Lög SAF

1. HEITI OG HEIMILI

Samtökin heita Samtök ferðaþjónustunnar (skammstöfuð SAF) og eru sameiginlegur vettvangur íslenskra fyrirtækja sem stunda rekstur á sviði ferðaþjónustu.

Heimili þess, varnarþing og skrifstofa er í Reykjavík.

2. TILGANGUR SAMTAKANNA

  • Ferðaþjónusta á Íslandi byggi á virðingu fyrir landi og þjóð.
  • Heildarhagsmuna fyrirtækja í ferðaþjónustu sé gætt.
  • Samkeppnishæf rekstrarskilyrði og heilbrigð samkeppni sé styrkt.
  • Nýsköpun og fagmennska séu stoðir sem framtíð ferðaþjónustunnar hvíli á.
  • Innviðir ferðaþjónustunnar styðji framþróun hennar.
  • Stuðla að heilbrigðri samkeppni í íslensku atvinnulífi.
  • SAF sé sameiningartákn og talsmaður fyrirtækja í ferðaþjónustu.

3. AÐILD OG SKILYRÐI AÐILDAR

Aðild að SAF geta átt fyrirtæki sem starfa við ferðaþjónustu eða tengda starfsemi. Umsækjendur þurfa jafnframt að hafa atvinnurekstrarleyfi, þar sem við á.

Forsvarsmönnum fyrirtækja innan SAF og formönnum fagnefnda er óheimilt að vera í stéttarfélagi sem á aðild að kjarasamningum við SAF.

SAF eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins sem annast gerð kjarasamninga fyrir hönd aðildarfyrirtækja SAF, annarra en þeirra sem takmarkað hafa aðild sína við þjónustudeild SA. Innganga í SAF felur jafnframt í sér beina aðild að Samtökum atvinnulífsins með þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í samþykktum þeirra.

Stjórn SAF hefur heimild til að veita öðrum aðilum innan ferðaþjónustunnar, s.s. félagasamtökum, aukaaðild og felur aðildin í sér m.a. aðgang að fundum og öðrum samkomum innan SAF samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

4. UMSÓKN UM AÐILD

Inntökubeiðni skal vera skrifleg og sendast til skrifstofu SAF. Með inntökubeiðni skal fylgja ljósrit af atvinnurekstrarleyfi þar sem við á og upplýsingar um stjórnendur, starfssvið, launagreiðslur og veltu. Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar samþykkir hana og tekur aðildin gildi þegar hluti árgjalds hefur verið greiddur. Synjun á inntökubeiðni má skjóta til aðalfundar, en þá þarf 2/3 hluta atkvæða til að hún fáist samþykkt.

5. ÚRSÖGN EÐA BROTTVIKNING

Úrsögn skal vera skrifleg og sendast skrifstofu SAF með 6 mánaða fyrirvara.

Óheimilt er að segja sig úr SAF meðan kjarasamningar við viðsemjendur eru lausir eða vinnudeilur standa yfir.

Stjórn SAF getur vikið félaga úr samtökunum vegna eftirfarandi:

  1. Vanskila við samtökin.
  2. Alvarlegs brot gegn lögum samtakanna, landslögum eða venjum er varða góða viðskiptahætti.
  3. Ef félagi uppfyllir ekki lengur skilyrði aðildar.

Hlutaðeigandi getur skotið slíkum úrskurði til félagsfundar (sbr. 8. grein) en þar þarf 2/3 hluta atkvæða til að hnekkja ákvörðun stjórnar.

6. FÉLAGSGJÖLD

Félagsgjald til SAF skal ákveðið árlega á aðalfundi og taka mið af veltu fyrirtækjanna (tekjum skv. ársreikningi) næstliðið ár. SAF er heimilt að afla upplýsinga um rekstur félagsaðila í þessu skyni frá opinberum aðilum, enda sé farið með þær upplýsingar sem trúnaðarmál. Heimilt er að áætla félagsgjald ef opinberar upplýsingar liggja ekki fyrir. Dráttarvextir reiknast frá eindaga standi fyrirtæki ekki í skilum. Tillaga að félagsgjöldum og aukaaðildargjaldi fyrir yfirstandandi ár skal lögð fram af stjórn eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Stjórn SAF hefur, í sérstökum tilfellum, heimild til að semja við nýja félagsmenn um félagsgjald í takmarkaðan tíma.

Árlega skal leggja hluta greiddra félagsgjalda í Verkefnasjóð SAF skv. ákvörðun stjórnar fyrir 31. desember ár hvert, að lágmarki 10 milljónir króna. Heimilt er að ráðstafa fé í sjóðnum til sérstakra átaksverkefna skv. ákvörðun stjórnar, s.s. samstarfsverkefna með opinberum aðilum, félagasamtökum eða einkaaðilum, til kynningarverkefna eða annarra verkefna sem stjórn metur mikilvæg fyrir framgang hagsmuna félagsmanna. Heimilt er með ákvörðun stjórnar að leggja uppsafnað fé í Verkefnasjóði umfram kr. 60.000.000 til almenns reksturs samtakanna við lok árs.

7. AÐALFUNDUR

Aðalfundur er æðsta vald í málefnum samtakanna og skal hann haldinn á tímabilinu 15. febrúar til 30. apríl ár hvert. Stjórn SAF skal boða aðalfund skriflega, rafrænt eða með öðrum sannanlegum hætti með minnst 14 daga fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal fylgja fundarboði. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kjör fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  3. Ársreikningur liðins starfsárs.
  4. Lagabreytingar, enda sé meginefni þeirra kynnt í fundarboði.
  5. Ákvörðun um árgjald.
  6. Kosningar
    1. kosning formanns.
    2. kosning 6 meðstjórnenda.
    3. kosning löggilts endurskoðanda.
  7. Önnur mál.

Stjórn SAF er heimilt að bjóða utanfélagsmönnum fundarsetu.

14 dögum fyrir aðalfund skulu endurskoðaðir reikningar og breytingatillögur að lögum samtakanna liggja fyrir á skrifstofu SAF, félagsmönnum til athugunar.

8. FÉLAGSFUNDIR

Almenna félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Krefjist 1/4 félagsmanna eða meirihluti stjórnar félagsfundar skal stjórn halda hann innan 30 daga. Slíkan fund skal boða skriflega með dagskrá með minnst 4 daga fyrirvara.

9. ATKVÆÐI

Á aðal- og félagsfundum hefur hvert fyrirtæki atkvæðamagn í hlutfalli við greitt félagsgjald fyrir næstliðið ár um áramót næstliðins árs enda hafi reikningar verið sendir út í það minnsta einum mánuði fyrr Skal því send tilkynning þar um fyrir aðalfund og gildir atkvæðamagnið til næsta aðalfundar að ári. Á aðal- og félagsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema annars sé getið í samþykktum þessum.

Hverjum heilum þúsund krónum af greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði. Óheimilt er að taka til greina greiðslur sem stafa af eldri árgjaldaskuldum félagsmanna. Hvert fyrirtæki getur aðeins haft einn fulltrúa með atkvæðisrétt.

Stjórn SAF skal tilkynnt hver kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins gagnvart samtökunum og fer með atkvæðisrétt á fundum þess.

Félagi getur veitt öðrum félaga, sem nýtur fullra réttinda í félaginu, skriflegt umboð til þess að fara með atkvæði sitt á fundum félagsins. Þó skal engum heimilt að fara með umboð fyrir meira en 5% af atkvæðamagni.

10. STJÓRN OG STJÓRNARKJÖR

Aðalfundur kýs 7 manna stjórn fyrir SAF sem fer með málefni samtakanna á milli aðalfunda. Formaður og stjórn skal kosinn sérstaklega á aðalfundi eða í aðdraganda hans. Stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Stjórnarkjöri á aðalfundi skal haga sem hér segir:

  1. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára.
  2. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn.
  3. Kjósa skal löggiltan endurskoðanda til eins árs.

Stjórnarkjöri skal hagað þannig að annað hvert ár skal kjósa formann og þrjá meðstjórnendur en hitt árið eru hinir þrír meðstjórnendurnir í kjöri. Kjörgengir til embætta formanns og meðstjórnenda eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þeir frambjóðendur til stjórnar sem ekki hljóta kosningu teljast varamenn í stjórn til eins árs fram að næsta aðalfundi. Gangi meðstjórnandi úr stjórn skal sá varamaður sem efstur var að atkvæðamagni taka sæti í stjórn í hans stað, og svo koll af kolli. Gangi meðstjórnandi til tveggja ára úr stjórn á fyrra ári kjörtímabilsins skal varamaður taka sæti í stjórn í hans stað fram að næsta aðalfundi þegar nýr stjórnarmaður skal kosinn í hans stað til eins árs. Stjórn getur ákveðið að kalla til varamann ef önnur forföll krefja.

Formaður og stjórn skal kosin í skriflegri eða rafrænni atkvæðagreiðslu. Fyrirkomulag atkvæðagreiðslu skal kynnt eigi síðar en við boðun aðalfundar. Aðrar atkvæðagreiðslur skulu að jafnaði fara fram með handauppréttingu. Þó skal viðhafa skriflega eða rafræna atkvæðagreiðslu ef einhver atkvæðabærra fundarmanna krefst þess. Þá skulu úrslit kynnt á aðalfundi.

Stjórnarmenn geta mest setið sex ár samfellt. Undantekning frá þessu er ef meðstjórnandi tekur að sér formennsku í SAF eftir að hafa setið áður í stjórn samtakanna. Samanlagður, samfelldur tími þess aðila í stjórn getur þó að hámarki verið 10 ár.

Stjórn SAF skal a.m.k. 8 vikum fyrir aðalfund kjósa 3 menn til setu í kjörnefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa og hafa yfirumsjón með stjórnarkjöri. Hafi einstaklingur tekið sæti í kjörnefnd hefur hann ekki kjörgengi til embætta sem kosið er um á aðalfundi. Kjörnefnd skal með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um formann og stjórnarmenn eftir því sem við á.

Framboð til embætta formanns og meðstjórnenda skulu hafa borist kjörnefnd skriflega eða rafrænt 14 dögum fyrir aðalfund.

Berist færri framboð fyrir tilskilinn frest en fjöldi stjórnarsæta sem kjósa skal til segir til um skal kjörnefnd leitast við að tryggja nægan fjölda frambjóðenda til að fylla sæti stjórnarmanna og tveggja varamanna. Tillögur kjörnefndar skal leggja fram í síðasta lagi sjö dögum fyrir aðalfund.

Formanni samtakanna skal greidd mánaðarleg þóknun fyrir störf sín í þágu þeirra. Upphæð þóknunarinnar skal ákveðin á aðalfundi.

11. VERKEFNI STJÓRNAR

Stjórn SAF skal halda fundi svo oft sem þurfa þykir. Ályktanir og samþykktir stjórnarinnar eru lögmætar ef meirihluti situr fundinn. Meirihluti stjórnar ræður úrslitum mála. Formaður SAF, eða framkvæmdastjóri fyrir hans hönd, boðar til stjórnarfundar en skylt er honum að halda fund ef tveir stjórnarmenn óska þess.

Hlutverk stjórnar er einkum:

  • að framkvæma ákvarðanir aðalfundar,
  • að annast ráðningu framkvæmdastjóra og marka starfssvið hans,
  • að taka ákvörðun um þau mál, sem upp koma milli aðalfunda,
  • að boða til aukaaðalfunda, ef ósk um það hefur borist eða ef stjórn telur þörf á því. Skulu þá reglur 8. gr. gilda um boðun og framkvæmd fundarins. Aukaaðalfundur getur fjallað um öll málefni aðalfundar.
  • að undirbúa aðalfundi samtakanna.

Haldin skal gerðabók um fundi og aðra starfsemi stjórnar

12. FAGNEFNDIR

Innan SAF starfa fagnefndir sem taka skulu til umfjöllunar og vera stjórn til ráðuneytis um þá málaflokka sem undir þær heyra. Öllum félagsmönnum er heimilt að taka þátt í störfum þeirra faghópa sem falla undir hans starfsemi, en við kosningu til hverrar nefndar hefur hvert aðildarfyrirtæki eitt atkvæði.

Þessar fagnefndir eru:

  1. Flugnefnd
  2. Veitinganefnd
  3. Gististaðanefnd
  4. Ferðaskrifstofunefnd
  5. Bílaleigunefnd
  6. Hópbifreiðanefnd
  7. Afþreyingarnefnd
  8. Siglinganefnd

Aðalfundur eða stjórn ákveður aðrar nefndir

Á aðalfundi skal hver faghópur kjósa 5 manna nefnd. Stjórn SAF setur reglur um starfssvið þeirra, ábyrgð og skyldur.

13. FRAMKVÆMDASTJÓRI

Stjórn SAF ræður framkvæmdastjóra samtakanna og setur honum starfsreglur. Framkvæmdastjóri stýrir starfsemi samtakanna í samráði við stjórnina. Hann ræður starfsfólk og hefur á hendi daglegan rekstur og eftirlit. Einnig gerir hann tillögur til stjórnar um rekstur samtakanna og áherslur í starfsemi þeirra. Framkvæmdastjóri hefur rétt til setu á fundum félagsins með málfrelsi og tillögurétt.

14. LAGABREYTINGAR

Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalfundi enda hafi meginefni breytingatillagna verið kynnt í fundarboði. Til samþykktar lagabreytingu þarf minnst 2/3 hluta allra greiddra atkvæða á aðalfundinum. Breytingatillögur að lögum skulu hafa borist stjórn SAF í síðasta lagi 31. janúar.

15. FÉLAGSSLIT

SAF verður einungis slitið ef tillaga um það er samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða á aðalfundi og framhaldsaðalfundi. Skulu fundirnir haldnir með minnst tveggja mánaða og mest fjögurra mánaða millibili. Fundur sá sem samþykkir slitin ákveður hvernig ráðstafa skal eignum samtakanna og greiðslu skulda.

16. GILDISTAKA

Þessi lög taka gildi á stofnfundi SAF 11. nóvember 1998 og koma í stað laga fyrir Samband veitinga- og gistihúsa.

Samþykkt á Akureyri 24. september 1998, með breytingu 11. nóvember 1998, breytingu 10. apríl 2002, breytingu 25. mars 2004, breytingu 7. apríl 2005, breytingu 23. mars 2010, breytingu 10. apríl 2014, breytingu 15. mars 2016, breytingu 14. mars 2019. og breytingu 21. mars 2024.