Íslenska kokkalandsliðið í fremstu röð í heiminum

– Tvenn gullverðlaun á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg

Íslenska kokkalandsliðið sló í gegn á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Lúxemborg um helgina. Uppskeran eftir 18 mánaða undirbúning voru tvenn gullverðlaun og er óhætt að fullyrða að íslenskir matreiðslumenn séu í allra fremstu röð í heiminum. Ásamt því að vinna til gullverðlauna sem landslið hreppti Denis Shramko gullverðlaun í sykurgerðarlist. Sannarlega glæsilegur árangur.

Gríðarlega ánægð með árangurinn

„Við erum gríðarlega ánægð með þennan árangur enda búið að vinna að undirbúningi í 18 mánuði og þrátt fyrir nokkrar óvæntar uppákomur þá höfum við sýnt það og sannað að íslenska kokkalandsliðið er eitt það besta í heimi,“ sagði Björn Bragi Bragason forseti Klúbbs matreiðslumeistara þegar niðurstaða dómnefndar lá fyrir.

„Mest er hægt að fá 100 stig og ef lið fær 91 til 100 stig þá fær það gull. Fleiri en ein þjóð geta því fengið gull og svo get­ur það líka gerst að eng­inn fái gull. Fyr­ir 81 til 90 stig fæst silf­ur og þannig koll af kolli,“ út­skýr­ir Björn Bragi.

Verndari landsliðiðsins er Eliza Reid forsetafrú, en hún var viðstödd heimsmeistarakeppnina í Lúxemborg til að fylgja liðinu og hvetja það áfram. „Mér finnst afskaplega gaman að vera verndari Kokkalandsliðsins sem ætlar að sýna heiminum þessa áhugaverðu hlið hinnar íslensku þjóðarsálar og ég hlakka til samstarfs við þetta öfluga lið,“ sagði Eliza Reid þegar hún tók á sínum tíma stöðu verndara liðsins.

Gull í sykurgerðarlist

Gullverðlaunahafinn Denis Shramko ásamt Elizu Reid forsetafrú.

Ásamt því að vinna til gullverðlauna sem landsliðið hreppti Denis Shramko gullverðlaun í matreiðslu. Verðlaunin vann Denis fyrir sykur­gerðar­list en hann útbjó sýningar­styttu sem vakti mikla lukku dómaranna.

„Þetta var svaka­lega flott hjá honum og eigin­lega bara til há­borinnar fyrir­myndar,“ sagði Björn Bragi Braga­son, for­seti Klúbbs mat­reiðslu­meistara, í sam­tali við Fréttablaðið þegar niðurstaða dómnefndar lá fyrir og bætti við að landsliðið hafi verið landi og þjóð til sóma. „Við höfum yfir­leitt staðið okkur vel en mitt álit er að við höfum sjaldan eða aldrei gert betur en nú,“ sagði Björn Bragi.

Fagmennska í ferðaþjónustu

Samtök ferðaþjónustunnar óska íslenska kokkalandsliðinu hjartanlega til hamingju með framúrskarandi árangur á heimsmeistaramótinu. Það er ómetanlegt fyrir íslenska matargerðarlist að eiga fagmenn í matreiðslu sem eru í fremstu röð í heiminum. Það styrkir Ísland sem áfangastað fyrir ferðamann, enda viljum við standa fyrir fagmennsku í ferðaþjónustu.

Ljósmyndir: Kokkalandsliðið