Umhverfisstaðlar

Ferðaþjónusta á Íslandi byggir á þeirri auðlind sem einstæð náttúra landsins er. Því er mikilvægt að við sameinumst öll um að vernda náttúruna og viðhalda henni með sjálfbærni og ábyrgð í umhverfismálum að leiðarljósi.

Umhverfisstaðlar eru einn liður í því að tryggja ábyrga umgengni við umhverfi okkar. Þeir geta einnig verið öflugt tæki í markaðssetningu á ferðaþjónustu. Fjölmargir umhverfisstaðlar eru í notkun í heiminum en þeir geta verið  frá því að vera einfaldar leiðbeiningar yfir  í að vera yfirgripsmikil vottunarkerfi.

Eftirfarandi er úr MS verkefni Anne Maria Sparf við Háskóla Íslands og birt með góðfúslegu leyfi höfundar: 

Af hverju umhverfisstarf í ferðaþjónustu? 

Ferðaþjónustan hefur stækkað ört á undanförnum árum en þar með hafa neikvæð umhverfisáhrif hennar einnig aukist. Erlendir ferðamenn hafa mestan áhuga á að upplifa hreina íslenska náttúruna. Þetta endurspeglast einnig í auknum kröfum til ferðaþjónustuaðila um góða frammistöðu í umhverfismálum. Flest bendir til að þessi þróun haldi áfram og að umhverfisvitund ferðamanna vaxi jafnt og þétt, eða jafnvel skyndilega. Það felur í senn í sér ógnun og tækifæri fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Markmið umhverfisstarfs í fyrirtækjum er að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið og samfélagið (bæði hérlendis og erlendis) og axla þannig hluta af sameiginlegri ábyrgð á verndun umhverfisgæða og jákvæðri samfélagsþróun, um leið og fjárhagslegur grundvöllur er styrktur til lengri tíma litið. Hugsanlegur ávinningur fyrirtækja sem taka skref til að bæta frammistöðu sina í umhverfismálum er m.a.:

 • Rekstarsparnaður 
 • Bætt ímynd 
 • Minni starfsmannavelta  
 •  Betri þjónusta  
 •  Betri ferlisstjórnun 

= Bætt samkeppnishæfni og aukin arðsemi 

Hvernig á að velja rétta kerfið? 

Oft er besta leiðin til að ná árangri í umhverfismálum að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi og fá það vottað af óháðum aðila. Til að velja rétta kerfið þarf fyrirtækið að meta eftirfarandi atriði: 

 • Hvaða merki/kerfi eru í boði innan geirans?  
 • Hver er útbreiðsla kerfisins? Er merkið traust? 
 • Nýtist merkið við markaðssetningu? (Þekkja okkar viðskiptavinir merkið?) 
 • Hversu hár er kostnaðurinn sem fylgir notkun? 
 • Hversu einfalt er kerfið í notkun? 
 • Hvaða áhrif hefur kerfið á frammistöðu í umhverfismálum? 

Þegar kemur að því að velja hvaða umhverfisstaðall hentar þá hefur það reynst í sumum tilfellum erfitt þar sem staðlarnir eru margir og hafa mismunandi eiginleika. Flest ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi eru lítil eða meðalstór. Slík fyrirtæki þurfa kerfi sem er einfalt og auðvelt í notkun, ódýrt, krefst ekki mikils tíma í innleiðingu og rekstri, leiðir til sparnaðar og minnkar neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar. Auk þess er gott að meta eftirfarandi þætti:

 • Gefur staðallinn færi á að bera saman eigin frammistöðu í umhverfismálum, þ.e.a.s. árangur yfir lengri tíma? 
 • Gefur staðallinn færi á samanburði við umhverfislega frammistöðu keppinauta? 
 • Gefur staðallinn færi á samanburði við umhverfisstaðla og viðmið? 
 • Gefur staðallinn færi á samanburði við bestu umhverfislegu viðmið? 

Til að umhverfisstarfið beri árangur er ekki einungis mikilvægt að meta hvað er besta leiðin, heldur einnig að starfið hafi fullan stuðning stjórnenda fyrirtækisins ásamt nægilegum auðlindum á borð við fjármagn og tíma.

Tilvitnun lýkur 

Helstu umhverfisstaðlar (smelltu á viðkomandi til að fræðast meira)

Fjölmargir umhverfistaðlar eru í notkun í heiminum en þeir geta verið  frá því að vera einfaldar leiðbeiningar yfir  í að vera yfirgripsmikil vottunarkerfi. Helstu kerfin eru:

Umhverfismerkið Svanurinn

Earth Check (áður Green Globe)

VAKINN

ISO Umhverfisvottunarkerfið