
Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu fór fram fyrir fullum sal í Grósku þann 15. janúar sem hluti af Ferðaþjónustuvikunni 2025. Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sammælist um einfaldar og skýrar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu skuldbinda sig til að setja sér og birta markmið um samfélagsábyrgð. Er þar horft til eftirfarandi atriða: að ganga vel um og virða náttúruna, að tryggja öryggi gesta og koma fram við þá af háttvísi, að virða réttindi starfsfólks og að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Verkefnið er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Íslenska ferðaklasans og fleiri aðila í stoðkerfi ferðaþjónustunnar.
Guðmundur Jónasson ehf – GJ Travel hlaut hvatningarverðlaun
Á deginum veitti forseti Íslands, frú Halla Tómasardóttir, hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu en hún er jafnframt verndari verkefnisins. Þau komu að þessu sinni í hlut Guðmundar Jónassonar ehf – GJ Travel. Í umsögn dómnefndar í ár segir að Guðmundur Jónasson ehf – GJ Travel hafi í 94 ár verið leiðandi í ábyrgri ferðaþjónustu með virðingu fyrir íslenskri náttúru að leiðarljósi. Um árabil hafi fyrirtækið lagt áherslu á að lágmarka kolefnisspor, styðja við nærsamfélagið og tryggja öryggi gesta og starfsmanna.
Það er mat dómnefndar að ábyrgir og sjálfbærir rekstrarhættir endurspeglist í öllu sem fyrirtækið tekur sér fyrir hendur og er sjálfbærnin fléttuð inn í starfsmannamenningu fyrirtækisins þar sem starfsfólk fær reglulega þjálfun og kemur að því að móta stefnu fyrirtækisins. Lögð er rík áhersla á öryggismenningu innan fyrirtækisins sem dómnefnd lagði til grundvallar í sínu máli.
Samfélagsleg ábyrgð GJ Travel og hversu öflugt félagið hefur verið í samstarfi við stoðkerfi ferðaþjónustunnar er einnig einstakt og má þar nefna sem dæmi Jöklarannsóknafélag Íslands, Rauða kross Íslands, KSÍ og Landsbjörg.
Gaman er að segja frá því að Guðmundur Jónasson ehf – GJ Travel er meðal stofnfélaga Samtaka ferðaþjónustunnar og óskum við því okkar félögum þar innilega til hamingju með verðlaunin.
Vottanir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum – hver er staðan?

Verkefnastjóri hjá SAF
Á deginum fór María Rut Ágústsdóttir, verkefnastjóri hjá SAF, yfir hvernig landið liggur er kemur að vottunum hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum og kynnti valdar niðurstöður könnunnar sem samtökin sendu út undir lok árs 2024.
Markmið könnunarinnar var að m.a. að skoða hversu mikil notkun sjálfbærni-, umhverfis- og gæðavottanna er, hvaða vottanir eru notaðar, kosti og galla slíkra kerfa, græna hvata og fleira.
Alls bárust 226 svör frá fyrirtækjum víða um land og bárust flest svör frá afþreyingarfyrirtækjum og gististöðum, en fæst frá fyrirtækjum í farþegaflutningi með flugi og leigu á ökutækjum. Heildarniðurstöður sýndu að meirihluti fyrirtækjanna eru lítil eða meðalstór, með færri en 25 stöðugildi og undir 500 milljónir í ársveltu.
Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að:
- Mikill meirihluti (82%) svarenda er ekki með sjálfbærni-, umhverfis- og/eða gæðavottun.
- Meirihluti óvottaðra fyrirtækja segjast ekki vera með skjalfesta ferla í umhverfis-, sjálfbærni eða gæðamálum.
- Þegar spurt var hvort áhugi sé á meðal þessara aðila til þess að sækjast eftir vottun sögðu 28% að svo væri, rúm 33% að ekki væri vilji til þess og 38% sögðust óviss.
- Aðeins 20% allra þátttakenda voru sammála fullyrðingunni „Auðvelt er að finna upplýsingar og fræðslu um sjálfbærni-, umhverfis- og/eða gæðavottanir“.
- Á meðal fyrirtækja með vottun má sjá að flestir eru með Vakann, Travelife og GreenKey. Af þeim 33 fyrirtækjum sem eru með vottun eru 12 með fleiri en eina. Þar er áhugavert að sjá að meirihluti þeirra er bæði með Vakann og alþjóðlega vottun en meðal ástæðna sem gefnar voru fyrir því voru til dæmis að Vakinn nýtist sem tól í innri starfsemi fyrirtækisins og að fyrirtækið vildi styðja þetta íslenska framtak en að alþjóðlegri vottun hafi verið bætt við vegna þess að þær séu leiðandi í sjálfbærni og vegna þess að sú tiltekna alþjóðlega vottun hafi verið krafa viðskiptavina.
- Þegar spurt var um hvata og skyldur er kemur að vottunum voru tæplega 60% svarenda ósammála eða mjög ósammála fullyrðingunni „Það á að vera lagaleg skylda að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eigi að vera með sjálfbærni-, umhverfis og gæðavottun“.
- Þá sögðust 49% svarenda vilja sjá skattaívilnanir þegar spurt var um hvaða grænu hvata svarendur myndu vilja sjá sem myndu styðja við vegferð fyrirtækisins í átt að sjálfbærni.
Að mati SAF er mikilvægt að þróa sjálfbærni í ferðaþjónustu í samstarfi við rekstraraðila, enda má það ekki verða svo að sjálfbær vegferð fyrirtækja sé íþyngjandi um of. Þá leggja samtökin áherslu á samstarf atvinnugreinarinnar, hins opinbera og stoðkerfisins alls er kemur að sjálfbærni og vottunum.
Könnunin veitir mikilvæga innsýn í stöðu greinarinnar og munu niðurstöðurnar nýtast til áframhaldandi vinnu í þessum málaflokk. Stefnt er að því að endurtaka könnunina að ári liðnu og munu samtökin starfa áfram að áframhaldandi framþróun ferðaþjónustunnar þegar kemur að sjálfbærni-, umhverfis og gæðamálum en nú höfum við mælanlegt viðmið og gögn sem eru grundvallaratriði í góðri ákvörðunartöku – hvort sem heldur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki eða aðra aðila máls.
- Hlekkur: Hér má nálgast kynninguna (Pdf)
Í átt að sjálfbærni

Í öðrum erindum rýndu Hildur Björg Bæringsdóttir, viðskiptastjóri hjá Íslandsstofu, og Margrét Wendt, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Höfuðborgarsvæðisins, í það hvort áfangastaðurinn Ísland og Reykjavík er á réttri leið sem sjálfbær áfangastaður og kynntu GDS Index sem hægt er að nýta sem mælikvarða en þar er Reykjavík nr. 17 á lista. Þá kynnti Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri viðskipta og ferðamála, stöðuna á aðgerðaráætlun stjórnvalda í tengslum við ferðamálastefnu til 2030. Deginum lauk svo með sófaspjalli á milli Björgvins Sævarssonar frá Yorth Group og Ásdísar Ólafsdóttur frá Asgard Beyond sem Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, leiddi. Spjallið fjallaði meðal annars um sjálfbærniferðalag Asgard og kortlagningu þeirra í átt að nærandi ferðaþjónustu.