Nýsköpunarsjóður SAF

Hlutverk

1. gr.

Hlutverk sjóðsins er að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar með því að veita verðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar.

Fjárheimildir

2.gr.

Ráðstöfunarfé Nýsköpunarsjóðs SAF er stofnframlag á aðalfundi 2004, ein milljón króna, svo og viðbótarframlög samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Nýsköpunarsjóðurinn er í vörslu sjóðsstjórnar sem skipuð er í samræmi við 4. gr.

3.gr.

Heimilt er að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að kr. 300.000,- krónum fyrir hvert verkefni  sem sjóðstjórnin telur að muni styrkja ferðaþjónustuna. Nýsköpunarverðlaun skulu vera fjárupphæð og áletraður skjöldur.

Skipan stjórnar

4.gr.

Stjórn sjóðsins skipa þrír einstaklingar; formaður SAF, sem jafnframt er formaður sjóðsstjórnar, einn skipaður af stjórn og skal hann vera starfandi hjá fyrirtæki sem á aðild að SAF og einn skipaður af Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Engir varamenn skulu skipaðir en forfallist einn eða fleiri stjórnarmenn skulu sömu aðilar skipa einstakling í staðinn, þ.e varaformaður SAF tekur sæti formanns o.s.frv.

Auglýsingar og umsóknir

5.gr.

Úthlutun úr sjóðnum fer fram árlega. Stjórn sjóðsins skal auglýsa eftir tilnefningum fyrir 15. september ár hvert, m.a. í fréttablaði SAF og með sérstakri tilkynningu til félagsmanna þar sem þeim er gefinn kostur á að benda á athyglisverð verkefni eða nýsköpun.  Í slíkri tilkynningu skulu koma fram greinargóðar upplýsingar um tilgang og markmið sjóðsins og helstu atriði sem litið er til við mat á tillögum. Fram skal koma hvert eigi að senda umsóknir og hvenær þær skulu berast sjóðnum. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilnefndu verkefni eða nýsköpun ásamt því að tilgreina, þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir, umsjónarmann og er hann jafnframt ábyrgðarmaður þess verkefnis eða nýsköpunar. Verðlaun úr sjóðnum skulu veittar þann 11. nóvember ár hvert, eða sem næst þeim degi sé tilefni til, en það er stofndagur SAF. Skal þá boða fjölmiðla og aðra sem tengjast málinu til fundar, móttöku eða með öðrum hætti eftir því sem stjórn sjóðsins ákveður.  

Mat á tillögum

6.gr.

Sjóðsstjórn metur þær tillögur og hugmyndir sem borist hafa bæði frá félagsmönnum og öðrum svo og aðrar þær tillögur og hugmyndir sem sjóðsstjórnin leggur til sjálf. Stjórn sjóðsins ákveður öll verðlaun. Sjóðsstjórn er heimilt að leita eftir ráðgjöf eða umsögn sérfræðinga um einstakar tillögur.  Stjórn sjóðsins skal gera stjórn SAF grein fyrir störfum sínum og niðurstöðum a.m.k. viku fyrir viðurkenningardaginn.

Gildistaka

7.gr.

Reglur þessar taka gildi eftir samþykkt stjórnar SAF þann 2. apríl 2019. Um leið falla úr gildi fyrri reglur um Nýsköpunar- og vöruþróunarsjóð Samtaka ferðaþjónustunnar, frá 25. mars 2004, með síðari breytingum.