Umhverfismál

Ferðaþjónusta á Íslandi byggir á þeirri auðlind sem einstæð náttúra landsins er. Umhverfisstefna SAF miðar að því að viðhalda og vernda íslenska náttúru, atvinnugreininni og mannlífi til hagsbóta. Samtökin vilja stuðla að sjálfbæri nýtingu auðlindarinnar og hvetja starfsmenn sína, aðildarfyrirtæki og starfsmenn þeirra til að hafa umhverfismál að leiðarljósi í starfsemi sinni.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja aðildarfélög til:

 • að setja sér umhverfisstefnu, sýna frumkvæði og gott fordæmi varðandi umgengni um auðlindina
 • að taka upp umhverfisstjórnunarkerfi
 • að setja sér markmið um losun gróðurhúsaloftegunda og kolefnisbindingu
 • að vinna að aðild að Vakanum eða öðrum viðurkenndum umhverfiskerfum eða vottunum
 • að umgangast náttúruauðlindir með sjálfbærum og ábyrgum hætti
 • að stuðla að miðlun upplýsinga um viðkvæma náttúru landsins til viðskiptavina sinna
 • að bjóða starfsfólki sínu uppá þjálfun og fræðslu á sviði umhverfismála
 • að ákvarðanir um fjárfestingar í ferðaþjónustu taki tillit til umhverfis- og náttúrusjónarmiða
 • að vinna í samræmi við lög og reglur um umhverfis og skipulagsmál
 • að vera virk og sýnileg í umfjöllun um umhverfis og samfélagsmál

Samtökin vilja vinna með stjórnvöldum:

 • að skýru skipulagi fyrir landið í heild, er stuðlar að sjálfbærri þróun ásamt samkeppnishæfni landsins og einstakra landshluta
 • að eflingu skilvirkrar stjórnsýslu og regluverks er varðar umhverfismál
 • að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og aukinni kolefnisbindingu

SAF mun leitast við að styðja aðildarfélög við á ná markmiðum sínum og efla umhverfisvitund innan ferðaþjónustunnar.

Umhverfisstefna Samtaka ferðaþjónustunnar var fyrst unnin af umhverfisnefnd samtakanna og staðfest af stjórn SAF árið 2000. Stefnan var síðast uppfærð af nefndinni og samþykkt af stjórn samtakanna 23. maí 2017.