Fréttatilkynning: Samtök ferðaþjónustunnar skora á Isavia að endurskoða áform um gjaldtöku á hópbifreiðar

 

Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað afstöðu samtakanna til gjaldtöku Isavia ohf. sem fram kom í ályktun stjórnar SAF frá 14. desember 2017 þar sem skorað er á Isavia að endurskoða áform um gjaldtöku á hópbifreiðar.

SAF eru ekki mótfallin gjaldtöku eins og bílastæðagjöldum, en gjaldtakan þarf hins vegar að hafa skýran tilgang og grundvallast á skýrri kostnaðargreiningu eins og lög gera ráð fyrir. Það er verulegt hagsmunamál fyrir SAF og aðildarfyrirtæki samtakanna að gjaldtaka opinberra aðila sé hafin upp yfir allan vafa hvað grundvöll hennar varðar sem og hugað sé að þeim kvöðum sem hvíla á slíkri gjaldtöku, s.s. með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttarins og samkeppnislögum.

Eins og fram hefur komið í máli fyrirtækisins og Samkeppniseftirlitsins um forsendur og tilhögun gjaldtöku á stæðunum er það mat Samkeppniseftirlitsins að gjaldtaka Isavia á umræddum stæðum sé margfalt hærri en sá kostnaður er til fellur við að veita þjónustuna. Telur Samkeppniseftirlitið að verðið sé rúmlega 30 sinnum hærra en kostnaðurinn.

Með hliðsjón af hinni breyttu gjaldtöku, og þeim gjöldum sem nú eru innheimt, sem og þeirri skoðun Samkeppniseftirlitsins um að þáverandi gjaldtaka hafi verið allt að 30 sinnum hærri en kostnaður við að veita þá þjónustu þá er upphæð gjaldsins enn ekki nærri raunkostnaði við hina veittu þjónustu að teknu tilliti til ábendinga eftirlitsins.

SAF benda á að gjaldtöku opinberra aðila sem grundvallast á sjónarmiðum um innheimtu þjónustugjalda er sett ákveðin skilyrði er snýr að grundvelli og umfangi gjaldtökunnar. Við afmörkun á því hvaða kostnaðarliði heimilt er að leggja til grundvallar á fjárhæð þjónustugjalds verður að hafa í huga að stjórnvaldi er aðeins heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem er í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu eða starfsemi sem sérstaklega er tilgreind í viðhlítandi gjaldtökuheimild, en að jafnaði er ekki heimilt að líta til annarrar og óskyldrar starfsemi stjórnvaldsins, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 1041/1994 og nr. 4189/2004 sem og álit setts umboðsmanns í máli nr. 5530/2008. Þá má leiða af skilyrðum 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að stjórnvaldi er með öllu óheimilt að afla almennra rekstrartekna með innheimtu þjónustugjalda.

Í ljósi þessa, að teknu tilliti til bráðabirgðaákvörðunar Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála, skora SAF á Isavia að fresta gjaldtöku á umræddum stæðum á meðan mál þetta er til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Þá hafa samtökin, þar sem hinn umþrætta gjaldtaka hefur veruleg áhrif á starfsemi aðildarfyrirtækja SAF, óskað eftir upplýsingum um kostnaðargreiningu þá sem hin breytta gjaldtaka grundvallast á.


27. nóvember 2018

 

Fylgiskjal: Erindi til Isavia vegna gjaldtöku 7.11.2018