Framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustu til 2030
Í janúar 2019 var skipaður stýrihópur sem hafði það hlutverk að setja fram drög að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Í stýrihópnum áttu sæti ferðamálaráðherra, formaður SAF, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga ogframkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála. Verkefnið var unnið í samvinnu fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar og Stjórnstöð ferðamála. Í undirbúningsvinnu voru lögð til grundvallar margvísleg fyrirliggjandi gögn frá Íslandi og nokkrum viðmiðunarlöndum, m.a. Nýja-Sjálandi, Sviss og Skotlandi.
Í júní 2019 var stefnuramminn birtur á samráðsgátt stjórnvalda undir yfirskriftinni Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Þar er lögð fram sú framtíðarsýn að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri þróun. Áhersla er einnig lögð á að íslensk ferðaþjónusta stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld og sé þekkt fyrir gæði, fagmennsku og einstaka upplifun.
Í kjölfar þess að stefnuramminn var birtur hófst vinna á vegum Stjórnstöðvar ferðamála við aðgerðabundna stefnumótun til 2025 (ASF25) á grunni hans, og er ætlað að henni ljúki í lok mars 2019. Verkefnið er unnið af Eflu verkfræðistofu í samvinnu við ANR, SAF og Samband sveitarfélaga. Fjölmargir fulltrúar fyrirtækja, sveitarfélaga, ráðuneyta og stofnana koma að vinnunni auk þess sem haldnir hafa verið opnir samráðsfundir um allt land til að leiða fram sjónarmið í mismunandi landshlutum. Samkvæmt áætluninni skal við lok verkefnisins liggja fyrir skýrsla þar sem sett eru fram aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að markmiðum stefnurammans verði náð, ábyrgðaraðilar hverrar aðgerðar og áætlaður kostnaður við þær.
Smellið hér eða á myndina til að skoða stefnurammann í heild sinni.
Jafnvægisás ferðamála
Jafnvægisás ferðamála er stjórntæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins. Því er ætlað að nýtast við mótun framtíðarstefnu Íslands sem áfangastaðar, og ákvarðanatöku vegna stefnumarkandi aðgerða, með það að leiðarljósi að stuðla að jafnvægi og sjálfbærri þróun atvinnugreinarinnar til lengri tíma.
Í fyrsta áfanga verkefnisins voru þróaðir sjálfbærnivísar út frá þremur víddum þolmarka, þ.e. umhverfi, samfélagi og efnahag. Þeim áfanga lauk haustið 2018 með skilgreiningu rúmlega sextíu sjálfbærnivísa.
Annar áfangi verkefnisins hófst í beinu framhaldi, en í honum voru sjálfbærnivísarnir gildissettir. Forsendur verkefnisins og aðferðafræði við vinnslu þess ásamt lýsingu á öllum sjálfbærnivísum er að finna í meðfylgjandi skjölum.
Stjórn verkefnisins og umsjón verkhópa var í höndum Stjórnstöðvar ferðamála. Greiningarvinna og skýrslugerð var í höndum EFLU verkfræðistofu í samstarfi við Tourism Recreation & Conservation (TRC) frá Nýja Sjálandi og Recreation and Tourism Science (RTS) frá Bandaríkjunum.
Smellið hér eða á myndina til að skoða Jafnvægisás ferðamála í heild sinni.
Stefnuramminn og jafnvægisás ferðamála eru saman hugsuð sem undirstaða og afmörkun fyrir aðgerðabundna stefnumótunarvinnu sem hófst í júní 2019.
Með þessum tveimur tímamótaverkefnum er lagður grunnur að aðgerðabundinni stefnumótun og ákvarðanatöku fyrir ferðaþjónustuna til lengri tíma sem er byggður á traustum gögnum sem safnað er með skipulegum og reglubundnum hætti.