Framboð til stjórnar: Erna Dís Ingólfsdóttir

Erna Dís Ingólfsdóttir copy

Erna Dís Ingólfsdóttir framkvæmdastjóri hjá Íslandshótelum

Ég heiti Erna Dís Ingólfsdóttir og er framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum sem reka 18 hótel og veitingastaði um allt land. Í starfi mínu skipulegg ég og samhæfi starfsemi og leiði stefnumiðaða stjórnun félagsins, ber ábyrgð á sjálfbærnimálum, vottunum  og mannauðs- og gæðamálum, og stýri stafrænni þróun á sviðinu, svo eitthvað sé nefnt. Ég er með B.A. í hönnun og markaðsfræði frá University of Wales og Accademia Italiana, Advanced diploma í Ítölsku, og Master í Mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. 

Hvaða reynslu af störfum í ferðaþjónustu eða SAF kemur þú með inn í stjórnina?

Reynsla mín í ferðaþjónustu spannar yfir tvo áratugi, þá aðallega innan hótel og veitingageirans en ástríða mín fyrir ferðaþjónustu hófst þegar ég fékk mitt fyrsta starf í eldhúsi á veitingastað þegar ég var 14 ára.  

Undanfarna áratugi hef ég verið með marga hatta í þessari síbreytilegu og vaxandi atvinnugrein, hlutverkin og störfin hafa verið fjölbreytt, ég hef unnið í flestum stöðum innan geirans á smærri og stærri vinnustöðum, bæði á landsbyggðinni og í höfuðborginni, sem og á Ítalíu og aflað mér viðamikillar þekkingar. 

Ég hef litið á það sem forréttindi að hafa verið virkur þátttakandi í ótrúlegum vexti og þróun ferðaþjónustunnar undanfarna áratugi. Í gegnum þátttöku í nefndum, faghópum og verkefnum hjá t.d. SAF, Hæfnissetri ferðaþjónustunnar, SafeTravel og SA hef ég öðlast mikla innsýn og reynslu og lagt mitt af mörkum til að efla ábyrga ferðaþjónustu, efla orðspor og auka fagmennsku í atvinnugreininni. Ég tel að reynsla mín, óbilandi áhugi á öllum þáttum ferðaþjónustunnar og framtíðarsýn geri mér kleift að koma sterk inn í stjórn SAF. 

Hvað eru Samtök ferðaþjónustunnar fyrir þér? Hvernig metur þú stöðu þeirra í dag?

Samtök ferðaþjónustunnar gegna mikilvægu hlutverki í mótun ferðaþjónustunnar. Fyrir mér tákna samtökin verðmæti og styrk í sameinaðri rödd sem vinnur að sjálfbærri þróun og vexti ferðaþjónustunnar. 

Í dag hefur Samtökum ferðaþjónustunnar tekist að festa sig í sessi sem afl í ferðaþjónustu og í gegnum allt mitt starf hefur samstarf við samtök eins og SAF verið lykilatriði.  

Samtökin fela í sér styrk, fagmennsku og samheldni sem greiðir fyrir framförum í greininni, er drifkraftur fjölda verkefna og hefur náð eftirtektarverðum árangri og mikilvægri stöðu í samfélaginu. Með því að nýta styrkleika sína og auðlindir halda samtökin áfram að knýja fram jákvæðar breytingar og móta nýjar leiðir til velmegunar til framtíðar.  

Hvað leggur þú höfuðáherslu á í starfi samtakanna? Er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að bæta eða breyta?

Innan SAF trúi ég á að fá allar raddir að borðinu því þar liggur styrkur og verðmæti félagsins. 

Framtíðarsýn mín snýst um að efla nýsköpun, fagmennsku og sjálfbæran vöxt til að tryggja áframhaldandi seiglu, arðsemi og samkeppnishæfni í ljósi sívaxandi áskorana. Að tryggja stöðugleika og fyrirsjáanleika og forgangsraða menntun og færni til framtíðar. Að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis. 

Ég tel mikilvægt að stjórn vinni áfram að krafti við að stuðla að frekari stöðugleika í okkar rekstrarumhverfi. Ferðaþjónustan er ein af stærstu atvinnugreinum á Íslandi og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Tryggja verður stöðugleika, hagkvæmt skattaumhverfi og skilvirkni. 

Að lokum vil ég segja að ég brenn fyrir velgengni og lífskrafti íslenskrar ferðaþjónustu og ég er reiðubúin til starfa við krefjandi verkefni með skýr markmið; að ferðaþjónustan hér á landi eflist, vaxi og verði leiðandi á alþjóðavísu. Ég vonast eftir trausti til góðra verka.