Upplýsingasíða SAF um stöðu og aðgerðir vegna Covid-19
Við þær aðstæður sem uppi eru samfélaginu og þau áhrif sem COVID-19 veiran hefur á ferðaþjónustu hér á landi er mikilvægt að félagsmenn í Samtökum ferðaþjónustunnar séu vel upplýstir um stöðu mála. Þá er ekki síður mikilvægt að félagsmenn í SAF séu í góðum samskiptum við skrifstofu samtakanna og við hvetjum ykkur til að slá á þráðinn eða senda okkur póst á netfangið saf@saf.is með þeim vangaveltum og spurningum sem koma upp. SAF leggja ríka áherslu á að liðsinna félagsmönnum eftir fremsta megni!
Við erum sterkari saman!
Tenglar á upplýsingar varðandi sóttvarnir á landamærum o.fl.:
Miðvikudaginn 19 janúar:
Frestur á greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds o.fl.
Mánudaginn 17. janúar 2022 voru samþykkt á Alþingi lög sem heimila tiltekna frestun á greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds, auk framlengingar á fresti til að sækja um viðspyrnustyrk vegna nóvember 2021.
Lögin hafa ekki fengið númer en þau má sjá HÉR.
Frestun á greiðslum er þrenns konar:
- Þeim rekstraraðilum sem frestuðu greiðslu á staðgreiðslu og tryggingagjaldi á árinu 2021 og bar að greiða þá fjárhæð í síðasta lagi á eindaga sem bar upp á 17. janúar 2022 er nú heimilt að fresta greiðslunni aftur, að uppfylltum ýmsum skilyrðum, sbr. 1. gr. umræddra laga. Sé fallist á frekari frestun skiptist greiðsla þá á sex gjalddaga. Gjalddagar og eindagar verða þá 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022 og 16. janúar og 15. febrúar 2023. Umsóknarfrestur vegna þessarar heimildar er 31. janúar 2022.
- Þeim rekstraraðilum sem eru með meginstarfsemi í flokki IV skv. 3. gr. eða í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, og uppfylla tiltekin skilyrði, er nú heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að tveimur greiðslum á afdreginni staðgreiðslu af launum sem voru/eru á gjalddaga 1. janúar 2022 til og með 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á sex gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra vera 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022 og 16. janúar og 15. febrúar 2023. Umsókn þarf að berast í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils. Þó skal umsókn vegna eindaga 17. janúar 2022 hafa borist eigi síðar en 31. janúar 2022.
- Þeim launagreiðendum sem eru með meginstarfsemi í flokki IV skv. 3. gr. eða í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, og uppfylla tiltekin skilyrði, er heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að tveimur greiðslum á staðgreiðslu tryggingagjalds sem voru/eru á gjalddaga 1. janúar 2022 til og með 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra greiðslna vera 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022. Umsókn þarf að berast í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils. Þó skal umsókn vegna eindaga 17. janúar 2022 hafa borist eigi síðar en 31. janúar 2022.
Unnið er að gerð umsóknarforms sem verður rafrænt í gegnum þjónustusíðu rekstraraðila. Sett verður inn frétt þegar umsóknarformið er tilbúið og þá verður unnt að sækja um frestun á greiðslum.
Jafnframt kveða umrædd lög á um að heimilt sé að sækja um viðspyrnustyrk vegna starfsemi í nóvember 2021 eigi síðar en 1. mars 2022, en umsóknarfrestur rann út 31. desember s.l. samkvæmt fyrri ákvörðunum.
Föstudaginn 14. janúar:
Vinnusóttkví og sóttkví þríbólusettra
Nýlega var ákveðið að mildari reglur gildi í sóttkví fyrir þau sem hafa fengið annað hvort þrjá skammta af bóluefni eða sýkst af COVID-19 og fengið að auki tvo skammta af bóluefni. Þeim er m.a. heimilt að sækja vinnu en verða að bera grímu.
Þau eru skráð í sóttkví og verða að fara í PCR á fimmta degi eftir útsetningu. ATH. að einstaklingur sem er í sóttkví á heimili þar sem einhver er smitaður er sífellt útsettur fyrir Covid og ákveðin áhætta fólgin í því að viðkomandi mæti til vinnu.
Athugið að ef einstaklingur er ekki með þessa þrennu sem nefnd er að ofan og brýn þörf er á vinnu viðkomandi á meðan hann er í sóttkví, þá þarf að sækja um vinnusóttkví fyrir hann eins og áður. Leiðbeiningar um vinnusóttkví eru hjá embætti landlæknis og neðst á síðunni eru leiðbeiningar um umsóknir.
Allar helstu upplýsingar um bólusetningar er að finna á https://www.covid.is/vax á 16 tungumálum, þar á meðal um övrunarskammtinn, skráningu einstaklinga sem ekki eru með kennitölur, hvernig fólk skal snúa sér ef það hefur fengið einn skammt erlendis o.s.frv.
Mikilvægt er að halda þessum rétti á lofti við alla sem hingað koma til að vinna.
Þriðjudaginn 31. ágúst:
Fyrstu afborgunum lána úr Ferðaábyrgðarsjóði frestað
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur í sumar fylgst náið með þróun og horfum í rekstri ferðaskrifstofa. Þrátt fyrir aukningu í sölu ferða í sumar og þrátt fyrir að sú aukning myndi halda sér út árið, sem ekki er víst að verði, er töluvert í að umsvif og lausafjárstaða ferðaskrifstofa verði þannig að þeim verði kleift að standa straum af umtalsverðum afborgunum af lánum frá Ferðaábyrgðasjóði. Að undanförnu hafa aðstæður í ferðaþjónustu breyst hratt m.a. vegna breytinga á reglum á landamærum fyrir Íslendinga og þá sem hafa tengsl við landið sem nú þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi við byrðingu í flugfar erlendis. Þessar breytingar hafa dregið úr ferðavilja Íslendinga erlendis og dregið hefur úr bókunum ferðaskrifstofa. Í ljósi þeirrar óvissu í rekstri ferðaskrifstofa er þaðþví samdóma mat aðila að íslenskar ferðaskrifstofur muni ekki geta greitt af lánum frá Ferðaábyrgðasjóði á gjalddaga 1. desember nk. nema í undantekningartilvikum. Því hefur ráðherra ákveðið að fresta gjalddaga fyrstu afborgana lána úr sjóðnum enn um sinn, eða til 1. desember 2022. Það er jafnframt til skoðunar í ráðuneytinu að lengja lánstíma lánanna.
„Í ljósi aðstæðna er það mat mitt að hagsmunum ríkissjóðs og íslenskrar ferðaþjónustu sé best borgið með því að gjalddaga fyrstu afborgunar verði frestað. Ferðaskrifstofum mun með þeim hætti gefast aukið svigrúm til að aðlaga rekstur sinn og bæta lausafjárstöðu sína,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
- Hlekkur: Upplýsingar á vef Stjórnarráðsins
Föstudaginn 13. ágúst:
Áfallaþol og órofinn rekstur grundvöllur öryggis ferðaþjónustufyrirtækja á meðan hjarðónæmi er náð
Nú er ljóst að töluverðar líkur eru á að COVID-19 smit geti haft neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja á næstu vikum og mánuðum á meðan COVID-19 gengur yfir samfélagið, með stýrðum hætti eins og kostur er, þar til hjarðónæmi er náð meðal þjóðarinnar.
Yfirlýsingar og fyrirmæli stjórnvalda og sóttvarnaryfirvalda eru á þann veg að ekki séu aðrar leiðir færar þar sem bólusettir einstaklingar geta verið smitberar eins og aðrir þrátt fyrir að bólusetningar veiti mjög góða vörn gegn alvarlegum veikindum.
Því er ljóst að framundan er tímabil sem getur markast af óvissu og truflunum á starfsemi fyrirtækja í tengslum við sóttkví og því mikilvægt að fyrirtæki hugi að og uppfæri viðbragðsáætlanir sínar til að tryggja áfallaþol og órofinn rekstur.
Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna vilja því í sameiningu benda ferðaþjónustufyrirtækjum á eftirfarandi:
- Áhersla á sóttvarnir á vinnustöðum og persónulegar sóttvarnir er enn afar mikilvæg svo hemja megi útbreiðslu smita og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. Sjá t.d. Hreint og öruggt verkefnið á vef Ferðamalastofu.
- Rekstraraðilum er bent á að minna starfsfólk á að fara í sýnatöku ef einkenna verður vart og að hvetja starfsfólk til að þiggja bólusetningu, enda veitir hún mjög góða vörn gegn alvarlegum veikindum.
- Rekstraraðilar þurfa að uppfæra viðbragðsáætlanir sínar með sveigjanleika til lengri tíma í huga til að tryggja órofna starfsemi sem best. M.a. getur þurft að huga að hólfaskiptingu og gera prófanir á viðbragðsáætlunum vegna smita.
- Mikilvægt er að gæta að skörun milli vakta eins og kostur er. Þannig má minnka hættuna á að fjöldi starfsfólks fari í sóttkví á sama tíma ef upp koma smit.
- Skynsamlegt er að miða áætlanir við afleiðingar frekar en atburði og að gera prófanir á viðbrögðum.
- Ekki er hægt að gera ráð fyrir að smitaður einstaklingur geti unnið að heiman í einangrun.
- Rekstraraðilum er bent á að hafa kennitölur, netfangalista og símanúmer starfsmanna tilbúin vegna smitrakningar og tilgreina tengilið vegna hennar.
Sem ein af grunnstoðum samfélagsins er ferðaþjónusta mikilvæg öllum landsmönnum. Ekki aðeins njóta landsmenn þjónustu hennar t.d. yfir sumartímann heldur er ferðaþjónusta undirstaða atvinnulífs víða á landsbyggðinni. Samtal ferðaþjónustunnar við hagaðila á komandi misserum verður við þessar aðstæður mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Með samstilltu átaki munum við komast á þann stað að geta lifað, og starfað, með veirunni.
Rekstraraðilar í ferðaþjónustu geta sótt nánari upplýsingar og ráðgjöf til Samtaka ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, Almannavarna og Embættis landlæknis.
Þriðjudaginn 10. ágúst:
Gildandi samkomutakmarkanir framlengdar til 27. ágúst
Gildandi reglugerð um samkomutakmarkanir er framlengd um tvær vikur og gildir til og með 27. ágúst. Áfram verða 200 manna fjöldatakmarkanir, 1 metra nálægðarregla og óbreyttar reglur um grímunotkun.
- Hlekkur: Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar á vef Stjórnarráðsins.
Föstudaginn 6. ágúst:
Bólusettirfarþegar með tengsl við Ísland fari í sýnatöku við komu til landsins
Bólusettir farþegar með tengsl við Ísland þurfa frá og með 16. ágúst að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda frá komu til landsins. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Einstaklingar með tengsl við Ísland teljast:
- Íslenskir ríkisborgarar
- Einstaklingar búsettir á Íslandi
- Einstaklingar með atvinnuleyfi á Íslandi
- Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi
Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að fólk fari annað hvort í hraðpróf (antigen) eða PCR-próf, en nánara fyrirkomulag verður unnið í samráði við sóttvarnalækni. Þá verður hægt að fara í sýnatöku annað hvort á landamærum eða á sýnatökustöð innan tímamarkanna og verður sýnatakan gjaldfrjáls. Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma.
Samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis hafa um 90% þeirra einstaklinga sem greinst hafa með COVID-19 frá 1. júlí íslenska kennitölu. Mikilvægt er að tryggja varnir gegn nýjum afbrigðum veirunnar og því er þessi ákvörðun tekin. Áfram verður gerð krafa um framvísun neikvæðs COVID-prófs á landamærum en tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili hefur reynst vel í faraldrinum.
Unnið verður að nánari útfærslu framkvæmdarinnar næstu daga og m.a. verður óskað eftir mati sóttvarnalæknis á þeim hópi sem aðgerðirnar ættu að takmarkast við.
- Hlekkur: Upplýsingar á vef Stjórnarráðsins
Þriðjudaginn 27. júlí:
Skimanir vegna Covid-19 fyrir höfuðborgarsvæðið fara fram á Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík
Borið hefur á því að undanförnu að hópar ferðamanna hafa mætt á Landspítalann við Hringbraut og viljað komast í sýnatökur, jafnvel með einkenni.
Til að forðast allan misskilning og svo allt gangi eins vel fyrir sig og mögulegt er þá fara allar sýnatökur fyrir höfuðborgarsvæðið fram á Suðurlandsbraut 34. Áður en farið er í sýnatöku þarf að skrá sig.
Þú færð strikamerki sent í tölvupósti kvöldið áður en þú átt að mæta í sýnatöku. Mættu með skilríki og strikamerkið.
- Mæta þarf á boðuðum degi.
- Mismunandi er fyrir hverja stöð hvort panta þarf tíma.
- Vinsamlegast athugið mismunandi opnunartíma.
- Athugið opnunartíma stöðvar áður en mætt er í sýnatöku þar sem hann getur breyst með litlum fyrirvara.
- Sjá nánar um ferlið á landamærum á vef embættis landlæknis.
Upplýsingar á ensku: Information on opening hours of testing centres for COVID-19 screening/testing (landlaeknir.is)
Þriðjudaginn 24. júlí:
Samkomutakmarkanir teknar upp að nýju
Hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman verður 200 og 1 metra regla tekin upp. Grímuskylda er innanhúss og annarsstaðar þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu. Samkomutakmarkanir gilda til 13. ágúst. Opnunartími veitinga- og skemmtistaða er til kl. 23.00 og hámarksfjöldi gesta 100 manns í rými.
- Hlekkur: Upplýsingar á vef Stjórnarráðsins
Mánudaginn 19. júlí:
Farið fram á neikvætt Covid-19 próf hjá bólusettum á landamærum
Allir bólusettir einstaklingar eða þeir sem eru með staðfesta fyrri sýkingu sem koma til Íslands þurfa að framvísa ekki eldra en 72 klst. gömlu neikvæðu Covid-prófi, PCR eða antigen (hraðprófi), við byrðingu erlendis samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra á grundvelli minnisblaðs sóttvarnalæknis.
Þeim tilmælum verður jafnframt beint til þeirra sem búsett eru hér á landi auk annarra sem hafa hér tengslanet að fara í sýnatöku hér á landi strax eftir komuna til landsins, þó þau séu einkennalaus.
Í nýju minnisblaði sóttvarnalæknis, sem rætt var í ríkisstjórn í dag, kemur fram að undanfarið hafi COVID-19 smitum fjölgað verulega hér á landi. Flest smit séu af völdum delta afbrigðis kórónaveirunnar. Samkvæmt niðurstöðum erlendra rannsókna hafi komið í ljós að fullbólusettir einstaklingar geta smitast af COVID-19 og geta jafnframt smitað aðra. Sóttvarnalæknir telur að núverandi fyrirkomulag muni auka hættuna á frekari útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu og nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar svo ekki þurfi að grípa til takmarkana á samkomum innanlands.
Heilbrigðisráðherra hefur því ákveðið fyrrnefndar breytingar á sóttvarnaaðgerðum á landamærum sem taka munu gildi kl. 00:00 þriðjudaginn 27. júlí, þ.e. aðfararnótt þriðjudagsins.
Óbólusettir einstaklingar þurfa áfram að framvísa PCR-vottorðum sem eru ekki eldri en 72 klst. gömul, auk þess þurfa þeir áfram að fara í tvær PCR-skimanir með fimm daga sóttkví á milli skimana.
Börn fædd 2005 eða síðar verða áfram undanþegin öllum aðgerðum á landamærum.
- Hlekkur: Upplýsingar á vef Stjórnarráðsins
Þriðjudagurinn 29. júní:
Viðspyrnustyrkir – breytingar
Með lögum lögum nr. 37/2021 voru gerðar breytingar á lögum nr. 160/2020, um viðspyrnustyrki. Var m.a. heimilað að greiða viðspyrnustyrki til þeirra rekstraraðila sem orðið hafa fyrir 40-60% tekjufalli á tilgreindum tíma en áður hafði tekjufall þurft að ná a.m.k. 60%.
Umsókn um viðspyrnustyrk hefur verið breytt vegna þessa og er nú hægt að sækja um styrki samkvæmt umræddum breytingum.
Helstu breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 37/2021 eru þessar:
- Styrktímabil var framlengt þannig að það nær nú frá 1. nóvember 2020 til og með nóvember 2021.
- Tekjufall þarf nú að hafa verið a.m.k. 40% (í stað 60% áður).
- Ef tekjufall var á bilinu 40-60% þá er hámark styrks 300.000 kr. á hvert stöðugildi í mánuðinum og ekki hærra en 1,5 milljónir í heild, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Alveg sömu útreikningsreglur gilda og áður, sbr. leiðbeiningar þar um á vef Skattsins.
- Umsóknarfrestur var framlengdur og er nú til og með 31. desember 2021. Gildir það um allt umsóknartímabilið, þ.e. frá og með nóvember 2020 til og með nóvember 2021.
Sótt er um viðspyrnustyrki á þjónustuvef Skattsins. Ef umsækjandi er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu.
Föstudagurinn 11. júní:
Óbreyttar reglur á landamærum til 1. júlí
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis að halda óbreyttu fyrirkomulagi sóttvarnaaðgerða á landamærum til 1. júlí næstkomandi. Frá þeim tíma verður slakað á aðgerðum, þar sem hætt verður að skima þá sem framvísa vottorðum um bólulsetningu eða fyrri sýkingu af völdum Covid-19. Einnig verður hætt að skima börn fyrir Covid-19 við komuna til landsins.
- Hlekkur: Frétt á vef Stjórnarráðsins
- Hlekkur: Minnisblað sóttvarnarlæknis frá 10. júní
—
Almennar fjöldatakmarkanir verða 300 manns og nándarregla 1 metri
Frá og með 15. júní fara fjöldatakmörk úr 150 manns í 300 og nándarregla verður 1 metri í stað tveggja. Á sitjandi viðburðum verður engin nándarregla en öllum skylt að bera grímu. Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, þ.e. til miðnættis. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið þessar breytingar á reglugerð um takmarkanir á samkomum innanlands og eru þær í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Helstu breytingar á samkomutakmörkunum frá og með 15. júní:
- Almennar fjöldatakmarkanir 300 manns. Börn fædd 2015 og síðar áfram undanþegin.
- Nándarregla einn metri í stað tveggja.
- Sitjandi viðburðir: Engin krafa um nándarmörk. Áfram grímuskylda og að hámarki 300 manns í hverju sóttvarnahólfi. Með sitjandi viðburðum er átt við leikhús, íþróttaviðburði, athafnir trúar- og lífsskoðunarfélaga, ráðstefnur og viðlíka.
- Veitingastaðir: Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, frá kl. 23 til miðnættis. Gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn fyrir kl. 01.00.
Gildistími: Reglugerð sem felur í sér ofangreindar breytingar á samkomutakmörkunum innanlands mun gilda til og með þriðjudagsins 29. júní næstkomandi.
- Hlekkur: Minnisblað sóttvarnalæknis
- Hlekkur: Staða bólusetninga
—
Lokunarstyrkur 6
Opnað hefur verið fyrir móttöku á umsóknum um lokunarstyrk 6, þ.e. vegna stöðvunar á starfsemi frá 25. mars til og með 14. apríl á þessu ári. Lokanir vegna sóttvarnaraðgerða á greindu tímabili tóku til skemmtistaða, kráa, spilasala og spilakassa, bað- og sundstaða, heilsu- og líkamsræktarstöðva, ökunáms og flugnáms með kennara og sviðslista og sambærilegrar starfsemi. Sótt er um í gegnum þjónustusíður umsækjenda á skattur.is. Eftir að fullbúin umsókn berst Skattinum á almennt ekki að taka langan tíma að afgreiða hana þannig að greiðsla á að geta borist umsækjanda innan ekki margra daga. Umsókn er ekki fullbúin fyrr en búið er að undirrita hana með rafrænum skilríkjum.
Mánudagurinn 29. mars:
Lokunarstyrkur 5
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um lokunarstyrk 5 vegna stöðvunar á starfsemi í tengslum við sóttvarnaraðgerðir á tímabilinu 1. janúar til og með annars vegar 12. janúar og hins vegar 7. febrúar 2021.
Lokunarstyrkur 5 er ákvarðaður á grundvelli laga nr. 38/2020 eins og þeim var breytt með lögum nr. 119/2020.
Lokunarstyrkir vegna stöðvunar á starfsemi allt frá 18. september 2020 hafa verið ákvarðaðir í áföngum, þ.e. lokunarstyrkur 3 frá 18. september til og með 17. nóvember 2020, lokunarstyrkur 4 frá 18. nóvember til og með 31. desember 2020 og svo nú lokunarstyrkur 5 sem tekur til tímabilsins 1. janúar til og með 12. janúar eða 7. febrúar 2021. Síðar mun verða tilkynnt um lokunarstyrk 6 en það tímabil hófst 25. mars 2021.
Eins og áður er sótt um á þjónustuvef Skattsins. Ef umsækjandi um lokunarstyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu. Leiðbeiningar við umsókn eru á COVID-19 síðum Skattsins en umsóknin er alveg sambærileg við umsókn um lokunarstyrk 4.
Þriðjudagurinn 16. mars:
Vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu tekin gild á landamærum óháð uppruna
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis, að vottorð um bólusetningu gegn COVID-19 og vottorð um fyrri covid sýkingu verði tekin gild á landamærum Íslands, hvort sem þau eru upprunnin innan EES svæðisins eða utan þess, að því tilskyldu að þau uppfylli sömu kröfur og leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Einstaklingar sem framvísa slíkum vottorðum þurfa hvorki að fara í sýnatöku eða sóttkví né framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf á landamærunum.
Þau vottorð sem tekin hafa verið gild hingað til á landamærum Íslands eru eftirfarandi:
- Bólusetningarvottorð gefin út í ríkjum Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins með einhverju þeirra bóluefna sem hlotið hafa markaðsleyfi í Evrópu, að því gefnu að þau uppfylli skilyrði sóttvarnalæknis.
- Skírteini á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), að því gefnu að WHO hafi fjallað um og viðurkennt bóluefnið sem skráð er í skírteinið.
- Vottorð um afstaðna COVID-19 sýkingu sem uppfylla skilyrði sóttvarnalæknis.
Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að taka gild öll vottorð sem uppfylla sömu kröfur, óháð uppruna þeirra, gerir t.d. þeim sem bólusettir hafa verið í Bandaríkjunum og Bretlandi, kleift að framvísa vottorði sem undanþiggur þá frá aðgerðum á landamærum.
Athygli er vakin á að reglugerð heilbrigðisráðherra felur ekki í sér undanþágu frá gildandi reglum um för yfir landamæri, sbr. reglugerð dómsmálaráðherra nr. 866/2017, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 1258/2020.
Aðrar tillögur sóttvarnalæknis varðandi sóttvarnaráðstafanir á landamærum sem fram koma í meðfylgjandi minnisblaði hans eru til skoðunar.
- Hlekkur: Reglugerðin
- Hlekkur: Minnisblað sóttvarnalæknis
—
Covid-19 getur talist ófyrirsjáanlegur atburður m.t.t. samningsskuldbindinga að mati héraðsdóms
Í fjölskipuðum dómi héraðsdóms Reykjaness í máli Fosshótel Reykjavík gegn Íþöku fasteignum er tekin málefnaleg afstaða til þess hvort heimsfaraldur kórónaveiru geti talist ófyrirsjáanlegur atburður sem geti haft áhrif á samningsskuldbindingar aðila.
Hér má lesa dóminn í heild: https://www.heradsdomstolar.is/domar/domur/?id=80d318b1-7586-4f58-ba7e-777f9d67f94d
Dómurinn kemst að þeirri samhljóða niðurstöðu að svo sé. Dómurinn getur haft almenna skírskotun fyrir ýmis aðildarfyrirtæki SAF t.d. hvað varðar samningsákvæði um leiguverð og jafnvel aðrar samningsskuldbindingar í ljósi heimsfaraldursins. Kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að rétt sé að víkja verðákvæði leigusamnings málsaðila tímabundið til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 en dómurinn lækkaði leiguverðið um helming fyrir tímabil frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2021. Í rökstuðningi dómsins segir:
“Við mat á því hvort það verður talið ósanngjarnt af hálfu gagnstefnanda [Íþaka] að bera fyrir sig óbreytt verðákvæði leigusamningsins vegna atvika sem síðar komu til ber að líta til þess að þær aðstæður sem hafa skapast vegna heimsfaraldurs af völdum kórónaveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19 sjúkdómnum voru ófyrirséðar þegar samningurinn var gerður. Gríðarlegur samdráttur hefur orðið í ferðaþjónustu vegna aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldursins. Aðalstefnandi rekur eitt stærsta hótel landsins og byggir afkomu sína nær eingöngu á erlendum ferðamönnum. Hefur rekstrargrundvöllur aðalstefnanda [Fosshótel Reykjavík] raskast gríðarlega vegna þeirra aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldursins, einkum ferðatakmarkana, og hefur ekki verið grundvöllur til að halda hótelinu opnu. Eru málefnalegar ástæður fyrir því að þessu tiltekna hóteli hafi verið lokað.”
Síðastnefnda tilvitnunin er einnig athyglisverð fyrir þá félagsmenn SAF sem reka hótel og gististaði enda er það mat dómsins í þessu máli að þær rekstraraðstæður sem Covid-19 veldur raski svo rekstrargrundvellinum að réttlætanlegt getur talist að loka viðkomandi gististað á meðan heimsfaraldur og/eða ferðatakmarkanir vara.
Þriðjudagurinn 2. mars:
Opið fyrir umsóknir um viðspyrnustyrki hjá Skattinum
Skatturinn hefur opnað fyrir móttöku á umsóknum um viðspyrnustyrki vegna tekjufalls rekstraraðila á tímabilinu nóvember 2020 til og með maí 2021 í samanburði við árið 2019.
Eins og áður er sótt um í gegnum þjónustusíður umsækjenda á skattur.is. Ef umsækjandi um viðspyrnustyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu. Allt er þetta með sama hætti og verið hefur vegna annarra styrkumsókna.
Skilyrði fyrir viðspyrnustyrk eru nokkuð mörg og fleiri en ein leið til að reikna út bæði tekjufall, rekstrarkostnað og stöðugildi en allt eru þetta þættir sem skipta sköpum um útreikninga á styrkjunum. Reynt er að fylla út fyrirfram allar þær upplýsingar sem Skattinum er unnt en jafnframt þurfa umsækjendur sjálfir að gefa upp tilteknar upplýsingar.
Athugið að í þetta skipti þarf að sækja um fyrir hvern almanaksmánuð í senn og verður umsækjandi að fullklára umsókn sína með rafrænni undirskrift áður en unnt er að sækja um fyrir annan mánuð. Sé t.d. sótt um fyrir nóvember 2020 þarf að fullklára þá umsókn áður en unnt er að sækja um fyrir desember 2020, o.s.frv.
Bent er á að ítarlegar leiðbeiningar eru á www.skatturinn.is sem gott er að kynna sér áður en hafist er handa við að fylla út umsóknina. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum á almennt ekki að taka langan tíma að afgreiða umsóknir eftir að fullbúin umsókn berst, þannig að greiðsla á að geta borist umsækjanda innan nokkurra daga. Séu á hinn bóginn einhverjir annmarkar á umsókn getur afgreiðsla tafist. Rétt er að ítreka að umsókn er ekki fullbúin fyrr en búið er að undirrita hana með rafrænum skilríkjum.
Föstudagurinn 19. febrúar:
Beiðnir um frestun á greiðslum vegna lána úr ferðaábyrgðasjóði berist fyrir 22. febrúar
Samtök ferðaþjónustunnar minna lántakendur Ferðaábyrgðasjóðs á að hægt er að fresta fyrstu þrem afborgunum höfuðstóls og vaxta skuldabréfa.
Sjá eftirfarandi tilkynningu frá Ferðamálstofu sem send var út á lántakendur 16. febrúar:
„Ferðamálastofa upplýsti lántakendur Ferðaábyrgðasjóðs hinn 10. febrúar sl. um nýlega breytingu á reglugerð nr. 720/2020 um Ferðaábyrgðasjóð. Þessi breyting felur það í sér að lántakendum stendur nú til boða að fresta fyrstu þremur afborgunum höfuðstóls og vaxta skuldabréfa þannig að fyrsti gjalddagi verði 1. desember 2021 í stað1. mars 2021.
Ef [félagið] hyggst nýta rétt sinn til frestunar afborgana þarf að senda til Ferðamálastofu undirritaða beiðni þar að lútandi.
Nægilegt er að prókúruhafi félags undirriti beiðnina (viðauki við skuldabréf), sem þarf að berast í frumriti til Ferðamálastofu. Senda má beiðnina með pósti eða með því að afhenda beiðnina á skrifstofu Ferðamálastofu að Geirsgötu 9.
Vinsamlegast gætið þess að fylla út þar til gerða reiti, þ.m.t. dagsetningu/stað, undirritun tveggja votta og kennitölu prókúruhafa.
Undrituð beiðni skal berast Ferðamálastofu eigi síðar en 22. febrúar nk. Berist beiðnin ekki fyrir þann tíma lítur Ferðamálastofa svo á að félagið hyggist ekki óska eftir frestun afborgana.“
Fimmtudagurinn 4. febrúar:
Fyrirframgreiðsluseðlar lögaðila birtir á þjónustuvef
Lögaðilum, sem gert er að greiða fyrirfram upp í þau gjöld sem lögð eru á í álagningu, hafa verið birtir fyrirframgreiðsluseðlar á þjónustuvef Skattsins.
Fyrirframgreiðslan byggir á síðustu álagningu og reiknast 68% af álagningu sl. árs og dreifist á 8 gjalddaga frá og með febrúar (8,5% af álagningu síðasta árs á hverjum gjalddaga).
Heimilt er að sækja um lækkun á þeirri fjárhæð þinggjalda sem aðila er gert að greiða fram að álagningu. Umsókn um lækkun skal senda á netfangið umsoknir@skatturinn.is. Ríkisskattstjóri úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar. Umsóknarfrestur er til 31. maí.
Ef sótt er um lækkun eða niðurfellingu fyrirframgreiðslu þarf að sýna fram á með skýringum og/eða gögnum að um verulega lækkun skattstofna verði að ræða á milli síðasta gjaldárs og yfirstandandi gjaldárs, sbr. skilyrði sem fram koma í auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 40/2021. Skilyrðin eru helst eftirfarandi:
- skattstofnar verði 25% lægri en þeir voru á sl. ári.
- álögð gjöld lækki um a.m.k. kr. 100.000.
- sýnt sé fram á lækkun með framlagningu skattframtals ásamt ársreikningi.
Hlekkur: Nánar um fyrirframgreiðslu þinggjalda.
—
Niðurfelling álags í virðisaukaskatti
Í ljósi erfiðs rekstrarumhverfis og óvissu í atvinnulífi hefur ríkisskattstjóri ákveðið að nýta heimild til að beita ekki álagi á vangreiddan virðisaukaskatt.
Ákvörðunin er vegna nóvember og desember 2020, ársskila fyrir árið 2020 og sex mánaða skil fyrir júlí – desember 2020 og nær til eftirfarandi uppgjörstímabila, skilamáta og gjalddaga:
Gjalddagi | Uppgjörstímabil | Skilamáti |
5. janúar 2021 | Nóvember 2020 | Almenn mánaðarskil |
15. janúar 2021 | Desember 2020 | Aðilar í mánaðarskilum sem hafa verið afskráðir vegna áætlana en skráðir að nýju |
5. febrúar 2021 | Nóvember – desember 2020 | Almenn tveggja mánaða skil |
5. febrúar 2021 | Desember 2020 | Almenn mánaðarskil |
5. febrúar 2021 | Janúar – desember 2020 | Ársskil |
1. mars 2021 | Júlí – desember 2020 | Sex mánaða skil í landbúnaði |
Af þeim sökum er svigrúm til greiðslu virðisaukaskatts aukið til muna eða í allt að mánuð. Sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga leggjast þó á dráttarvextir frá gjalddaga.
Föstudagurinn 29. janúar:
Búið að afgreiða 69% umsókna um tekjufallsstyrki
Skv. upplýsingum frá Skattinum höfðu 977 rekstraraðilar fullklárað umsóknir sínar um tekjufallsstyrki í morgun. Búið var að afgreiða 676 umsóknir af þessum 977 eða 69% og greiða tæpa 4,3 milljarða í tekjufallsstyrki. Þannig eru rétt rúmlega 30% af fullbúnum umsóknum enn í afgreiðsluferli. Einhverjar þeirra eru á bið vegna atriða sem Skatturinn telur að þurfi að athuga betur eða senda rekstraraðilum fyrirspurnir vegna. Umsóknir sem afgreiddar eru í dag eru um 1-2ja daga gamlar.
Því miður getur Skatturinn enn ekki fullyrt um hvenær unnt verður að hefja móttöku á umsóknum um viðspyrnustyrki, þar sem rafrænt umsóknarferli er enn í smíðum.
Mánudagurinn 18. janúar:
Breytt fyrirkomulag á landamærum
Föstudaginn 15. janúar sl. breyttust skimunareglur á landamærunum Íslands og stjórnvöld kynntu þær reglur sem eiga að gilda á landmærunum frá og með 1. maí nk. á heimasíðu sinni, stjornarrad.is. Hér fyrir neðan kemur stutt kynning um fréttir um breyttar aðgerðir á landamærum og linkur á frétt á heimasíðu stjórnvalda um málið.
Skimunarskylda á landamærum
Skimun á landamærum verður skylda frá og með 15. janúar sl. og því er tvöföld skimun og fimm daga sóttkví á milli framlengd til 1. maí nk. Þá verða tekin varfærin skref til afléttingar sem taka muni mið af ástandi faraldursins á brottfarastað komufarþega.
- Hlekkur: Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.
Framvísun bólusetningarvottorða á landamærum
Bólusetningarvottorð sem uppfylla leiðbeiningar sóttvarnalæknis og gefin eru út í EES/EFTA-ríki verða tekin gild á landamærum Íslands. Þeir sem framvísa slíku vottorði eru undanþegnir opinberum sóttvarnaráðstöfunum á landamærum og er þannig ekki skylt að fara í sýnatöku við landamæri. Komufarþegar geta áfram framvísað gildu vottorði sem sýnir fram á að COVID-19 sé afstaðin.
- Hlekkur: Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.
Fyrirkomulag sóttvarna á landamærum frá 1. maí nk. á íslensku og ensku
Stjórnvöld kynntu nýtt fyrirkomulag frá og með 1. maí nk. en þá verða tekin skref til afléttingar sóttvarnaraðgerða á landamærum sem taka munu mið af ástandi faraldursins á brottfarastað komufarþega. Frá og með 1. maí verður byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsíngul, rauð og frá eftir stöðu faraldursins. Neðangreind tafla er til skýringar.
Mánudagurinn 11. janúar:
Opnað fyrir umsóknir um tekjufallsstyrki
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um tekjufallsstyrki hjá Skattinum. Hægt er að sækja um styrkina í gegnum þjónustusíður umsækjenda á skattur.is
Ef umsækjandi um tekjufallsstyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu.
Skilyrði fyrir tekjufallsstyrk eru nokkuð mörg og fleiri en ein leið til að reikna út bæði tekjufall, rekstrarkostnað og stöðugildi en allt eru þetta þættir sem skipta sköpum um útreikninga á styrkjunum.
- Nánari upplýsingar um skilyrðin er að finna HÉR.
Í umsókninni eru þær upplýsingar sem Skatturinn hefur þegar fylltar inn en jafnframt þurfa umsækjendur sjálfir að gefa upp tilteknar upplýsingar.
Skv. upplýsingum frá Skattinum á almennt ekki að taka langan tíma að afgreiða fullbúnar umsóknir eftir að þær berast þannig að greiðsla á að geta borist umsækjanda innan örfárra daga. Skatturinn ítrekar að umsókn er ekki fullbúin fyrr en búið er að undirrita hana með rafrænum skilríkjum en nokkur brögð hafa verið að því að dregist hefur hjá umsækjendum um aðra styrki að ganga frá þeim þætti málsins.