Samtök ferðaþjónustunnar og Neytendasamtökin hafa um margra ára skeið starfrækt sameiginlega úrskurðarnefnd vegna kvartana frá neytendum vegna kaupa á vöru og þjónustu af fyrirtækjum innan SAF. Úrskurðarnefndina skipa 3 fulltrúar, fulltrúi Neytendasamtakanna, fulltrúi SAF og fulltrúi samgönguráðherra sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Skrifstofa Neytendasamtakanna annast dagleg störf nefndarinnar.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um úrskurðarnefndir á sviði neytendamála sem innleiðir tvær EES gerðir í íslensk lög. Í stuttu máli gerir frumvarpið ráð fyrir því að öll viðskipti neytenda við fyrirtæki verði kæranleg til úrskurðarnefndar. Tveir möguleikar verða í boði, annað hvort koma fyrirtæki slíkri nefnd á fót með Neytendasamtökunum (úrskurðarnefnd SAF og Neytendasamtakanna er einmitt slíkt samstarf) eða viðskipti þeirra við neytendur falla undir valdsvið opinberrar nefndar.
Ef mál ratar til opinberu nefndarinnar verður ákvörðun hennar bindandi eftir 30 daga nema fyrirtæki tilkynni að það sætti sig ekki við niðurstöðuna. Þau fyrirtæki sem senda slíkar tilkynningar lenda á „svörtum lista“ sem verður birtur á vef opinberu úrskurðarnefndarinnar. Ef fyrirtæki sættir sig við niðurstöðuna verður úrskurður nefndarinnar aðfararhæfur. Þetta mun hins vegar ekki eiga við um úrskurði nefndar sem fyrirtæki reka sjálf í samstarfi við Neytendasamtökin. Með fyrirkomulaginu er því verið að hvetja fyrirtæki til að taka þátt í rekstri úrskurðarnefndar utan opinbera kerfisins .
Verði frumvarpið að lögum munu fyrirtæki í ferðaþjónustufyrirtæki því geta uppfyllt skyldu laganna með því að gerast aðilar að Samtökum ferðaþjónustunnar og fá þannig aðild að úrskurðarnefnd SAF og Neytendasamtakanna.
Smelltu hér til að lesa samþykktir fyrir Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna