Landsáætlun um uppbyggingu innviða

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi tólf ára áætlun sem fjallar um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir. Alþingi samþykkti áætlunina sem þingsályktun í júní 2018. 

Samhliða stefnumarkandi landsáætlun er í gildi verkefnaáætlun til þriggja ára, en þar eru settar fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti stuðnings 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Í verkefnaáætlun 2018-2020 er gerð tillaga um 71 ferðamannastað og eina ferðamannaleið.

Stefnumarkandi landsáætlun og þriggja ára verkefnaáætlun eru unnar samkvæmt lögum, nr. 20/2016, um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Markmið laga þessara er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. 

Verkefnisstjórn landsáætlunar forgangsraðar verkefnum og gerir tillögu að stefnumarkandi tólf ára áætlun og þriggja ára verkefnaáætlun. Í henni sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk umhverfis – og auðlindaráðuneytis. Ráðgjafarnefnd er verkefnisstjórn til ráðgjafar og samráðs við undirbúning stefnumarkandi landsáætlunar til tólf ára. Í tengslum við innleiðingarferli stefnumarkandi landsáætlunar er starfandi Samstarfshópur um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingu við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum.

Ferðamálastofa sér um rekstur sjóðsins.

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Ferðamálastofu