Samskiptareglur SAF

Inngangur

Hagsmunasamtökum fyrirtækja er ætlað að vinna að sameiginlegum hagsmunum og markmiðum aðildarfyrirtækja. Slíkt samstarf er mikilvægt varðandi framgang atvinnugreinarinnar, stuðlar að bættri hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og styður við starfsemi fyrirtækja með fræðslu og annarri upplýsingamiðlun. Í slíku samstarfi þarf að gæta að ekki myndist vettvangur þar sem upplýsingaflæði á sér stað milli fyrirtækja sem getur leitt til röskunar á samkeppni á einstökum mörkuðum. Það er því tilgangur samskiptareglna SAF að tryggja að starfið sé faglegt, að hagsmunir allra aðila innan samtakanna séu virtir og tryggt sé að á engan hátt sé dregið úr virkri samkeppni á viðkomandi markaði.

Starfsfólk samtakanna og aðrir sem starfa á þeirra vettvangi skulu því hafa til hliðsjónar þessi samskiptaviðmið á fundum stjórnar samtakanna sem og fundum ráða og nefnda sem starfa á vettvangi samtakanna.

Fundir stjórna, nefnda og ráða

Starfsmaður samtakanna sem er ábyrgur fyrir starfi umræddrar stjórnar, nefndar eða ráði skal sjá um að boða fundi og skal hann jafnframt tryggja að ávallt sé rituð fundargerð. Dagskrá funda skal liggja fyrir við boðun fundar að svo miklu leyti sem unnt er og skulu fundarmenn leitast við að halda sig við fundarefni dagskrár.

Ef umræða á fundum er þess eðlis að einhvern aðila grunar að hún geti brotið við samskiptareglur samtakanna eða ákvæði samkeppnislaga skal viðkomandi andmæla með skýrum hætti og skulu slík andmæli bókuð í fundargerð. Við mat á lögmæti skal tilgangur og markmið samkeppnislaga ávallt njóta vafans.

Samskipti milli funda

Aðilar sem eiga sæti í stjórnum, nefndum eða ráðum á vettvangi samtakanna skulu leitast við að takmarka samskipti sín á milli um málefni samtakanna utan formlegra funda. Ef nauðsynlegt er að fylgja eftir málefnum með tölvupóstsendingum eða sambærilegum hætti milli funda skal starfsmaður samtakanna ávallt fá afrit af slíkum samskiptum og skulu aðrir fulltrúar stjórnar, nefndar eða ráðsins upplýstir um samskiptin í upphaf næsta fundar.

Umræðuefni funda

Í skilningi samkeppnislaga er litið á samskipti fyrirtækja á vettvangi samtaka fyrirtækja með sambærilegum hætti og öll önnur samskipti. Samskipti á vettvangi samtakanna skulu því aldrei fela í sér tilvísanir til verðs eða upplýsingaskipta um markaði eða viðskiptavini eða annað sem rétt er að leynt skuli fara milli samkeppnisaðila.

Á fundum stjórna, nefnda og ráða sem starfa á vettvangi samtakanna er heimilt að ræða öll almenn málefni er varðar heildarhagsmuni einstakra atvinnugreina og eru ekki til þess fallinn að draga úr sjálfstæði fyrirtækjanna á markaði.

Óheimilt er að ræða öll þau málefni sem eru til þess fallin, beint eða óbeint, að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni.

Til nánari skýringa er vísað til meðfylgjandi Viðauka þar sem tekin eru dæmi um hvað skal og skal ekki ræða á vettvangi samtakanna.

Samskiptaviðmið – Viðauki

Í starfi samtaka fyrirtækja skal:

 • Ræða almenn málefni um rekstrarumhverfi greinarinnar og innviði.
 • Ræða almennt um stöðu greinarinnar og efnahagshorfur.
 • Ræða lagaumhverfi greinarinnar og hvaða breytingar væru líklegar til að stuðla að auknum framgangi greinarinnar.
 • Ræða hagtölur og tölfræði sem varðar greinina, að því gefnu að slíkar upplýsingar séu opinberar eða nægjanlega almennar til að tryggt sé að ekki megi greina úr þeim viðskiptaupplýsingar einstakra fyrirtækja.
 • Ræða almenn atriði varðandi tækniframfarar og bættar leiðir til nýtingar þeirra.
 • Ræða aðgerðir stjórnvalda og stuðla að því að sameinaður áhrifamáttur samtakanna sé nýttur greininni til framdráttar.
 • Ræða leiðir til að stuðla að bættri ímynd greinarinnar.
 • Ræða leiðir til að bæta upplýsingaflæði um greinina til aðildarfyrirtækja.

Í starfi samtaka fyrirtækja skal ekki:

 • Ræða um verðlagsstefnu einstakra fyrirtækja, hvorki núverandi verðlag né fyrirhugaðar verðlagsbreytingar eða önnur atriði sem eðlilegt er að leynt fari á milli keppinauta.
 • Ræða framlegð eða kostnaðarhlutföll.
 • Ræða fyrirhugaðar markaðsherferðir einstakra fyrirtækja.
 • Ræða fyrirhugaðar fjárfestingar eða framleiðslustig.
 • Ræða ítarlega samningsskilmála einstakra fyrirtækja
 • Ræða einstök atriði er varðar framtíðarþróun markaða.

Text content