ESB skýrsla HRM desember 2008

83% félagsmanna SAF vilja taka upp evru

Nú liggja fyrir býsna afgerandi niðurstöður úr viðhorfskönnun SAF meðal félagsmanna um Evrópumál.  Helstu niðurstöður eru þær að 83% félagsmanna vilja taka upp evru, 77% vilja aðildarviðræður við Evrópusambandið, 71% telja að aðild að ESB yrði hagstæð fyrir ferðaþjónustuna og 64% eru mjög hlynnt eða frekar hlynnt aðild að ESB.  Lítill munur er á afstöðu fyrirtækjanna í Reykjavík og á landsbyggð.  Í Samtökum ferðaþjónustunnar eru margar tegundir fyrirtækja og býsna mikill munur á afstöðu einstakra greina hvað varðar aðild að ESB.  Mun minni munur er á afstöðunni til upptöku evru.  Í opnum spurningum er fyrst og fremst kallað eftir stöðugleika en þó einnig merki um að fólk telji enn marga óvissuþætti varðandi kosti og galla aðildar að ESB.  Kallað er eftir meiri upplýsingum og umræðu.  Eru félagsmenn sem aðrir hvattir til þess að kynna sér niðurstöður þessar.  Sjá niðurstöður.

Á aðalfundi SAF 3. apríl s.l. var samþykkt samhljóða ályktun þar sem fundarmenn lýstu miklum áhyggjum af sveiflum í gengi íslensku krónunnar og var þar kveðið á um erfiðleika við áætlanagerð og verðlagningu.  Því var beint til stjórnar SAF að standa fyrir kynningum á kostum og göllum Evrópusambandsins og að því loknu að gera könnun meðal félagsmanna.  Ráðstefna SAF um ESB var haldin í októbermánuði og með könnuninni er því búið að framkvæma vilja aðalfundar.