Raunfærnimat

Mat á raunfærni byggist á þeirri hugmynd að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur við allskonar aðstæður og í alls konar samhengi. Allt nám er verðmætt og því mikilvægt að það sé skjalfest óháð því hvar þess hefur verið aflað. Raunfærni er því samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi.

Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Markmiðið er að einstaklingur fái viðurkennda raunfærni, sem hann býr yfir á ákveðnum tíma, þannig að hann þurfi ekki að sækja nám í því sem hann kann. Raunfærnimatið staðfesti hans hæfni. Raunfærnimat getur því mögulega stytt nám og verið fólki hvatning til að ljúka því.

Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru að viðkomandi hafi náð 23 ára aldri og hafi 3 ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi grein. Einfaldasta leiðin til að fá upplýsingar um raunfærnimat er að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem starfa á símenntunarmiðstöð í þinni heimabyggð. Smelltu hér til að sjá lista.

 

Kynntu þér meira um raunfærnimat á eftirfarandi vefjum:

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins
IÐAN fræðslusetur
Björgunarskóli Landsbjargar