Samtök ferðaþjónustunnar leggja ríka áherslu á eftirfylgni með samkeppnislögum sem og öðrum lögum sem um starfsemi ferðamála gilda. Í því skyni ber skrifstofa SAF ábyrgð á fræðslu um samkeppnismál, bæði gagnvart aðildarfyrirtækjum sem og starfsmönnum og stjórn samtakanna.
Helstu verkefni skrifstofu SAF varðandi umsjón með framkvæmd fræðslumála á sviði samkeppnisréttar eru svofelld:
- Veitir aðildarfyrirtækjum ráðgjöf um samkeppnisréttarleg álitaefni.
- Ber ábyrgð á samskiptum við samkeppnisyfirvöld og önnur stjórnvöld vegna samkeppnismála.
- Sér til þess að innan SAF séu til staðar uppfærðar upplýsingar um ákvarðanir samkeppnisyfirvalda sem snerta starfsemi samtakanna eða atvinnugreinarinnar og allar skyldur sem á þeim hvíla vegna þeirra.
Skrifstofa SAF ákveður áherslur í fræðslu um samkeppnisrétt og sér til þess að stjórnendur og starfsmenn aðildarfyrirtækja sem og samtakanna fái upplýsingar um samkeppnismál eftir því sem við á hverju sinni.
Skrifstofa SAF ber ábyrgð á að halda félagsfundi og/eða námskeið þar sem stuðlað er að fræðslu um samkeppnismál. Við mat á tíðni funda og tilefni þeirra skal m.a. litið breytinga á samkeppnislögum, dómum á því sviði eða öðrum þáttum sem kunna að hafa áhrif á samkeppnismál hér á landi sem og á EES-svæðinu.