Starfsreglur fóstra fyrir fagnefndir innan SAF

1. gr.

Starfsreglur þessar taka til hlutverks og verkefna vegna fóstra fyrir fagnefndir innan SAF. Með fóstra er hér átt við þá fulltrúa úr stjórn SAF sem annast samskipti við einstakar fagnefndir innan SAF, þ.m.t. sitja fundi fagnefnda, og þannig stuðla að góðum starfsanda innan fagnefndar og stjórnar og samskiptum þeirra á milli, eins og nánar verður gerð grein fyrir hér að neðan.

2. gr.

Á fyrsta fundi stjórnar SAF í kjölfar aðalfundar samtakanna skal á vettvangi stjórnar tekin ákvörðun um að fela tilteknum stjórnamönnum starf fóstra fyrir hverja fagnefnd SAF. Ef forföll ber til getur fóstri óskað þess að annar stjórnarmaður sitji fund fagnefndar í hans stað. Við ákvörðun um það hver skuli taka að sér slíkt hlutverk fóstra, og gagnvart hvaða fagnefnd, skal gætt að því að reynsla og þekking viðkomandi stjórnarmanns samræmist eins vel og kostur er starfsemi viðkomandi fagnefndar.

3. gr.

Hlutverk fóstra er að tryggja greið upplýsingaskipti á milli stjórnar og fagnefndar SAF og stuðla þannig að greiðum samskiptum þessara aðila. Fóstra ber þannig að kynna fyrir stjórn öll gögn og upplýsingar um sem nefndin telur þörf á að stjórn hafi vitneskju um eða taki til umfjöllunar. Þá skal fóstri tryggja að ályktanir fagnefnda til stjórnar verði teknar til umræðu á vettvangi stjórnar eins fljótt og unnt er og að sama skapi halda fagnefndum upplýstum og framgang þeirra mála innan stjórnar. Einnig skal fóstri sjá til þess að fulltrúar í fagnefndum fái öll gögn og upplýsingar sem stjórnin telur þörf á að fulltrúar í fagnefnd hafi vitneskju um eða taki til umfjöllunar. Eftir sem áður ber fóstra ekki að upplýsa um þær umræður eða mál á vettvangi stjórnar sem trúnaður skal ríkja um.

4. gr.

Þrátt fyrir framangreind hlutverk fóstra um upplýsingamiðlun á milli fagnefndar og stjórnar þá ber viðkomandi fóstri ekki ábyrgð á framgangi mála á vettvangi stjórnar eða ábyrgist ekki á annan hátt afgreiðslu einstakra mála hjá stjórn. Um slíkt gilda bæði starfsreglur stjórnar sem og samþykktir SAF og víkja starfsskyldur fóstra þeim reglum og samþykktum ekki til hliðar.

5. gr.

Fóstri fer ekki með atkvæðisrétt á vettvangi viðkomandi fagnefndar enda situr hann þar eingöngu sem áheyrnarfulltrúi stjórnar. Hann hefur þó bæði tillögurétt og málfrelsi á fundum viðkomandi fagnefndar.

6. gr.

Viðkomandi fóstri í fagnefnd hefur þagnarskyldu um málefni sem hann fær vitneskju um í því starfi sínu í fagnefndinni og leynt skulu fara lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi fóstra. Eftir sem áður er fóstra heimilt að miðla upplýsingum og gögnum milli fagnefndar og stjórnar í samræmi við áðurgreint hlutverk hans.