu getu, t.d. með að setja smitaðan einstakling í fremstu sætaröð rútu.Hringja í heilsugæsluna/læknavaktina í síma 1700 og óska eftir nánari leiðbeiningum..
  • Starfsmaður heilsugæslunnar/Læknavaktarinnar tekur ákvarðanir varðandi næstu skref.
  • Smitrakningarteymi tekur ákvörðun varðandi mögulega sóttkví leiðsögumanns og annarra gesta.
 • Skrá upplýsingar um þá sem eru með í ferðinni og ferðaplan til að auðvelda rakningarteymi að rekja smit.

Föstudagurinn 10. júlí:

Opnað fyrir umsóknir um stuðning vegna greiðslu hluta uppsagnarfrestar

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hefur verið opnað fyrir umsóknir um stuðning vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Ítarlegar leiðbeiningar eru að fara á vef Skattsins og verða vistaðar á sérstöku „Covid-svæði“ sem finna má HÉR. Afar mikilvægt er að væntanlegir umsækjendur kynni sér þessar leiðbeiningar áður en þeir hefja útfyllingu á umsókn.

Um leið og hægt verður að sækja um verður birt frétt þar um á vef Skattsins og verður þar einnig krækja á leiðbeiningarnar.

Athygli er vakin á því að umsóknarfrestur vegna maí- og júnílauna hefur verið ákveðinn 20. ágúst 2020. Þetta er gert þar sem ómögulegt var að uppfylla það að hægt væri að sækja um í síðasta lagi 20. júní og eins er stuttur tími til stefnu til að geta sótt um í síðasta lagi 20. júlí.

Eftirfarandi eru til upplýsinga þau atriði sem skrá þarf vegna hvers og eins launamanns en hafa ber í huga að formið getur tekið breytingum:

 • Ráðningardagsetningu hvort sem hún er samkvæmt skriflegum eða munnlegum ráðningarsamningi. Dagsetningin getur ekki verið 1. maí 2020 eða síðar.
 • Uppsagnardagur er sá dagur sem uppsögn viðkomandi launamanns kom til framkvæmda. Þetta verður að vera 1. dagur mánaðar á tímabilinu frá og með 1. maí til og með 1. október 2020. Einhver dæmi geta verið um að uppsagnardagur sé 1. apríl 2020 en hann getur ekki verið fyrr.
 • Uppsagnarfrestur. Hér eru gefnir fjórir möguleikar að velja úr: „Einn mánuður“, „Tveir mánuðir“, „Þrír mánuðir“ eða „Meira en þrír mánuðir“. Stuðningur er aldrei greiddur fyrir lengri uppsagnarfrest en þrjá mánuði eftir atvikum að viðbættu orlofi (sem getur eftir atvikum verið fjórði mánuðurinn, þ.e. ef uppgjörsmánuður er síðar).
 • Dagsetning starfsloka. Hér er átt við þann dag þegar viðkomandi starfsmaður lýkur störfum, hvort sem það er á uppsagnarfresti eða í lok hans.
 • Forgangsrétti lýkur. Þetta vísar til réttinda launamanns til endurráðningar og er reiknuð dagsetning. Uppsagnardagur + 12 mánuðir, þó ekki síðar en 30. júní 2021.
 • Dagsetning endurráðningar. Þessi reitur er einungis fylltur út ef launamaður hefur verið endurráðinn til starfa hjá launagreiðanda þegar sótt er um. Eftir endurráðningu skal launagreiðandi ekki njóta stuðnings fyrir viðkomandi launamann.
 • Starfshlutfall eins og það var 1. maí 2020. Getur hæst verið 100%. Ef launamaður hefur þegið hlutabætur atvinnuleysistrygginga og verið þannig í skertu starfshlutfalli skal miða við stöðuna eins og hún var áður en viðkomandi fór á bætur. Athuga þarf að launamaður getur ekki þegið hlutabætur vegna sama tímabils og stuðningur er ákvarðaður fyrir.
 • Mótframlag launagreiðanda í almennan lífeyrissjóð. Þetta hlutfall getur hæst verið 11,5% ef einnig er greitt í séreignarsjóð en 13,5% ef ekkert er greitt í séreign. Samanlagt hlutfall framlags í almennan og séreignarsjóð má ekki vera hærra en 13,5% af iðgjaldsstofni.
 • Mótframlag launagreiðanda í séreignarsjóð. Þetta hlutfall getur hæst orðið 2%.
 • Launagreiðslur. Hér er átt við laun og aðrar fastar greiðslur, þ.m.t. hlunnindi, samkvæmt ráðningarsamningi eins og staðan var miðað við 1. maí 2020. (Aukagreiðslur, eins og tilfallandi yfirvinna eða bónusgreiðslur eiga ekki að teljast með, enda ekki hluti af föstum launakjörum).
 • Staðgreiðslumánuður orlofs. Átt er við hvenær áunnið orlof var/verður gert upp við launamann, þ.e. hvaða staðgreiðslutímabili það tilheyrir.
 • Fjárhæð orlofs. Heildarfjárhæð orlofsréttar til uppgjörs við launamanns að meðtöldu mótframlagi í lífeyrissjóð.

Miðvikudagurinn 8. júlí:

Umsóknir um stuðning vegna greiðslu hluta uppsagnarfrestar

Lög um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti hafa verið birt í Stjórnartíðindum.

Lögin gilda um fjárstuðning til atvinnurekenda sem hafa sagt launamönnum upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri sínum og orsakir þessa verða raktar beint eða óbeint til Covid-19.

Skatturinn tekur við umsóknum 10 dögum eftir tilkynningu

Samkvæmt 7. gr. laganna þarf umsókn um stuðning að skila mánaðarlega til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil eigi síðar en 20. hvers mánaðar. Það þýðir að fyrir uppsögn sem átti sér fyrir maí þarf að sækja um hjá Skattinum fyrir 20. júní 2020 og svo framvegis. Skatturinn tilkynnti þriðjudaginn 16. júní sl. að þeir væru ekki tilbúnir að taka við umsóknum fyrir 20. júní 2020. Að þeim sökum mun tími til að skila inn umsóknum frestast. Í tilkynningunni frá Skattinum kemur fram að umsóknarfrestur vegna launagreiðslna uppsagnarfrest í maí 2020 verða 10 dagar frá því tímamarki að auglýst verður að unnt sé að taka við umsóknum.

Samkvæmt lögunum hefur Skatturinn 30 daga til að afgreiða fullnægjandi umsókn talið frá því að hún barst. Þrátt fyrir tafir áætlar Skatturinn að afgreiða allar umsóknir vegna maí mánaðar í síðasta lagi 20. júlí 2020, enda séu þær þannig úr garði geraðar að þær teljist fullnægjandi.

Gildir um uppsagnir sem eiga sér stað í september 2020

Samkvæmt 2. tölul. 6. gr. laganna kemur fram að stuðningurinn nái til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020. Fullur stuðningur er því veittur vegna uppsagna sem eiga sér stað í september 2020.

Skilyrði um lækkað meðaltal mánaðartekna

Félagsmenn eru þó beðnir um að kynna sér skilyrði 4. gr. vel. Í 2. tölul. 4. gr. kemur fram að meðaltal mánaðartekna hans frá 1. apríl 2020 og til uppsagnardags hefur lækkað um a.m.k. 75% í samanburði við eitt af eftirtöldu:

 • meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður,
 • meðaltal mánaðartekna júní, júlí og ágúst árið áður,
 • meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020 eða
 • meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. apríl 2019 til 31. mars 2020.

Samtök ferðaþjónustunnar vilja minna á umfjöllun SA um málið og á upplýsingasíðu SAF um stöðu og aðgerðir vegna COVID-19.


Föstudagurinn 3. júlí:

Breyttar reglur vegna skimunar á landamærum fyrir farþega búsetta á Íslandi

Sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að breyta reglum um skimun á landamærum vegna COVID-19. Breyttar reglur um skimun taka ekki til almennra ferðamanna heldur verða bundnar við íslenska ríkisborgara og aðra sem eru búsettir hér á landi.

Sem fyrr verður hægt að velja á milli 14 daga sóttkvíar eða skimunar á landamærum en gert er ráð fyrir að einstaklingar úr fyrrnefndum hópi sem velja skimun þurfi að fara aftur í skimun 4 – 5 dögum eftir komuna til landsins og vera í sóttkví þar til niðurstaða seinni sýnatökunnar liggur fyrir. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis þessa efnis og er stefnt að því að breytingin komi til framkvæmda eigi síðar en 13. júlí.

Þeir sem þurfa að fara í tvær sýnatökur samkvæmt breytingunni þurfa ekki að greiða fyrir seinni sýnatökuna.


Fimmtudagurinn 2. júlí:

Frumvarp um ferðaábyrgðasjóð samþykkt á Alþingi

Aðfaranótt þriðjudagsins 30. júní sl. var samþykkt breyting á lögum um pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (ferðaábyrgðarsjóður). Lögin hafa ekki hlotið staðfestingu forseta en það ætti að gerast á næstu dögum og í kjölfarið mun ráðherra á næstu vikum gefa út reglugerð sem mælir fyrir um framkvæmd laganna. Í framhaldi af því mun sjóðurinn vera stofnaður af hálfu Ferðamálastofu. Sjóðurinn ætti að geta tekið við umsóknum eftir miðjan júlí.

Samtök ferðaþjónustunnar fagna þessu útspili stjórnvalda, enda hafa samtökin kallað sterkt eftir viðundandi úrlausn mála er varðar þann vanda sem ferðaskrifstofur standa frammi fyrir. SAF hvetja félagsmenn sína til að kynna sér málið eftir því sem við á.

Lögin mæla fyrir um að stofnaður verði svokallaður Ferðaábyrgðarsjóður til að bregðast við vanda ferðaskipuleggjanda. Sjóðurinn verður í vörslu Ferðamálastofu sem tekur ákvarðnir um greiðslur úr sjóðnum.

Pakkaferðir á tímabilinu 12. mars til og með 31. júlí 2020

Lögin gilda um pakkaferðir sem koma áttu til/eða eiga að koma til framkvæmdar á tímabilinu 12. mars til og með 31. júlí 2020. Ráðherra er heimilt að framlengja þetta tímabil.

Skipuleggjandi eða smásali leggur inn umsókn hjá Ferðamálastofu fyrir 1. september 2020 um að sjóðurinn láni honum fjárhæð sem nemur ógreiddum endurgreiðslukröfum eða vegna pakkaferða sem þegar hefur verið endurgreitt. Ferðaábyrgðasjóðurinn tekur afstöðu til umsókna eigi síðar en 31. desember 2020. Lánsfjárhæðinni skal einvörðungu ráðstafað til að endurgreiða ferðamanni.

Endurgreiða lán á sex árum með fjórum jöfnum afborgunum á ári

Með lánveitingu stofnaðst krafa á skipuleggjanda eða smásala sem endurgreiða þarf á sex árum og að jafnaði með fjórum jöfnum afborgunum á ári sem kveðið skal á um í lánssamningi.

Lánið ber vexti og ef um vanskil verða þá má gera fjárnám án undangengis dóms eða sáttar fyrir kröfu sjóðsins, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði.

Óheimilt að ráðstafa láninu annað en að endurgreiða ferðamanninum

Ef láninu er ráðstafað annað er lánið gjaldfellt og krafist fullra endurgreiðslu þá þegar og leitt til sekta eða refsingar ef um rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn eða lánsfjárhæð var nýtt á ólögmætan hátt.


Mánudagurinn 22. júní:

Lög um úrræði um greiðsluskjól samþykkt

Hinn 16. júní sl. samþykkti Alþingi lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

Lögin fela í sér tímabundið úrræði, svokallað greiðsluskjól. Greiðsluskjólið er hugsað sem úrræði handa fyrirtækjum í sérstakri neyð vegna kórónukreppunnar. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem koma fram í 2. gr. laganna, geta fyrirtækin fengið greiðsluskjól í áföngum í allt að ár.

Fyrirtæki í greiðsluskjóli fá tækifæri til að semja við kröfuhafa með fulltingi sérstaks aðstoðarmanns, lögmanns eða löggilts endurskoðanda sem fyrirtækið tilnefnir sjálft sér til aðstoðar. Beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar er beint til hérðasdóms.

Réttaráhrif greiðsluskjóls

Á meðan fyrirtæki eru í greiðsluskjóli er óheimilt að ráðstafa eignum sínum eða réttindum og stofna til skuldbindinga á hendur sér nema með samþykki aðstoðarmanns nema ráðstöfunin verði talin nauðsynlegur þáttur í daglegum rekstri eða endurskipulagningunni og komi þá eðlilegt verð fyrir.

SA aðstoða aðildarfyrirtæki

Samtök atvinnulífsins bjóða aðildarfyrirtækjum SA aðstoð lögmanns til að glöggva sig á úrræðinu og hvaða skref þurfi að stíga út frá hagsmunum fyrirtækja í rekstrarvanda og hagsmunum kröfuhafa. Þessa þjónustu veita SA án endurgjalds.


Fimmtudagurinn 18. júní:

Umsóknir um stuðning vegna greiðslu hluta uppsagnarfrestar

Lög um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti hafa verið birt í Stjórnartíðindum.

Lögin gilda um fjárstuðning til atvinnurekenda sem hafa sagt launamönnum upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri sínum og orsakir þessa verða raktar beint eða óbeint til Covid-19.

Skatturinn tekur við umsóknum 10 dögum eftir tilkynningu

Samkvæmt 7. gr. laganna þarf umsókn um stuðning að skila mánaðarlega til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil eigi síðar en 20. hvers mánaðar. Það þýðir að fyrir uppsögn sem átti sér fyrir maí þarf að sækja um hjá Skattinum fyrir 20. júní 2020 og svo framvegis. Skatturinn tilkynnti þriðjudaginn 16. júní sl. að þeir væru ekki tilbúnir að taka við umsóknum fyrir 20. júní 2020. Að þeim sökum mun tími til að skila inn umsóknum frestast. Í tilkynningunni frá Skattinum kemur fram að umsóknarfrestur vegna launagreiðslna uppsagnarfrest í maí 2020 verða 10 dagar frá því tímamarki að auglýst verður að unnt sé að taka við umsóknum.

Samkvæmt lögunum hefur Skatturinn 30 daga til að afgreiða fullnægjanid umsókn talið frá því að hún barst. Þrátt fyrir tafir áætlar Skatturinn að afgreiða allar umsóknir vegna maí mánaðar í síðasta lagi 20. júlí 2020, enda séu þær þannig úr garði geraðar að þær teljist fullnægjandi.

Gildir um uppsagnir sem eiga sér stað í september 2020

Samkvæmt 2. tölul. 6. gr. laganna kemur fram að stuðningurinn nái til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020. Fullur stuðningur er því veittur vegna uppsagna sem eiga sér stað í september 2020.

Skilyrði um lækkað meðaltal mánaðartekna

Félagsmenn eru þó beðnir um að kynna sér skilyrði 4. gr. vel. Í 2. tölul. 4. gr. kemur fram að meðaltal mánaðartekna hans frá 1. apríl 2020 og til uppsagnardags hefur lækkað um a.m.k. 75% í samanburði við eitt af eftirtöldu:

a. meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður,

b. meðaltal mánaðartekna júní, júlí og ágúst árið áður,

c. meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020 eða

d. meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. apríl 2019 til 31. mars 2020.

SAF vill minna á umfjöllun SA um málið hér og frétt SAF um málið frá 4. júní sl. hér á COVID-19 síðunni.


Fimmtudagurinn 4. júní:

Atriði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti

Alþingi samþykkti lög um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Úrræði stjórnvalda felur í sér fjárstuðning úr ríkissjóði til að standa straum undir greiðslu launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti launþega.

Markmið laganna er að tryggja réttindi launafólks og tryggja þeim atvinnurekendum stuðning sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast. Með þessu er reynt að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og styrkja réttindi launafólks sem sagt er upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri.

Úrræðið tekur til þeirra atvinnurekenda sem hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á Íslandi. Það gildir ekki um stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Skilyrði þess að atvinnurekandi geti fengið fjárstuðninginn er eftirfarandi:

 • Uppsögn launamanns, sem ráðinn var fyrir 1. maí 2020, vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.
 • Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda hafi dregist saman um a.m.k. 75% frá 1. apríl 2020 til uppsagnardags launamanns m.v. tiltekin fyrri tímabil:
  • meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður,
  • meðaltal mánaðartekna júní, júlí og ágúst árið áður
  • meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. des. 2019 til 29. febrúar 2020 eða
  • meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. apríl til 31. mars 2020.
 • Atvinnurekandi hefur eftir 15. mars 2020 ekki ákvarðað úthlutun arðs, lækka hlutafé, greitt óumsaminn kaupauka eða keypt eigin bréf eða ráðist í sambærilegar aðgerðir fyrr en fjárstuðningurinn hefur að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur. – að ákveðnum skilyrðum uppfylltum er heimilt að veita undanþágu frá þessu.
 • Atvinnurekandi skal ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir sem komin voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Hann skal hafa staðið skil á skattframtölum og fylgigögnum og öðrum skýrslum og skilagreinum þ.m.t. CFC skýrslum til Skattsins sl. þrjú ár áður en umsókn barst og staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.
 • Bú atvinnurekanda hafi hvorki verið tekið til gjaldþrotaskipta né slita.
 • Atvinnurekandi skal hafa staðið skil á staðgreiðslu skatts af launum viðkomandi mánaðar.

Fjárhæð stuðningsins nemur að hámarki 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti, þó að hámarki kr. 633.000,- á mánuði vegna launa. Einnig er greiddur stuðningur vegna orlofslauna launamanns.

Stuðningurinn nær til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí til og með 1. október 2020. Fullur stuðningur er því veittur vegna uppsagna sem eiga sér stað í september 2020.

Hafi atvinnurekandi sagt upp launamanni með uppsagnardag fyrir 1. maí sl. getur atvinnurekandi sótt um stuðning vegna launa á uppsagnarfresti sem koma til vegna vinnu í maí og júní 2020.

Hámarkstímabil stuðnings vegna hvers launamanns er þrír mánuðir.

Ef atvinnurekandi hefur þegið stuðning skv. lögunum þá ber honum að upplýsa launamenn, sem hann fékk greiddan stuðning vegna, um áform sín að ráða að nýju í sambærilegt starf og gera þeim starfstilboð. Sú skylda fellur niður að 12 mánuðum liðnum frá uppsagnardegi en í síðasta lagi 30. júní 2021.

Umsókn um stuðning skal skila mánaðarlega til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil og eigi síðar en 20. hvers mánaðar. Umsókn er rafræn.


Laugardagurinn 30. maí:

Hlutabótaleið framlengd til 31. ágúst 2020

Alþingi hefur samþykkt framlengingu á hlutabótaleiðinni svokölluðu til 31. ágúst næstkomandi. Heimilt verður að greiða bætur á móti 25 prósent starfshlutfalli í júní og 50 prósent starfshlutfalli í júlí og ágúst. Gerð er sú krafa að tekjur atvinnurekanda eftir 15. mars 2020 hafi dregist saman um a.m.k. 25 prósent samanborið við eitt af tímabilum sem tilgreind eru í lögunum.

Auk forsendu um tekjusamdrátt er gert ráð fyrir ýmsum skilyrðum svo heimilt verði að greiða launamönnum atvinnuleysisbætur á grundvelli þessa úrræðis, t.d.:

 • Atvinnurekandi hafi ekki eftir 1. júní 2020 ákvarðað úthlutun arðs, lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa eða kaup eigin hluta, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins. Hann jafnframt skuldbindi sig til þess að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrir 31. maí 2022.
 • Atvinnurekandi hafi staðið í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu eða tilkynnir um áframhaldandi nýtingu á rétti sínum til atvinnuleysisbóta.
 • Atvinnurekandi hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

Uppfært ákvæði laganna má finna hér.

SA skiluðu ásamt SI, SAF, SVÞ og SFS umsögn um frumvarpið sem nálgast má hér.


Föstudagurinn 22. maí:

Reiknivél til áætlunar stuðningslána og lokunarstyrkja

Fyrirtæki geta nú kannað hvernig þau falla undir úrræði sem stjórnvöld hafa kynnt vegna Covid-19 í reiknivél á vefnum Ísland.is. Senn verður opnað fyrir móttöku umsókna um lokunarstyrki og stuðningslán á vefnum, auk þess sem þar er að finna upplýsingar um viðbótarlán. Þetta kemur fram á vef fjármála – og efnahagsráðuneytisins.

Reiknivélin leiðir fyrirtæki áfram í gegnum spurningalista þar sem þau geta mátað sig við úrræðin og fengið vísbendingu um stöðu sína, en endanleg niðurstaða liggur fyrir að loknu umsóknarferli. Einnig býðst fyrirtækjum að skrá sig á póstlista en Stafrænt Ísland sendir út tilkynningu um leið og verður opnað fyrir umsóknir.

Aflétting takmarkana á samkomum: Ný skilgreining á tveggja metra reglu

Takmarkanir á samkomum vegna yfirstandandi faraldurs COVID-19 voru fyrst settar 13. mars 2020 af heilbrigðisráðherra og síðan hertar 24. mars 2020 skv. tillögum sóttvarnalæknis. Samkvæmt auglýsingu frá 24. mars 2020 áttu takmarkanirnar að standa til 12. apríl 2020 kl. 23:59.

Sóttvarnalæknir sendi minnisblað til ráðherra 1. apríl 2020 þar sem
lagt var til að takmarkanir á samkomum yrði framhaldið til 4. maí 2020 og voru þær tillögur staðfestar af ráðherra.

Fyrsta aflétting á samkomutakmörkunum var gerð þ. 4 maí sl. sem ekki virðist hafa leitt til aukningar á sjúkdómstilfellum. Önnur aflétting var gerð 18. maí en þá voru sundlaugar opnaðar með 50% leyfilegum hámarksfjölda gesta og næsta aflétting takmarkana er fyrirhuguð 25. maí n.k.

Lagt er til að aflétting takmarkana 25 maí n.k. felist í eftirfarandi:

 • Fjöldamörk þeirra sem koma saman fari úr 50 í 200.
 • Engar sérstakar takmarkanir verði á íþróttastarfi en gæta þarf að hámarksfjölda fullorðinna allt að 200 manns í sama rými.
 • Takmarkanir um opnun sundlauga verði óbreyttar sbr. auglýsingu 18. maí 2020.
 • Líkamsræktarstöðvar verði opnaðar með eftirfarandi takmörkunum:
  • Líkamsrætarstöðvum verði heimilt að hafa opið með fjöldatakmörkunumþar sem leyfilegur hámarksfjöldi gesta fari aldrei yfir helming hámarksfjölda skv. starfsleyfi. Sé hámarksfjöldi ekki skráður í starfsleyfi skal miða gestafjölda við helming þess fjölda sem fataskiptarými gerir ráð fyrir.
  • Börn fædd árið 2015 og síðar teljast ekki með gestafjölda.
  • Tveggja metra nálægðartakmörk skulu gilda samkvæmt nýrri skilgreiningu hér að neðan.

Ný skilgreining á tveggja metra reglu:

Hugmyndin er að sett verði regla sem er svipuð og regla er varðar aðgengi fatlaðs fólks að ýmissi þjónustu, þ.e. að gert sé ráð fyrir að einstaklingar, sérstaklega viðkvæmir einstaklingar, þurfi meira pláss eða aðrir og að einnig geti reglan verið val fólks. Þannig má fólk sitja eða standa þétt en bjóða þarf þeim sem það vilja að halda tveggja metra fjarlægð.

 • Allir einstaklingar eru hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu í samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa.
 • Í almenningsrýmum þar sem gert er ráð fyrir að almenningur eigi aðgengi að, hvort sem er án skilyrða eða að uppfylltum skilyrðum, s.s. greiðslu aðgangsgjalds eða vegna vinnusambands, skal leitast við að bjóða einstaklingum að halda 2ja metra fjarlægð frá öðrum eins og kostur er. Þar sem veitt er lögbundin þjónusta eða almenningur á ekki kost á öðru en mæta skal vera unnt að tryggja þeim sem það kjósa að halda 2ja metra fjarlægð frá öðrum. Undir almenningsrými falla m.a.:
  • Verslanir
  • Allir flokkar veitingastaða
  • Sundlaugar og baðstaðir
  • Líkamsræktarstöðvar
  • Íþróttamannvirki
  • Heilbrigðisstofnanir eftir því sem við á
  • Móttaka stofana og fyrirtækja
  • Vinnustaðir sem eðli starfseminnar vegna krefjast ekki mikillar nálægðar
  • Almenningssamgöngur
  • Leikhús, bíósalir, tónleikasalir o.þ.h.
  • Húsnæði skóla og annarra mennta- og menningarstofnana

Í 1. mgr. felst m.a. að verslanir gæti að því að í biðröðum sé unnt að gæta að umræddri fjarlægð, að vinnurými séu skipulögð þannig að unnt að sé að halda fjarlægð, að veitingastaðir og sambærileg starfsemi geri ráð fyrir að unnt sé að bjóða nokkrum viðskiptavinum að sitja í umræddri fjarlægð frá öðrum. Leikhús og bíósalir bjóði upp á a.m.k. nokkur sæti sem eru í umræddri fjarlægð.

 • Vínveitingastaðir, skemmtistaðir og krár mega hafa opið til kl. 23:00.
  • Gætt skal að reglu um hámarksfjölda og nýrri skilgreiningu á tveggja metra reglu.
 • Spilasalir mega hafa opið til kl. 23:00.
  • Gætt skal að reglu um hámarksfjölda og nýrri skilgreiningu á tveggja metra reglu.
 • Hvatt er til að opinberar skemmtanir sem ekki eru leyfisskyldar standi ekki lengur en til 23:00.
 • Áfram verða sömu kröfur um sótthreinsun og þrif almenningsrýma innandyra.

Föstudagurinn 15. maí:

Fjárhagsleg endurskipulagning atvinnufyrirtækja og aðgerðir gegn kennitöluflakki

Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvörp dómsmálaráðherra er snúa að einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki.

Með frumvarpi til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja er lagt til að komið verði á fót nýju úrræði er lýtur að fjárhagslegri endurskipulagningu. Þannig verði atvinnufyrirtæki, sem er í þeirri stöðu að fjárhagsgrundvelli þess hefur verið raskað verulega vegna þess ástands sem skapast hefur vegna COVID-19 farsóttarinnar, heimilt að fá greiðsluskjól á meðan unnið er að endurskipulagningu á fjárhag þess með aðkomu aðstoðarmanns. Sækja þarf um úrræðið fyrir 1. janúar 2021. Til að komast í úrræðið þurfa fyrirtækin jafnframt að uppfylla ákveðin skilyrði sem nánar eru útfærð í lögunum. 

Greiðsluskjólið hefst frá þeim tíma sem héraðsdómi berst beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Meðan á greiðsluskjóli stendur er skuldara óheimilt að ráðstafa eignum sínum og stofna til skuldbindinga eða greiða skuldir sínar án samþykkis aðstoðarmanns síns og skv. heimild í lögunum. Þá er ekki heimilt að taka bú skuldarans til gjaldþrotaskipta, gera fjárnám í eignum hans eða selja nauðungarsölu eða bera hann út úr húsnæði. Honum verður heldur ekki skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta. 

Aðgerðunum getur lokið með því að tími greiðsluskjóls renni út þar sem starfsemin er án frekari aðgerða komin í rétt horf, skuldari nær frjálsum samningum við kröfuhafa eða hann óskar eftir nauðasamningum við kröfuhafa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að unnt verði að koma á nauðasamningi með einfaldari aðgerð en hefðbundið er.

Stuðningur vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sem kveður á um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti hefur verið samþykkt af ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna en frumvarpinu er ætlað að koma til móts við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegri fjárhagslegri röskun á atvinnurekstri vegna COVID-19. Markmið stuðningsins er að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og tryggja réttindi launafólks.

 • Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti.
 • Að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa
 • Að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda
 •  Að hámarki 1.014.000 kr. vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á, fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf.
 • Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði.

Atvinnurekandi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Uppsögn launamanns, sem ráðinn hafði verið fyrir 1. maí 2020, þarf að vera vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.
 • Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda hafi dregist saman um 75% frá 1. mars 2020 til uppsagnardags launamanns m.v. fyrri tímabil.
 • Atvinnurekandi skal ekki hafa ákveðið að greiða út arð, lækka hlutafé, greiða óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf eða ráðist í sambærilegar aðgerðir frá 15. mars 2020.
 • Atvinnurekandi skal ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir sem komin voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Hann skal hafa staðið skil á skattframtölum og fylgigögnum og öðrum skýrslum og skilagreinum þ.m.t. CFC skýrslum til Skattsins sl. þrjú ár áður en umsókn barst og staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.
 • Bú atvinnurekanda hafi hvorki verið tekið til gjaldþrotaskipta né slita.
 • Atvinnurekandi skal hafa staðið skil á staðgreiðslu skatts af launum fyrir sama mánuð.

Mánudagurinn 11. maí:

Samningar um brúarlán við bankana fjóra

Samningar hafa verið undirritaðir við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku og Landsbankann um veitingu viðbótarlána til fyrirtækja, svonefndra brúarlána. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fól Seðlabanka Íslands að annast framkvæmd á ábyrgðum ríkissjóðs.Lánin eru ætluð fyrirtækjum, einkum smáum og meðalstórum, sem orðið hafa fyrir tímabundnum rekstrarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir allt að 70% af fjárhæð lánanna sem fyrirtæki geta fengið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. að lántaki greiði ekki arð eða kaupi eigin hluti á meðan ríkisábyrgðar nýtur við. Heildarábyrgð ríkissjóðs í þessum efnum getur numið allt að 50 milljörðum króna.

Breytingar á ferðatakmörkunum frá 15. júní

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stefna að því að eigi síðar en 15. júní geti þeir sem koma til landsins farið í COVID-19 próf á Keflavíkurflugvelli. Reynist það neikvætt þurfa þeir ekki að fara í 2ja vikna sóttkví. Þá er gert ráð fyrir að nýleg vottorð um sýnatöku erlendis verði einnig tekin til greina meti sóttvarnalæknir þau áreiðanleg. 


Föstudagurinn 8. maí:

Ábendingar til félagsmanna vegna samskipta við kortafyrirtæki/færsluhirða

Á undanförnum vikum hafa skrifstofu SAF borist fjöldi fyrirspurna og kvartana frá félagsmönnum vegna samskipta við söluaðila á sviði greiðslukortaviðskipta. Kortafyrirtækin voru meðal annars að halda eftir greiðslum til félagsmanna.

Í kjölfarið sendi SAF bréf á Borgun, Valitor og Korta þar sem SAF óskaði eftir lýsingum, skýringum og kröfum þess að greiðslumiðlanirnar láti af aðgerðum sem brytu gegn skilmálum og lögum og settu sig í samband við ferðaþjónustufyrirtæki til að leysa þeirra mál. SAF krafðist þess sérstaklega að allar greiðslur fyrir vöru/þjónustu sem þegar hafði verið afhent yrðu afhentar án tafar og að kortafyrirtækin gættu meðalhófs í aðgerðum sínum og gengju ekki lengra en nauðsynlegt er.

Öll fyrirtækin svöruðu SAF. Þar rökstuddu fyrirtækin aðgerðir sínar með því að vísa í skilmála sína, töldu að allar aðgerðir þeirra væru réttmætar og að þau væru öll að vilja gerð að aðstoða viðskiptavini sína. Fyrirtækin skildu þær þrengingar sem ferðaþjónustan finndi nú fyrir og að það væri ekki markmið þeirra að bæta á þær að óþörfu. Er það mat SAF að í kjölfar samskiptanna hafi kortafyrirtækin unnið með sumum félagsmanna SAF að lausnum.

Til að kanna málið til hlítar óskaði SAF eftir dæmum frá félagsmönnum um aðgerðir kortafyrirtækjanna og þegar þau lágu fyrir leitaði SAF eftir lögfræðiáliti frá MAGNA lögmönnum til að kanna réttindi félagsmanna gegn kortafyrirtækjunum.

Í ljósi þess sem kemur fram í minnisblaði MAGNA lögmanna vill SAF koma eftirfarandi á framfæri við félagsmenn sína.

 • Samningssamband seljanda og kortafyrirtækjanna byggir á stöðluðum skilmálum fyrirtækjanna. Heimildir kortafyrirtækjanna til að halda eftir greiðslum má því ekki fara í bága við slíka samninga, skilmála sem er hluti af honum eða lagafyrirmæli.
 • Í öllum samningum/viðskiptaskilmálum kortafyrirtækjanna/færsluhirðanna er að finna einhvers konar heimild til að halda eftir uppgjöri. Þessar heimildir þeirra eru í einhverjum tilvikum óljósar, sérstaklega þær sem byggja á áhættumati og aukinni endurgreiðsluáhættu.
 • Kortafyrirtækin ættu í öllum tilvikum að tilkynna söluaðila um aðgerðir sínar. Eðlilegt er að í slíkri tilkynningu komi fram hversu lengi þau ætli að halda eftir greiðslu, þótt það komi ekki fram í skilmálum fyrirtækjanna. Félagsmenn SAF ættu að auki að óska eftir upplýsingum um hvenær fyrirtækin hyggist skila uppgjörinu.
 • Söluaðili ætti að hafa fulla ástæðu til að mótmæla því að uppgjöri sé haldið eftir í heild og eftir atvikum að hluta, sértaklega þegar haldið er eftir uppgjöri fyrir veitta þjónustu eða vegna bókana sem ekki þarf að endurgreiða samkvæmt samningum milli söluaðila og viðskiptavinar. Er það mat SAF að í þeim tilvikum eigi kortafyrirtækið að afhenda uppgjörið.
 • Einu réttmætu endurgreiðslurnar í tilviki óendurkrefjanlegra greiðsla (e. non-refundable) er ef force majeure tilvik á við um greiðsluna þar sem algjör ómöguleiki var fyrir viðskiptavininn að nýta sér þjónustuna. Slíkar aðstæður skapast ekki gagnvart þjónustu sem afhent er á áfangastaðnum Íslandi fyrr en ferðatakmarkanir til Íslands voru settar með lokun Schengen landamæra gagnvart ferðamönnum með fasta búsetu utan Schengen svæðisins þann 20. mars 2020. Áætlað er að núgildandi ferðatakmarkanir frá ríkjum utan Schengen svæðisins standi til 15. maí 2020. Nánari upplýsingar um ferðatakmarkanir er að finna á vef Útlendingastofnunar.
 • Skilmálar kortafyrirtækjanna, sem eru staðlaðir, eru í mörgum tilvikum íþyngjandi og leikið getur vafi á hvort kortafyrirtækin geti byggt rétt á þeim í ljósi þess að þeir eru staðlaðir, einhliða samdir af kortafyrirtækjunum, óljóst orðaðir í einhverjum tilvikum og ójafnvægi er í samningssambandi milli aðilanna.
 • Sérstaklega verður að telja skilmálar þess efnis  að heimila kortafyrirækjum að halda eftir allri eða stórum hluta veltu söluaðila yfir heilt uppgjörstímabil, á grundvelli ástæðna sem oft eru mjög óljóst orðaðar, yfir tímabil sem getur verið jafnvel 30 dagar, séu mjög íþyngjandi og geti strítt gegn góðum viðskiptaháttum, sérstaklega þegar ekki eru til staðar nein sérstök atvik, heldur aðeins mat kortafyrirtækjanna á hugsanlegri áhættu.
 • SAF bendir félagsmönnum að kanna vel samningsskilmála sína. Það geta í einhverjum tilvikum verið rök fyrir söluaðila að eiga kröfu á afhendingu uppgjörsins og áskilja sér ella rétt til skaðabóta.

Fimmtudagur 7.maí:

Íslandsbanki semur við Seðlabankann um veitingu brúarlána

Íslandsbanki og Seðlabanki Íslands undirrituðu í dag samning um að fyrrnefndi bankinn veiti brúarlán til fyrirtækja í samræmi við aðgerðir stjórnvalda til að koma til móts við fyrirtæki vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að útfærsla lánanna liggi ekki fyrir, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu þarf að fara yfir ýmis hagnýt atriði áður en hægt verður að bjóða fyrirtækjum lánin.

„Nú þegar samningur við Seðlabankann er í höfn förum við á fulla ferð að vinna að útfærslu brúarlánanna svo hægt sé að koma til móts við þau fyrirtæki sem uppfylla viðeigandi skilyrði,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í tilkynningu.


Þriðjudagurinn 28. apríl:

Aðgerðir kynntar til aðstoðar ferðaþjónustufyrirtækjum

Kynntar hafa verið nýjar aðgerðir stjórnvalda þar sem fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti til að tryggja réttindi launafólks og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Aðgerðirnar eru sérstaklega sniðnar að vanda ferðaþjónustufyrirtækja. 

Aðgerðirnar eru eftirfarandi: 

 1. Hlutastarfaleið verður framlengd en hefði að óbreyttu fallið úr gildi þann 1. júní nk. 
 2. Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækjasem miða að því þau geti komist í skjól með einföldum hætti. 
 3. Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er verður fyrirtækjum gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. 

Miðvikudagurinn 22. apríl:

Breyttar reglur um sóttkví og landamæraeftirlit á innri landamærum

Heilbrigðisráðherra hefur í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis breytt gildandi reglum um sóttkví. Með nýjum reglum verður öllum sem koma til landsins skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu. Samhliða verður tekið upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum. Reglurnar koma til framkvæmda föstudaginn 24. apríl og falla að óbreyttu úr gildi 15. maí. Krafa um sóttkví á við um komu fólks frá löndum sem sóttvarnalæknir skilgreinir sem há-áhættusvæði en sem stendur á það við um öll lönd. Reglulega verður endurmetið hvort einhver lönd falli ekki lengur undir þessa skilgreiningu.

Íslenskt- gjörið svo vel: Sameiginlegt átak stjórnvalda og atvinnulífsins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa undirritað samning um sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs um að verja störf og auka verðmætasköpun undir heitinu: Íslenskt – gjörið svo vel.

Að samningnum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands. Markmið samningsins er að móta og hrinda í framkvæmd sameiginlegu kynningarátaki sem miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Með því verði lögð áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og þeirri hringrás sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.

Ríkið leggur 100 milljónir kr. til verkefnisins sem verður nýtt í fjármögnun á hönnun, framleiðslu og birtingu kynningarefnis.


Miðvikudagurinn 22. apríl:

Hvatningarátak vegna ferðalaga innanlands – hvernig geta ferðaþjónustufyrirtæki nýtt sér átakið?

Ferðamálastofa í samvinnu við markaðsstofur landshlutana boða til opins kynningarfundar á Facebooksíðu Ferðamálasfofu um væntanlegt hvatningarátak vegna ferðalaga innanlands. Meðal annars verður farið yfir hvernig ferðaþjónustufyrirtæki geta nýtt sér hvatningarátakið og auglýsingaefni sem útbúið verður í tengslum við það.

Fundurinn verður næstkomandi mánudag 27. apríl kl. 11.00. Upptaka verður aðgengileg strax eftir fund.

Nánari upplýsingar og dagskrá liggur fyrir föstudaginn 24. apríl á heimasíðu Ferðamálastofu.

Ferðaskrifstofum verði heimilt að endurgreiða ferðamönnum með inneignarnótum

Í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í gær leyndist jákvæð frétt fyrir ferðaskrifstofur. Þar sem lausafjárvandi ferðaskrifstofa vegna endurgreiðslukrafna er nú verulegur munu stjórnvöld leggja til lagabreytingu þess efnis að heimilt verði að endurgreiða neytendum með inneignarnótum.

Við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða sem heimili ferðaskrifstofum að endurgreiða ferðamönnum allar greiðslur vegna ferða sem eru afpantaðar eða þeim aflýst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna í formi inneignarnótu sem verði innleysanleg að liðnum 12 mánuðum. Gert er ráð fyrir að heimildin afmarkist við ferðir sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar og áttu að vera farnar á tímabilinu 15. mars til og með 30. júní 2020.

Íslendingar sem eiga bókaðar ferðir til útlanda og útlendingar sem eiga ferðir til Íslands fá inneignarnótur í stað endurgreiðslu ef ferðalagið er á dagskrá fyrir lok júnímánaðar 2020.

Ferðamenn í sótt­kví við kom­una til lands­ins

Öllum verður skylt að fara í 14 daga sótt­kví við kom­una til lands­ins frá og með föstu­deg­in­um. Heil­brigðisráðherra hef­ur í sam­ræmi við til­lögu sótt­varna­lækn­is und­ir­ritað reglu­gerð um breyt­ing­ar þess efn­is, og gild­ir hún að óbreyttu til 15. maí.

Hingað til hef­ur ein­ung­is Íslend­ing­um og öðrum bú­sett­um hér á landi verið gert að fara í sótt­kví við kom­una til lands­ins, en frá og með föstu­degi mun regl­an því einnig gilda um þá fáu ferðamenn sem koma hingað til lands um þess­ar mund­ir. Regl­an tek­ur til allra sem ferðast til lands­ins frá landi sem sótt­varna­lækn­ir skil­grein­ir sem háá­hættu­svæði, en sem stend­ur eru öll lönd heims á þeim lista.

Til að fram­fylgja breytt­um regl­um um sótt­kví þarf að taka upp tíma­bundið landa­mæra­eft­ir­lit á innri landa­mær­um Schengen-svæðis­ins á Íslandi. Er það í fyrsta sinn sem slíkt er gert hér á landi frá því Ísland gerðist aðili að Schengen-sam­starf­inu árið 2001.

Gerð verður krafa til þeirra sem flytja farþega til lands­ins að þeir út­fylli svo­kallaða heilsu­fars­skýrslu (e. Pu­blic Health Passenger Locator) eða sam­bæri­legt form og munu farþegar þurfa að fram­vísa því við landa­mæra­eft­ir­lit. Með því er gert að skil­yrði við komu fólks til lands­ins að fyr­ir liggi all­ar nauðsyn­leg­ar upp­lýs­ing­ar um hvar viðkom­andi muni dvelja í sótt­kví og hvernig henni verður háttað.


Þriðjudagurinn 21. apríl:

Ferðatakmarkanir framlengdar til 15. maí

Ráðherra hefur tilkynnt að ferðatakmarkanir sem tóku gildi 20. mars verði framlengdar til 15. maí nk. Umfang takmarkananna er óbreytt og verður því útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, áfram óheimilt að koma til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda. Ríkisborgarar Schengen svæðisins og aðstandendur þeirra munu áfram geta komið óhindrað inn á svæðið og er sérstaklega kveðið á um að útlendingar sem hafa dvalar- eða búseturétt innan svæðisins eigi einnig rétt á að koma. Þá eru ákveðnar starfsstéttir undanþegnar takmörkunum, þ. á m. starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og þeir sem sinna farmflutningum.

Fjarfundur með ferðamálaráðherra fyrir aðildarfélaga í SAF

Samtök atvinnulífsins boða til fjarfundar með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, þar sem stjórnendum aðildarfélaga gefst kostur á að ræða við ráðherrann um stöðu íslensks atvinnulífs og aðgerðir stjórnvalda, miðvikudaginn 22. apríl klukkan 11.00.

Um er að ræða klukkustundarfund í gegnum fjarfundarforritið Zoom og félagsmönnum gefst færi á að senda ráðherra spurningar í gegnum spjallþráð forritisins.

Tengill á fundinn verður sendur til stjórnenda aðildarfélaga í Samtökum ferðaþjónustunnar.

Annar pakki stjórnvalda til varnar, verndar og viðspyrnu gegn efnahagslegum og félagslegum áföllum

Stjórnvöld kynntu í dag aðgerðir til varnar verndar og viðspyrnu gegn efnahagslegum og félagslegum áföllum. Meðal aðgerðanna eru lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, heimild fyrirtækja til að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020 og lagabreytingar til að koma til móts við endurgreiðsluvanda ferðaskrifstofa.


Mánudagurinn 20. apríl:

Sterkari saman – taktu þátt í baráttunni!

Eins og öllum er ljóst stöndum við nú í mikilli baráttu fyrir tilverurétti ferðaþjónustu sem atvinnugreinar hér á landi.

Undanfarna daga hefur forysta Samtaka ferðaþjónustunnar og félagsmenn staðið í ströngu við að vekja athygli á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir og hvatt stjórnvöld til að veita ferðaþjónustunni enn frekari stuðning.

Við erum sterkari saman og það er mikilvægt að félagsmenn í SAF leggi sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni. Það er hægt að gera með ýmsum hætti, eins og að vekja athygli á málflutningi SAF með því að deila efni á samfélagsmiðlum.

Hér er samantekt á fréttum og viðtölum sem hafa birst undanfarna daga:

Sprengisandur: Hlutabótaleiðin mun ekki duga fyrir ferðaþjónustufyrirtæki

 • Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF

Hlaðvarp Viljans: Staðan í íslenskri ferðaþjónustu er grafalvarleg

 • Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri

Íslensk ferðaþjónusta stopp: „Þetta er móðir allra krísa“

 • Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri

Víglínan: Alvarleg staða ferðaþjónustunnar

 • Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF

Grein: Loðnubrestur í veldisvexti

 • Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF

Staða ferðaþjónustunnar rædd í pólitíkinni

 • Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF

Stoppa þarf klukkuna til að halda ferða­þjónustunni á lífi

 • Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda Gray Line

Grein: Hver er staða ferðaþjónustunnar?

 • Friðrik Einarsson, eigandi Hótel Bláfells á Breiðdalsvík

Facebook: Mér finnst umræðan um ferðaþjónustuna í samfélaginu svo skrýtin

 • Auður Ösp Ólafsdóttir, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins I heart Reykjavík

Ríkið þarf að gera eitthvað mikið og það þarf að vera stórt

 • Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor

Allar bókanir hafa þurrkast út og sumarið lítur illa út

 • Ívar Ingimarsson, eigandi gistihúss Olgu og stjórnarmaður í SAF

Segir ferðaþjónustufyrirtæki ekki geta staðið undir uppsagnarfresti

 • Herbert Hauksson, eigandi Mountaineers of Iceland

Íslandshótel flest tóm og hótelbygging í bið

 • Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela

Síðasti ferðamaðurinn farinn frá Vík

 • Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri í Vík

Komur 100 skemmtiferðaskipa verið afboðaðar

 • Pétur Ólafsson hafnarstjóri á Akureyri

Viðbótarúthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað 200 milljón kr. viðbótarframlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða á árinu 2020 með hliðsjón af vinnu stjórnar sjóðsins frá úthlutun ársins 2020 í mars sl.

Með fjárveitingunni, sem er hluti af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins, verður unnt að hraða uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum um allt land sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins.

Alls hljóta 15 verkefni, til viðbótar við þau 33 verkefni sem tilkynnt var að fengju styrk úr sjóðnum í mars sl., brautargengi. Um er að ræða verkefni víðsvegar um landið sem sóttu um í sjóðinn við síðustu úthlutun en náðu ekki fram að ganga. Stærstur hluti úthlutunarinnar, eða 43%, rennur til verkefna á Norðurlandi eystra. Þá renna 28% til verkefna á Suðurlandi.

Ferðamálastofa mun á næstunni hafa samband við styrkþega og gera við þá samninga um framkvæmd verkefnanna.


Sunnudagurinn 19. apríl:

Grein eftir formann SAF: Loðnubrestur í veldisvexti

Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður SAF

„Í fyrra námu gjaldeyristekjur í ferðaþjónustu um 470 milljörðum króna. Ef tekjufallið verður algjört er það sambærilegt við tvo loðnubresti á mánuði í heilt ár. Ríkissjóður gæti orðið fyrir 60 milljarða króna tekjutapi hvað varðar beinar skatttekjur frá ferðaþjónustu auk tugmilljarða sem rekja má til umsvifa í greinum tengdum ferðaþjónustu. Gripið hefur verið til sértækra og róttækra aðgerða til „hjálpar“ af minna tilefni.“

Úr grein eftir Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar, sem birtist á Vísi.is í dag.


Fimmtudagurinn 16. apríl:

Skýrsla KPMG fyrir Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála: Langvarandi rekstrarlægð framundan í ferðaþjónustu

Miklar líkur eru á að rekstrarlægðin sem COVID-19 heimsfaraldurinn veldur í ferðaþjónustu hér á landi muni verða djúp og vara næstu 12-24 mánuði. Þetta er meðal þess sem lesa má í skýrslunni Áhrif COVID-19 á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja sem ráðgjafarsvið KPMG hefur unnið með Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála.

Staða fyrirtækja í ferðaþjónustu var almennt veikari en í öðrum meginatvinnugreinum landsins áður en faraldurinn skall á, hvort sem litið er til fjárstyrks eða arðsemi. Hins vegar verða neikvæð efnahagsleg áhrif faraldursins mest á þessa atvinnugrein og mun hún illa standast álagið að óbreyttu.

Settar eru fram þrjár sviðs­myndir um mögu­lega þróun á komu ferða­manna til landsins á næstu mánuðum og árum til að greina hvernig ólík fyrir­tæki í ferða­þjónustu munu geta tekist á við yfir­vofandi hrun í heim­sóknum ferða­manna til landsins. Bjart­sýnasta spá gerir ráð fyrir 43% sam­drætti á þessu ári, grunnsviðs­mynd gerir ráð fyrir 57% sam­drætti og svart­sýn spá gerir ráð fyrir 69% sam­drætti.

Í skýrslunni er bent á að dæmin sýni að ferða­þjónustan hafi getuna til að jafna sig eftir þrengingar og hafa þannig keðju­verkandi á­hrif á aðrar greinar at­vinnu­lífsins. „Ferða­þjónustan var t.a.m. mikil­væg í við­snúningi efna­hags­kerfisins í kjöl­far fjár­mála­hrunsins. Til marks um það voru rúm­lega 32 þúsund laun­þegar skráðir í ferða­þjónustunni um mitt ár 2018, saman­borið við tæp­lega 15 þúsund árið 2008.8 OECD bendir í þessu sam­hengi á að sam­ræmdar og kröftugar mót­vægis­að­gerðir til að styðja við fé­lög í greininni geti skilað gríðar­legri á­vöxtun í öllu hag­kerfinu sem og að við­halda fjölda starfa.“

Íslensk ferðaþjónusta hefur undanfarin ár fjárfest mikið í aukinni framleiðslugetu, sem nauðsynleg hefur verið til að anna betur þeim mikla fjölda ferðamanna sem streymt hefur til landsins. Frá árinu 2016 hefur ferðaþjónustan hins vegar jafnframt glímt við minnkandi arðsemi heilt yfir litið og árið 2019 var greininni áskorun, með m.a. falli WOW Air og fækkun ferðamanna. Mikil fjárfesting og lág arðsemi hefur kallað á verulega lántöku í greininni. Skv. tölum seðlabankans hækkuðu skuldir greinarinnar við viðskiptabankana þrjá um 84% frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2019 á meðan tekjur uxu um 3%. Heildarskuldir hennar eru nú metnar um 300 ma.kr. en tekjufall næstu mánuði – á háönn ársins – nánast algert.

Rafrænn aðalfundur SAF 2020 // Miðvikudaginn 6. maí kl. 14.00

Þar sem enn verða hömlur á samkomum í maí hefur stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar ákveðið að áður boðaður aðalfundur og fundir faghópa samtakanna verði rafrænir.

Aðalfundur SAF fer fram í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM miðvikudaginn 6. maí kl. 14.00. Fundir faghópa SAF fara fram í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM dagana 27. – 29. apríl.

Kosningar til formanns og stjórnar SAF verða einnig rafrænar og standa í vikutíma í aðdraganda aðalfundar, eða dagana 29. apríl til 5. maí.

Félagsmenn í Samtökum ferðaþjónustunnar eru hvattir til að taka dagana frá!


Þriðjudagurinn 7. apríl:

Opið fyrir umsóknir um frestun gjalddaga  

Launagreiðendum sem eru í rekstrarörðugleikum sökum COVID-19 er heimilt að fresta þremur gjalddögum staðgreiðslu launamanna og tryggingagjalds. Heimildin snýr að gjalddögum á tímabilinu frá 1. apríl til 1. desember 2020. Frestun gjalddaga er til 15. janúar 2021. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um frestun gjalddaga á þjónustusíðu Skattsins.


Mánudagurinn 6. apríl:

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar: Skyndihjálp

Allt á einum stað! Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur tekið saman hagnýtar lausnir fyrir ferðaþjónustuna. Verkfæri, hugmyndir að námskeiðum og góð ráð sem hjálpa þér og þínu fyrirtæki í þeim aðstæðum sem nú eru uppi.

Skatturinn framkvæmir úrræði sem snúa að opinberum sköttum og gjöldum

Skatturinn fer með framkvæmd þeirra úrræða sem snúa að opinberum sköttum og gjöldum sem tengjast aðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Á vef Skattsins er að finna upplýsingar um framkvæmd þessara úrræða:

Innheimtureglum Reykjavíkurborgar breytt vegna COVID-19

Borgarráð hefur samþykkt tímabundnar breytingar á innheimtureglum Reykjavíkurborgar vegna aðgerða sem tengdar eru efnahagslegum áhrifum af COVID-19. Breytingin snýr bæði að kröfum fyrirtækja og einstaklinga. Hægt er að óska eftir að lengja eindaga í allt að 90 daga á allt að þremur kröfum í hverjum gjaldaflokki almennra krafna á gildistíma reglnanna. Eftirstöðvum ógjaldfallinna fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins, fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, sem koma til gjalda í maí til október verður dreift á mánuðina maí til desember. Ógjaldfallin fasteignagjöld koma því til greiðslu á 8 mánuðum í stað 6 mánaða. Leigutakar hjá Reykjavíkurborg geta óskað eftir frestun greiðslu leigu á allt að fjórum gjalddögum, þ.e. þeim leigugreiðslum sem eru á gjalddaga í mars, apríl, maí og júní. Þá eru gerðar breytingar á ákvæði um dráttarvexti á almennum kröfum.


Sunnudagurinn 5. apríl:

Ný könnun meðal aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins

Rúmlega 90 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur muni minnka milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama fjórðungs í ár, vegna áhrifa COVID 19 á íslenskt atvinnulíf. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð 50 prósent en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn tæplega 55 prósent. 80 prósent forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja að tekjur muni minnka í marsmánuði á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, fyrir Samtök atvinnulífsins.

Um 90 prósent af íslenskum atvinnurekendum gripu til hagræðingaraðgerða vegna ástandsins og þar af var skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin. Þar á eftir kom niðurskurður annars rekstarkostnaðar.

Uppsagnir voru tæplega 6 þúsund vegna COVID 19. Langstærstur hluti í ferðaþjónustu og flutningum. Um 24 þúsund eru komnir í skert starfshlutfall af sömu ástæðum. Sú tala er nokkuð lægri en fjöldi umsókna um hlutabætur hjá Vinnumálastofnun föstudaginn 3. apríl, en þær nema um 30 þúsund. Sá mismunur sýnir vel hversu hratt forsendur breytast frá degi til dags, en könnunin var gerð á tímabilinu 26. til 31. mars.

Mest notkun hlutabótaúrræðisins er í flutningum og ferðaþjónustu, eða helmingur áformaðra skertra starfshlutfalla, en þar á eftir kemur verslun og önnur þjónusta.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru spurðir um hversu lengi þeir teldu að áhrif COVID-19 muni vara á rekstur fyrirtækjanna. Flestir, eða 30 prósent, töldu áhrifin vara í þrjá til fjóra mánuði og fjórðungur taldi áhrifin standa í fimm til sjö mánuði. Allmargir, eða 29 prósent, töldu áhrifin vara lengur en tíu mánuði og að meðaltími áhrifanna er áætlaður 8 mánuðir.

Áætlað er að könnunin verði gerð reglulega næstu mánuði. SAF hvetja aðildarfélög samtakanna til að svara könnuninni til að niðurstöður hennar endurspegli sem best stöðu og viðhorf fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Staða samskipta vegna erlendra bókunarsíðna

SAF hafa á síðustu vikum átt í töluverðum samskiptum vegna aðgerða erlendra bókunarfyrirtækja gagnvart aðildarfyrirtækjum, sérstaklega á gistimarkaði. SAF telja að ýmsar aðgerðir þessara fyrirtækja hafi verið einhliða og verið ákveðnar með viðskiptahagsmuni bókunarfyrirtækjanna að leiðarljósi en ekki hagsmuni viðskiptamanna þeirra hér á landi. SAF hafa t.d. átt formleg samskipti við Booking.com og komið því á framfæri að samtökin telji að aðgerðir Booking varðandi einhliða endurgreiðslur hafi verið byggðar á rangri skilgreiningu á Force Majeur aðstæðum, hafi skaðað hagsmuni aðildarfyrirtækja SAF, og hafa krafist þess að látið verði af aðgerðunum.

SAF hafa einnig vakið athygli systursamtaka á Norðurlöndum og heildarsamtaka hótelrekenda í Evrópu, HOTREC, á vandkvæðum tengdum aðgerðum Booking og annarra bókunarfyrirtækja og unnið með þeim við að setja þrýsting á bókunarfyrirtækin um að breyta afstöðu sinni. SAF telja að þegar hafi fengist sönnun þess að sameiginlegur alþjóðlegur þrýstingur geti skilað árangri hvað þetta varðar.

Til að styðja sem best við þær aðgerðir hvetja SAF aðildarfyrirtæki til að senda samtökunum upplýsingar um vandkvæði í viðskiptum við bókunarfyrirtæki og skilmálabreytingar þeirra, þar sem slíkar upplýsingar hafa þegar sannað gildi sitt í þessum samskiptum.


Föstudagurinn 3. apríl:

Samkomubann framlengt til að hefta útbreiðslu Covid-19

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl næstkomandi. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.

Engar breytingar verða á gildandi takmörkunum á samkomum og skólahaldi aðrar en framlengdur gildistími til 4. maí. Á tímabilinu verður undirbúin áætlun um hvernig best megi standa að því að aflétta gildandi takmörkunum í áföngum. Stefnt er að því að kynna þau áform fyrir lok þessa mánaðar.

Fella á tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti á gjalddaga í apríl

Í lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var lögfest bráðabirgðaákvæði nr. XXXVII, við lög um virðisaukaskatt. Í ákvæðinu kemur fram að Skattinum sé heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Ráðuneytið hefur því beint þeim tilmælum til Skattsins að fella tímabundið niður álag vegna skila á virðisaukaskatti sem á gjalddaga er 6. apríl 2020 og gildi sú niðurfelling í tíu daga eða til 16. apríl 2020. Af niðurfellingunni leiðir að ekki er reiknað álag vegna vanskila á virðisaukaskatti sem er á gjalddaga 6. apríl næstkomandi.


Fimmtudagurinn 2. apríl:

Starfsafl: Styrkur allt að 90% af kostnaði

Stjórn Starfsafls hefur samþykkt allt að 90% endurgreiðslu af kostnaði vegna starfstengdra námskeiða / náms í stað 75% endurgreiðslu, til að mæta núverandi ástandi í samfélaginu.

Hækkun styrkfjárhæðar á  við um styrki til einstaklinga sem og fyrirtækja og tekur til náms sem keypt er og reikninga sem gefnir eru út á tímabilinu 15. mars til 15. júní og uppfylla eftirfarandi skilyrði, sjá hér.

Vegna einstaklinga:

Vegna styrkja til einstaklinga gilda þær reglur sem fyrir eru og taka til áuninna réttinda en í stað 75% endurgreiðslu af kostnaði getur endurgreiðsla orðið allt að 90%. Sjá reglur hér.

Vegna fyrirtækja:

Vegna styrkja til fyrirtækja gilda þær reglur sem fyrir eru en í stað 75% endurgreiðslu af kostnaði getur endurgreiðsla orðið allt að 90%. Sjá reglur hér.

Því til viðbótar er á það bent að fyrirtæki sem hafa nú þegar fengið styrk vegna stafræns fræðsluumhverfis geta jafnframt nýtt sér þetta og fengið allt að 90% endurgreiðslu á kostnaði vegna stafrænna námskeiða sem keypt eru.  

Athugið að sem fyrr þarf að skila inn lýsingu námskeiðs, greiddum reikningi og lista yfir þátttakendur þar sem fram koma nöfn, kennitölur og stéttafélagsaðild. 

Ekki hika við að senda okkur línu ef frekari upplýsinga er þörf.

* Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar, VSFK eða Hlífar, geta sótt um í sjóðinn. Hámark veittra styrkja á almanaksári er 3 milljónir króna.


Miðvikudagurinn 1. apríl:

SAF fordæma óábyrga afstöðu ASÍ

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem samtökin fordæma óábyrga afstöðu ASÍ gagnvart málaleitan Samtaka atvinnulífsins um að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja.

Í tilkynningunni segir m.a.:

„Samtök ferðaþjónustunnar fordæma þessa afstöðu enda verður neitun ASÍ ekki skilin á annan hátt en að verkalýðshreyfingin skorist undan ábyrgð sinni og hyggist ekki leggjast á árarnar með stjórnvöldum og atvinnulífinu á neinn hátt í þeirri lífsbaráttu sem íslensk ferðaþjónusta og efnahagslíf í heild stendur frammi fyrir næstu mánuði og ár.“

Samtök ferðaþjónustunnar skora á Alþýðusamband Íslands að breyta afstöðu sinni.


Þriðjudagurinn 31.mars:

Stafræn fræðsla – 8 góð ráð fyrir stjórnendur

Mörg fyrirtæki og stofnanir skoða nú möguleika á að bjóða starfsfólki sínu upp á stafræna eða rafræna fræðslu. Líkt og með aðra fræðslu þarf að huga að ýmsum mikilvægum atriðum þegar sú leið er farin.

Hæfnsetur ferðaþjónustunnar gefur stjórnendum sem ætla að velja stafræna fræðslu fyrir starfsfólk sitt 8 góð ráð til að tryggja árangur.

Virðum lög og stöðvum bótasvik

Samtök atvinnulífsins hvetja fólk og fyrirtæki til að fara í einu og öllu að nýsamþykktum lagaákvæðum um hlutaatvinnuleysisbætur. Það er með öllu óheimilt að starfsfólk, sem hefur farið á hlutaatvinnuleysisbætur, vinni umfram hið nýja starfshlutfall án þess að Vinnumálastofnun sé tilkynnt um hækkun starfshlutfalls og launagreiðslna. Stuðli atvinnurekandi að slíkum bótasvikum þá getur það varðað við hegningarlög.

SA hvetja atvinnurekendur, stéttarfélög, launafólk og aðra sem búa yfir upplýsingum um bótasvik að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Skoða verður allar ábendingar og taka á af festu.

Stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og landsmenn allir eru um þessar mundir að taka höndum saman til að standa vörð um störf við þessar erfiðu aðstæður. Stjórnvöld hafa stigið fram með aðgerðir, eins og hlutaatvinnuleysisbætur, í þeirri viðleitni. Það er til skammar ef það er svo að einhver séu að misnota sér slíkar neyðarráðstafanir. Það er til þess fallið að draga úr samstöðu um slíkar aðgerðir sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir allt atvinnulífið.


Mánudagurinn 30. mars:

Mikilvægar upplýsingar sem nýtast aðildarfyrirtækjunum SA við endurskoðun starfsmannamála

Atvinnulífið stendur frammi fyrir mikilli áskorun vegna heimsfaraldurs Covid-19. Samtök atvinnulífsins leita allra leiða til að aðstoða aðildarfyrirtækin við þessar erfiðu aðstæður og óvissu sem nú ríkir.

SA hafa í því sambandi leitað eftir afstöðu ASÍ til þess með hvaða hætti draga megi tímabundið úr launakostnaði atvinnulífsins, enda ljóst að umsamin hækkun launa 1. apríl nk. mun reynast fjölda fyrirtækja erfið og auka enn á vandann.

SA hafa einnig haldið rafræna fundi fyrir félagsmenn þar sem farið hefur verið yfir efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, atvinnuleysisbætur á móti hlutastarfi og endurgreiðslu hluta launa í sóttkví. Kl. 13:00 í dag mánudaginn 30. mars er fundur um aðgerðir fjármálafyrirtækja fyrir fyrirtæki.

Á vinnumarkaðsvef SA má nálgast mikilvægar upplýsingar sem nýtast aðildarfyrirtækjunum við endurskoðun starfsmannamála.

Hlutavinna á móti atvinnuleysisbótum

Atvinnurekendur hafa þurft að draga hratt úr launakostnaði og tímabundnar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði gera atvinnurekendum og launamönnum kleift að semja um lækkun starfshlutfalls án undangengins uppsagnarfrests. Í kynningarefni SA um hlutavinnu og bætur er flestum spurningum svarað auk þess sem nálgast má samningsform og tengingu við reiknivélar.

Laun í sóttkví

Sérreglur gilda um einstaklinga sem sæta sóttkví að kröfu heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Þótt greiðsluskylda atvinnurekanda sé ekki til staðar þá hafa SA beint þeim tilmælum til þeirra að greiða laun, m.a. með hliðsjón af endurgreiðslu hluta kostnaðar af hálfu ríkisins. Sjá nánar kynningarefni SA um laun í sóttkví.

Launabreytingar 1. apríl 2020

Samkvæmt kjarasamningum hækka laun og launataxtar þann 1. apríl. Lágmarkstaxtar kjarasamninga hækka um kr. 24.000 en mánaðarlaun sem eru hærri en taxtar hækka um kr. 18.000. Sjá kaupgjaldsskrá SA nr. 24.

Samkomulag um lækkun launa

Sökum erfiðrar rekstrarstöðu margra fyrirtækja getur komið til skoðunar hvort nauðsynlegt sé að lækka tímabundið laun starfsmanna, þ.e. laun umfram lágmarkstaxta kjarasamninga.

Lækkun launa er hægt að framkvæma með tvennum hætti, uppsögn launaliðar ráðningarsamnings eða með samkomulagi við starfsmann. Sjá nánar kynningarefni SA um uppsögn launaliðar þar sem nálgast má samningsform.

Uppsögn – hópuppsögn

Margir atvinnurekendur standa frammi fyrir því að úrræði um lækkun starfshlutfalls á móti atvinnuleysisbótum nægir ekki að öllu leyti til að bregðast við samdrætti í rekstri komandi mánuði. Á vef SA er fjallað ítarlega um framkvæmd uppsagna og boðið er upp á form uppsagnarbréfa undir „form & eyðublöð“.

Sérstakar reglur gilda um hópuppsagnir, m.a. hvað varðar upplýsingagjöf og samráð.

Upplýsingafundur SA vegna COVID-19: Aðgerðir fjármálafyrirtækja fyrir fyrirtæki mánudaginn 30. mars

Boðað er til rafræns upplýsingafundar klukkan 13.00 í dag, mánudaginn 30. mars, fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins um aðgerðir fjármálafyrirtækja fyrir fyrirtæki.

Hægt verður að beina spurningum til framkvæmdastjóra allra samtakanna á meðan á fundi stendur.

Dagskrá:

 • Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fer yfir þau viðfangsefni sem atvinnulífið stendur frammi fyrir vegna COVID 19.
 • Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, ræðir aðgerðir fjármálafyrirtækja fyri r fyrirtæki.
 • Spurt og svarað, framkvæmdastjórar allra samtakanna svara spurningum áhorfenda.

Tengill á viðburðinn verður sendur út fyrir hádegi á mánudag til allra aðildarfélaga í SAF.

Að fundinum standa Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Viðskiptaráð Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu.


Sunnudagurinn 29. mars:

Grein eftir formann SAF: Enginn veit …

Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður SAF

Fyrir aðeins mánuði síðan hefðu fáir getað ímyndað sér stöðuna eins og hún er í dag. Kórónuveiran hefur stökkbreytt samfélögum og hagkerfum heimsbyggðarinnar á örskömmum tíma. Við þekkjum ekki þessa veröld sem við búum við í dag og horfum agndofa á hvernig veiran þýtur um heiminn og veldur veikindum, dauða og lamar mörg þau gangverk sem við höfum hingað til talið sjálfsögð. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem fyrst fær rothöggið. Ferðaþjónusta eins og við þekktum hana fyrir örfáum vikum síðan hefur nú nánast lagst af. Það er átakanlegt að horfa á hvert hótelið á fætur öðru skella í lás, veitingahús sömuleiðis, rútuflotann og bílaleigubílana verklausa, snjósleðana komna niður á láglendi, hvalaskoðunarskipin bundin við höfn, flugvélaflotann á jörðu niðri. Starfsfólk í tugþúsundatali sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Það stefndi í gott ferðaþjónustuár 2020 – sem hefði án vafa skotið enn styrkari stoðum undir ferðaþjónustu sem burðarás í íslensku atvinnulífi, stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinina sem skapar líf, störf og tekjur um land allt. Á þessari stundu veit enginn hversu lengi þetta ástand, sem ekkert okkar vill vera í, kemur til með að vara. Hvenær getum við keyrt vélarnar aftur í gang? Hvenær verður ferðatakmörkunum aflétt? Hvernig verður efnahagsástand í á markaðssvæðunum okkar þegar upp verður staðið? Hvenær verða ferðamenn tilbúnir til að ferðast aftur? Verður það eftir tvo mánuði? Sex mánuði? Tólf mánuði, eða kannski ekki fyrr en eftir átján mánuði? Það veit enginn. Á meðan er það lífsnauðsynlegt að halda lífi í fyrirtækjunum, svo þau verði tilbúin til áframhaldandi verðmætasköpunar um leið og rofar til. Það er lykilatriði að viðhalda ráðningarsambandi fyrirtækja og starfsmanna, eins lengi og auðið er. Við megum ekki við því að missa þá þekkingu og reynslu sem byggst hefur upp undanfarin ár. Ferðaþjónustan var sú atvinnugrein sem keyrði okkur af krafti upp úr síðustu kreppu og hún hefur alla burði til að gera það aftur.

Fyrstu björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kærkomnar og það var ómetanlegt að finna stuðning hins opinbera strax frá fyrstu stundu. Þessar aðgerðir komu án efa í veg fyrir fjöldauppsagnir i stórum stíl. Það er mikilvægt að smíða og hafa tilbúið í startholunum alþjóðlegt markaðsátak, sem fer í gang um leið og færi gefst. Það er ekki ólíklegt að þegar upp verður staðið, verðum við með sterk spil á hendi – með víðfemið, víðernin og fámennið. Það er líka mikilvægt að fara í markaðsátak á innanlandsmarkaði, þar sem það er líklegt að íslenskir ferðamenn verði tilbúnir til ferða um landið og viðskipta við innlend fyrirtæki fyrr en erlendir gestir.

Það er óskandi að Íslendingar skynji líka mikilvægi þess að eiga þessi viðskipti og örva þar með heimahagkerfið. Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu gera mörgum fyrirtækjum kleift að þreyja þorrann í einhverjar vikur eða mánuði. Það liggur hins vegar fyrir að ef við missum út háannatíma ferðaþjónustu verðum við í verulegra slæmri stöðu, sem mun krefjast töluvert meiri stuðnings frá hinu opinbera. Það liggur allavega fyrir að hafi einhver efast um gildi og þýðingu ferðaþjónustu fyrir íslenskt hagkerfi, atvinnusköpun og byggðamál, þá ætti að vera runnið upp ljós fyrir hinum sama núna. Það sannast hið fornkveðna að „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“.

Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar


Laugardagurinn 28. mars:

Landsmennt veitir fulla fjármögnun námskeiða

Landsmennt, fræðslusjóður Samtaka atvinnnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni, býður einstaklingum og fyrirtækum að sækja námskeið þeim að kostnaðarlausu.

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Landsmenntar fræðslusjóðs ákveðið bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu.

Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins sem taka til námskeiða sem ekki eru rafræn eða í fjarkennslu. Stofnað verður til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Átakið  gildir frá  15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma. Þessi tímarammi verður endurskoðaður ef tilefni verður til.


Föstudagurinn 27. mars:

Ferðalangur í eigin landi

Undanfarna daga hefur kvikmyndagerðarmaðurinn Garpur Ingason Elísabetarson verið á ferð um Suðurland, en stefnan er að fara hringinn í kringum landið! Garpur er einn á ferð en vopnaður myndavélum fyrir ferðadagbók sem hann heldur úti á Vísir.is og Í bítið á Bylgjunni sem sjónvarpað er á Stöð 2. Garpur heimsækir íslenskar náttúruperlur og hvetur Íslendinga til að kynnast landinu sínu betur.

Hægt er að fylgjast með Garpi á Instagram og á Facebook:

Samtök ferðaþjónustunnar og aðildarfyrirtæki samtakanna leggja Garpi lið í ferðalaginu.

Ætlar þú að verða ferðalangur á Íslandi í sumar?

Upplýsingafundur SA vegna COVID-19: Aðgerðir fjármálafyrirtækja fyrir fyrirtæki mánudaginn 30. mars

Boðað er til rafræns upplýsingafundar klukkan 13.00 mánudaginn 30. mars fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins um aðgerðir fjármálafyrirtækja fyrir fyrirtæki.

Hægt verður að beina spurningum til framkvæmdastjóra allra samtakanna á meðan á fundi stendur.

Dagskrá:

 • Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fer yfir þau viðfangsefni sem atvinnulífið stendur frammi fyrir vegna COVID 19.
 • Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, ræðir aðgerðir fjármálafyrirtækja fyri r fyrirtæki.
 • Spurt og svarað, framkvæmdastjórar allra samtakanna svara spurningum áhorfenda.

Tengill á viðburðinn verður sendur út fyrir hádegi á mánudag til allra aðildarfélaga í SAF.

Að fundinum standa Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Viðskiptaráð Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu.

Fyrstu aðgerðir Reykjavíkurborgar

Borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum fimmtudaginn 26. mars fyrstu aðgerðir til að bregðast við áfallinu sem COVID-19 faraldurinn hefur í för með sér. Aðgerðir borgarinnar eru 13 talsins. Þær ná til frestunar gjalda og aukins svigrúms fyrir heimili og fyrirtæki og lækkunar fasteignagjalda. Framkvæmdum borgarinnar og fyrirtækja hennar, Orkuveitu Reykjavíkur, Faxaflóahafna og Félagsbústaða, verður flýtt, farið verður í uppbyggingu húsnæðis og markaðsátaks í ferðaþjónustu með áherslu á Reykjavík sem áfangastað. Sérstaklega er litið til skapandi greina, nýsköpunar, þekkingargreina, menningar, íþrótta, lista og viðburðahalds. Áhersla verður lögð á vinnumarkaðsaðgerðir, þá einkum til þeirra hópa sem mögulega fara illa út úr ástandinu, einyrkja og fólks af erlendum uppruna.

GODO: Afbókanir og endurgreiðslur

Hugbúnaðar- og þjónustufyrirtækið GoDo hefur tekið saman upplýsingar um skilmála ýmissa bókunaraðila til að auðvelda rekstraraðilum að finna og átta sig á þeim. SAF vekja athygli á þessari samantekt.

Þarf ég að endurgreiða afbókaða gistingu ef hún er óendurgreiðanleg?

Á undanförnum dögum hafa þriðju aðilar bókana beðið um endurgreiðslur á gistingu, afþreyingu og annarri ferðatengdri þjónustu. Mjög svo ströngum skilmálum hefur verið einhliða bætt við af bókunarrásum vegna COVID-19. Ljóst er að afbókanir af þessari stærðargráðu geta haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi gisti-aðila á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess að gististöðum, undir venjulegum kringumstæðum, ber ekki skylda til þess að endurgreiða þjónustuna. Gististaðir ættu að leggja mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum inneign eða breyttan komutíma frekar en endurgreiðslu á þjónustunni.

Það eru svo sannarlega ótrúlegir tímar sem við upplifum þessa dagana í ljósi Covid-19 veirunnar sem herjar á heiminn allan. Allskonar áskoranir sem við eigum við í dag höfðum við aldrei ímyndað okkur að við þyrftum að takast á við áður. Það er því afskaplega mikilvægt að stíga varlega til jarðar og taka þannig meðvitaðar ákvarðanir varðandi allt sem snýr að rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustunni.

Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá rekstraraðilum sem snúa að bókunarrásum og skilmálum þeirra. Það er ansi flókið að setja sig inn í alla skilmála þar sem þeir byggja á mismunandi upplýsingum og eru breytilegir eftir bókunarrásum.

Við hjá Godo höfum tekið saman þessar upplýsingar ykkur til fróðleiks og til að einfalda ykkur leitina í frumskóginum mikla um hvar er hægt að nálgast þessa skilmála hjá mismunandi bókunarrásum.

Athugið að skilmálar bókunar rásana eru uppfærðir reglulega, mikilvægt er því að fylgjast vel með. Slóð inn á upplýsingar hverrar rásar fyrir sig er að finna hér að neðan, en uppfærðar upplýsingar birtast þar reglulega.

Skilmálar Booking.com vegna Covid-19

Skilmála Booking.com, sem stöðugt er verið að uppfæra, má finna hér: 

Evrópusambandið og Schengen svæði:

Allar bókanir gerðar fyrir gististaði innan Evrópusambandsins og innan Schengen af gestum utan þess svæðis (fyrir utan Bretland og Írland) með innritun milli 20. Mars 2020 og 13. Apríl 2020 falla undir Covid-19 skilmála Booking.com.

Athugið að skilmálarnir eru mismunandi eftir því frá hvaða landi gesturinn er að koma. En listann má finna á slóðinni hér.

Booking.com gerir þá kröfu að gististaðurinn endurgreiði gestinum sem falla undir þeirra skilmála Covid-19. Ef gististaðurinn endurgreiðir ekki bókunina innan ákveðins tímaramma, sem hefur verið afbókuð án gjalds, mun Booking.com endurgreiða fyrir hönd gististaðarins og senda reikning á gististaðinn (inni á Extraneti undir Finance og Invoices).

Skilmálar Expedia vegna Covid-19

Skilmála Expedia, sem uppfærðir voru síðast þann 21. Mars 2020, má finna hér:

Bókanir sem voru gerðar fyrir 19. mars 2020 með innritun frá og með 20. mars 2020 til 30. mpríl 2020 falla undir skilmála Expedia.

Þann 20. mars 2020 kynnti Expedia “Cancellation Waiver Program” vegna Covid-19 fyrir þær bókanir sem falla undir þeirra skilmála. Í boði voru tveir möguleikar:

 1. Möguleiki eitt var að Expedia afbókar og endurgreiðir gestinum (sem fellur undir Covid-19 skilmála Expedia) og gististaðurinn var sjálfvirkt kominn inn í þeirra “Cancellation Waiver Program”.
  Ef þú valdir ekki möguleika 2 þá fór gististaðurinn þinn sjálfvirkt inn í möguleika 1.
 2. Möguleiki tvö var að afskrá sig frá þessum skilmálum, en það þurfti að gera fyrir miðnætti þann 20. mars 2020. Möguleiki 2 var fýsilegri að mati Godo en hann felur í sér eftirfarandi: 
 • Gesturinn sem á bókun, sem fellur undir Covid-19 skilmála Expedia, má afbóka og fá inneign (e. Voucher) sem gildir í 12 mánuði.
 • Gesturinn gæti þá notað þessa inneign til þess að endurbóka, innan 12 mánaða, hjá sama gististað í gegnum Expedia.
 • Ef gesturinn nýtir sér ekki þessa inneign innan 12 mánaða þá getur hann fengið endurgreitt.
 • Þetta þýðir í stuttu máli að bókunin verður afbókuð í kerfinu og gististaðurinn vonar að gesturinn bóki aftur innan 12 mánaða og nýti sér inneignina.

Skilmálar Airbnb vegna Covid-19

Skilmála Airbnb má finna hér:

Airbnb hefur leyft þeim gestum sem falla undir skilmála sína vegna Covid-19 að afbóka endurgjaldslaust. Síðasta uppfærsla var gerð 19. Mars 2020. 

Bókanir gerðar 14. mars 2020 eða fyrr með innritunar degi frá og með 14. mars 2020 – 14. apríl 2020 falla undir þessa skilmála. 

Bókanir gerðar eftir 14. Mars 2020 og bókanir með innritunardegi eftir 14. Apríl 2020 falla ekki undir þessa Covid-19 skilmála Airbnb heldur falla þær bókanir undir hina venjulegu skilmála hvers og eins gististaðar (“Host Cancellation policy”).

Skilmálar Lastminute.com vegna Covid-19

Lastminute.com nýjustu skilmálar vegna Covid-19 má finna hér:

Lastminute.com áskilur sér rétt að afbóka og endurgreiða allar bókanir með innritun til og með 15. apríl 2020 á áfangastöðum og/eða fyrir gesti sem koma frá löndum sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna Covid-19 og takmarkana sem ríkisstjórnir þessa þjóða hafa sett á t.d. lokanir landamæra eða ferðabönn.

Skilmálar Hotelbeds.com vegna Covid-19 

Nýjustu skilmálar Hotelbeds vegna Covid-19 má finna hér:

HotelBeds hafa framlengt sínum skilmálum til 15. apríl 2020 en allir gestir mega afbóka frítt og án kostnaðar ef hann á komudag frá 17. mars 2020 til og með 15. apríl 2020. Það eru þó undantekningar á þeim skilmálum:

 1. Skilmálarnir gilda ekki á þeim bókunum þar sem að gesturinn er nú þegar kominn á leiðarenda/er kominn á gististaðinn.
 2. Skilmálarnir gilda ekki fyrir bókanir sem voru afbókaðar fyrir 23. Mars 2020 með komudag milli 1. Apríl 2020 og 15. Apríl 2020

Frekari útlistun er að finna hér:

Skilmálar Agoda vegna Covid-19

Skilmála vegna Covid-19 á Agoda má finna hér:

Gestir sem bókað hafa á Agoda og eiga komudag á næstu 2 vikum gætu fallið undir skilmála sem Agoda hefur sett. Ekki kemur fram hver skilyrðin eru til þess að bókun falli undir þessa skilmála:

“If your travel period is more than 2 weeks away, we recommend checking back closer to the check-in date before making any changes or cancellations, as conditions change rapidly, including availability of free cancellation.

If your booking is eligible for free cancellation, you will see the message: “This booking may be affected by a current emergency or developing situation. Due to these exceptional circumstances, Agoda will waive all fees on cancellation for your affected booking.” You may then proceed to cancel through this self-service option without contacting customer service.”

Skilmálar Hostelworld vegna Covid-19

Skilmála Hostelworld vegna Covid-19 má finna hér:

Hostelworld ráðleggur þeim gestum sem bókað hafa gistingu með innritun til og með 30. apríl 2020 að hafa samband við Hostelworld sem mun skoða hvert mál fyrir sig.


Fimmtudagurinn 26. mars:

Samkomubann: Leiðbeiningar til veitinga- og gististaða vegna hámarksfjölda í hóp

Nú er sem kunnugt er búið er að herða kröfurnar vegna samkomubans og hámarks fjöldi í hópum og hverju rými er 20 manns. Ferðamálastofa hefur í samvinnu við Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytið unnið eftirfarandi leiðbeiningar. Munum einnig 2ja metra regluna.

Leiðbeiningar:

 • Hver salur er eitt rými, hægt er að skipta upp í fleiri rými sjá hér að neðan.
 • Eldhús er rými.
 • Matsalur, hægt er að skipta honum upp og þannig að það eru að hámarki 20 í hverju rým. T.d. 17 gestir og 3 þjónar.
 • Það má skipta sal þannig að alltaf séu auð borð í röð sem skipta salnum og búa þannig til lokað rými. Ef þessi leið er notuð skal tryggja að það séu tveir metrar á milli rýma.
 • 2 metrar á milli borða/hópa.
 • Fjölskyldur og hópar sem hafa verið í miklu samneyti áður geta setið við sama borð.
 • Sér salerni fyrir hvert rými.
 • Kokkar og starfsfólk í eldhúsi eiga að vera í eldhúsi og bera matinn fram að dyrum aðskildra rýma. Þar taka þjónar við.
 • Kokkar og starfsfólk í eldhúsi eiga að hafa sér inngang og salerni. x Spritt við inngang í sal og skilti sem segir fólkið að spritta sig á leið inn og leið út.
 • Þvo mat- og vínseðla á milli gesta/borða.
 • Tryggja þarf að ekki myndist örtröð í forstofu eða við inngang. Muna, tvo metrar á milli gesta.
 • Á hverri vakt fara starfsmenn ekki á milli rýma. x Hvert herbergi (gisting) er eitt rými.
 • Ekki má bóka fleiri en ca 18 í gistingu nema vera búin að skipta matsal í fleiri rými.

Munum að við erum öll í þessu saman og þannig sigrum við!

Kveðja frá forseta Íslands

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur verslunarfólki, starfsfólki í ferðaþjónstu og öðrum þjónustustörfum kveðju og þakkir fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður.


Miðvikudagurinn 25. mars

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 eru án hliðstæðu. Heildarumfang aðgerðanna gæti numið yfir 230 ma.kr., sem felst annars vegar í frestun greiddra gjalda og hins vegar auknum útgjöldum, skattalækkunum og lánafyrirgreiðslu með ríkisábyrgð. Auk þess mun ríkissjóður styðja við hagkerfið með lægri skatttekjum og auknum útgjöldum sem leiða af verri efnahagsaðstæðum. Þessar víðtæku aðgerðir leggjast á sveif með lækkun Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum, bindiskyldu og sveiflujöfnunarauka. 

Aðgerðunum er fyrst og fremst ætlað að vinna gegn atvinnuleysi og tímabundnum tekjumissi einstaklinga með hlutaatvinnuleysisbótum, aðgengi að séreignarsparnaði, frestun skattgreiðslna fyrirtækja og fyrirgreiðslu vegna rekstrarlána til þeirra. Þegar bein áhrif faraldursins verða í rénun verður stutt myndarlega við endurreisn hagkerfisins með auknum opinberum framkvæmdum sem stuðla að langtímahagvexti, skattaafslætti vegna vinnu á verkstað og átaki í markaðssetningu Íslands fyrir ferðamenn.

Rekstrarráðgjöf Litla Íslands í boði fyrir félagsmenn SAF

This image has an empty alt attribute; its file name is litla-ísland-rekstrarviðtal-1024x536.png

Vegna þeirra efnahagslegu áskorana sem viðskiptalífið stendur nú frammi fyrir vegna COVID-19 býður Litla Ísland upp á tímabundna rekstraráðgjöf til félagsmanna Samtaka ferðaþjónustunnar. Rekstrarsérfræðingur Litla Íslands er Ingibjörg Björnsdóttir, lögmaður og viðurkenndur bókari, en hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri og rekstrarráðgjöf. Þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að ræða við rekstrarsérfræðing Litla Íslands geta pantað símatíma eða rekstrarviðtal á www.litlaisland.is/rekstrarvidtal, hægt er að bóka ýmist 15 mínútna símatíma eða klukkustundarlangt viðtal. Athugið að rekstrarráðgjöf Litla Íslands er eingöngu í boði fyrir fyrirtæki sem eru aðilar að þeim samtökum sem að verkefninu standa sem eru auk Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu

Vinnumálastofnun: Opið fyrir umsóknir á mínum síðum vegna minnkaðs starfshlutfalls

Nú er búið að opna fyrir umsóknir um minnkað starfshlutfall. Sótt er um í gegnum mínar síður hjá Vinnumálastofnun. Launafólk fer inn á mínar síður atvinnuleitenda en atvinnurekendur á mínar síður atvinnurekanda. 

Sviðsmyndir Seðlabanka Íslands af efnahagslegum áhrifum Covid-19 farsóttarinnar

Seðlabanki Íslands gaf í dag út sviðsmyndir um möguleg efnahagsleg áhrif Covid-19 farsóttarinnar. Kynningarefni sem birt var og nefnt í vefútsendingu í morgun er nú aðgengilegt á vef bankans.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf

Samband íslenskra sveitarfélaga beinir því til sveitarfélaga að hrinda í framkvæmd eins og kostur er eftirfarandi hugmyndum og ábendingum að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum. Sambandið hvetur ríkisstjórn og Alþingi að gera viðeigandi ráðstafanir svo þær verði að veruleika. Stjórn sambandsins mun áfram fylgjast vel með áhrifum þessa samdráttar og móta frekari tillögur að viðbrögðum sveitarfélaga eftir því málum vindur fram.

I. Fasteignagjöld og gjaldskrár

 1. Sveitarfélög kanni möguleika á að fresta a.m.k. tveimur gjalddögum fasteignagjalda, með sams konar hætti og ríkið kann að bjóða fyrirtækjum að fresta gjalddögum staðgreiðslu og tryggingargjalds, hjá einkafyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa COVID-19. Sveitarfélög setji sér reglur um þau viðmið sem koma til greina við veitingu slíkra fresta. Horft verði til þeirra skilgreininga sem ríkið mun beita við slíkar ákvarðanir.
 2. Unnið verði að mótun frekari tillagna á næstu tveimur mánuðum um hvernig koma megi til móts við fyrirtæki sem fjallað er um í staflið a.
 3. Við ákvörðun álagningarhlutfalls fasteignaskatts í flokkum A og C árið 2021 verði horft til þess að skattar hækki í takt við áætlaðar verðlagsbreytingar milli ára en ekki hækkun fasteignamats.
 4. Sveitarfélög kanni möguleika á lækkun gjaldskrár og tímabundinnar lækkunar eða niðurfellingar tiltekinna gjalda. Þessum stuðningi verði fyrst og fremst beint að einstaklingum og fjölskyldum sem verða fyrir atvinnumissi og í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun.
 5. Á árinu 2021 verði haldið aftur af gjaldskrárhækkunum sem kostur er.

II. Framkvæmdir

 1. Viðhaldsframkvæmdir sveitarsjóða og B-hluta fyrirtækja verði auknar og þeim flýtt eins og kostur er, umfram það sem er í gildandi fjárhagsáætlunum ársins 2020 og í áætlunum fyrir árið 2021 .
 2. Tekin verði upp endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna viðhaldsframkvæmda sveitarfélaga.
 3. Ráðist verði í fráveituframkvæmdir eins fljótt og kostur er, enda fái sveitarfélög stuðning frá ríkinu sem nemur ígildi virðisaukaskatts vegna framkvæmdanna.
 4. Flýtt verði stofnframkvæmdum á vegum sveitarsjóða og B-hluta fyrirtækja.
 5. Aukinn verði stuðningur Framkvæmdasjóðs aldraðra við viðhaldsframkvæmdir og stofnkostnað við hjúkrunarheimili. Stuðningi skal forgangsraða til verkefna sem eru full hönnuð og hæf til framkvæmda með litlum fyrirvara.
 6. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði nýttur í auknum mæli, ásamt stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga, til uppbyggingar á húsnæði fyrir fatlað fólk og til að bæta aðgengi fatlaðra að mannvirkjum og útvistarsvæðum.
 7. Tilraunaverkefnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um stuðning til að örva byggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni verði hrint í framkvæmd sem allra fyrst í samvinnu við þau sveitarfélög sem í hlut eiga.

III. Atvinnuátaksverkefni og vinnumarkaður

 1. Sveitarfélög skilgreini og bjóði allt að 1.000 störf í atvinnuátaksverkefnum í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð.
 2. Þess verði sérstaklega gætt að ný störf henti konum og fólki af erlendum uppruna.
 3. Í þeim tilgangi að auka atvinnumöguleika fólks af erlendum uppruna í atvinnuleit á Íslandi verði ráðist í veglegt átak í íslenskunámi fyrir viðkomandi og veiti sveitarfélög og ríki sérstakan fjárstuðning til þeirra sem námið sækja.
 4. Beina skal styrkjum úr nýsköpunarsjóðum til einyrkja og til kvennastarfa.
 5. Það er sveitarfélögum kappsmál að standa vörð um störf á þeirra vegum þrátt fyrir horfur um versnandi fjárhagsstöðu á næstu misserum.

IV. Markaðsátak í ferðaþjónustu

 1. Landshlutasamtök sveitarfélaga verði hvött til að breyta áherslum við mótun sóknaráætlana fyrir næstu ár þannig að aukinn þungi beinist að ferðaþjónustutengdum verkefnum og átaki til kynningar á ferðaþjónustu í heimabyggð.
 2. Sveitarfélög, stofnanir, sjóðir og fyrirtæki auki mótframlög sín í sóknaráætlunarverkefni er lúta að eflingu ferðaþjónustu.

V. Laga- og reglugerðarbreytingar og skattheimta

 1. Lögum verði breytt svo sveitarfélögum verði heimilt að fresta gjalddögum fasteignagjalda.
 2. Ákvæði sveitarstjórnarlaga um fjármálareglur sveitarfélaga verði rýmkuð með því að jafnvægisreglu og skuldareglu verði tímabundið vikið til hliðar.
 3. Viðmiðunarfjárhæðir laga um opinber innkaup um útboðsskyldu sveitarfélaga verði rýmkaðar tímabundið.
 4. Áhættuvog sveitarfélaga í áhættugrunni lánastofnana verði lækkuð úr 20% í 0%. Þessari aðgerð er ætlað að skila betri vaxtakjörum fyrir sveitarfélög og bæta möguleika Lánasjóðs sveitarfélaga að veita stærri sveitarfélögum aukin lán.
 5. Sett verði lög um stuðning ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga.
 6. Sett verði lög um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhaldsframkvæmda sveitarfélaga.
 7. Engir nýir skattar og gjöld verði lögð á opinbera þjónustu sveitarfélaga, s.s. urðunarskattur.

Þriðjudagurinn 24. mars:

Leiðbeiningar varðandi afbókanir og endurgreiðslur

Eins og allir vita er afar erfið staða í íslenskri ferðaþjónustu vegna útbreiðslu COVID-19 á alþjóðavísu. Tekjuflæði ferðaþjónustunnar hefur orðið fyrir verulegu áfalli og um þessar mundir er framtíðin óljós. Bókanir hafa dregist verulegur saman og afbókanir hafa verið tíðar. Fyrirsjáanlegt er að þetta getur haft afar neikvæða áhrif á framtíðarinnkomu.

Undir þessum kringumstæðum hafa endurgreiðslukröfur samfara afbókunum komið fram frá viðskiptavinum ferðaþjónustufyrirtækja, annars vegar frá ferðamönnum og hins vegar frá erlendum og innlendum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Sterkar vísbendingar eru um að endurgreiðslur hafi þegar haft afar neikvæð áhrif á lausafjárstöðu ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi.

Gera má ráð fyrir því að víðtækar ferðatakmarkanir geti gert viðskiptavinum ferðaþjónustunnar nokkuð erfitt, og jafnvel í einhverjum tilvikum ófært, að nýta þá þjónustu sem þeir hafa pantað. Eftir því sem ferðatakmarkanir verða algengari því ríkari ástæða er til að ætla að endurgreiðslukröfur verði tíðari og háværari.

Undir slíkum kringumstæðum mun reyna verulega á ýmsa þætti sem snerta ákvarðanatöku íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja um hvernig slíkum kröfum er svarað. Við ákvarðanatökuna mun, svo dæmi séu nefnd, reyna á lagalegan rétt þeirra sem krefjast endurgreiðslu, hagsmuni ferðaþjónustunnar af áframhaldandi góðu viðskiptasambandi við viðskiptavini og ekki síst getu ferðaþjónustunnar til að standa undir endurgreiðslum til skemmri eða lengri tíma litið.

Undanfarna daga hafa starfsmenn SAF fengið fjöldamargar spurningar um stöðu ferðaþjónustufyrirtækja í ljósi endurgreiðslukrafna. Svör SAF hafa í grundvallaratriðum verið veitt í ljósi aðstæðna hverju sinni, annars vegar aðstæðna viðkomandi fyrirtækis og hins vegar kringumstæðna á sviði sóttvarna og möguleikum til ferðalaga til og frá landinu. Þá hafa stjórnvöld í einhverjum tilvikum gefið út leiðbeiningar.

Í ljósi framangreinds vilja SAF koma nokkrum ábendingum á framfæri. Hafa verður í huga að ábendingarnar eru aðeins settar fram í leiðbeiningarskyni og félagsmönnum er því rétt að ganga úr skugga um það með sjálfstæðum hætti hvort og að hvaða leyti þær eiga við.


Mánudagurinn 23. mars:

Samkomulag um tímabundna greiðslufresti á lánum fyrirtækja vegna heimsfaraldurs Covid-19

Tilkynning frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Landssamtökum lífeyrissjóða

Lánveitendur hafa gert með sér samkomulag um tímabundna greiðslufresti á lánum til fyrirtækja. Er samkomulagið hluti af viðbrögðum fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða við efnahagsáhrifum heimsfaraldurs Covid-19 og er ætlað að styðja við fyrirtækin í landinu og starfsfólk þeirra. Ljóst er að Covid-19 mun trufla atvinnustarfsemi tímabundið hér á landi og hafa í för með sér greiðsluerfiðleika hjá fyrirtækjum. Aðilar samkomulagsins telja mikilvægt að lánveitendur veiti fyrirtækjum nauðsynlegt ráðrúm til að takast á við rekstraráskoranir sem við blasa vegna heimsfaraldursins.

Aðilar samkomulagsins eru; Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Kvika, Lykill, sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir.

Samkomulagið greiðir fyrir hraðri og samræmdri úrlausn mála og stuðlar að jafnræði, bæði á milli lánveitenda og fyrirtækja.  Samkomulagið gildir til loka júní 2020 og er gert ráð fyrir að hægt sé að framlengja það ef nauðsyn krefur. Felur samkomulagið m.a. í sér:

 • Fyrirtæki geta sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánuði hjá aðalviðskiptabanka sínum eða sparisjóði sem leggur mat á hvort fyrirtæki uppfylli viðmið samkomulagsins.
 • Aðalviðskiptabanki eða sparisjóður tilkynnir öðrum lánveitendum sem aðilar eru að samkomulaginu um frestunina.
 • Aðilar samkomulagsins fresta þá greiðslum afborgana og vaxta sem leggjast við höfuðstól og skal samningstíminn lengjast sem nemur fjölda frestaðra afborgana. Skuldir án gjalddaga frestast til loka samningstíma. Frestaðar greiðslur bera sömu vexti og upphaflegt lán.

Samkomulagið nær til rekstrarfyrirtækja sem selja vöru og þjónustu og uppfylla tiltekin skilyrði:

 • Eru í heilbrigðum rekstri en verða fyrir tímabundnu tekjufalli sem leiðir til rekstrarvanda vegna heimsfaraldursins.
 • Hafa ekki verið í vanskilum í 60 daga eða lengur í lok febrúar síðastliðinn.
 • Hafa nýtt sér viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.

Markmið samkomulagsins er að sem flest fyrirtæki geti komist hratt í skjól með einföldum hætti. Samkomulagið kemur ekki í veg fyrir að einstakir lánveitendur geti áfram unnið með sínum viðskiptavinum þó þeir kunni að falla fyrir utan viðmið samkomulagsins.

Samkeppniseftirlitið hefur veitt aðilum samkomulagsins undanþágu á grundvelli samkeppnislaga fyrir gerð samkomulagsins og framkvæmd þess með ákveðnum skilyrðum.

Önnur úrræði sem bankar og sparisjóðir koma að, svo sem úttekt séreignarsparnaðar og brúarlán til fyrirtækja eru nú til meðferðar  á Alþingi. Nánar verður greint frá fyrirkomulagi þeirra úrræða þegar afgreiðslu þeirra er lokið. 

Samkomur takmarkaðar enn frekar

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu. Viðburðir þar sem fólk kemur saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Ákvörðunin tekur gildi á miðnætti, mánudaginn 23. mars. Takmörkun á skólahaldi verður óbreytt.

Sóttvarnalæknir hefur haft þessar aðgerðir til skoðunar síðustu daga, með hliðsjón af þróun mála hér á landi, tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og í ljósi aðgerða annarra ríkja. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um frekari takmarkanir eins og sóttvarnalæknir leggur til á sér stoð í 12 gr. sóttvarnalaga.

Tilkynningu um takmarkanir á samkomum má lesa á vef heilbrigðisráðuneytisins, en ítarlegar upplýsingar um samkomubannið má finna á upplýsingavef embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra; Covid.is.


Sunnudagurinn 22. mars:

Ýmsar upplýsingar varðandi skerðingu starfshlutfalls

Þann 13. mars s.l. samþykkti Alþingi lög um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Hér er safnað saman ýmsum hagnýtum tenglum sem nýst geta þeim sem hyggjast nýta úrræðið.

Á vinnumarkaðsvef SA má nálgast upplýsingar um reglurnar, samningsform og svör við algengum spurningum. Atvinnurekendum er einnig bent á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem skrá þarf upplýsingar um starfsmenn og breytingar á starfshlutfalli. Þar er jafnframt að finna Spurt og svarað.
SA og ASÍ hafa einnig sammælst um samningsform vegna hlutastarfs sem atvinnurekendur og launamenn geta stuðst við. Rétt er að atvinnurekendur kynni sér fyrst leiðbeiningar hér á vefnum, m.a. ef aðlaga þarf formið frekar að aðstæðum á vinnustað. 

Vinnumálastofnun hefur umsjón með umsóknum um atvinnuleysisbætur vegna minnkað starfshlutfalls. VMST hefur sett upp upplýsingasíðu vegna Covid-19 þar sem meðal annars er að finna leiðbeiningar vegna minnkaðs starfshlutfalls.

KPMG hefur sett upp reiknilíkan sem ætlað er að nýtast atvinnurekendum og einstaklingum til að meta áhrif aðgerða sem mögulegt er að grípa til í kjölfar lagabreytingarinnar. SAF hvetur félagsmenn til að fara vel yfir forsendur og takmarkanir sem settar eru fram í skjalinu hyggist þeir nýta það til undirbúnings aðgerða og að hafa samband við KPMG ef spurningar vakna.


Laugardagurinn 21. mars:

Upplýsingafundir SA vegna COVID-19

Samtök atvinnulífsins boða til þriggja rafrænna upplýsingafunda á mánudaginn fyrir stjórnendur aðildarfyrirtækja um viðfangsefni sem atvinnulífið stendur nú frammi fyrir vegna COVID-19. Tenglar á fundina verða sendir á fulltrúa aðildarfyrirtækja um hádegi á mánudag. Á fundunum mun gefast færi á að taka þátt í umræðum fyrir þá sem það vilja.

Framkvæmdastjórar allra félaga sem að fundinum standa mundu taka þátt í fundinum og öllum fundarmönnum gefst kostur á að taka þátt í umræðum.

Dagskrá:

13.00 Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri og Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs fara yfir efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í dag. Auk þess mun Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, ræða aðgerðir fjármálakerfisins gagnvart fyrirtækjum.

14.00 Hlutaatvinnuleysisbætur
Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs fara yfir inntak, útfærslur, áskoranir og álitamál tengd lögum um hlutaatvinnuleysisbætur sem sett voru á föstudaginn.

15.00 Laun í sóttkví
Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs fer yfir viðmið, útfærslur og álitamál í tengslum við greiðslur launa í sóttkví í kjölfar laga sem sett voru á föstudaginn.

Að fundinum standa SA, Samorka, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands.

Viðspyrna fyrir Ísland – efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

Umfang aðgerða fyrsta áfanga stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru nemur um 230 ma.kr. eða tæplega 8% af landsframleiðslu. Aðgerðirnar eru þríþættar og miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu aðgerðirnar í Hörpu í dag.

Aðgerðirnar:

 • Ríkið greiðir allt að 75% launa fólks næstu mánuði
 • Ríkisábyrgð á brúarlánum til fyrirtækja
 • Frestun og afnám opinberra gjalda
 • Ferðaþjónusta styrkt
 • Sérstakur barnabótaauki með öllum börnum
 • Heimild til úttektar séreignarsparnaðar
 • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna framkvæmda
 • Framkvæmdum flýtt og fjárfest í tækniinnviðum
 • Umfang aðgerða um 230 milljarðar króna 

Umfang aðgerða fyrsta áfanga stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru nemur um 230 ma.kr. eða tæplega 8% af landsframleiðslu. Aðgerðirnar eru þríþættar og miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu aðgerðirnar í Hörpu í dag. 

Aðgerðir stjórnvalda munu veita öflugt mótvægi við efnahagsáhrif vegna COVID-19. Þær miða fyrst og fremst að því að verja störf og auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við það tímabundna tekjutap sem þau kunna að verða fyrir. Í ljósi minnkandi umsvifa munu stjórnvöld í krafti hlutastarfaleiðarinnar greiða allt að 75% launa starfsfólks sem lækkar í starfshlutfalli, að hámarki 700 þúsund kr., og gera þannig  launafólki og atvinnurekendum kleift að halda ráðningarsambandi. Úrræðið gildir næstu tvo og hálfan mánuð en reynslan af úrræðinu verður endurmetin í maí nk. 

Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að fresta greiðslum opinberra gjalda til næsta árs til að bæta lausafjárstöðu í atvinnurekstri og gistináttaskattur verður afnuminn til ársloka 2021. Útlánasvigrúm verður aukið með lækkun bankaskatts og ríkisábyrgð á lánum til lífvænlegra fyrirtækja, sem er ætlað að auðvelda þeim að standa í skilum, sérstaklega vegna launagreiðslna. Með því að hjálpa fyrirtækjum að standa í skilum og viðhalda ráðningarsambandi launafólks og vinnuveitenda má stytta þann tíma sem fyrirtæki þurfa til að ná viðspyrnu á ný.

Heimilin í brennidepli 

Afkoma heimilanna er í brennidepli aðgerðanna. Þegar hafa verið tryggðar greiðslur til fólks í sóttkví sem er grundvallaratriði til að hjálpa fólki við að taka ábyrgar ákvarðanir til að draga úr útbreiðslu veirunnar. Hlutastarfaleiðinni er ætlað að verja störf og afkomu fólks við þrengingar á vinnumarkaði. Einnig verður veitt heimild til að taka út séreignarsparnað að hámarki 800 þ.kr. á mánuði í 15 mánuði og endurgreiðslur vegna viðhaldsvinnu við heimili og frístundahúsnæði hækkaðar í úr 60% í 100%. Að auki verður endurgreiðsluúrræðið útvíkkað til heimilisþjónustu og tekin upp ný heimild fyrir þriðja geirann svokallaða, sem nær m.a. til almannaheilla- og íþróttafélaga, til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu fólks við byggingaframkvæmdir á þeirra vegum. Loks verður greiddur út sérstakur barnabótaauki 1. júní 2020 með öllum börnum undir 18 ára aldri. Foreldrar með lægri meðaltekjur en 927 þús. kr. á mánuði árið 2019 fá 40 þús. kr. á hvert barn og aðrir 20 þús kr. 

Farið verður í sérstakt 20 ma.kr. fjárfestingarátak árið 2020, þar sem hið opinbera og félög þess setja aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir, og upplýsingatækni, auk þess sem framlög verða aukin í vísinda- og nýsköpunarsjóði. Fram kom á fundi ráðherranna að inntak þess átaks verður nánar kynnt innan skamms. 


Föstudagurinn 20. mars:

Reglugerð um takmarkanir fyrir ferðamenn utan Schengen // Áhrif á ferðaþjónustu

Fyrr í dag gaf dómsmálaráðuneytið út reglugerð sem breytir gildandi reglugerð um för yfir landamæri. Breytingin hefur það í grundvallaratriðum í för með sér að útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, er tímabundið bannað að koma til landsins nema í tilteknum undantekningartilvikum.

Hætt er við að breytingin hafi töluverð áhrif á rétt íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja þegar kemur að afbókunum og kröfum til endurgreiðslu á þegar greiddum bókunargjöldum.

Samtök ferðaþjónustunnar vilja beina því til félagsmanna að þeir taki til skoðunar hvort það sé skynsamlegt fyrsta viðbragð við neikvæðum áhrifum breytingarinnar að bjóða ferðamönnum sem hyggjast afbóka ferðaþjónustu að færa bókun sína til og þá eftir atvikum innan tiltekins tímabils. Vera má að ýmsar aðrar ívilnanir til ferðamanna kunni að hafa áhrif á vilja þeirra til að sætta sig við slíkt fyrirkomulag.

Erfitt er að áætla áhrif breytingarinnar nákvæmlega í tilviki hvers og eins félagsmanns enda taka ferðaþjónustufyrirtæki sjálfstæðar ákvarðanir í viðskiptalegum málefnum. Þó má gróflega ætla að áhrifin geti orðið eftirfarandi:

Íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki hefur selt ferðamanni ferðaþjónustu í beinum viðskiptum (B2C)

 • Ef afbókun berst frá ferðamanni sem er búsettur í EES- og EFTA-ríkjunum hefur birting reglugerðarinnar engin áhrif á rétt ferðamannsins til afbókunar og endurgreiðslu. Um slík atriði fer eftir sem áður samkvæmt samningum íslenska ferðaþjónustufyrirtækisins við ferðamanninn.
 • Ef afbókun berst frá ferðamanni sem er búsettur utan EES- og EFTA-ríkjanna kann birting reglugerðarinnar að hafa áhrif á rétt ferðamannsins til afbókunar og endurgreiðslu. Um slík atriði fer í grundvallaratriðum eftir sem áður samkvæmt samningum íslenska ferðaþjónustufyrirtækisins við ferðamanninn eða eftir atvikum samkvæmt ákvæðum skilmála bókunarfyrirtækja sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eiga í viðskiptum við.
 • Ef ekki er kveðið á um rétt til afbókunar og endurgreiðslu ferðaþjónustu í samningi milli ferðamanns og íslensks ferðaþjónustufyrirtækis fer um þann rétt samkvæmt almennum reglum um afpöntun , þ.e. að því gefnu að um samninginn fari samkvæmt íslenskum lögum.

o Almenna reglan er að ferðamaður sem hefur bókað ferðaþjónustu getur ekki afbókað hana án þess að baka sér jafnframt bótaskyldu og það jafnvel þó ferðaþjónustan hafi ekki þýðingu fyrir hann. Slík þóknun á jafnan að standa undir þeim kostnaði sem ferðaþjónustufyrirtækið situr uppi með.

o Hugsanlega kann heildarmat á aðstæðum beggja aðila að réttlæta afbókun án þess að bótaskylda myndist, þ.e.:

 Ef afbókun er gerð með nægum fyrirvara,
 ef þær forsendur sem liggja að baki afbókuninni eru fullnægjandi,
 ef um mikla hagsmuni er að ræða fyrir ferðamann sem afbókar, og
 íslenska ferðaþjónustufyrirtækið sem fær afpöntun getur forðað sér frá tjóni, t.d. með því að selja öðrum ferðaþjónustuna.

Íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki hefur selt ferðamanni pakkaferð

 • Ef íslensk ferðaþjónustufyrirtæki telst seljandi pakkaferða í skilningi laga sem um þau gilda mun birting reglugerðarinnar hafa þau áhrif að það verður að teljast nokkuð skýrt að réttur ferðamanns sem er búsettur utan EES- og EFTA-ríkjanna til fullrar endurgreiðslu sé orðinn virkur. Endurgreiðsla til ferðamanns á að eiga sér stað  innan 14 daga frá því að hann tilkynnir um afbókun.

Íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki hefur selt öðru ferðaþjónustufyrirtæki (innlendu eða erlendu) ferðaþjónustu til endursölu (B2B)

 • Ef afbókun berst frá öðru ferðaþjónustufyrirtækis vegna ferðamanns sem er búsettur í EES- og EFTA-ríkjunum hefur birting reglugerðarinnar í grundvallaratriðum engin áhrif á rétt fyrirtækisins til afbókunar og endurgreiðslu. Um slík atriði fer eftir sem áður samkvæmt samningum milli ferðaþjónustufyrirtækjanna.
 • Ef afbókun berst frá öðru ferðaþjónustufyrirtæki vegna ferðamanns sem er búsettur utan EES- og EFTA-ríkjanna ætti birting reglugerðarinnar jafnan ekki að hafa áhrif á rétt fyrirtækisins til afbókunar og endurgreiðslu. Félagsmönnum er rétt að ganga úr skugga um hvort og að hvaða leyti  breytingin horfir við ákvæðum í samningum milli ferðaþjónustufyrirtækjanna.
 • Ef ekki er kveðið á um afbókanir og endurgreiðslur í samningum milli fyrirtækjanna og um samningana fer samkvæmt íslenskum lögum fer um þann rétt samkvæmt almennum reglum um afpöntun.

o Almenna reglan er að fyrirtæki sem hefur bókað ferðaþjónustu hjá íslensku ferðaþjónustufyrirtæki getur ekki afbókað hana án þess að baka sér jafnframt bótaskyldu og það jafnvel þó ferðaþjónustan hafi ekki þýðingu fyrir hitt fyrirtækið. Slík þóknun á jafnan að standa undir þeim kostnaði sem íslenska ferðaþjónustufyrirtækið situr uppi með.

o Hugsanlega kann heildarmat á aðstæðum beggja aðila að réttlæta afbókun án þess að bótaskylda myndist

 Ef afbókun er gerð með nægum fyrirvara,
 ef þær forsendur sem liggja að baki afbókuninni eru fullnægjandi,
 ef um mikla hagsmuni er að ræða fyrir fyrirtækið sem afbókar, og
 íslenska ferðaþjónustufyrirtækið sem fær afpöntun getur forðað sér frá tjóni, t.d. með því að selja öðrum ferðaþjónustuna.

Gildistöku nýrrar gjaldskrár Samgöngustofu frestað til 1. september 2020

Í vikunni áttu Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu fund með Samgöngustofu þar sem farið var yfir fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir stofnunarinnar sem tóku gildi miðvikudaginn 18. mars. Á fundinum komu SAF og SVÞ ábendingum sínum á framfæri um að fresta skildi hækkuninni í ljósi stöðunnar. Samgöngustofa tilkynnti síðan í dag að gjaldskrárhækkuninni hafi verið frestað til 1. september 2020.

Tilkynning Samgöngustofu:

„Gjaldskrá Samgöngustofu hefur að langmestu leyti verið óbreytt í fjöldamörg ár þrátt fyrir launa- og verðlagshækkanir. Í ljósi þess var um síðustu áramót ákveðið að hækka gjöld með hóflegum hætti þannig að þær rúmist að fullu innan lífskjarasamnings, 2,5%. Birting ákvörðunarinnar tafðist og tók hún því ekki gildi fyrr en 18.3.2020.

Tímasetning gildistökunnar er óheppileg og óviðeigandi í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu sem enginn sá fyrir þegar uppfærslan var í undirbúningi. Í samráði við samgöngu- og sveitastjórnaráðuneytið hefur Samgöngustofa ákveðið fresta gildistökunni til 1. september næstkomandi. Sú ákvörðun tekur gildi samstundis og verður birt í Stjórnartíðindum svo fljótt sem verða má.“

Vel gert Samgöngustofa!

Hvatning til félagsmanna – sýnum aðstæðum starfsfólks skilning

Aðstæður á heimsvísu er fordæmalausar og efnahagshorfur mjög slæmar. Því hefur sjaldan verið mikilvægara að rekstraraðilar, vinnumarkaðurinn, ríki og sveitafélög standi saman og sýni samfélaglega ábyrgð og skilning á þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir. Í sameiningu verðum við að huga að nærsamfélaginu, starfsfólki og ekki síst okkur sjálfum.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa haft veður af tilfellum þar sem fyrirtæki hafa neyðst til að segja upp starfsfólki vegna slæmrar rekstrarstöðu og samtímis gert þeim að rýma húsnæði sem starfsfólk hefur haft til umráða í tengslum við starfið.  

SAF hvetja félagsmenn til þess að sýna aðstæðum starfsfólks skilning eftir því sem frekast er unnt á fordæmalausum tímum og benda á að í samhengi ákvæða húsaleigulaga er í raun litið svo á að um húsnæði sem atvinnurekandi útvegar starfsmanni í tengslum við starf gildi sérstakur húsaleigusamningur. Samkvæmt 50. og 56. gr. húsaleigulaga er uppsagnarfrestur atvinnurekanda þrír mánuðir á einstökum herbergjum en sex mánuðir á íbúðarhúsnæði.

Breytingar á tryggingafé fyrir ferðaþjónustuaðila

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, hefur gefið út reglugerð sem heimilar Ferðamálastofu að taka tillit til aðstæðna tryggingaskyldra aðila vegna Covid-19 faraldursins og áhrifa hans á íslensk ferðaþjónustufyrirtæki við útreikning tryggingarfjárhæðar.

Reglugerðin, sem hefur þegar tekið gildi, gerir ráð fyrir því að áætlun tryggingaskylds aðila fyrir árið 2020 verði lögð til grundvallar við útreikning í stað ársins 2019 eins og gildandi reglur gera ráð fyrir.

„Þetta er mikilvægt skref sem styður við ferðaþjónustuna á viðkvæmum tíma. Með breytingunni verður til svigrúm fyrir ferðaþjónustuaðila til að bregðast við fjárhagslegum áföllum í þessari óvissu sem nú er til staðar,“ segir ferðamálaráðherra.

Skilyrði þess að Ferðamálastofa geti fallist á lækkun tryggingarfjárhæðar er að samdráttur hafi orðið í tryggingaskyldri veltu á milli ára, að tryggingaskyldur aðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld eða að öðru leyti sé ekki ástæða til að ætla að trygging muni ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar.

Umsóknir ásamt fylgigögnum skulu berast Ferðamálastofu, sem veitir allar nánari upplýsingar, fyrir 1. apríl nk.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja félagsmenn sína til að vinna samkvæmt nýrri reglugerð og ganga strax í að útbúa nýjar áætlanir og senda inn til Ferðamálastofu.


Fimmtudagurinn 19. mars:

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar: Til þjónustu reiðubúin

Fyrirtæki í ferðaþjónustu róa nú mörg hver lífróður. Á tímum sem þessum er mikilvægt að halda starfsfólki upplýstu og fræða og þjálfa eins og kostur er. Nú er jafnframt tími til að undirbúa þá uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað í rekstrinum þegar krísan hefur runnið sitt skeið og bókanir fara að berast á nýjan leik.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar býður fyrirtækjum hagnýtar lausnir. Við hvetjum fyrirtæki í ferðaþjónustu til að kalla eftir ráðgjöf eða samtali við okkur um möguleikana sem eru fyrir hendi. Hægt er að hafa  samband við Hæfnisetrið hér á síðunni eða í síma 599 1400. Ráðgjöfin er fyrirtækjum að kostnaðarlausu.

Við viljum jafnframt benda á að fræðsluaðilar um land allt bjóða flestir upp á sérsniðin námskeið fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hjá þeim færðu allar nánari upplýsingar.

Hér á síðu Hæfnisetursins finnur þú lista yfir stafræn námskeið og önnur hagnýt námskeið.

Þá má nálgast fjölbreytt verkfæri hér á síðunni til að koma á eða viðhalda fræðslu innan fyrirtækisins. Þar er m.a. að finna:

 1. Fagorðalista ferðaþjónustunnar
 2. Þjálfun í gestrisni
 3. Þarfagreiningu fræðslu

Hafðu samband, við klárum þetta í sameiningu!


Miðvikudagurinn 18. mars:

Hvatning til félagsmanna í SAF:

Samtök ferðaþjónustunnar vilja hvetja félagsmenn sína að fara að tilmælum Embættis landlæknis og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra varðandi samkomubann sem í gildi er. Með samkomubanni er átt við viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman auk þess að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metrar og að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott.

Það er mikilvægt að farið sé að þessum tilmælum, en komið hafa upp tilvik þar sem ekki hefur verið gætt að þessum hlutum.

Allar upplýsingar um samkomubann o.fl. er að finna á upplýsingasíðu Embættis landlæknis og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra.

SAF fundar með Booking.com

Samtök ferðaþjónustunnar áttu í dag fund með fulltrúum Booking.com á Íslandi og Norðurlöndum þar sem farið var yfir afstöðu SAF og Ferðamálastofu þess efnis að Force majeure aðstæður væru ekki uppi á Íslandi samkvæmt samningsskilum fyrirtækisins. Á fundinum létu SAF það skýrlega í ljós að íslenskum gististöðum er jafnan ekki skylt að endurgreiða ferðamönnum sem bókað hafa gistiþjónustu án réttar til endurgreiðslu („Non-refundable“) í gegnum vefsíðu fyrirtækisins. Booking.com hefur í einhverjum mæli á undanförnum vikum endurgreitt ferðamönnum slíkar bókanir að fullu, að eigin frumkvæði, og komið á framfæri endurkröfu sem því nemur á hendur íslenskum gististöðum.

Að mati SAF og Ferðamálastofu eru framangreindar aðgerðir Booking.com í algeru ósamræmi við inntak force majeure ákvæða samningsskilmála fyrirtækisins. Þær aðstæður sem hér eru uppi geta einfaldlega sjaldnast talist þess valdandi að hingað sé ferðamönnum ómögulegt, ólöglegt eða ófært að koma né nýta þá gistiþjónustu sem þeir hafa bókað. Eins og fram kemur í lögfræðiáliti sem Ferðamálastofa hefur birt á vefsíðu sinni getur bókunarsíða ekki ákveðið einhliða að krefjast endurgreiðslu á óendurgreiðanlegum bókunum. Slíkt er skýrt brot á samningsskilmálum fyrirtækisins. Engar takmarkanir hafa verið settar á komu ferðamanna til landsins og einungis í afar fáum tilvikum hafa erlend stjórnvöld lagt bann við ferðalögum til Íslands.

Í ljósi framangreinds er það skýr afstaða SAF að Booking.com hefur í fæstum tilvikum rétt á því að krefja íslenska ferðaþjónustuaðila um endurgreiðslu á óendurgreiðsluhæfum bókunum. Í tilvikum þar sem slík endurgreiðslukrafa hefur verið sett fram eru ferðaþjónustuaðilar í flestum tilvikum í fullum rétti til að hafna endurgreiðslu.

Engar nýjar upplýsingar komu fram á fundinum af hálfu Booking.com sem gefið hafa SAF ástæðu til að endurskoða afstöðu sína heldur þvert á móti.

SAF benda félagsmönnum á að á vef Ferðamálastofu má finna lögfræðiálit um álitamálið bæði á íslensku og ensku.

Álitið getur gagnast félagsmönnum í samskiptum við Booking.com ef þeir hyggjast hafna endurgreiðslukröfum fyrirtækisins.


Þriðjudagurinn 17. mars:

Tilkynning frá stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar:

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar hefur ákveðið að fresta innheimtu félagsgjalda fyrir 2. ársfjórðung 2020 um mánuð, til júní 2020.

Þegar fram í sækir mun verða tekin ákvörðun um framhaldið.

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar

Að gefnu tilefni

SAF telja rétt að koma ábendingu á framfæri við þau aðildarfyrirtæki samtakanna sem eru tryggingaskyld samkvæmt ákvæðum laga um um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.

Vera kann að afpantanir og lækkandi bókunarstaða hafi skapað tilefni til þess að fyrirtækin kanni hvort þeim sé rétt að sækja um tímabundna lækkun tryggingafjárhæðar á grundvelli 8. gr. reglugerðar um tryggingar vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, nr. 150/2019, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 150/2019 um breytingu á reglugerð nr. 150/2019.  

Sækja ber um tímabundna lækkun tryggingafjárhæðar ber í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu. Skilyrði fyrir því að hljóta slíka lækkun eru að 1) tryggingaskyldur aðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld og 2) að öðru leyti sé ekki ástæða til að ætla að trygging muni ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar. Umsókninni þarf að fylgja greinargóð skýring á ástæðu hennar og þau gögn sem Ferðamálastofa telur nauðsynleg svo hægt sé að taka ákvörðun um umfang lækkunar á tryggingafjárhæð, m.a. upplýsingar skv. 6. gr. reglugerðar nr. 150/2019. Upplýsingar um rekstur tryggingaskylds aðila skulu staðfestar af endurskoðanda.  

Upplýsingapóstur frá Markaðsstofu Norðurlands:

Nú eru í undirbúningi tvö verkefni sem fjármögnuð verða af stjórnvöldum og er ætlað að minnka neikvæð áhrif af ferðabanninu. Annars vegar er það markaðsherferð á erlendum mörkuðum og hins vegar sumarherferð á innanlandsmarkaði. MN kemur að undirbúningi og framkvæmd þessa verkefna en þau eru leidd af Íslandsstofu fyrir erlenda markaðinn og Ferðamálastofu fyrir innlenda markaðinn. Upphæðir verkefnanna eru ekki komnar í ljós en við munum fá nánari upplýsingar um innanlandsherferðina innan nokkurra daga og koma þeim til ykkar. Í millitíðinni hvet ég alla til að skoða hjá sér möguleikana á að þjónusta Íslendinga á ferðalagi í sumar, hvaða vörur henta helst, hvernig birtingarmynd þeirra er á ykkar miðlum og hvernig aðgengi er að bókunarmöguleikum. Við viljum gjarnan fá að heyra ykkar skoðun varðandi þetta og áherslur í væntanlegri herferð.

Eins og hjá öðrum fyrirtækjum er starfsemi MN með breyttum hætti þessar vikur og er hluti starfsmanna að vinna heiman að frá sér. Netföng og símanúmer finnið þið hér https://www.northiceland.is/is/markadsstofan/um-mn/starfsmenn

Við höfum tekið ákvörðun um að boða ekki staðarfundi í mars og apríl heldur færum okkur yfir í fjarfundi þar sem hægt er eða frestum viðburðum. Upplýsingar um einstök verkefni verða send út eins og áður en ef þið viljið kíkja yfir verkefnalista ársins þá er hann hér þar sem eru birtar fundargerðir stjórnarfunda https://www.northiceland.is/static/files/PDF/Fundargerdir/stjornarfundur-mn-22012020.pdf

Markaðsstofa Norðurlands ásamt öðrum Markaðsstofum landshlutanna hefur komið á framfæri upplýsingum um mögulegar aðgerðir til stuðnings ferðaþjónustunni og mun halda því áfram. Þar erum við að horfa til annars vegar aðgerða til þess að styðja við rekstur fyrirtækja næstu vikurnar og hins vegar lengri tíma aðgerða til að byggja upp sterka ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ég hvet ykkur því til að vera í góðu sambandi við okkur varðandi allar tillögur sem þið hafið eða ef þið viljið koma á framfæri einstökum málum. Stjórn MN á fund með ráðherra ferðamála á morgun til þess að ræða ferðaþjónustuna á Norðurlandi.

Samtök ferðaþjónustunnar vinna með stjórnvöldum að hagsmunum félagsmanna sinna og halda úti upplýsingavef varðandi aðgerðir til stuðnings ferðaþjónustufyrirtækjum https://www.saf.is/covid-19/

Það er ljóst að ferðaþjónustan á Norðurlandi er að horfa fram á amk 2-3 mánuði af mjög skertum tekjum og að nú er mikil óvissa um hversu mikil áhrifin verða inn í sumarið. Erfitt er að setja fram tölur um hversu mikill samdrátturinn verður en við erum að taka saman tölur um ferðamenn á Norðurlandi til þess að fá yfirsýn yfir möguleg áhrif á okkar svæði næstu mánuði. Til þess að fá einhverja mynd má gera ráð fyrir að gistinætur á Norðurlandi í mars og apríl samtals á síðasta ári hafi verið um 85.000 og í maí tæplega 90.000.

Það er mikilvægt að við stöndum saman öll sem eitt að því að komast í gegnum þessa stöðu sem er komin upp. Við þurfum að horfa til þess að koma rekstrinum í gegnum næstu vikur og ekki síður til þess að skipuleggja viðbrögðin og undirbúa okkur til lengri tíma.

Við á Markaðsstofu Norðurlands hvetjum ykkur til að hafa samband við okkur ef við getum aðstoðað ykkur eða miðlað upplýsingum.


Mánudagurinn 16. mars:

Fréttatilkynning frá Ráðstefnuborginni Reykjavík:

Miklar búsifjar í ráðstefnu-, fundar- og hvataferðaþjónustu hér á landi vegna COVID-19

Árið 2020 stefndi í metár í alþjóðlegum fundum, ráðstefnum, hvataferðum og viðburðum hér á landi, að sögn Sigurjónu Sverristóttir framkvæmdastjóra Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur (Meet in Reykjavík). Félagið er samstarf Reykjavíkurborgar, Icelandair group, Hörpu og rúmlega 40 annarra hagsmunaaðila og sér um kynningu og markaðssetningu á Reykjavík og Íslandi sem áfangastaður fyrir viðskiptaferðaþjónustu. Samkvæmt áætlunum félagsins stefndi í að minnsta kosti 10-11% aukningu í komu viðskiptaferðamanna á árinu 2020 samanborið við 2019 sem einnig var metár hér á landi. Bókunarstaðan var sérstaklega sterk í stærri fundum og ráðstefnum.

Hlutirnir hafa gerst hratt þessa undanfarna daga“ segir Sigurjóna. „Síðustu vikur hafa erlendir viðskiptavinir verið að hafa samband og kynna sér bókunarskilmála og að kanna mögulegar tilfærslur í tíma. Núna streyma hinsvegar inn afbókanir og vissulega setur samkomubann strik í reikninginn þar sem fundir ráðstefnur og hvataferðir eru oft fjölmennari en 100 gestir. Á þessum tímapunkti er erfitt að segja til um hverjar langtíma afleiðingarnar verða en ljóst að þær verða verulegar. Við erum í nánu samstarfi við systurfyrirtæki okkar á norðurlöndum og þar er fólk að búa sig undir allt að 40% samdrátt milli ára. Áætlanir gerðu ráð fyrir um 160.000 ráðstefnu-, funda-, hvataferða- og viðburðagestum til landsins í ár og ef þeim fækkar niður fyrir 100.000 yrði það mikill skellur fyrir efnahag landsins þar sem um mjög verðmætan hóp gesta er að ræða. En til að setja það í samhengi er áætlað að 1000 manna ráðstefna skili um 400 milljónum kr. í gjaldeyristekjur.“

Atvinnuleysisbótaréttur aukinn – rýmkun á greiðslu hlutabóta

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á föstudag frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.

Breytingunum er ætlað að koma til móts við vinnuveitendur og launafólk í ljósi fordæmalausra aðstæðna hér á landi og raunar í heiminum öllum, og miða að því að draga úr neikvæðum áhrifum aðstæðnanna á vinnumarkaðinn. 

Breytingarnar sem hér er fjallað um gilda frá 15. mars til 1. júlí nk. Markmið þeirra er að aðstoða vinnuveitendur við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt, þar til aðstæður batna.

Við hvetjum stjórnendur til að hlúa vel að starfsfólki og að nýta þetta úrræði til að minnka starfshlutfall starfsfólks tímabundið eins og kostur er.

Við bendum félagsmönnum í SAF jafnframt á að fylgjast með tilkynningum frá Vinnumálastofnun (www.vmst.is) og að byrja á því að taka samtalið við starfsfólk vegna breytts starfshlutfalls.

Atvinnuleysisbætur munu gilda frá og með deginum í gær, 15. mars 2020, en reiknað er með að lögin komi til umræðu á Alþingi í dag og verði samþykkt eins fljótt og verða má, vonandi á allra næstu dögum.

Skilgreiningar um endurgreiðslu hjá gististöðum

Samtök ferðaþjónustunnar vekja athygli á því að Ferðamálastofa telur ferðaþjónustuaðilum ekki skylt að verða við kröfum bókunarsíða um endurgreiðslu bókana sem bókaðar hafa verið sem óendurgreiðanlegar á grundvelli slíkra einhliða skilmála bókunarsíða.

Að mati Ferðamálastofu verður hver ferðaþjónustuaðili fyrir sig að meta hvort hann telji tilefni til að samþykkja slíka kröfu ef hún berst. Ferðamálastofa óskaði eftir lögfræðiáliti vegna þessa hjá Magna lögmönnum og má nálgast það á vef Ferðamálastofu.

Áréttað er í tilkynningu Ferðamálastofu að sem stendur eru ekki í gildi ferðatakmarkanir til Íslands og verða afbókanir ekki byggðar á ómöguleika við nýtingu bókunar. Þá hefur landið heldur ekki verið skilgreint sem svæði með mikla áhættu vegna COVID-19. Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að fylgjast vel með afbókunum sem berast frá bóknunarsíðum á þessum grundvelli.


Sunnudagurinn 15. mars:

Hvað þýðir samkomubann á Þingvöllum?

Heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir samkomubanni á Íslandi sem mun taka gildi frá mánudeginum 16. mars 2020 til 12. apríl 2020. Er þessi ráðstöfun einsdæmi og í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem gripið er til slíkra aðgerða.

Í auglýsingu um samkomubann (sjá meðfylgjandi skjal) er talað um að í einu rými skulu ekki koma saman fleiri en 100 einstaklingar. Þá skal gæta þess eins og kostur er að halda tveggja
metra fjarlægð eða meir.

Vegna þess hefur verið ákveðið að gestastofan á Þingvöllum loki frá og með næstkomandi mánudegi, 16. mars. Ef miðað er við tveggja metra aðskilnað er illfært og nánast óframkvæmanlegt að halda gestastofunni opinni. Einnig setur tveggja metra viðmiðið hömlur á hversu margir geta ferðast saman í bíl sem geri það að verkum að færra starfsfólk getur mætt á Þingvöll til að manna hin ýmsu störf þar.

Tryggt verður eins og hægt er að halda salernum áfram opnum á Þingvöllum og lágmarskþjónustu.

Þjóðgarðsyfirvöld munu fylgjast stöðugt með leiðbeiningum sóttvarnalæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Viðbragðsáætlun þjóðgarðsins er því í stöðugri endurskoðun og ástand endurmetið.

Gott er að senda fyrirspurnir vegna Þingvallaþjóðgarðs á thingvellir@thingvellir.is.

Við mælum með að allir fylgist með á almennum leiðbeiningum á: www.covid.is


Laugardagurinn 14. mars:

Uppfærsla á áhættumati Sóttvarnarlæknis

Samtök ferðaþjónustunnar árétta að erlendir ferðamenn fara ekki í sóttkví nema ef þeir verða útsettir fyrir smituðum hér á landi. Þetta á einnig við um Þýskaland.

Misskilnings hefur gætt vegna orðalags í uppfærslu á áhættumati Sóttvarnarlæknis í gær, sem skilja mátti sem svo að þýskir ferðamenn þyrftu að sæta sóttkví þegar þeir kæmu til landsins.

Það er ekki rétt og hefur nú verið leiðrétt, t.d. hér að neðan á vef landlæknis.

Skv. uppfærðu áhættumati eru það aðeins Íslendingar sem sæta sóttkví ef þeir koma frá Þýskalandi, Spáni eða Frakklandi, ekki erlendir ferðamenn.


Fimmtudagurinn 12. mars:

Aðalfundi SAF 2020 frestað // Nýtt fundarboð: Miðvikudaginn 6. maí 2020

Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu vegna COVID-19 veirunnar hefur stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar ákveðið að fresta aðalfundi samtakanna sem fara átti fram fimmtudaginn 19. mars 2020.

Ákvörðunin er tekin í samráði við Almannavarnir, en aðalfundur SAF er þannig viðburður að félagsmenn koma alls staðar að af landinu og því ekki forsvaranlegt að efna til fundar. Þá er ferðaþjónusta á Íslandi að glíma við mikla erfiðleika og því mikilvægt að beina kröftunum á þau verkefni sem liggja fyrir.

Nýtt fundarboð // Miðvikudaginn 6. maí 2020 á Hilton Reykjavík Nordica

Boðað er til aðalfundar SAF 2020 miðvikudaginn 6. maí nk. á Hilton Reykjavík Nordica.

Dagskrá aðalfundar skv. lögum SAF:

 • Kjör fundarstjóra og fundarritara.
 • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
 • Ársreikningur liðins starfsárs.
 • Lagabreytingar, enda sé meginefni þeirra kynnt í fundarboði.
 • Ákvörðun um árgjald.
 • Kosningar:
  • kosning formanns.
  • kosning 6 meðstjórnenda.
  • kosning löggilts endurskoðanda.
 • Önnur mál.

Nánari útfærsla á aðalfundinum verður kynnt er nær dregur.

Í samræmi við ákvæði 7. mgr. 10. gr. laga SAF færist framboðsfrestur til stjórnar SAF til 22. apríl, eða 14 dögum fyrir aðalfundardagsetningu. Þau framboð sem þegar hafa borist í stjórn og fagnefndir SAF halda fullu gildi nema félagsmaður dragi framboð sitt til baka.

Þeir félagsmenn sem hafa bókað gistingu á Hilton Reykjavík Nordica geta breytt bókun sinni í bókunarkerfi hótelsins.


Miðvikudagurinn 11. mars:

Upplýsingapóstur til félagsmanna í SAF

Með þessum pósti til félagsmanna í Samtökum ferðaþjónustunnar viljum við veita félagsmönnum upplýsingar um stöðu mála varðandi COVID-19 veiruna og áhrifum hennar á ferðaþjónustu á Íslandi. SAF stefna á að senda reglulega upplýsingapósta, sem þennan, til félagsmanna um stöðu mála.

SAF hafa á síðustu dögum verið í samskiptum við stjórnvöld varðandi viðbrögð við þeirri stöðu sem upp er komin vegna COVID-19 veirunnar. Settur var á laggirnar viðbragðshópur skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta ásamt ferðamálastofu, með það að markmiði að undirbúa aðgerðir og viðbrögð til að milda það högg sem ferðaþjónusta á Íslandi er að verða fyrir. SAF hefur fundað með þessum hópi og veitt upplýsingar.

Formaður og framkvæmdastjóri SAF hafa einnig verið í daglegum samskipum við stjórnvöld í þeirri viðleitni að koma ábendingum ferðaþjónustunnar áleiðis.

Í gær tilkynnti ríkisstjórnin viðbragðsáætlun sína til að verja atvinnulíf hér á landi. Ljóst er að ráðist verður í myndarlegt markaðsátak til að vekja athygli á Íslandi sem ákjósanlegum áfangastað fyrir ferðamenn. Það er mikilvægt að réttum skilaboðum verði komið á framfæri og munu SAF taka þátt í þeirri vinnu af fullum þunga. Þá er ljóst að gistináttagjald verður afnumið, amk. tímabundið. SAF eru að vinna greiningu á frekari aðgerðum sem hið opinbera getur ráðist í til að veita enn frekara súrefni til handa ferðaþjónustu hér á landi í því árferði sem við erum nú að upplifa. Þá tilkynnti Seðlabanki Íslands vaxtalækkun í morgun sem eru jákvæðar fréttir. Þó er á kristaltæru að til frekari aðgerða þarf að koma af hálfu hins opinbera þannig að ferðaþjónusta hér á landi geti komist í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika.

SAF hafa einnig átt í reglulegum samskiptum við stjórnvöld á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála undanfarnar tvær vikur, m.a. um markaðsmál og aðrar aðgerðir, en eins og komið hefur fram hjá ferðamálaráðherra og fjármálaráherra undanfarna daga áætlar ríkisstjórnin að undirbúa myndarlegar markaðssetningaraðgerðir sem hægt verði að hleypa af stokkunum þegar ferðavilji glæðist á ný.

Meðal þess sem SAF hafa unnið að:

 • Haldinn var upplýsingafundur í samstarfi við Ferðamálastofu þar sem fulltrúar Embættis landlæknis og Almannavarna fóru yfir stöðu mála. Fundurinn var vel sóttur og sendur út í beinni útsendingu sem hægt er að nálgast HÉR.
 • Embætti landlæknis hefur sett upp mjög öflugan upplýsingavef. Við hvetjum félagsmenn í SAF að fylgjast vel með gangi mála, en allar helstu upplýsingar um útbreiðslu COVID-19 hér á landi er að finna á vef Embættis landlæknis HÉR.
 • Gefin hafa verið út sérstök upplýsingaspjöld í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu og Embættis landlæknis. Hægt er að nálgast spjöldin á skrifstofu SAF, Borgartúni 35. Þá er einnig hægt að prenta spjöldin út, en allar nánari upplýsingar er að finna HÉR.
 • Á dögunum óskuðu SAF eftir, og fengu undanþágu á Samkeppnislögum þannig að samtökin geti upplýst félagsmenn sína um gang mála hjá nágrannalöndunum. Í því samhengi bendum við á hvað félagar okkar í Svíþjóð, sænsku ferðaskrifstofusamtökunum (SRF), hafa gert til að bregðast við því ástandi sem uppi er í heiminum, en þær upplýsingar má finna HÉR.


Miðvikudagurinn 4. mars:

Upplýsingapóstur til félagsmanna í SAF

Um þessar mundir er útbreiðsla kórónaveirunnar COVID-19 á allra vörum og af því tilefni telja SAF rétt að koma ábendingum á framfæri við aðildarfyrirtæki samtakanna.

 • Sóttvarnastofnun Evrópu birtir daglegt áhættumat vegna útbreiðslu COVID-19 og um þessar mundir kemur þar efnislega fram að smithætta á EES-svæðinu sé metin miðlungs eða mikil. Telur stofnunin smithættu litla í tilviki einstaklinga sem ferðast til svæða þar sem engin eða fá smit hafa verið staðfest. Þá telur stofnunin hættu á útbreiðslu COVID-19 á EES-svæðinu vera miðlungs eða mikla ef litið er til þróunar næstu vikna en benda á að hún muni aukast eftir því sem fleiri smit greinast.
 • Í viðtali við RÚV fyrr í dag sagði seðlabankastjóri ljóst að efnahagslegra áhrifa af völdum COVID-19 sé þegar farið að gæta. Viðbúið sé að verulegur samdráttur verði á öðrum ársfjórðungi ársins en vonir standi til þess að það versta verði yfirstaðið á þriðja ársfjórðungi. Hann benti á að það væri ekki gott fyrir ferðaþjónustuna að missa þriðja ársfjórðung en bætti við að Ísland gæti staðið af sér svona áfall en því lengur sem það vari því meiri verði efnahagslegu áhrifin.
 • Ferðaþjónusta er jafnan skipulögð með nokkrum fyrirvara. Í því ljósi skipta væntingar ferðamanna um að geta neytt ferðaþjónustu án hnökra verulegu máli. Aðstæður sem draga úr slíkum væntingum geta haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki. Þar sem ferðaþjónustan er ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar skipta efnahagsleg áhrif hennar sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf.
 • Ferðaþjónustufyrirtækjum er rétt að hafa það hugfast að þeim ber almennt að taka viðskiptalegar ákvarðanir með sjálfstæðum hætti og gæta þess að þær verði ekki til þess að raska samkeppni. Það sem hér fer á eftir ber að skoða í því ljósi.
 • Í ljósi framangreinds vilja SAF benda aðildarfyrirtækjum samtakanna á að það kann að að vera tilefni til þess að koma til móts við ferðamenn með það fyrir augum að stuðla að trausti þeirra á íslenskri ferðaþjónustu og treysta framtíðarviðskipti.
 • Í framangreindu samhengi vilja SAF, í dæmaskyni, koma því á framfæri að mögulega gæti lækkun eða endurgreiðsla kaupverðs vegna breytinga á komu- eða dvalartíma og afbókana eða aukið svigrúm til breytinga á komu- eða dvalartíma og afbókunum komið til móts við ferðamenn. Í ljósi aðstæðna gætu slík viðbrögð verið tímabundin, t.d. til 30. apríl nk. auk þess sem þau gætu verið háð því að ferðir færist einvörðungu til innan tiltekins tímaramma. Þá gætu viðbrögðin verið háð þeim fyrirvara að gildistími þeirra verði endurskoðaður gefi mat á aðstæðum tilefni til slíks.
 • Að undanförnu hafa bæði einstakir ferðaþjónustuaðilar, hér heima og erlendis, og erlend samtök ferðaþjónustufyrirtækja gripið til eða bent á ýmsar aðgerðir í þá veru sem hér hefur verið lýst. SAF áskilur sér rétt til að koma frekari ábendingum á framfæri við aðildarfyrirtæki samtakana ef tilefni gefst.