Björn Ragnarsson

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða – Reykjavik Excursions

Kæru félagar í SAF,

Frá því ég var kjörinn í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar á aðalfundi samtakanna á Húsavík fyrir rúmu ári er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í íslenskri ferðaþjónustu. Erfiðir kjarasamningar, fall flugfélags og alheimsfaraldur sem hefur lamað allt samfélagið eru atriði sem hægt er að nefna! Ég hef starfað í ferðaþjónustu í rúmlega 20 ár, sem fjármálastjóri Bláa lónsins á árunum 1999 – 2007, sem framkvæmdastjóri Avis/Budget bílaleigunnar frá árinu 2007 – 2010 og sem framkvæmdastjóri Kynnisferða – Reykjavík Excursions frá árinu 2017. Undanfarið ár er engu öðru starfsári mínu í ferðaþjónustu líkt, en lengi skal manninn reyna!

Undanfarin áratug hefur ferðaþjónustan vaxið upp í að verða ein allra styrkasta stoðin í atvinnulífi hér á landi, hvort sem litið er til atvinnusköpunar, gjaldeyristekna eða fjárfestinga. Ferðaþjónustan hefur haft góð áhrif á styrkingu byggðalaga um land allt og bætt lífsgæði okkar Íslendinga svo um munar. Þá hefur atvinnugreinin verið drifkrafturinn í þeim hagvexti sem við höfum upplifað á undanförnum árum. Núna erum við hins vegar að glíma við gríðarlega erfiðleika í atvinnugreininni og í raun samfélaginu öllu. Þá sögu þekkja allir en fáir betur en við sem störfum í ferðaþjónustu.

Það eru því krefjandi tímar framundan í atvinnugreininni okkar. Við ætlum okkur að koma sterk til baka og halda áfram frá því sem frá var horfið – að byggja upp sterka atvinnugrein til framtíðar!

Ég hef fulla trú á að við náum að sigla í gegnum þennan brimskafl sem dynur á okkur eins og sakir standa. Ég hef mikla trú á að Ísland verði áfram sterkur áfangastaður fyrir ferðamenn að sækja heim. Þegar ferðavilji framtíðargesta okkar Íslendinga mun glæðast á nýjan leik þá skiptir öllu máli að ferðaþjónusta á Íslandi – þau fjölmörgu fyrirtæki í ferðaþjónustu og starfsmenn þeirra – verði í stakk búin og klár í slaginn að taka á móti gestum. Við höfum alla tíð verið góðir gestgjafar og á því verður engin breyting.

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á undanförnum vikum til að aðstoða fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa skipt sköpum og gefið okkur súrefni til að takast á við erfiðleikana. Við sjáum núna til lands og er það vel. Við sem störfum innan Samtaka ferðaþjónustunnar höfum fundið fyrir því á undanförnum misserum að samtökin okkar gegna lykilhlutverki – ekki bara þegar vel gengur heldur ekki síður þegar við erfiðleika er að etja. Núna þegar uppbyggingarfasi er framundan munu SAF leika lykilhlutverk. Það er alveg ljóst að ferðaþjónusta – ekki bara á Íslandi heldur um heim allan – mun taka breytingum. Í þeim breytingum felast mikil tækifæri.

Ísland á að vera áfram eftirsóknarverður áfangastaður sem býður upp á einstaka náttúrufegurð og eftirminnilega upplifun fyrir okkar gesti. Öll erum við hluti af þessari upplifun og eigum að kappkosta að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu með áherslu á gæði og fagmennsku. Umgjörð greinarinnar þarf að styðja við þessar áherslur og SAF munu leika aðahlutverk í þeirri vegferð.

Ég vil halda áfram að leggja mitt af mörkum til að vinna að hagsmunum ferðaþjónustunnar og býð mig því til áframhaldandi stjórnarsetu í SAF.

Með baráttukveðjum,
Björn Ragnarsson


Tengdar fréttir

Fimmtudaginn 25. september sl. bauð afþreyingarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar til félagsfundar undir yfirheitinu „Öryggismál í ævintýraferðaþjónustu“. Tilefni fundarins var m.a. sú umræða sem …

Ferðaþjónustudagurinn 2025 fer fram í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 23. október kl. 14.00.  Á Ferðaþjónustudeginum verður rætt um ferðaþjónustu með tilliti til …

Vissir þú að framleiðni í hótel- og veitingarekstri óx þrefalt hraðar en í hagkerfinu í heild á síðustu fimm árum? Og það …

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar …

Vesturland sótt heim

Á dögunum gerðu Samtök ferðaþjónustunnar víðreist um Vesturland þar sem formaður og starfsfólk samtakanna hittu fyrirtæki í ferðaþjónustu, forystufólk í sveitarstjórnum og …

Fjöldi kvenna í ferðaþjónustu komu saman í Gamla kvennaskólanum sl. miðvikudag til þess að fagna upphafi verkefnisins Konur í ferðaþjónustu sem Samtök …