Verkefnisstjórn rammaáætlunar hvött til að endurmeta ekki svæði í verndarflokki

 

Aðalfundur SAF 2014 hvetur verkefnisstjórn rammaáætlunar til að taka svæði í núverandi verndarflokki ekki til endurskoðunar í þriðja áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Aðalfundurinn mótmælir jafnframt harðlega öllum tilraunum orkufyrirtækja og opinberra stofnana, þ.m.t. Orkustofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, til að fá verkefnisstjórnina til að taka upp svæði í verndarflokki og meta á nýjan leik í þriðja áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (RÁ). Með framferði sínu hafa þessir aðilar að engu áralangar tilraunir til að eyða óvissu um afdrif fjölmargra náttúruperlna og sátt um vernd þeirra gegn orkunýtingu.

Greinargerð:

Í desember 2013 sendu orkufyrirtæki á Íslandi óskir sínar til Orkustofnunar um hvaða virkjanahugmyndir hún myndi senda verkefnisstjórn rammaáætlunar til umfjöllunar fyrir þriðja áfanga rammaáætlunar. Af 41 hugmynd orkufyrirtækjanna eru 4 í verndarflokki núverandi áætlunar og ber að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu.

Orkustofnun sendi þann 10. mars sl. 91 virkjunarhugmynd til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar. Þar af voru 19 hugmyndir í núverandi verndarflokki áætlunarinnar (4 af þeim voru beiðni orkufyrirtækja).

Samkvæmt lögfræðiáliti umhverfis- og auðlindaráðuneytis frá 12. mars 2014 er það í höndum verkefnisstjórnar rammaáætlunar hvort tiltekinn virkjunarhugmynd í núverandi orkunýtingar eða verndarflokki verði endurmetinn eða ekki. Verkefnisstjórn ber því ekki lagaleg skylda til að taka upp að nýju þær hugmyndir í núverandi verndarflokki (eða nýtingarflokki) sem Orkustofnun sendir henni, þó svo að verkefnisstjórn beri að taka við ábendingum frá stofnuninni um slíkt, líkt og ábendingar annarra aðila.

Hugmyndin um Rammaáætlun er að skapa sátt um vernd eða nýtingu mismunandi svæða þar sem virkjanir eru mögulegar. Fyrir rétt rúmu ári var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga þar sem svæðum var í fyrsta skipt í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk í samræmi við lög nr 48/2011.  Það að svæði hafi verið sett í vendarflokk á að tryggja að svæði verði ekki nýtt til orkuframleiðslu en mörg þessara svæða geta boðið uppá mikla náttúruupplifun og uppbyggingu tengda ferðamennsku.  Óásættanlegt er að strax ári eftir að þessi flokkun hefur átt sé stað skuli eiga að skoða aftur hvort ekki megi breyta þessari flokkun